Fréttablaðið - 04.12.2005, Qupperneq 60
4. desember 2005 SUNNUDAGUR32
Í lokabindi ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson,
sem út kemur í næstu viku, er
meðal annars fjallað um frægan
umræðuþátt í sjónvarpinu árið
1975 þar sem Halldór var meðal
þátttakenda. Þetta mun vera eina
sjónvarpsefnið með Laxness sem
ekki hefur varðveist. Virðist sem
upptökunni hafi verið eytt en
engin svör hafa fengist um það af
hverju. Hér er gripið niður í bók
Hannesar þar sem um þetta er
fjallað.
Allir horfðu á
„Nær allir landsmenn fylgdust með
sjónvarpinu þessi árin. Laxness
kom þar fram í frægum þætti um
mannréttindi þriðjudagskvöldið
4. nóvember 1975. Tilefnið var,
að Kremlverjar höfðu gengið
hart fram gegn andófsmönnum í
Ráðstjórnarríkjunum. Gunnar G.
Schram stjórnaði þættinum, sem
var tekinn upp síðdegis þennan
dag, skömmu fyrir útsendingu.
Með Laxness í sjónvarpssal
voru Gunnar Gunnarsson skáld,
Matthías Johannessen ritstjóri
og Jónas Árnason alþingismaður.
Þeir settust við skeifulaga borð,
Matthías lengst til hægri frá
áhorfendum séð, Laxness við
hlið hans, stjórnandi þáttarins í
miðjunni, Gunnar við hlið hans og
Jónas yst til vinstri. Gunnar var
orðinn hrumur mjög. Hann hafði
það, sem hann vildi
segja, með sér á blaði og
las það upp. Stundum átti
hann í erfiðleikum með
að finna réttu línurnar. Í
upphafi sögðu Laxness og
Matthías eins og Gunnar
nokkur vel valin orð um
ofsóknir ráðstjórnarinnar
gegn rithöfundum. Þegar
röðin kom að Jónasi, mótmælti
hann því, sem hann kallaði
fyrirlestrahald í þættinum.
Hann vék sér að Matthíasi og
skammaði Morgunblaðið fyrir
hræsni í mannréttindamálum.
Matthías kvaðst efast um heilindi
Þjóðviljans í þeim málum. Hófst
kappræða milli Jónasar og
Matthíasar, en Gunnar og Laxness
hlustuðu þegjandi á.“
Reiðisvipur Laxness
Þá kemur að atvikinu sem gerði
þennan sjónvarpsþátt frægan.
Hannes skrifar: „Smám saman
færðist reiðisvipur yfir andlit
Laxness, uns hann barði báðum
hnefum nokkrum sinnum í borðið
til þess að fá orðið, sló síðan
höndunum út frá sér með lófana
upp, eins og hans var vandi, og
sagði: „Væri ekki hægt að lyfta
umræðunni á hærra plan, ha?“
Þögnuðu þeir Jónas og Matthías
snarlega, en Gunnar sagði ekki
orð. Laxness flutti síðan innblásna
tölu gegn hinu innantóma karpi,
sem einkenndi umræður á Íslandi.
„Þessi þvæla ríður
húsum á hverjum
degi.“
Gunnar las
aftur upp af blöðum
sínum, sem hann hélt
á skjálfandi hendi. Hann taldi
einsýnt, að mannkynið færist, yrði
ekki hugarfarsbreyting; hverjum
og einum væri hollt að láta gott
af sér leiða. Þáttarstjórnandinn
spurði Laxness, hvort hann væri
bjartsýnn á framvinduna. Lax-
ness sagðist ekki leggja sig niður
við að velta vöngum yfir því. Þeir
Jónas og Matthías töluðu síðan
nokkuð um mannréttindabrot, en
Laxness neytti ekki réttar síns
til lokaorða, heldur hneigði sig og
læsti munninum saman.“
Jónas vildi breytingar
„Eftir upptökuna óskaði
Jónas Árnason eftir því við
upptökustjórann, Rúnar Gunnars-
son, að þátturinn yrði styttur.
Vildi hann taka út skammir
nóbelsskáldsins um þá Matthías.
Rúnar kvaðst ekki geta gert það,
nema allir þátttakendur yrðu
sammála um það. Hann bar þessa
ósk undir Laxness, sem setti upp
undrunarsvip og svaraði: „Vilja
þessir menn klippa þátt með
Gunnari Gunnarssyni, fremsta
rithöfundi þjóðarinnar? Hvaða
menn eru það sem vilja klippa
Gunnar Gunnarsson? Ég þekki
ekki þannig menn og þykist vita að
þeir séu hvergi til.“ Var ákveðið að
senda þáttinn út óbreyttan. Eftir
upptökuna skiptust Laxness og
Gunnar á nokkrum vingjarnlegum
orðum. Laxness spurði, hvort
hann færi enn að vinna klukkan
sex á morgnana, eins og forðum
í Hillerød, þegar þeir unnu
saman að þýðingu Sölku Völku á
dönsku. Gunnar svaraði játandi
og hló við. Hann sagðist þó ekki
vera eins handfljótur að hita sér
morgunkaffi og áður. Hann yrði
að taka sér hvíld, þegar hann
hefði skrifað hálfan annan tíma í
einu. Síðan var Gunnar leiddur út
úr húsinu og honum ekið heim til
sín.“
Yfir kaffibolla
„Þeir Laxness, Matthías
og Jónas settust niður yfir
kaffibolla frammi í setustofu við
upptökusalinn. Laxness kveikti
sér í stórum vindli. Matthías
sagðist taka nærri sér að hafa
verið í þessum þætti. Öðru máli
gegndi sennilega um Jónas, sem
væri þingmaður og vanur hörðum
átökum. „Þingmaður,“ sagði þá
Laxness. „Þingmaður! Skyldi vera
til nokkuð ómerkilegra en það að
vera þingmaður?“ Þátturinn vakti
mikla athygli. Halldór Pétursson
teiknaði skopmynd af honum
í Morgunblaðið, sem birtist 6.
nóvember. Sjónvarpsgagnrýnandi
blaðsins, Jóhannes Helgi, sagði að
Jónas Árnason hefði lítt notið sín.
„Hinu má samt ekki gleyma, að
karp þeirra Matthíasar og Jónasar,
sem síðarnefndur átti upptökin að,
varð þá altént til þess, að við urðum
þeirrar skemmtunar aðnjótandi
að sjá Halldór Laxness næstum
rifna af heilagri bræði. Þar með er
sú hlið Halldórs varðveitt á filmu
handa framtíðinni.“ Það gekk að
vísu ekki eftir. Af einhverjum
ástæðum var myndbandinu með
þættinum eytt, og hafa engin svör
fengist um það, hver þar hafi verið
að verki. Gunnar Gunnarsson lést
tveimur vikum seinna.“
Væri ekki hægt að lyfta
umræðunni á hærra
plan, ha?
Upptöku af frægum
sjónvarpsþætti þar sem Halldór
Laxness reiddist þingmanni
Alþýðubandalagsins og ritstjóra
Morgunblaðsins var eytt.
Jónas Árnason. Halldór Laxness. Gunnar Shcram prófessor. Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri. Gunnar Gunnarsson skáld.
Skopteikning
Halldórs
Péturssonar.