Fréttablaðið - 01.06.2005, Side 46
MIÐVIKUDAGUR 1. JÚNÍ 2005 MARKAÐURINN18
H É Ð A N O G Þ A Ð A N
Hrund Rudolfsdóttir, framkvæmdastjóri
Lyfja og heilsu, þurfti ekki að hugsa sig lengi
um þegar hún valdi veitingastaðinn La Prima-
vera til að hitta blaðamann Markaðarins. Þar
sem höfuðstöðvar Lyfja og heilsu eru á Suð-
urlandsbraut er það nokkur fyrirhöfn að fara
í hádegismat í miðbænum og því kjörin til-
breyting að borða á þessum huggulega ít-
alska stað þaðan sem útsýni er til útibús Lyfja
og heilsu við Austurstræti.
VILL BETRI MIÐBÆ
Hrund hefur verið forstjóri Lyfja og heilsu í
tvö ár og tók við formennsku í Samtökum
verslunar og þjónustu fyrr í
vor. Við höfðum bæði lent
í nokkrum vandræðum
við að finna stæði
þegar við komum niður
í miðbæ og í ljós kemur
að Hrund hefur töluverðan
áhuga á stöðu miðbæjarins og hug-
myndir um þróun hans. Það vill líka svo til að
Lyf og heilsa reka apótek í Austurstræti en
Hrund telur að miðbærinn ætti að vera miklu
líflegri verslunarstaður en raun ber vitni.
„Það að keyra inn í miðbæinn er ekki nógu
auðvelt,“ segir hún. „Í staðinn fyrir að þétta
byggðina og búa til borgarstemmningu þar
sem hægt er að halda uppi almenningssam-
göngum hafa menn ákveðið að þenja borgina
út. Mér var bent á það um daginn að skipulag
borgarinnar til næstu tíu ára gerir ráð fyrir að
við verðum komin með borg sem er jafnstór að
flatarmáli og París,“ segir hún.
Henni finnst að vanda þurfi betur til skipu-
lagsmála í miðbænum. „Það er komið alveg
nóg af kaffihúsum,“ segir hún. Verslun Lyfja
og heilsu er einmitt á milli skemmtistaðarins
Óðals og útibús ÁTVR. Þar við hliðina er svo
annar vínveitingastaður, Kaffi Austurstræti.
Þessir nágrannar draga gjarnan til sín fólk
sem telur sig eiga erindi í lyfjabúðir og því
hafa Lyf og heilsa þurft að gera töluverðar
öryggisráðstafanir í miðbæjarútibúinu.
TAKMARKAÐ SVIGRÚM HÉR Á LANDI
Rekstur Lyfja og heilsu hefur gengið vel að
undanförnu en Hrund segir að ákveðnir erfið-
leikar séu samt sem áður í rekstrinum. Lyfja-
verð séu ákveðið af hinu opinbera. Verðsam-
keppni á sér stað í gegnum afslætti sem lyfsal-
arnir veita, þar sem krónískt veikir sjúklingar
og öryrkjar njóta hæstu afsláttanna. Þetta
fyrirkomulag er í hættu því þrengt hefur verið
mjög að möguleikum lyfjabúða til afslátta með
handvirkri og flatri lækkun lyfjaverðs. Hávær
umræða er í samfélaginu og meðal stjórn-
málamanna um lyfjaverð og sú krafa að það sé
sambærilegt við það sem er í nágrannalöndun-
um. Þetta sé hins vegar erfitt, meðal annars
vegna smæðar markaðarins og ýmissa krafna
við lyfjasölu. Til dæmis vegna þeirrar kröfu
að lyf séu skráð sérstaklega á Íslandi. Hún
segir að hægt væri að lækka kostnað til dæmis
með því að tekin væri ákvörðun um samræma
norræna skráningu lyfja. „Það væri hægt að
hugsa sér kerfi þar sem við segjum einfald-
lega að ef eitthvað er nógu gott fyrir Dani þá
er það nógu gott fyrir okkur líka,“ segir hún.
LÆRÐI MARGT AF DÖNUM
Reyndar er Danmörk Hrund nokkuð hugleikin
enda bjó hún þar í sjö ár. Hún sótti
þangað framhaldsnám í al-
þjóðaviðskiptum og starfaði
þar í nokkur ár í kjölfarið
áður en hún var ráðin rekstr-
arstjóri Lyfja og heilsu fyrir
um fjórum árum. Hún segist hafa
lært margt af Dönum. „Ég lærði ákveðin
vinnubrögð. Danir eyða áttatíu prósentum af
tímanum í að skipuleggja og tuttugu prósent-
um í að framkvæma. Við eyð-
um tuttugu prósentum í að
skipuleggja, áttatíu pró-
sentum í að framkvæma og
síðan tuttugu prósentum í við-
bót í að leysa úr allri vitleys-
unni sem við skipulögðum
ekki nógu vel,“ segir Hrund
og hlær við. Hún bætir því við
að stundum geti þetta bráð-
læti Íslendinga til fram-
kvæmda verið til góðs. „Af
því við erum fljótari af stað
getum við stundum verið á
undan í mark,“ bætir hún við.
