Fréttablaðið - 03.12.2004, Page 61

Fréttablaðið - 03.12.2004, Page 61
FÖSTUDAGUR 3. desember 2004 Vélabrögð tímans Vélar tímans er þriðja bindið í sagnabálki Péturs Gunnarssonar sem hann kallar því ágæta nafni „Skáldsaga Íslands“. Fyrri bindin eru Myndin af heiminum, 2000, og Leiðin til Rómar, 2002. Bálkurinn er eitthvert metnaðarfyllsta og skemmtileg- asta verkefni sem íslenskur prósahöf- undur hefur tekist á hendur á seinni árum og það verður mikið tilhlökkunar- efni að sjá hann í heild sinni. Í þessum bókum bregður Pétur upp svipmyndum úr sögu Íslands og fléttar saman frásagn- arlist, sagnfræði og almennar hugleið- ingar, svo Íslandssagan birtist okkur í senn frá sjónarhorni þolandans, einstak- lingsins, og í almennu samhengi evr- ópskrar sögu. Hann nýtir sér kosti frá- sagnarlistar sem gefur lesandanum færi á að samsama sig einstaklingum fyrri alda, og sagnfræðinnar sem leitar hins almenna samhengis. Samtímis heldur Pétur til haga sjónarhorni nútímans, þroskasaga sögumanns fléttast inn í frá- sagnir af miðaldamönnum, sem líka komu til Parísar og Rómar að leita sér styrks og viðmiðunar. Lesandinn er ekki látinn lifa í þeirri blekkingu að hann geti fullkomlega sett sig í spor miðalda- manna, heldur er einatt dregið fram hve skynjun manna og hugarheimur allur hefur breyst. Vélar tímans er afmarkaðri saga en fyrri tvær bækurnar. Hún gerist í upphafi 15. aldar og segir af nýmunknum unga, Natani Fróðasyni, sem lifir af Svarta- dauða og slæst í för með Birni hirðstjóra Einarssyni í pílagrímsför til Jórsala eða Jerúsalem. Drepsóttin, sem í samtíma- heimildum var kölluð plágan mikla, geis- aði hér á landi árin 1402-1404 og kann að hafa lagt helming þjóðarinnar, þrjátíu þúsund manns, að velli; um það verður þó ekki fullyrt með vissu. Við fylgjumst með Natan á þvælingi um landið eftir að klaustrið hefur allt orðið pestinni að bráð, en þannig fór um helstu klaustur landsins á þessum árum. Natan bætist í sundurleitan hóp sem stefnir á Skálholt, en heitgöngur til helgistaða voru margar farnar þessi hörmungarár, og stuðluðu fremur að útbreiðslu pestarinnar en hitt. Lesandinn fylgist með því þegar Natan kynnist ástinni, bókmenntunum, lönd- um sínum af misháum stigum áður en hann leggur í langferð, eiginlega gegn vilja sínum. Höfundur dregur alls staðar fram hið hugmyndasögulega samhengi, ástin speglast í sögunni af Tristram og Ísodd eða Tídægru Boccaccios, sem ger- ist einmitt í skugga pestarinnar á Ítalíu um miðja fjórtándu öld, rétt einsog píla- grímurinn sækir leiðsögn í hinn Guð- dómlega gleðileik Dantes. Þetta er tími vaknandi einstaklingshyggju, en hún hef- ur þó ekki nema að hluta náð til bók- menntanna. Höfundur minnir okkur til dæmis á að það var ekki búið að finna upp gæsalappirnar á miðöldum: „Þeir sem héldu um fjöðurstað skrifuðu í þágu málstaðar. Til dýrðar Guði eða kóngi. Ein- staklingurinn féll utan ljóskeilunnar. Við eigum í erfiðleikum með að skilja þetta nú þegar einstaklingurinn hefur blásið út í ofurveldi. Í dag fyllir höfundurinn út í sjóndeildarhringinn og varpar skugga á sjálft verkið.“ Með hugleiðingum sem þessum helst söguefnið í ákveðinni fjarlægð, þetta er skáldsaga í ritgerðarformi, essay-roman einsog Halldór Laxness kallaði minninga- sögur sínar, og minnir að því leyti líka á sum síðari verka Milans Kundera. Hins vegar vindur engri sérstakri sögu fram í nútímanum í þessari bók, líkt og í síðasta bindi bálksins. Það er heldur ekki gripið jafnoft til þess að horfa á landið frá sjón- arhóli alheimsins, úr órafjarlægð stjarna einsog stundum áður, enda slíkt sjónar- horn ekki mjög gefandi til lengdar. Saga Natans sjálfs er áhrifamest í byrjun, myndin af honum, fyrst einum og svo með flokki manna, á flótta yfir landið undan alltumlykjandi hönd dauðans er einkar minnisstæð, en lýsingar Jórsala- farar eru ekki eins svipsterkar, persónur fjarlægari. Björn hirðstjóri mun reyndar hafa ritað reisubók um ferð sína, en hún er glötuð. Hér finnst mér Pétur hafa set- ið af sér færi á sterkum myndum og áþreifanlegri dramatík; það er líktog hann endursegi um of. Sagan er hins vegar alltaf vekjandi, og þegar Pétur skrifar best standa fáir hon- um jafnfætis. Þá tekst honum með vel völdum orðum og tærum einfaldleika að hreyfa við ímyndunarafli lesanda. Það býr oftast mikið strit á bak við stíl sem virðist áreynslulaus, en góður höfundur leynir glímunni, framvinda textans virðist fullkomlega eðlileg en kemur samt á óvart. Í þessari bók skammtar Pétur les- endum sínum full naumt; það hefði ver- ið gaman að fá meira af skáldsögu Ís- lands og fleiri drætti í mynd síðmiðalda, finna meira lagt undir. Ég er hins vegar sannfærður um að sagan mun njóta sín vel sem hluti heildarinnar, þegar Pétur hefur raðað öllum perlunum á sína sagnafesti. BÓKMENNTIR HALLDÓR GUÐMUNDSSON Vélar tímans Höf: Pétur Gunnarsson Útg: Mál og menning PÉTUR GUNNARSSON 60-61 (48-49) Menning 2.12.2004 18:38 Page 3

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.