Fréttablaðið - 06.03.2005, Side 52
Þórarinn Elmar tekur á móti blaða-
manni á heimili sínu í Árbænum.
Þau hjónin voru meðal frum-
byggja í hverfinu og njóta nálægð-
arinnar við náttúruna í kringum
Elliðaárnar sem renna þar spöl-
korn frá – ganga nánast daglega og
hafa gert í 30 ár. Hann segist ekki
enn finna fyrir viðbrigðunum að
hætta í viðskiptum eftir öll þessi
ár, þeir tveir mánuðir sem liðnir
eru síðan hann seldi fyrirtækið
hafa farið í alls kyns stúss, upprifj-
un á sögunni og fleira. „Það er
helst konan sem hefur komist að
hvað ég er leiðinlegur, ég hef verið
svo mikið heima síðan ég hætti,“
segir hann og hlær.
Miklar breytingar hafa orðið á
viðskiptaumhverfinu á Íslandi frá
því Þórarinn Elmar hóf eiginn
rekstur. Það var árið 1956 sem
hann, í félagi við Davíð S. Jónsson
heildsala, keypti Max sem þá
framleiddi fyrst og fremst undir-
fatnað.
Margir fengust við fatafram-
leiðslu og telst honum til að 37 slík
fyrirtæki hafi starfað í landinu,
utan sjóklæðagerðanna sem voru
nokkrar.
Fljótlega eftir kaupin hófu þeir
félagar framleiðslu sjófatnaðar og
réðust af hörku í samkeppni við þá
sem fyrir voru á markaðnum.
„Það var mjög öflugur fataiðn-
aður í landinu á þessum árum. Við
nutum tollverndar því háir tollar
voru á innfluttum fatnaði en lágir
eða jafnvel engir tollar á þeim hrá-
efnum sem við þurftum til fram-
leiðslunnar.“
Hálfgerð öskubuska
Það voru þó ljón í veginum. Allt
var skammtað, ekki síst gjald-
eyririnn sem var nauðsynlegur
til kaupa á aðföngum. Þórarinn
Elmar rifjar upp viðskipti sín við
gjaldeyrisnefndina sem hafði alla
þræði í hendi sér. „Ég hafði fundið
vél í London sem límdi saman
sauma með hátíðnisuðu. Þetta var
bylting í frágangi sauma því áður
höfðu þeir ekki haldið vatni. Við
gengum á fund fulltrúa allra
stjórnmálaflokkanna í gjaldeyris-
nefndinni og byrjuðum á Sjálf-
stæðisflokknum þá Alþýðuflokkn-
um og svo Framsóknarflokknum.
Allir sögðu nei. Það var ekki fyrr
en við töluðum við Guðmund
Hjartarson fulltrúa Sósíalista-
flokksins í nefndinni sem við feng-
um vilyrði til að kaupa vélina.“
Þetta er gott dæmi um það um-
hverfi sem mönnum var gert að
starfa í og vitaskuld fór það mis-
jafnlega í menn. Þórarinn Elmar
segir mótlætið ekki hafa dregið úr
sér máttinn. „Við hertumst bara
við þetta.“
Þessi afgreiðsla meirihluta
gjaldeyrisnefndar er gott dæmi
um afstöðu yfirvalda til fataiðnað-
ar á þessum árum. „Fataiðnaður-
inn var aldrei hátt skrifaður í þjóð-
félaginu, þetta var svona hálfgerð
öskubuska og hefur alltaf verið,“
segir Þórarinn Elmar.
Byggði á eigin reynslu
Max náði strax góðri fótfestu á
markaðnum, ekki síst fyrir þá
nýjung sem fyrirtækið bauð upp á
í frágangi sauma. Fyrir vikið
skýldu sjóklæðin frá Max betur en
önnur. Keppinautarnir misstu
sumir máttinn og eftir tíu ára
starfsemi Max í eigu Þórarins
Elmars og Davíðs bauðst þeim að
kaupa Sjóklæðagerð Íslands hf.
sem þá hafði starfað frá 1926. Þeir
slógu til og árið 1966 voru fyrir-
tækin sameinuð undir heitinu
Sjóklæðagerðin hf.
„Þetta var mjög öflugt fyrir-
tæki og markaðsstaðan var góð. Ég
man að Samband íslenskra sam-
vinnufélaga reyndi meðal annars
að keppa við okkur og stofnaði til
þess fyrirtækið Vör í Borgarnesi.
Þeir héldu út í nokkur ár áður en
þeir hættu.“
Þegar Þórarinn Elmar vann að
vöruþróun bjó hann að því að hafa
alist upp í sjávarplássi og verið
sjálfur til sjós. Hann er frá Eski-
firði og bjó þar þangað til hann fór
suður í skóla. „Ég lék mér í fjör-
unni sem barn og var blautur í fæt-
urna til fjórtán ára aldurs. Svo fór
ég á síld nokkur sumur og vann þá
í stakk úr hrágúmmíi sem var of-
boðslega þungur og skildi eftir
svarta rönd á hálsinum.“
Fyrirtæki hans framleiddu líka
vinnuvettlinga fyrir sjómenn en
Þórarinn Elmar vissi sem var að
góðir vettlingar voru mikilvægir
til sjós. „Þegar ég var á sjó vorum
við alltaf kaldir og blautir á hönd-
unum og allir í fleiðrum og sárum.