Hún segir að henni hafi
líka stundum þótt Danir vera
stirðbusalegir og hún saknaði
þess viðhorfs að allt sé gert
til að leysa úr þeim málum
sem upp koma. Hún hafi því
gætt sín á því að viðhalda eld-
móðinum á meðan hún lærði
öguð og skipulögð vinnu-
brögð af frændum okkar í
Danmörku. „Danirnir sem
eru að fara í sumarfrí núna
eru ekki bara búnir að skipu-
leggja það frí heldur eru þeir
líklega búnir að ákveða
hvenær þeir ætla á næsta ári
og hvert þeir ætla að fara og
svo skipuleggja þér mörg ár fram í tímann
hvert þeir ætla að fara á stórafmælum og
leggja fyrir peninga til þess í mörg ár. Ég held
að ég verði nú aldrei þannig,“ segir hún.
Við ræðum um hversu ólíkt viðhorf Danir
hafa til ýmissa hluta. „Þeir eru eina fólkið sem
ég veit um sem mætir í partí með sinn eigin
bjór og tekur glerin með sér heim,“ segir hún.
LYF OG HEILSA Í ÚTRÁS
Alls reka Lyf og heilsa á fjórða tug útibúa víða
um land og segir Hrund að félagið telji að
stærri tækifærin hér á landi í smásölu lyfja
séu að mestu uppurin. Fyrir um ári síðan var
því farið út í vinnu við að endurskilgreina
starfsvettvang Lyfja og heilsu.
Í stað þess að beina sjónum sínum eingöngu
að innlendum smásölumarkaði munu Lyf og
heilsa starfa almennt á heilbrigðismarkaðin-
um. Félaginu var því skipt upp í einingar og
móðurfélaginu gefið nafnið Lyf og heilsa
eignarhaldsfélag.
Nú fyrir helgi gekk félagið frá kaupum á
verslun Össurar hf. við Suðurlandsbraut og
keypti göngugreiningarhluta þeirrar starf-
semi. Þá munu Lyf og heilsa hefja útrás til
Evrópu á næstu misserum og hefur þegar
verið ákveðið að gera strand-
högg á tveimur stöðum í Suð-
austur-Evrópu þótt Hrund
vilji ekki að svo stöddu gefa
upp hvar það verði.
„Við erum að reyna að
taka alla þá reynslu sem við
erum búin að afla hér heima
og endurtaka þetta annars
staðar. Það þarf að taka
ýmislegt inn í myndina, bæði
hvað varðar menningarlegt
og lagalegt umhverfi,“ segir
hún. Lyf og heilsa fylgja því
í fótspor margra annarra ís-
lenskra smásala sem telja að
reynslan hérlendis geti gefið
þeim forskot í samkeppni á
öðrum mörkuðum.
REYNSLA MIKILVÆGARI EN
PRÓFGRÁÐA
Hrund segir að útrásin hjá Ís-
lendingum kunni að skýrast
að einhverju leyti af því hver-
su algengt sé að Íslendingar
sæki menntun sína til út-
landa, auk þess sem mikill
kraftur hafi leystst úr læðingi
við frelsisvæðingu í verslun
og viðskiptum á síðustu árum.
„Við erum almennt mjög vel
menntað fólk og sendum fólk út um allan heim í
nám og það kemur til baka með mikla víðsýni,“
segir hún. Að hennar mati hefur það verið lán í
óláni að íslenskir háskólar hafi ekki boðið upp á
allt hugsanlegt nám því það hafi orðið til þess að
fólk sækti menntun til útlanda. „Ég held nefni-
lega að prófið sé eitt en það að fara út, prófa að
búa erlendis, sjá hvað er að gerast, ná sér í sam-
bönd og allt þetta. Það er meira virði en próf-
gráðan,“ segir hún.
Hádegisverður fyrir tvo
á La Primavera
Grillaður aspas
með beikoni, kapers og balsamik
Pönnusteikt rauðspretta
með basil, parmesan og sítrónu
Pólentu sítrónubaka
með þeyttum rjóma
Drykkir:
Vatn
Sódavatn með sítrónu
Kaffi og espressó
Alls: 5.180
▲
H Á D E G I S V E R Ð U R I N N
Með Hrund
Rudolfsdóttur
framkvæmdastjóra Lyfja og heilsu
Aldrei fær Aura-
sálin tækifæri
Alveg er það merkilegt hvernig
fólk fellur fyrir því trekk í trekk
að viðskiptajöfrar landsins séu
eitthvað merkilegur pappír. Eftir
því sem Aurasálin fær best séð
eru þeir flestir bara að herma
eftir því sem aðrir hafa gert og
það án þess að geta heimildar.
