Fréttablaðið - 18.01.2004, Blaðsíða 10

Fréttablaðið - 18.01.2004, Blaðsíða 10
Ég vil ekki hljóma eins og asni, enég hef ekki áhyggjur. Ég get ekki látið eins og þessir ábúðar- miklu menn og konur sem birtast á sjónvarpsskjánum og segjast hafa áhyggjur af hinu eða þessu – jafnvel þungar áhyggjur. Þau eru uggandi yfir þróuninni og og vilja fylgjast vel með framvindunni. Ég er ekki eins og leiðarahöfundur Morgun- blaðsins sem finnst flest stefna á verri veg og egnir Alþingi og stjórn- völd til aðgerða dag eftir dag. Ég hef ekki einu sinni áhyggjur af vax- andi fíkniefnaneyslu í samfélaginu, auknu ofbeldi eða brotfalli nema úr framhaldsskóla. Ég hef ekki áhyggjur af gatinu á ósonlaginu, jafnvæginu í náttúrunni eða upp- blæstrinum á Haukanesheiði. Ekki heldur af utanríkisstefnu Banda- ríkjastjórnar, hryðjuverkum í heim- inum eða hungruðum í Afríku. Það eru nógir aðrir til þess. Haf- ið þið velt fyrir ykkur öllum þessum áhyggjum sem fólk er að lýsa fyrir okkur? Það er varla til það götuhorn í Reykjavík að einhver hafi ekki áhyggjur yfir því; samstillingu um- ferðarljósanna, sjónarhorni þeirra sem vilja beygja til vinstri eða hrað- anum á bílunum sem koma vestan úr bæ. Að ekki sé talað um atvinnu- ástandið úti á landi. Ef við söfnuð- um saman öllum þeim áhyggjum sem fólk hefur haft af atvinnulífinu úti á landi myndi þjóðin bresta – ekki aðeins í grát heldur myndi hver einstaklingur bresta og allt sem í honum er. Þar sem þjóðin áður stóð væri aðeins dimmt gat í jörðinni; svo djúpt að þegar við lét- um stein falla í gatið myndi hann aldrei ná til botns. Áhyggjur Hafið þið þurft að umgangast áhyggjufullt fólk um einhvern tíma? Fólk sem sér svart þegar það horfir fram á veginn. Sjálfsagt haf- ið þið fljótlega hætt að spyrja það hvernig því lítist á framhaldið. Mér líst ekki á þetta. Það er nóg að heyra þetta viðhorf nokkrum sinnum til að hætta að kalla eftir því. Eða fólk sem notar áhyggjur til að tala illa um fólk? Ég hef miklar áhyggjur af honum Bjössa. Honum hlýtur að líða illa eftir að konan fór frá hon- um. Bara að ég gæti gert eitthvað fyrir hann. Ég held það sé rosalega erfitt fyrir svona fíngerðan mann að rífa sig upp eftir svona áfall. Ég held að hann hafi ekki búist við þessu. Hann áttaði sig ekki á brest- unum sem voru komnir í hjóna- bandið. Hann þarf því ekki aðeins að átta sig á að hjónabandið er búið og hann stendur eftir einn og fjöl- skyldulaus heldur að líf hans var byggt á lygi í mörg ár. Þetta er þekkt aðferð þeirra sem velta sér upp úr persónulegum málum ann- arra en skammast sín nóg fyrir það að þeir klæða kjaftaganginn í bún- ing væntumþykju. Þeir eru ekki að segja kjaftasögur heldur að lýsa áhyggjum sínum – byggðum á ríku- legu tilfinningalífi sínu. Og kannski er allt þetta fólk sem birtist okkur í fjölmiðlunum að gera lítið annað en þetta. Það þekkir kannski illa það sem það er að tala um og á erfitt með að fóta sig á staðreyndum máls. Það grípur því til þess ráðs að lýsa yfir áhyggjum sínum um þróun mála. Það er þá sloppið inn í fram- tíðina og getur dregið upp fríhendis mynd og lýst áhyggjum sínum yfir því ef sú yrði raunin. Það er náttúr- lega óbærilegt ef venjulegt fólk á að búa við það að óþjóðalýður geti brotist inn á heimili þess og beitt það ofbeldi. Í þessu fellst engin full- yrðing um hversu algeng slík hús- brot eru eða hvort fólk þurfi al- mennt að hafa áhyggjur af þeim. Því