Fréttablaðið - 06.03.2005, Page 22
22 6. mars 2005 SUNNUDAGUR
NLP-nám
Hrefna Birgitta Bjarnadóttir er alþjóðlegur NLP-
kennari og verður með 3ja daga grunnnámskeið í
NLP dagana 10.-12.apríl nk. Námskeið þetta er hægt
að nýta sem hluta af Practitionar menntun sem er í
heild 120 timar.
Allar nánari upplýsingar veita Guðrún Harðardóttir í
síma 863-0800 og Hrefna Birgitta í síma
00-47-99509750 og 00-47 -71254642 Noregi
Kennari er Hrefna Birgitta
Bjarnadóttir NLP kennari/
meðhöndlari/þjálfari.
Samskipti og sjálfstjórnun
Viggó Sigurðsson,
landsliðsþjálfari Íslands
í handbolta, segist hafa
verið fjörlegur pjakkur í
meira lagi og er þakk-
látur fyrir að alast upp á
tímum sjónvarpsleysis,
þó hann hafi stolist
ásamt félögunum niður
á Laugaveg á miðviku-
dögum klukkan sex til
þess að horfa á Bonanza
í gegnum glugga á sjón-
varpsverslun.
Otrateigur, Reykjavík, 1960 til
1965
Ég er alinn upp í Laugarneshverf-
inu, og við þessa götu bjó ég mín
fyrstu ár í hverfinu. Þarna hóf ég
minn handboltaferil. Hverfið skipt-
ist í Ármanns- og Framhverfi og ég
hóf feril minn með Fram í hand-
boltanum og var æft í gamla
Hálogalandsbragganum. Þetta var
mjög skemmtilegur tími, og um-
hverfið var allt öðru vísi fyrir
krakka en í dag, menn léku sér á
götum úti á þeim tíma. Seinna lék
ég svo með Ármanni í knattspyrnu
þegar félagið stofnaði knatt-
spyrnudeild.
Hrísateigur, Reykjavík 1965 til
1967
Við vorum búin að búa í nokkur ár
á Otrateignum þegar foreldrar
mínir keyptu lóð undir einbýlishús
við Hrísateig. Grunnur var grafinn
sem fljótlega fylltist af drullu og
þá fengum við bræðurnir alveg
snilldarhugmynd. Ég var þá sendill
hjá hverfisbúðinni og hafði til um-
ráða sendilshjól. Við bræðurnir
skelltum upp vegg við grunninn og
borguðum nokkrum strákum tutt-
ugu og fimm krónur, fyrir að hjóla
á hann og steypast niður í drulluna
á bólakaf. Við rukkuðum svo fimm-
tíu krónur í aðgangseyri og komum
út í góðum gróða, en þetta athæfi
var síðan stöðvað af móður eins
drengjanna, sem var ekki par hrif-
in þegar sonur hennar kom heim
drullugur upp fyrir haus.
Otrateigur, Reykjavík, 1967 til
1970
Það var stríð í þessu hverfi milli
þeirra sem bjuggu á Austurbrún og
í Teigunum, en þeim hópi var
stjórnað af Gísla Rúnari Jónssyni
leikara. Einu sinni var blásið til
styrjaldar og þá höfðu safnast sam-
an um hundrað og tuttugu krakkar,
reiðubúnir til orrustu. Undirbún-
ingurinn hafði staðið lengi og við
bræðurnir höfðum staðið í ein-
hverju þrasi við Gísla Rúnar og fé-
laga.En þetta spurðist vel út og
þegar orrustan var rétt hafin kom
lögga hverfisins á vettvang. Magn-
ús Einarsson heitir hann, varð-
stjóri í dag, og var á risastóru
lögguhjóli. Hann var svona Rambó
okkar tíma. Hann þurfti ekki annað
en blikka ljósunum einu sinni og þá
var hópurinn tvístraður. Við bárum
rosalega virðingu fyrir honum.
Við spiluðum alla daga fótbolta
niðri á gamla sundlaugatúninu. Ég
man eftir því að einu sinni kom
karl, okkur fannst hann allavega
vera karl, dálítið rauðbirkinn.