Við framleiddum því vettling sem
hélt höndunum hlýjum og þurr-
um.“
Flutt til Lettlands
Eftir tíu ára samrekstur Sjóklæða-
gerðarinnar og Max ákváðu Þórar-
inn Elmar og Davíð að skipta fyrir-
tækjunum á milli sín. Þeim bar
ekki saman um hvert skyldi stefna
og töldu ráðlegast að skilja að
skiptum. „Davíð fór út með Max
en ég var áfram með Sjóklæða-
gerðina,“ segir Þórarinn Elmar.
Í Sjóklæðagerðinni var sjó- og
regnfataframleiðsla auk vín-
ylglófaframleiðslunnar en svo
nefnist sjóvettlingurinn góði. Í
Max var undirfatadeildin sem
raunar var orðin hálfgerð sport-
eða útivistardeild og svo kápudeild
en fyrirtækið var orðið stórtækt í
kápu- og frakkaframleiðslu og
hafði vart undan að sauma.
Þórarinn Elmar rifjar upp að
Max hafi þegar hafist handa við
sjófataframleiðslu í samkeppni við
Sjóklæðagerðina og hann sjálfur
hafi bætt nýrri vinnufatadeild við
sitt fyrirtæki.
Þannig voru fyrirtækin rekin
næstu tuttugu ár eða þar til 1997
þegar Sjóklæðagerðin keypti Max
á nýjan leik.
Sú mikla breyting hefur orðið í
framleiðslunni að hún fer að lang-
mestum hluta fram í Lettlandi. Þar
er hagkvæmara að sauma föt en á
Íslandi. Þórarinn Elmar segir það
hafa verið gríðarlega erfiða
ákvörðun að segja upp fjölda
starfsfólks og fara með fyrirtækið
úr landi. „Þetta var mjög slæmt.
Ég veit ekki hvernig ég slapp
lifandi frá þessu.“
EFTA og flís
Sjóklæðagerðin hefur bæði siglt
úfinn sæ og lygnan og ávallt háð
harða samkeppni, ýmist við aðra
íslenska framleiðslu eða innfluttan
fatnað. Þórarinn Elmar kunni vel
við sig í slíku umhverfi og segist
hafa þrifist vel í samkeppni. „Við
vorum alltaf á tánum og það er því
að þakka að við lifðum af. Við
höfðum frumkvæðið á markaðnum
og komum sífellt með nýjungar. Ég
kunni afskaplega vel við mig í
samkeppninni.“
Það kom líka fyrirtækinu til
góða á erfiðum tímum að Sjóklæða-
gerðin framleiddi vörur í mörgum
flokkum. Þegar illa áraði í einni
grein gat verið meira að gera í
annarri. „Þannig flutum við áfram
meðan aðrir sukku,“ segir Þórarinn
Elmar. „Og svo skipti vandvirknin
vitaskuld miklu máli. Við lögðum
alla tíð áherslu á mikla vandvirkni.“
Sem dæmi um erfitt skeið í
rekstrinum var þegar Ísland gekk
í Fríverslunarsamtök Evrópu,
EFTA, árið 1980 en þar með var
grunnur lagður að tollfrjálsum
innflutningi á öllum fatnaði.
„Við áttum ekki aðra kosti en að
hagræða í rekstrinum hjá okkur og
hófumst handa strax 1970 þegar
aðildin var í farvatninu. Við feng-
um ráðgjöf að utan og tókum með-
al annars upp alþjóðlegt fram-
leiðslukerfi sem enn er notað. Það
var ekki annað að gera en að mæta
þessu. Þeir sem ekki gerðu það
fóru á hausinn.“
Þórarinn Elmar hefur gengið í
gegnum mörg skeið með fyrirtæki
sín. Eitt þeirra ánægjulegasta
stendur enn, nefnilega flís-skeiðið.
Allir eiga flíspeysur og margir
fleiri en eina og fleiri en tvær.
„Það var bylting þegar flísefnið
kom og það var virkilega gaman að
vinna með það,“ segir hann.