þarf hinn áhyggjufulli í raun ekkert að vita um það. Hann getur samt tjáð sig og gefið mynd af sér sem samfélagslega ábyrgum manni. Ef hann efast um að fólk taki mark á honum getur hann skipt „ég“ út fyrir „fólk“, „almenningur í landinu“ eða „þjóðin“. Það er enginn vilji meðal þjóðarinnar að slíkt ástand skapist hér. Þetta hljómar einhvern veginn ábúðarfyllra en: Ég vil ekki að slíkt ástand skapist hér. Eða einfaldlega: Ég vil ekki að þetta gerist. Og með þjóðina sem bakhjarl og áhyggjurnar að vopni má draga um æði dökka og háska- lega mynd af hverjum krika sam- félagsins. En ef til vill er það ekki vitlegri umræða en kjaftasögurnar í væntumþykjunni – og álíka gefandi. Sjálfsvorkunn Það var gaman ef einhver lunk- inn lesandi myndi reyna að greina tilfinningarnar í samfélagsumræð- unni nú þegar tilfinningarök eru komin til nokkurrar tísku. Gæti slíkur maður áttað sig á hvers kyns litróf tilfinninganna er í dag og bor- ið það saman við þær tilfinningar sem lituðu umræðuna fyrir fimmtíu eða hundrað árum? Eru þær tilfinn- ingar sem birtast í umræðu dagsins dýpri eða öflugri en áður? Eða þær grynnri og sjálfhverfari? Þegar ég las Harmsögu æfi minnar fannst mér bókin mögnuð, Jóhannes Birki- land einstök persóna og sjálfsmynd hans einhver heimskulegasta smíð sem ég hafði rekist á. En síðan hef ég oft velt fyrir mér hvort sjálfs- mynd hans sé í raun svo einstök. Var Birkiland ekki aðeins á undan sinni samtíð? Er sjálfsvorkunn hans og sjálfhverfa ekki að verða nokkuð normal á okkar dögum? Var Birki- land nokkuð annað en nútímamaður í samfélagi byggðu á öðrum tilfinn- ingaskala og lástemmdari? Þráður- inn í bók Birkilands er ekki svo frá- brugðinn mörgum af viðtalsbókun- um sem seldust vel fyrir síðustu jól þótt framsetningin hafi verið ólm- stríðari og ímyndaraflið frjórra. Við gætum varpað þessum jólabókum aftur um sextíu ár og þær hefðu án efa uppskorið sambærilega höfnun og Birkiland; aðhlátur og forsmán. Og sama má í raun segja um margt í samfélaginu okkar; allt þetta sár- reiða og móðgaða fólk í fréttunum og spjallþáttunum, þessir áhyggju- fullu pólitíkusar og tilfinningasömu málsvarar. Birkiland myndi ekki skera sig svo mjög úr fjöldanum í dag. Það hafa verið stofnuð samtök um flest það hrjáði hann og þá óleiki sem samferðamenn hann gerðu honum – og líklega væri hann formaður í þeim flestum í dag. Sjálfsvorkunn og sjálfhverfa er ekki nýjung heldur hefur fylgt manninum alla tíð. Það má jafnvel halda því fram að þetta hafi verið inntak nýrómantíkunnar sem við Ís- lendingar erum svo óheppnir að skuli hafa orðið upphaf nútímabók- mennta og menningar okkar. Marg- ar persónur Laxness eru nánast lamaðar af sjálfsvorkunn og upp- hafningu eigin tilfinningalífs. Það er til dæmis varla hægt að ætlast til að aðrir en þeir sem eru á botni sjálfsmyndarkreppu gelgjutíma- bilsins geti lesið Heimsljós án klígju. Þórbergur Þórðarson reyndi að henda gaman að þessu öllu og snúa á haus en eftir situr sjálfsköp- uð persóna hans eins sífrandi vesal- ingur sem upphefur fágætilegt til- finningalíf sitt svo það kunni að standast samanburð við háróman- tískar hugmyndir um hugsjónir fyrri alda. Það má spyrja sig hvort áhrif þess að vakning sjálfstæðrar og borgaralegrar nútímamenningar á Íslandi hafi orðið í þessari tísku og tryggt sjálfsvorkunn viðvarandi og veglegan sess í manngildishug- myndum Íslendinga. Sjálfsmynd þjóðarinnar