Morgunblaðið - 25.11.2005, Blaðsíða 36
36 Jólablað Morgunblaðsins 2005
„ÉG ER mikið jólabarn. Ég skreyti mjög
mikið og safna jóladóti og mér finnst allt í
kringum jólin og aðdraganda þeirra ótrúlega
skemmtilegt. Ég hlýt að vera með jólagen í
mér og þetta væri örugglega verðugt rann-
sóknarefni fyrir Kára Stefánsson og félaga,“
segir Helga Þóra Jónasdóttir. „Ætli uppeldið
hafi ekki mest áhrif og svo það hvernig ég
er. Ég vil hafa fallegt og notalegt í kringum
mig og allt við jólin er svo fallegt. Jóla-
skrautið og líka fólkið sjálft.“
Helga segir að strax á fyrstu jólum hennar
hafi verið farið að setja jólasveina í vögguna
hennar.
„Ég fæddist tveimur mánuðum fyrir jól
og fékk oft jóladót í gjafir. Það var sem
sagt snemma byrjað að æsa jólaand-
ann upp í mér,“ segir Helga kankvís
og rifjar upp fyrstu minningar sínar
um jólin. „Það var alltaf passað upp á
að rölta með mig í bæinn um leið og
fyrsti jólasveinninn birtist í
glugganum á Rammagerðinni.
Ég man að mér fannst þetta
stórkostlegt, en hvort það
var af því að þetta væru
svo fínir jólasveinar eða
af því að jólin voru að
nálgast veit ég ekki. Svo
var alltaf farið á Aust-
urvöll þegar kveikt var á
jólatrénu.“
Þurfti að skreyta fyrir
jólasveininn
Helgu vefst ekki tunga
um tönn þegar hún er
spurð hvað sé svona frá-
bært við jólin.
„Mér finnst allt um-
stangið ofsalega
skemmtilegt; að baka,
föndra, kaupa jólagjaf-
ir og svo framvegis.
Svo vinn ég í Melabúð-
inni, sem er hverf-
isverslunin mín og það er
mjög gaman í jólastressinu.
Ég finn mikið fyrir jóla-
stemmningunni þar. Það er ys og þys og
áreiti úr öllum áttum. Búðin er troðfull allan
daginn, það koma öðruvísi vörur í hillurnar
og andinn breytist. Þetta finnst mér ofsalega
gaman þótt ég sé dauðþreytt og eldrauð í
kinnunum af æsingi þegar ég kem heim á
kvöldin.“
Aðspurð hvort fjölskyldan deili jóla-
áhuganum með henni, segir hún að mamma
hennar sé mikil jólakona.
„Það er kannski ekki eins ofsafullt og hjá
mér en hún hefur alltaf dundað sér mikið í
kringum jólin. Pabbi er hins vegar af gamla
skólanum og ólst til dæmis upp við að það
mætti ekkert skreyta fyrr en á Þorláks-
messu. Svo fæddist ég, þessi jólahneigða
stelpa með eindæmum og það fór fljótt að
bera á þessu hjá mér,“ segir Helga og flissar
yfir því að lýsingar hennar á jólasýkinni
svipi til lýsinga á einkennum sjúkdóms. „Ég
vildi alltaf skreyta fyrsta desember og setja
upp seríur og slíkt en pabbi var ekki aldeilis
á því. Með tímanum tókst mér samt að
mýkja hann og benti honum meðal annars á
að jólasveinarnir væru að koma og ég þyrfti
að skreyta fyrir þá. Svo þegar ég fór að
eignast peninga sjálf og gat keypt mitt eigið
jólaskraut gat pabbi auðvitað ekki stöðvað
mig í að skreyta herbergið
mitt. Smám saman hef ég
svo flýtt þessu og nú skreyti
ég alltaf í lok nóvember.“
Ógild kartöfluástæða
Helga segir að stund-
um skilji vinir og vanda-
menn jólaáhugann ekki
alveg til fulls og hún fær
oft athugasemdir um að hún sé ekki alveg í
lagi.
