Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 24
24 | 12.6.2005 H ótel Ísland var fyrsta hótelið sem tók til starfa á Íslandi og Hótel Borg er elsta starfandi hótel landsins, en það átti 75 ára afmæli í maí. Veitingasalir Hótels Borgar voru opnaðir 18. janúar árið 1930 og í maí sama ár voru hótelherbergin tekin í notkun, nánar tiltekið 25. maí, rétt í tæka tíð til að taka á móti virðulegum er- lendum gestum á Alþingishátíðina. Þetta var merkisviðburður í sögu Íslands, er glæsilegt stórhótel tók til starfa í höfuðborginni, segir í grein Elínar Pálmadóttur í Morgunblaðinu á 50 ára afmæli hótelsins árið 1980. Daginn eftir opnun hótelsins árið 1930 var frétt í Morgunblaðinu og byrjaði hún þannig: „Í gær kl. 3 bauð Jóhannes Jósefsson hóteleigandi nokkrum bæjarbúum inn í veitingasalina á Hótel Borg. Er óhætt að fullyrða að hver einasti maður, sem þangað kom, dáðist að því, hve þar er allt stórmyndarlegt, jafnt húsrúm og frágangur á gerð hússins, svo og húsgögn öll. Varð einum gestanna að orði, er hann leit í kringum sig: „Það er eins gott og að sigla að koma hingað inn.“ Með öðrum orðum: Húsakynnin á Hótel Borg eru svo gersamlega allt öðruvísi en nokkur þau húsakynni sem hér hafa verið, að þeir sem koma þangað fyrst, finnst sem þeir séu komnir í annað land,“ segir í grein Elínar. Sunnudaginn 16. nóvember árið 2003 komu eldri borgarar í Reykjavík saman á Hótel Borg og rifjuðu upp minningar frá gamla Reykjavíkurrúntinum svokallaða. Hann var sú leið er ungir Reykvíkingar í hamingjuleit gengu um miðja síðustu öld áð- ur en bílaumferðin varð ríkjandi í bænum. Í Morgunblaðinu 19. nóvember var fjallað um fundinn. „Guðrún J. Straumfjörð sagði meðal annars frá fyrsta kvöldinu á Hótel Borg, þegar Gyllti salurinn var opnaður í janúar 1930 en hún var þá á meðal fyrstu gesta. Sagði hún hljómsveit hafa leikið í horninu og stemninguna hafa verið engu líka.“ Nánast heimili Reykvíkinga | Í Sögu Reykjavíkur eftir Guðjón Friðriksson er bent á að áhrifa júgendstíls hafi gætt í veitinga- og danssölum Hótels Borgar. „En ljósaskreyt- ingar voru í anda Bauhausmanna enda var húsbúnaður keyptur frá Þýskalandi. Gyllti salurinn með þýskum freskómyndum á veggjunum og í lofti tóku öllu fram sem Reykvíkingar höfðu séð, enda voru þeir hrifnir. Hótel Borg var einn áfanginn enn að því marki að gera Reykjavík að höfuðborg sem gæti sómt sér meðal höfuðborga ann- arra frjálsra ríkja. Vorið 1930 var skrifað í eitt blaðið að hótelið væri nánast orðið heimili Reykvíkinga, þeir vildu helst dvelja þar frá morgni til kvölds. „Þegar þangað kemur, er sem þeir fjarlægist allt sem er leiðinlegt og drungalegt í þessum bæ, þar gleyma menn því hvað hér er annars púkalega tilbreytingarsnautt, gleyma um stund norðangúlpnum og göturykinu, rukkurum og pólitík og finnst sem þeir séu komnir þangað sem sólin vermir hörundið og blóðið streymir ört og hlýlega“.