ber þess merki. Hún sér sjálfa sig sem veikburða og við- kvæma – eitt eilífðar smáblóm. Landið okkar er viðkvæmt og ósjálfbjarga, menning okkar er veik, tungan eins og viðkvæmt strá. Og við heimfærum þetta síðan yfir á hvert byggðarlag fyrir sig, hverja deild samfélagsins, hvern hóp – og á endanum hvern einstakling. Af um- ræðunni að merkja trúa Íslendingar því að einn einstaklingur íslenskur sé veikari eining en einn einstak- lingur annarrar og stærri þjóðar – að það sé í sjálfu sér erfiðara fyrir hann að stökkva yfir tvo metra í há- stökki en stærriþjóðafólk. Tilfinningasemi Ef til vill má staðsetja upphaf núverandi tilfinningasemi í opin- berri umræðu á Íslandi í viðtali fréttamanna ríkissjónvarpsins við Albert Guðmundsson snemma árs 1987. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði þá rekið Albert úr ráðherraliði flokksins vegna rannsóknar á skattaskilum Alberts. Upphafið lá í spurningunni: Hvernig líður þér? Við þessa spurningu varð fjandinn laus. Hver vill ekki svara þeirri spurningu? Hvernig líður mér? Ég er með smá seyðing í annarri öxlinni. Ég veit ekki alveg hvað þetta er. Ætli ég láti ekki lækni kíkja á þetta. Og svo er ég hálf dapur án þess að vita almennilega af hverju. Ég er dálítið ósáttur við stöðu mína í vinnunni. Mér finnst að menn mættu taka meira tillit til mín þar. Mér finnst ég ekki fá að njóta mín nógu mikið. Og þetta á í raun við allt mitt líf. Mér finnst að ég eigi betra skilið; meiri viðurkenningu, hærri laun, meiri virðingu. Ég hef ekki hundsvit á því hvort Sigmund Freud var slyngur sálfræðingur. En ég dáist að honum sem frumherja og bisnessmanni. Hann áttaði sig á hversu ríka þörf fólk hefur að tala um sjálfan sig og hversu fáir voru tilbúnir að hlusta. Hann stóð frammi fyrir misræmi í framboði og eftirspurn. Það var mikil eftirspurn eftir hlustendum að sjálfhverfu tali en lítið framboð. Þess vegna bjó hann til kerfi sem gat haldið utan um þetta. Það nenn- ir enginn að hlusta á þig tala um sjálfan þig en gegn hóflegri borgun er ég tilbúinn til þess. Úr þessari hugmynd varð til gríðarlegur iðnað- ur sem veltir trilljónum á ári hver- ju. Það er því óskaplega mannlegt að viðmælendur fréttamanna kjósi fremur að ræða eigin líðan en eitt- hvað sem kalla má staðreyndir máls. Og þar sem frétta- og blaða- menn aðlaga sig sífellt að samfélag- inu eins og aðrir, leið ekki á löngu þar til að spurningin um hvernig fólki leið varð nánast miðlæg í fréttaumhverfinu. Auðvitað fáum við að heyra hvað gerðist en athygl- in er samt öll á því hvernig hann brást við. Og hvernig hún metur viðbrögð hans. Og hvað honum finnst um mat hennar. Og hvort hún vilji ekki tjá sig um það sem honum fannst um mat hennar á viðbrögð- um hans. Og við sitjum fyrr framan einhverja kássu af rausi; soðnu úr fremur ómerkilegum tilfinningum. Sjálfsréttlætingu, sjálfsvorkunn, upphituðum áhyggjum og upp- belgdri móðgunargirnd – kryddaðri með sterkari bragðefnum; beiskju, pirringi, úrillsku og svartsýni. Jafnvægi Úr því að tilfinningarök þykja nú gjaldgeng ættum við að fara að ræða tilfinningalegan grunn um- ræðunnar. Á sínum tíma var um- ræðan drifin áfram af hugmyndum um hvað borgaði sig og hvað var hagkvæmt en árangurinn varð daufur þar sem þessar hugmyndir byggðu á litlu hyggjuviti og tak- markaðri þekkingu á eðli viðskipta og grundvallarforsendum hagfræð- innar. Fyrirtæki og launafólk, ríkis- sjóður