„Vinum mínum og aðstandendum finnst ég
stundum dálítið ofstækisfull,“ segir hún
brosandi. „Ég held samt að flestir hafi ótrú-
lega gaman af þessu og pabbi yrði til dæmis
áreiðanlega leiður ef ég hætti þessu. Her-
bergið mitt hefur mikið aðdráttarafl þegar
jólaskrautið er komið upp og í prófatíð fyrir
hátíðarnar koma vinir mínir oft í heimsókn
til þess að fá jólastemmninguna beint í æð.“
Það kemur glampi í augun á Helgu þegar
hún rifjar upp sögur af jólunum.
„Ég er samviskusöm og nákvæm með ein-
dæmum og eins og öllum alvöru jólabörnum
sæmir setti ég alltaf skóinn út í glugga. Og
svei mér þá ef hann ratar ekki þangað enn,“
segir hún svo kímin. „Fyrir jólin skolaðist
háttatíminn oft til og ég var ekki til í að fá
kartöflu í skóinn bara af því að ég væri ekki
í rúminu mínu þegar jólasveinninn kæmi.
Þegar ég var sjö ára fór ég einu sinni að
kvöldi til í bæinn að kaupa jólagjöf handa
mömmu og það fannst mér að sjálfsögðu
ekki góð og gild kartöfluástæða. Ég skrifaði
sveinka því bréf og bað hann vinsamlegast
að taka tillit til þess að ég hefði farið í Mikla-
garð að kaupa jólagjöf handa mömmu.
Sveinki tók að sjálfsögðu vel í þessa afsökun
enda var ég að sinna jólalegum skyldum
mínum.“
Föndrar jólakort í apríl
Helga er hálfnuð með nám í viðskiptafræði
við Háskóla Íslands en haustið 2003 var hún
í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.
„Það var upplifun lífs míns. Ég var þar á
haustönn og þá markaðist nóvembermánuður
mikið af jólaundirbúningnum. Við héldum
jólaboð fyrir foreldra okkar, skreyttum, bök-
uðum jólakökur og lærðum ýmislegt um jóla-
mat. Svo hlustuðum við á jólalög í eldhúsinu
og þetta var bara ótrúlega gaman. Þessi jól
var svo jólaboð fjölskyldunnar haldið heima
hjá mér og þá sá ég um eftirréttinn og skipti
mér reyndar aðeins af eldamennskunni líka,“
segir Helga glottandi. „Í skólanum lærðum
við líka að matreiða ýmsa rétti sem voru al-
gengari áður fyrr á Íslandi og svo skárum
við út laufabrauð, en það er ekki hefð fyrir
því í minni fjölskyldu.“
Jólaundirbúningur Helgu er margþættur
og aðspurð segir hún jólin ofarlega í huga
sér allt árið.
„Mér finnst ekkert athugavert við að búa
til jólakort í apríl. Ef mér dettur í hug að
föndra í sól og sumaryl þá geri ég það en
það má segja að eiginlegur jólaundirbún-
ingur hjá mér hefjist í nóvember,“ segir hún
en tekur fram að prófin hafi þó áhrif á und-
irbúninginn.
„Ég reyni að baka að minnsta kosti eina
tegund og ef ég geri það ekki sjálf er ég allt-
af að sniglast í kringum mömmu þegar hún
er að baka. Ætli ég muni ekki baka sautján
tegundir þegar ég flyt að heiman,“ segir hún
og bætir við að síð-
ustu ár hafi hún líka bakað
piparkökuhús fyrir jólin.
Það sé þó alveg heilagt
og sé ekki borðað fyrr
en eftir jólin. „Ég bý
líka sjálf til öll jóla-
kort sem ég sendi.
Mér finnst allt í lagi
að fólk fari út í búð
og kaupi jólakort en
sjálf geri ég það
ekki. Mér finnst
miklu meiri stemmn-
ing í að föndra þau
sjálf og líður miklu
betur með að senda
þannig kort.“
Markmiðið að njóta
hátíðarinnar
Tón- list á oft stóran þátt í að
skapa andrúmsloft jólanna og Helga segir að
henni finnist nær öll jólatónlist ótrúlega
skemmtileg.
„Ég á kassa með jólageisladiskum og þeg-
ar ég skreyti er hann dreginn fram. Þá fara
allir hinir geisladiskarnir upp í skáp og í des-
ember hlusta ég bara á jólalög,“ segir hún.
