Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 30
30 | 12.6.2005 Eimskipafélagshúsið svonefnda sem löngum hefur sett svip sinn á miðbæinn,hefur opnað dyr sínar á nýjan leik. Sjórinn sem áður lamdi sjávarkambinnvið Hafnarstrætið hefur hopað fyrir margt löngu síðan. Enginn talar leng- ur um Hafnarstrætið sem Strandgötuna. Pósthúsbygging sú sem samnefnt stræti dregur nafn sitt af er komin í annan bæjarhluta. Verslun færst á önnur mið. Og fyrrum merki Eimskipafélagsins, er síðar minnti óþægilega á alls óskylt herveldi, hefur nú verið hulið með nýju merki staðarins. Eimskipafélagshúsið sjálft – sem komist hefur heilsteypt frá breytingum á skipu- lagi, tískusveiflum og tíðaranda – stillir sér nú upp í tilsniðnum búningi sem gest- gjafi fyrir þá ferðamenn sem sækja landið heim og kjósa sér vandaðan samastað í hjarta borgarinnar. Bæjarstjórnarfundir við höfnina | „Óskabarn þjóðarinnar“, eins og sumir nefndu Eimskipafélag Íslands, mun strax í upphafi hafa haft augastað á hentugri lóð við höfnina fyrir starfsemi sína. Samningar gengu að lokum eftir og húsið var byggt á tveimur lóðum þar sem áður stóðu pakkhús Knudtzons og hús Helga Helgasonar kaupmanns við hina svokölluðu Bæjarbryggju. Tillögur Guðjóns Samúelssonar að hinu nýja húsi urðu hlutskarpastar og hin hvíta, fjórlyfta bygging milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis, var reist á árunum 1919–21. Húsið þótti með glæsilegri húsum bæjarins, og var reyndar stórum dýrara í byggingu en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Innandyra flutti fólkslyfta gesti staðarins hæðanna á milli, en slíkt var nýlunda hérlendis. Eimskipafélagið hafði í upphafi aðsetur á 2. hæð hússins þar sem af- greiðslusal félagsins var að finna, prýddan tréskurði Stefáns Eiríkssonar mynd- skera. Salurinn var síðar friðaður. Aðrar hæðir voru leigðar út í áranna rás, en merkir fundir og samkundur voru gjarnan haldnar í Kaupþingssalnum svonefnda, þar sem bæjarstjórnarfundir voru m.a. haldnir um þriggja áratuga skeið. Þrátt fyrir að byggingin væri stórhýsi á samtíma mælikvarða, var strax í upphafi gert ráð fyrir viðbyggingu til vesturs, og reis hún árið 1979 eftir teikningu Halldórs H. Jóns- sonar. Vandað til verks í upphafi | Radisson SAS 1919 Hótel var opnað nú rétt fyrir helgi í þessum fyrrum höfuðstöðvum skipafélagsins ásamt veitingastaðnum og setustof- unni Salti á jarðhæð hússins. Andri Már Ingólfsson og fyrirtæki hans Heimshótel ehf. festu kaup á húsinu á síðasta ári. Gjaldheimtuhúsið að Tryggvagötu 28 fylgdi með í kaupunum og er heildarflatarmál hótelsins um fimm þúsund fermetrar. NÝR GESTGJAFI Í HÖFUÐBORGINNI Radisson SAS 1919 Hótel opnar dyr sínar í sögufrægu húsi zz zz z HÖNNUN | SNÆFRÍÐ ÞORSTEINS Barinn og veitinga- staðinn Salt er að finna á jarðhæð hússins, en auk augljósrar tengingar við samnefnt krydd, vísar nafnið í fyrri starfsemi hússins. Tímalausir stólar Eames-hjóna prýða þar gólf, í bland við sófa Jósefs Hoffmanns frá 1910, gamlar hurðir og sérsmíðuð samtímahúsgögn. Þar sem fólkslyftan var áður teygir sig nú stílhreinn stigagangur. Loftskreytingar eru arfur fyrri tíma. Álverur Steinunnar Þórarinsdóttur prýða anddyri hótelsins. L jó sm yn di r: K ri st in n In gv ar ss on

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.