“ (Tilvitnun í Morgunblaðið 6. apríl 1930). Síðar í bókinni segir ennfremur: „Langfínasti skemmtistaðurinn var Hótel Borg. Þar safnaðist daglega saman skartbúið fólk og drakk morgun- eða síðdegiskaffi en á kvöldin dunaði þar músík og þá voru dýrari veigar á boðstólum. Sagt var að engin frú í bænum væri svo fín að hún gæti ekki látið sjá sig þar en verkamenn og sjómenn sáust þar aldrei. Ófínastur allra staða var White Star á Laugavegi 11. Þar dönsuðu glannalega málaðar konur við sjóara í svælu og reyk og fjörið náði hámarki þegar danska herskipið Fylle var í landi.“ (Tilvitnun í Lífsjátningu eftir Ingólf Margeirsson). Elín segir í fyrrnefndri grein sinni í Morgunblaðinu, að svo áratugum skipti hafi all- ar stærri veislur sem ríkisstjórnin stóð fyrir, meðal annars þegar tekið var á móti er- lendum þjóðhöfðingjum, verið haldnar á Hótel Borg. „Og í lífi heimafólks hefur Hót- el Borg átt stóru hlutverki að gegna. Ófáir Reykvíkingar hafa stigið þar sín fyrstu spor á jólahátíðum barnanna, en þær voru lengi fastur liður í bæjarlífinu um jólaleytið þeg- ar ýmis félög efndu til þeirra.“ Viðmælandi Elínar er Sigurður Gíslason hótelstjóri og minnist hann þess tíma á 6. áratugnum er 16 barnaböll voru á Borginni frá því á annan í jólum og fram yfir þrett- ánda. „Og það rifjast upp að lengi kom ungt fólk síðdegis á sunnudögum í kaffi og dansaði í 2–3 tíma, auk þess sem stofnað hefur iðulega verið til fyrstu kynna þar á kvöldin, þegar opið var fyrir dans. Þá hefur það lengi verið siður vissra hópa að hittast reglulega á Hótel Borg. M.a. hittast þar daglega fastagestir á 2 borðum og einn hópur manna hittist á sunnudagsmorgnum á Borginni. Telur Sigurður Gíslason að það hafi verið fastur liður síðan Hótel Ísland brann 1944, en þar höfðu menn hist reglulega í kunningjahópum.“ Fyrsta hótelið | Jörgensenskráin var helsta veitingahús Reykjavíkur um árabil. Níels Jörgensen var þjónn og samlandi Trampe greifa og stiftamtmanns og fylgdi honum til landsins. Leist honum vel á land og þjóð, gekk úr þjónustu greifans og ákvað að freista gæfunnar og hasla sér völl sem veitingamaður. Honum tókst að festa kaup á litlu húsi á horni Austurstrætis og Aðalstrætis og Trampe greifi útvegaði honum veit- ingaleyfi árið 1857. Þar opnaði hann krá og bauð jafnframt upp á gistiaðstöðu en hún var afar frumstæð og þótti ekki mönnum bjóðandi, segir í Gestum og gestgjöfum eftir Gylfa Gröndal rithöfund, þar sem brugðið er upp svipmyndum af veitingastarfsemi á Íslandi. Þegar Jörgensen hafði rekið veitingahús sitt í 15 ár, árið 1872, ákveður hann að hverfa aftur til heimalands síns. Til að gera langa sögu stutta verður hann fyrir spor- vagni og á ekki afturkvæmt, svo ekkja hans, frú Dorothea Jörgensen, kemur ein til Ís- lands og heldur áfram að reka krána, „þar sem jafnan er troðfullt á kvöldin, háreisti mikil og jafnvel handalögmál,“ segir í bók Gylfa. Hótel Ísland var aðalhótel bæjarins um tíma. Reykvískar yngismeyjar þyrpast um Tyrone Power leikara sem gisti eina nótt á Hótel Borg upp úr 1950. L jó sm yn d: Ó la fu r K . M ag nú ss on EINS GOTT OG AÐ SIGLA Hótel Ísland og Hótel Borg mörkuðu tímamót í sögu veitingareksturs á Íslandi 1930. Hótel Borg nýreist. L jó sm yn d: M ag nú s Ó la fs so n L jó sm yn d: S ka ft i G uð jó ns so n 3. febrúar 1944. Brunarústir Hótels Íslands á Ingólfstorgi. L jó sm yn d: Á rb æ ja rs af n.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.