Vítin til að varast þau
„Ég vildi gjarnan vera að minnsta
kosti tíu árum yngri, það eru svo
spennandi tímar fram undan,“
segir Þórarinn Elmar Jensen sem
hefur ekki fengið nóg af fatafram-
leiðslunni þrátt fyrir að hafa stað-
ið í henni í hálfa öld. Honum fannst
enda erfitt að selja fyrirtækið en
taldi það engu að síður skynsam-
legt. „Þetta var erfið ákvörðun en
nauðsynleg. Þetta er fjölskyldu-
fyrirtæki og sárgrætileg reynsla
fortíðar sýnir okkur að mörg góð
fyrirtæki hafa splundrast eftir að
kallinn er dauður,“ segir hann og
brosir en tekur fram að hann hafi
ekki séð nein teikn á lofti um að
þannig myndi fara fyrir Sjóklæða-
gerðinni. „Krakkarnir mínir eru
skynsamir og kemur vel saman en
ég er að forða því að nokkuð svona
geti komið upp. Börnin og konan
mín voru þessu sammála.“
Fyrirtækið var eftirsótt, svo
mjög raunar að Þórarinn Elmar
hafði vart tíma til að reka það á
síðasta ári. „Það var enginn friður
fyrir fyrirspurnum um hvort fyr-
irtækið væri til sölu. Ýmsir aðilar
á Íslandi og útlöndum hringdu lát-
laust og föluðust eftir því. Þetta
kitlaði auðvitað og endaði sumsé
með því að ég seldi.“
Þórarinn Elmar telur fyrirtæk-
ið í höndum ágætra manna og ber
ekki kvíðboga fyrir framtíð þess.
Þegar fer að hægjast um hjá
honum ætlar hann að sinna áhuga-
málum sínum sem eru útivist, bók-
menntir og tónlist. Og aldrei að
vita nema hann skelli sér í píanó-
tíma. „Ég spila eftir eyranu en
langar að læra nótur og kannski ég
geri það,“ segir hann og lítur í átt
að píanóinu á heimilinu sem stend-
ur og bíður eftir að húsbóndinn
setjist niður með nótnaheftin og
spili Brahms og Beethoven eða
kannski Bítlana. ■
24 6. mars 2005 SUNNUDAGUR
Kraft-gallarnir,
Björk og blöðrubólgan
Vinsældir Kraft-gallanna, sem Sjóklæðagerðin framleiddi, voru gríðarlegar um
tíma og óhætt að segja að enginn hafi getað spáð fyrir um það að þeir kæmust í
tísku. Þórarinn Elmar rifjar upp hvernig það atvikaðist. „Þetta voru loðfóðraðir
samfestingar og framleiddir fyrir menn sem unnu úti í kulda. Þetta þróaðist út í
að krakkarnir vildu klæðast eins og pabbi og því fórum við að sauma þá í barna-
stærðum. Gallarnir slógu algerlega í gegn og að lokum voru allir komnir í þá.
Svo var Björk komin í þetta. Hún fór á ball í gallanum og fór bara úr efri hlutan-
um og batt hann utan um sig. Þetta komst í blöðin og þá jókst salan enn þá
meira.
Þetta var mjög ánægjuleg framleiðsla en hafði sína neikvæðu hlið. Það kom fyrir
að kaupmenn urðu reiðir ef við gátum ekki afgreitt þá, sérstaklega fyrir jól. Við
höfðum bara ekki undan að sauma.
Læknir nokkur þakkaði mér fyrir þessa framleiðslu. Hann sagði að blöðrubólgu-
tilfellum hefði snarfækkað með tilkomu gallanna.“
Þórarinn Elmar í hnotskurn
Fæddur: 27. september 1930.
Maki: Svanhildur Gestsdóttir.
Börn: Gestur, Markús, Elín Dóra, Þórarinn Einar og Svanhildur.
Menntun: Verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands 1949.
Fyrri störf: Sjómennska og síðar sölumennska hjá Skagfjörð og heildverslun
Davíðs S. Jónssonar.
Áhugamál: Útivist, tónlist og bókmenntir.
66˚ norður
Sjóklæðagerðin hefur framleitt
undir vörumerkinu 66˚ norður síðan
1977. „Ég bað Kristínu Þorkelsdóttur
hjá Auglýsingastofu Kristínar að
finna nafn sem gæti verið allsherjar
vörumerki fyrir framleiðsluna. Hún
lét mig hafa mörg nöfn að velja úr
og mér fannst 66˚ norður best.
Eitt sinn hringdi útlendingur af
Hótel Sögu og spurði hvort hann
gæti fengið þjónustu. Hann mis-
skildi nafnið, hélt að sexin stæðu
fyrir eitthvað annað,“ segir Þórarinn
Elmar og hlær.
66. breiddargráðan liggur yfir landið
norðanvert, um Önundarfjörð í
vestri og Bakkafjörð í austri.
Það vakti athygli á dög-
unum þegar Sigurjón
Sighvatsson kvikmynda-
gerðarmaður keypti hið
gamalgróna fyrirtæki
66˚ norður af Þórarni
Elmari Jensen. Þórar-
inn vann að fatafram-
leiðslu í 49 ár og kynnt-
ist ýmsu á þeim langa
tíma. Í viðtali við Björn
Þór Sigbjörnsson stiklar
hann á stóru í sögunni
og rifjar upp góða tíma
og erfiða.
FRÉTTAB
LAÐ
IÐ
/G
VA
Kunni vel við mig í samkeppninni
ÞÓRARINN ELMAR JENSEN Hann er nú sestur í helgan stein eftir hálfa öld í fatafram-
leiðslu. „Það er helst konan sem hefur komist að hvað ég er leiðinlegur, ég hef verið svo
mikið heima síðan ég hætti,“ segir hann og hlær.