Hann spurði okkur hvort hann
mætti ekki spila með okkur, og við
leyfðum honum það. Þegar við
spurðum hann af hverju hann
spilaði fótbolta með einhverjum
guttum, þá sagðist hann vera að
halda sér í formi vegna þess að
hann væri skemmtikraftur. Við
komumst síðan að því að þetta var
hann Ómar Ragnarsson.
Laugateigur, Reykjavík, 1970
Við fluttumst svo tímabundið á
Laugateiginn meðan húsið var í
byggingu. Þetta var náttúrlega fyr-
ir tíma sjónvarpsins, og menn
brölluðu hitt og þetta. Ég man eftir
því að við bræðurnir fórum oft nið-
ur á Laugarnestanga, við skítarör-
ið, og veiddum kola með steypu-
styrktarjárnum. Við fylltum síðan
kjallarann af þessu, stoltir af því að
hafa veitt í matinn næstu daga.
Þegar mamma kom heim lét hún
okkur vita af því að þeir væru fáir
sem ætu marhnúta og kola og þá
sérstaklega ef þeir væru veiddir
við skítarörið. Við þurftum því að
moka allri veiðinni aftur í hjölbör-
ur og skila henni í hafið.
Þegar svo sjónvarpið kom til
skjalanna vorum við ekki að setja
fyrir okkur að ekkert tæki væri á
heimilinu. Við einfaldlega tókum
strætó niður á Laugaveg og horfð-
um á framhaldsþættina í verslun-
arglugga. Ég man að Bonanza var
alltaf á miðvikudögum klukkan 6,
og við misstum ekki úr þátt. Ann-
ars held ég við bræðurnir höfum
verið óttalegir gaurar. Við vorum
mikið á ferðinni.
Selvogsgrunn, Reykjavík, 1971
Við fluttum okkur um set og þá
kom auðvitað ekkert annað til
greina en að vera áfram í Laugar-
nesinu og keyptu foreldrar mínir
hús við Selvogsgrunn. Fjölskyldan
hefur alltaf haldið miklu ástfóstri
við Laugarnesið og nýlega fluttu
foreldrar mínir á ný í Laugarnesið,
enda hafði pabbi orð á því að nú
væru þau komin heim á ný.
Sunnubraut, Kópavogur, 1972 til
1975
Þangað flytjumst við hjónin og
komum okkur upp heimili. Þrátt
fyrir að vera kannski þekktur fyrir
að vera leikmaður Víkings hérna
heima hef ég aldrei búið í Víkings-
hverfinu og ætla aldrei að gera.
Þeir verða örugglega alveg brjál-
aðir strákarnir í Fossvoginum.
Kríuhólar, Reykjavík, 1975 til 1979
Við keyptum okkur svo okkar
fyrstu íbúð við Kríuhólana í Breið-
holti. Við hjónin erum kannski
mest Breiðhyltingar og kunnum
ákaflega vel við okkur hérna, og
höfum í raun alltaf komið hingað í
hverfið eftir að hafa verið erlendis.
Pobla de Lillet, Barcelona, 1979
til 1981
Þegar ég gerðist svo atvinnumaður
í handboltanum hjá FC Barcelona
fluttum við á Pobla de Lillet. Við
bjuggum við hliðina á hinum
þekkta íþróttaleikvangi Camp Nou,
sem er heimavöllur Barcelona-liðs-
ins. Ég kunni svona þokkalega við
mig þarna, þó ég þrífist ekkert vel
í svona stórborgum, þetta er svona
aðþrengjandi, allt of mikil umferð
og ég var til að mynda aldrei með
bíl, tók bara leigubíl. Ég náði að
verða Spánarmeistari með liðinu
og held að ég og Ólafur Stefánsson
séum þeir einu sem hefur tekist
það.
Oswald Spengler Strasse,
Leverkusen, 1981 til 1983
Frá Spáni lá svo leiðin til Þýska-
lands, nánar tiltekið Leverkusen i
miðju Ruhr-héraði. Þar bjuggum
við í Oswald Spengler Strasse. Við
vorum aðeins 20 mínútur þaðan inn
í miðborg Kölnar.