og sveitarsjóðir, töpuðu ótelj- andi tækifærum og óheyrilegum fjármunum í vonlausum ævintýrum og/eða varðstöðu um atvinnulíf sem bar dauðann með sér. Til að byggja upp tilfinningasama umræðu þurf- um við því að ræða grunn hennar. Það gengur ekki að byggja hana á rokgjörnum og sjálfhverfum til- finningum. Illt tré getur ekki borið góðan ávöxt – stendur einhvers staðar. Næst þegar einhver mætir ábúðarfullur til að lýsa áhyggjum sínum fyrir okkur skulum við reyna að beita á hann réttum til- finningalegum skala. Yfirlýstar áhyggjur eru aldrei grunnur góðra verka heldur í mesta lagi veik til- raun til sjálfsupphafningar; nei- kvæð mynd samfélagslegrar með- vitundar. Jákvæða mynd sömu kenndar er bjartsýni. Áhyggjur og svartsýni geta varið óbreytt ástand en þó með því gjaldi að það dregur úr því þrótt og kæfir það að lokum. Vongleði og bjartsýni getur vissu- lega gert mörg mistök en ef hún fær að viðhalda sér býr hún yfir endalausri getu til að leiðrétta kúr- sinn. Íslenskt samfélag stendur á tímamótum á flestum sviðum. Lík- lega þyrftum við að fara aftur á fyrstu áratugi síðustu aldar til að finna álíka deiglu. Þegar framtíðin verður óljósari vegna slíkra tíma- móta er eðlilegt að svartsýni hinna svartsýnu dýpki og bjartsýni hinna bjartsýnu verði loftkenndari. Í byrjun nítjándu aldar sáu hinir svartsýnu fram á hrun íslenskrar bændamenningar og alls sem ís- lenskt var. Og þeir sigruðu söguna því íslenskt samfélag tók aftur að einangrast og leita eigin leiða um og upp úr 1930 – goðsögnin um bændamenninguna var gerð að skyldugrein í barnaskólum og gríð- arlegri orku var eytt í að viðhalda sýndarveruleik sérstöðu okkar litla samfélags. Ef til vill eru þau átök sem við verðum vör við í íslensku samfé- lagi – en eigum svo erfitt með að skilja upphaf og endi á – fremur rót á tilfinningasviðinu en einhverju öðru. Alla vega virðast þessi átök leggjast illa í hefðbundna farvegi umræðunnar. Menn birtast heitir í framan að halda fram málstað sem þeir áður börðust gegn – saka aðra um svik sem halda á lofti þeim skoðunum sem þeir áður vörðu. Það er illmögulegt að þekkja vin- stri frá hægri lengur. Kannski vor- um við ekki tilfinningalega undir- búin undir þessi tímamót – hálf rugluð af innihaldslítilli tilfinn- ingavellu samtímans – og ofmetum áhyggjur okkar og eðlislæga svart- sýni frammi fyrir einhverju óþekk- tu. Fyrsta skrefið að jafnvægi er að venja sig af áhyggjum og ofmeta ekki áhyggjur annarra. Mannlífið hefur einstaka getu til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum – þó með þeim forsendum að hinir svartsýnu fái ekki öllu ráðið. Vegna tals manna um pólitíska slagsíðu fjölmiðla vil ég opinbera þann draum minn að Fréttablaðinu auðnist að vera hvorki hægriblað né vinstriblað – heldur bjartsýnt blað. Ég held það myndi með þeim hætti best skera sig frá öðrum miðlum og auðga flóruna. ■ Það þykir vart fréttnæmt lengurþegar Íslendingar skjóta upp kollinum í heimsfréttum þó það kitli enn þjóðarstoltið þegar það gerist. Við erum enn að slást um Snorra Sturluson við Norðmenn og erum tilbúnir í hart við Dani og jafnvel Þjóðverja líka um eignar- haldið á myndlistarmanninum Ólafi Elíassyni. Þetta er þó allt gott og blessað og ekkert tiltökumál samanborið við þjóðrembinginn sem braust út í liðinni viku þegar fregnir bárust af því frá Írak að Íslendingar hefðu unnið Íraksstríðið fyrir Bush og Blair. Glöggt er