„Ég hlusta líka bara á útvarpsstöðvarnar
sem spila eingöngu jólalög. Svo svindla ég
auðvitað og er yfirleitt farin að stelast til að
hlusta á jólalög í september.“
Þrátt fyrir mikinn jólaáhuga segir Helga
að ekki sé mikið um hefðir í fjölskyldunni.
Þó séu nokkrir fastir punktar í jólahaldinu.
„Á aðfangadag keyrum við ekki út pakka
eða neitt slíkt heldur erum heima og njótum
dagsins og borðum möndlugraut í hádeginu.
Þetta finnst mér alveg ólýsanlega yndislegt,“
segir Helga. „Um jólin erum við svo ekkert
að þeysast út um allan bæ og fara í ótal jóla-
boð. Markmið okkar um jólin er að njóta
friðsældarinnar og samverunnar,“ bætir hún
við og líklegra gerast markmiðin vart göf-
ugri á þessari miklu fjölskylduhátíð.
„Svo á ég mér mína eigin hefð, sem verður
órjúfanlegri með hverju árinu,“ segir Helga.
„Ég er gömul sál og það eru óskrifuð lög hjá
mér að vera heima á Þorláksmessu í róleg-
heitunum og hlusta á jólakveðjurnar á Guf-
unni. Það er svo notalegt og hátíðlegt að
hlusta á þær.“
Best geymd á Norðurpólnum
Þegar Helga og systir hennar, sem er sjö
árum yngri en hún, voru litlar fór fjölskyldan
í barnamessur á aðfangadag en eftir að þær
eltust fer hún í hátíðarmessu á kvöldin.
„Pabbi er kirkjurækinn og syngur í kór
Neskirkju en sjálf fer ég sjaldan í kirkju.
Þegar ég var lítil fannst mér alltaf heil eilífð
að bíða eftir að fá að opna pakkana, eins og
flestir kannast eflaust við, og svo fannst mér
ótrúlega leiðinlegt að fara í messu,“ segir
Helga. „Fyrstu tvö jólin eftir að systir mín
fæddist fóru hún og mamma ekki með í
messuna og við pabbi fórum tvö ein. Mér
fannst ógeðslega ósanngjarnt að systir mín
þyrfti ekki að fara líka,“ segir hún svo hlæj-
andi.
Helga er virkur bloggari og síðan hennar
ber greinileg merki um jólaáhugann.
„Ég er ekki mikið tölvugúrú en á síðunni
er ég með jólaþema allt árið. Ég tala líka
mikið um jólin þar og örugglega daglega
þegar líða fer að hátíðinni,“ segir hún. „Ég
hendi því oft fram í gríni að ég ætti að flytja
á Norðurpólinn og gerast kona jólasveinsins.
Ég væri best geymd þar. Ég er búin að fara
í Hússtjórnarskólann og gæti bakað og búið
til kakó og „tjillað“ með jólaálfunum. Svo
grínast ég oft með það á blogginu mínu að
ég ætti bara að taka viðskiptafræði með
áherslu á jólafræði og í framhaldi af því
masterspróf í alþjóðajólafræðum,“ segir
þessi hressi jólaaðdáandi að lokum og sendir
öllum óskir um gleðileg jól.
Helga Þóra Jónasdóttir gæti
vel hugsað sér að taka mast-
erspróf í alþjóðajólafræðum
og „tjilla“ síðan með jólaálf-
unum á Norðurpólnum. Hún
hefur skrifað jólasveininum
bréf og sér ekkert athugavert
við að föndra jólakort í sól og
sumaryl. Hrund Þórsdóttir
heimsótti þennan einlæga
aðdáanda jólahátíðarinnar.
Helga leggur mikla vinnu í að skreyta gluggann í herberginu sínu, en á mynd-
inni heldur hún á jólasveini sem hefur fylgt henni síðan hún lá í vöggu.
Vinir og ættingjar
gefa Helgu oft
jólaskraut og
þennan engil
fékk hún í
tvítugs-
afmælisgjöf.
Þessi jólasveinn er í uppá-
haldi hjá Helgu, en hann fékk
hún í jólahúsinu í Eyjafirði.
TENGLAR
...........................................................
blog.central.is/jolastrumpur
„Ég ætti að flytja á Norðurpólinn
og gerast kona jólasveinsins“
Morgunblaðið/Ásdís