Það var mikill munur að koma
frá svona blóðheitum Spánverjum
yfir í þýska agann. Þeir á Spáni
voru kannski svona kæruleysis-
legri, en það var meira aðhald í
Þýskalandi, sem ég kunni vel við.
Atvinnumannalífið er svona hálf-
gert sældarlíf, æfingar á morgn-
ana og kvöldin, leikur einu sinni í
viku og góður frítími á milli. Á
þeim tíma sem við vorum þarna
var mikið af Íslendingum, Axel Ax-
elsson og Atli Eðvaldsson, og við
héldum hópinn eins og landanum
er tamt.
Seinna árið okkar þar kom svo
Sigurður Gunnarsson, æskufélagi
úr Víkingi, til Leverkusen og það
var alveg frábært að hafa landa
sinn hjá sér. Hjá löndum erlendis
myndast alltaf vinskapur sem
verður ólíkur öðrum.
Trönuhólar, Reykjavík, 1983 til
1987
Við seldum Kríuhólana þegar við
fluttum til Spánar og keyptum fok-
helt hús við Trönuhóla. Þarna gerð-
um við mikil mistök. 100% verð-
bólga var á þessum tíma og nær
allt okkar fé fór í að klára húsið.
Við fluttum svo inn árið 1983, en
lánin voru fljót að vaxa yfir húsið
og við gáfumst upp. Þarna fór mik-
ið af okkar sparifé í hreina vitleysu
og oft hefur maður blótað fjár-
málaástandinu sem var á þessum
tíma.
Lynghagi, Reykjavík 1987 til1989
Við seldum Trönuhólana og keypt-
um okkur íbúð við Lynghaga. Rétt
hjá Dabba. Frábær gata alveg við
Ægisíðu og alltaf leið okkur jafn
vel, hvar sem við höfum nú búið.
Engjasel, Reykjavík, 1989 til1990
Við vorum ákveðin í að eignast aft-
ur einbýli og festum tímabundið
kaup á íbúð við Engjasel með það
að markmiði að trappa okkur upp í
stærri eign. Við vorum heppin á
þessum tíma, minni eignir hækk-
uðu á meðan stærri eignir stóðu í
stað.
Lindarsel, Reykjavík, 1990 til
1996
Við keyptum okkur svo fallegt ein-
býlishús við Lindarsel og komum
okkur vel fyrir. Þetta er heimili
okkar í dag, frábært hús með út-
sýni yfir borgina. Þegar við fórum
aftur út settum við húsið á leigu,
sem betur fer. Vorum að hugsa um
að selja en eins og allir vita hafa
svona eignir hækkað langt umfram
annað.
Ferdinand Lassalle Strasse,
Wuppertal, 1996 til 2000
Ég gerðist svo þjálfari hjá Wupp-
ertal og þar bjuggum við í götu
sem heitir Ferdinand Lassalle
Strasse. Við vorum um tuttugu Ís-
lendingar þarna og það var mikill
samgangur á milli. Konurnar
héldu mikið saman og þrátt fyrir
að ég væri þjálfarinn skemmdi það
ekkert fyrir vinskapnum. Við vor-
um komin með fjögur börn, og það
var mjög gott að vera með þau
þarna úti. Þau voru reyndar orðin
svo miklir Þjóðverjar í sér að ef
við hefðum verið eitt ár í viðbót
hefðu þau ekki komið með okkur
heim. Ég kann vel við Þjóðverjana,
finnst þeir vera gott fólk
Lindarsel, Reykjavík, 2000 –
Eins og níutíu og fimm prósent
þeirra sem fara út í atvinnu-
mennskuna er maður kominn heim
og ég kann best við mig hér heima.