gests augað og okk- ar menn fundu reyting af gereyð- ingarvopnum í landinu. Loksins voru tekin af öll tvímæli um að þessi litla herlausa þjóð norður í ballarhafi átti fullt erindi í banda- lag hinna staðföstu þjóða. Gleðin varð þó skammvinn þar sem það kom fljótt í ljós að gereyð- ingarvopnin voru gamalt sinneps- rusl sem getur helst komið ófeigum í hel í miklu magni við kjöraðstæð- ur. Réttlætingin fyrir stríðinu gufaði upp jafn fljótt og Íslending- arnir fundu hana og dældin sem fundurinn skyldi eftir sig á þjóð- arstoltinu minnti nokkuð á von- brigðin sem fylgdu því þegar besti skíðamaðurinn okkar tók upp á því að detta alltaf í stóru brekkunum úti í heimi, sprækasti frjálsíþrótta- maðurinn okkar fór að glíma við krónísk meiðsli á stórmótum og að Keikó skyldi yfirgefa okkur, Sinnepsfundurinn í Írak sýnir okkur svo ekki verður um villst að við stöndum öðrum þjóðum langt að baki í stríðsbrölti. Það væri helst að Halldór Ásgrímsson gæti sent Bush mannskap til að stjórna yfir- heyrslunum yfir Saddam Hussein þar sem víkingarnir okkar voru býsna flinkir við að rekja úr mönn- um garnirnar á milli þess sem þeir drápu mann og annan í ölæði. Ann- ars fóru okkar menn utan til að sækja fallegar konur, þræla og auð- æfi. Það er Íslendingum því ekki eðlislægt að þefa uppi sinnepsgas. Rússneski þjóðernissinninn og brjálæðingurinn Vladímír Zhírínovskí afgreiddi okkur snagg- aralega þegar Jón Baldvin Hanni- balsson, þáverandi utanríkisráð- herra, ruddist upp á dekk og viður- kenndi manna fyrstur, fyrir hönd Íslendinga, sjálfstæði Litháa. „Þið eigið ekki einn einasta kaf- bát og ekki einu sinni skriðdreka,“ sagði Zhírínovskí og það var ekki laust við hótunartón í röddinni. Ætli okkur sé ekki hollast að láta Bush, Írak og sinnepið eiga sig og ein- beita okkur að útflutningi listar og skapandi hugvits? Björk verður ekki tekin af okkur og það var Íslendingur sem for- ritaði geimskipið sem er núna á Mars. Svo mikið er víst. ■ Smáa letrið ÞÓRARINN ÞÓRARINSSON ■ er svekktur yfir því að gereyðingar- vopnin sem Íslendingar fundu í Írak skyldu ekki vera gereyðingarvopn og vill því að Íslendingar láti stríðsbrölt eiga sig framvegis. 10 18. janúar 2004 SUNNUDAGUR Útgáfufélag: Frétt ehf. Ritstjóri: Gunnar Smári Egilsson Fréttastjóri: Sigurjón M. Egilsson Ritstjórnarfulltrúar: Reynir Traustason og Steinunn Stefánsdóttir Auglýsingastjóri: Þórmundur Bergsson Ritstjórn, auglýsingar og dreifing: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík Aðalsími: 515 75 00 Símbréf á fréttadeild: 515 75 06 Rafpóstur: ritstjorn@frettabladid.is Rafpóstur auglýsingadeildar: auglysingar@frettabladid.is Setning og umbrot: Frétt ehf. Prentvinnsla: Ísafoldarprentsmiðja ehf. Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuð- borgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á lands- byggðinni. Fyrirtæki geta fengið blaðið gegn greiðslu sendingarkostnaðar; kr. 1.100 á mánuði. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871 Íslenskir víkingar finna sinnep Sunnudagsbréf GUNNAR SMÁRI EGILSSON ■ skrifar um tilfinningar og tilfinningavellu í umræðunni. Tryggvagata 8, sími: 552-3870. Fax: 562-3820. hefjast 19. janúar. Innritun í síma 552 3870 • Námskeið fyrir byrjendur og lengra komna. • Einkatímar - Taltímar. • Námskeið fyrir börn Veikur grunnur undir mikinn tilfinningahita

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.