Tökum sem dæmi þessa svoköll-
uðu Bakkabræður. Öllum finnst
það hryllilega sniðugt að þeim
skuli hafa dottið í hug að fólk vildi
kaupa tilbúna rétti í búðum til að
hita upp heima hjá sér. Hvar er
fréttin í þessu? Ég bara spyr. Er
þetta eitthvað nýtt? Geta ekki allir
sagt sér það sjálfir að þetta er það
sem fólkið vill?
Aurasálinni finnst ekki mikið til
þess koma að þessir bræður hafi
fengið þá hugmynd að selja 1944
rétti í Bretlandi. Þetta er augljóst
mál og Aurasálin hefði alveg eins
getað gert þetta eins og þessir
Bakkabræður – já og sennilega
miklu betur ef hún hefði verið að
pæla í þessum matvælabransa á
sínum tíma.
Sama er með þennan Magnús Þor-
steinsson í Avion. Allt í einu fær
hann tólf milljarða fyrir að hafa
keypt í Landsbankanum. Það er
auðvitað fínt fyrir hann en Aura-
sálin fær nú ekki séð að hún hefði
ekki alveg eins getað eignast
þessa milljarða.
Aurasálin er nefnilega búin að
vera að lesa úttektina um einka-
væðinguna í Fréttablaðinu. Þetta
er auðvitað nauðaómerkileg úttekt
og ekkert nýtt í þessu sem Aura-
sálin hefði ekki getað sagt sér
sjálf. Þetta er meira og minna
tekið úr einhverjum skýrslum og
einhverjum viðtölum við menn
sem stóðu í þessu braski á sínum
tíma. Ekkert nýtt í því svosem,
Aurasálin hefði auðvitað allt eins
getað gert svona úttekt, nema
náttúrlega miklu betur.
En við þennan lestur rifjast það
upp fyrir Aurasálinni að hún var
náttúrlega búin að sjá það út fyrir
löngu síðan að það væri hægt að
græða á að kaupa banka. Það er
ekkert nýtt í því að menn græði á
að eiga banka og menn þurfa ekki
að vera einhverjir sérstakir snill-
ingar til að sjá það út.
Það er óhætt að fullyrða að fáir
fylgjast eins vel og Aurasálin með
viðskiptalífinu og þjóðmálunum.
Og það hefur Aurasálin lært að fá
störf og verkefni í samfélaginu
eru þannig að Aurasálin gæti ekki
gert þau miklu betur en þeir sem
hafa verið valdir til að gera þau.
Ef Aurasálin hefði haft tækifæri
til að byggja upp svona matvæla-
fyrirtæki væri það í dag miklu
stærra en Bakkavör. Ef Aurasálin
hefði að kaupa Landsbankann
væri sá banki miklu betri og
stærri en hann er í dag. Og ef
Aurasálin hefði haft fyrir því að
skrifa svona úttekt um bankamál-
in hefði hún orðið miklu betri en
þetta gutl sem Fréttablaðið er að
birta.
Vandamál Aurasálarinnar er að hún
fær aldrei nein tækifæri. Á meðan
alls kyns aular fá gullin tækifæri
til að græða peninga og skrifa
greinar í blöð er Aurasálinni hald-
ið frá kjötkötlunum á skipulegan
hátt. Og á meðan tækifærin koma
ekki getur Aurasálin ekki annað
en bara bitið á jaxlinn og haldið
áfram að koma þeim skilaboðum á
framfæri að það sem þessir menn
eru að gera er í raun og veru
ekkert sérlega merkilegt þegar á
öllu er á botninn hvolft.
A U R A S Á L I N
Hrund Rudolfsdóttir
Starf: Framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu
Fæðingardagur: 25. mars 1969
Maki: Kristján Óskarsson, læknir
Börn: Hanna Björt f. 1994 og
Ásrún Sara f. 1998.
Danir eyða áttatíu prósentum af tímanum í að skipuleggja og tuttugu
prósentum í að framkvæma. Við eyðum tuttugu prósentum í að skipu-
leggja, áttatíu prósentum í að framkvæma og síðan tuttugu prósentum í
viðbót í að leysa úr allri vitleysunni sem við skipulögðum ekki nógu vel.
Með Lyf og heilsu í útrás
Hrund Rudolfsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu, segir að tækifæri fyrirtækisins hér á landi
séu sennilega uppurin. Þess vegna eru Lyf og heilsa orðin „group“ og stefnan sett á útrás. Þórlindur
Kjartansson hitti hana á veitingastaðnum La Primavera og heyrði meðal annars skemmtilega kenn-
ingu um muninn á vinnubrögðum Íslendinga og Dana.
Fr
ét
ta
bl
að
ið
/G
VA
VÍÐSÝNI AF NÁMI MIKILVÆG
Hrund segir það lán í óláni að ís-
lenskir háskólar hafi lengi vel verið
fremur veikburða því fyrir vikið
hafi íslenskir stúdentar sótt í
nám til útlanda og öðlast
reynslu og víðsýni sem
hafi gagnast þeim
jafnvel betur en
prófgráðan.