Það blundaði vissulega í mér þegar
ég hætti með Haukana að fara aft-
ur út, en þegar börnin eru annars
vegar er erfitt að fara að rífa sig
upp og fara af stað. Ég útiloka ekki
neitt, en verð samt líka að horfast í
augu við það að ég er ekkert að
yngjast og get ekki verið að stúss-
ast í þessu endalaust. ■
Við erum á fasteignasölu í
Reykjavík fyrir um tuttugu og
fimm árum. Þar starfa ásamt eig-
andanum, sem þótti hrokafullur
og var fámáll, ritari sem var ung
kona alin upp í sveit, var röggsöm
og vissi að að ljúka varð öllum
verkum sem byrjað var á, dugn-
aðarforkur, og sölumaður sem
var drengur ágætur. Þeim þrem-
ur tókst að afla sér ágætlega, þó
skoðanamunur væri mikill. Svo
kom að eigandinn réð lærling,
launalaust. Sá vildi verða sölu-
maður og þeir, það er eigandinn
og lærlingurinn, gerðu með sér
samning um að lærlingurinn
kynnti sér starfið, launalaust.
Svo fór að sölumaðurinn og
ritarinn reyndu að fræða lærling-
inn. Fer fáum sögum af árangri
kennslunnar. Dag einn tók
lærlingurinn að grúska í geymslu
sem var inni af kontórnum. Þar
fann hann tvo gamla blekpenna,
sjálfblekunga, og krukku af bleki.
Hann vildi umbuna sölumannin-
um fyrir þægindin í sinn garð og
gaf honum annan pennann, sem
hann hafði áður fyllt af bleki.
Næst er frá að segja að sölu-
maðurinn var upptekinn í símtali
þegar tilkynnt er að fleiri vilji ná
tali af honum. Hann losnar ekki
strax, þannig að lærlingurinn
talar við þann sem hringdi. Það
reyndist vera kona sem ætlaði að
koma og gera tilboð í búð sem hún
hafði skoðað kvöldið áður.
Lærlingurinn sótti fast að fá að
taka á móti tilboðinu. Sölumaður-
inn var hugsi, en sagði já með skil-
yrðum. Þannig háttaði til að sölu-
maðurinn og lærlingurinn sátu í
herbergjum sem voru samhliða,
hurðarop var í milliveggnum, en
þar sem skrifborðin voru nánast á
sama punkti herbergjanna sá
sölumaðurinn ekki lærlinginn þar
sem hann sat við borðið, og öfugt.
Sölumaðurinn gat hins vegar séð
þá sem sátu gegnt lærlingnum.
Hann sagðist ætla að þykjast vera
við vinnu, en reyna að hlusta eftir
að allt gengi vel eftir. Svo kom að
konan og maðurinn komu til að
gera tilboðið. Ritarinn vísaði þeim
inn til lærlingsins og settust þau
gegnt honum. Sölumaðurinn kink-
aði kolli til þeirra og þóttist eftir
það vera upptekinn við vinnu. Þau
höfðu ekki setið lengi þegar þau
skelltu upp úr, ekki venjulegum
hlátri, heldur vandræðalegum en
innilegum hlátri. Fengu ekki við
sig ráðið.
Andarataki síðar birtist
lærlingurinn í hurðaropinu. Hann
var ekki bara skelfdur. Hann var
blekblár um munninn og þegar
hann tók að reyna að tjá sig reynd-
ist hann vera með blekbláar tenn-
ur, blekbláa tungu og munnholið
var allt blekblátt.
Hvað kom fyrir, spurði sölu-
maðurinn. Lærlingurinn svaraði
engu, en tár mynduðust í augum
hans. Konan sagði að hann hefði
orðið svo stressaður þegar hann
ætlaði að skrifa niður tilboðið að
hann hefði sett pennann að vörum
sér og í taugakasti saug hann eins
og hann ætti lífið að missa allt
blekið úr pennanum. Hann var
sendur heim í leigubíl og kom ekki
aftur. Hjónin keyptu íbúðina.
Saga af...
lærlingi
NÝJAR
ÍSLENSKAR
ÞJÓÐSÖGUR
með Sigurjóni
SIGURJÓN M. EGILSSON
sigurjon@frettabladid.is Var lífsglaður strákur
VIGGÓ SIGURÐSSON MEÐ HUNDUNUM SÍNUM TVEIM „Ég spilaði fótbolta með
rauðhærðum karli, sem reyndist vera Ómar Ragnarsson að halda sér í formi.“