Fréttablaðið - 10.12.2006, Qupperneq 20
Þ
egar blaðamaður
hitti Lovísu á kaffi-
húsi í miðborginni
voru tvær til þrjár
stundir liðnar frá því
hún var vakin með
þeim fréttum að hún hefði hlotið
fjórar tilnefningar til Íslensku
tónlistarverðlaunanna fyrir nýút-
kominn frumburð sinn – Please
don’t hate me. „Ég er ennþá hálf
rugluð yfir þessu,“ segir hún. „Ég
var alveg steinhissa þegar ég fékk
fréttirnar í morgun. Miðað við við-
tökurnar leyfði ég mér að vona að
ég yrði kannski tilnefnd sem
bjartasta vonin [sem hún er hins
vegar ekki, merkilegt nokk] en
þetta kom mér algjörlega á
óvart.“
Stjarna Lovísu hefur risið hratt að
undanförnu. Fyrir örfáum mánuð-
um samdi hún nokkrar blússkotn-
ar laglínur á gítar, tók upp og setti
á MySpace-síðuna sína undir
nafninu Lay Low. Í kjölfarið kom
útgáfufyrirtækið Cod Music að
máli við hana og bauðst til að gefa
út plötu. Fyrir nokkrum vikum leit
frumraunin dagsins ljós og í dag
er Lay Low á hvers manns vörum;
hún lék fyrir troðfullri Fríkirkju á
útgáfutónleikum á dögunum og
platan rýkur úr plötubúðum. Ekki
ónýtt ársverk hjá 24 ára gamalli
stúlku.
„Það var nánast tilviljun að ég
fór að syngja blús; ég byrjaði
vegna þess að þetta er þægileg
tónlist til að syngja við, ég get ekki
sungið hvað sem er, og setti það á
netið. Ég fékk ágæt viðbrögð sem
gaf mér meira sjálfstraust og ég
bætti nokkrum lögum við. Áður en
ég vissi af höfðu Cod Music sam-
band og buðu mér að gefa út plötu.
Eftir það varð ekki aftur snúið.“
Hún kveðst vitaskuld himinlif-
andi yfir að sér gangi vel en í sömu
andrá sé það líka skrýtið. „Það
stóð aldrei til að þetta færi svona.
Ég var bara eitthvað að læðast
með tónlistina mína á netinu. Nú
er ég búin að gefa út plötu og fullt
af fólki veit hver ég er og það
hefur verið dálítið sérstakt að
meðtaka það.“
Eðli málsins samkvæmt hefur
árið líka verið annasamt; Lovísa
hætti í Listaháskóla Íslands til að
geta tekið upp plötuna, en er nú í
fullri vinnu í Skífunni á Lauga-
vegi. Nánast hver einasta frístund
er frátekin fyrir tónleika og kynn-
ingarstarf og hún játar að síðustu
vikur og mánuðir hafi verið
strembnir. „Ég var dálítið sein að
klára plötuna út af flensu sem
hefur dregist endalaust á langinn.
Ég var ekki orðin nógu góð þegar
ég tók upp plötuna en ákvað að
láta slag standa. Eftir vinnu fer ég
yfirleitt að spila einhvers staðar
og svo kannski á æfingu strax á
eftir, þannig það er ansi mikið að
gera þessa stundina. Mér finnst
þetta mjög gaman en það er ekki
möguleiki á að vera í skóla á sama
tíma.“
Hún segir að útgáfutónleikarn-
ir í Fríkirkjunni hafi verið hápunkt-
urinn hingað til. „Ég vissi ekkert
við hverju átti að búast. Í fyrstu
fannst mér Fríkirkjan vera alltof
stór en svo seldust miðarnir upp í
forsölu. Veikindin voru enn að há
mér og ég dældi í mig penisilíni og
sterum fyrir tónleikana. Þegar ég
mætti var ég í stresskasti og viss
um að ég myndi fá hóstakast og
ekki getað sungið, ég er bara ekki
nógu vön söngkona ennþá. Og það
skánaði ekki þegar ég kom inn í
kirkjuna. Ég er vön að spila á
börum og stöðum þar sem er reykt
og skvaldur í salnum. Þarna var
hins vegar grafarþögn, sem var
nánast vandræðalegt til að byrja
með. En svo byrjaði ég að spila og
stressið minnkaði og eftir á var ég
mjög ánægð með þessa tónleika og
ótrúlega sátt með hvað margir
mættu.“
Hún viðurkennir að vera stressuð
og gagnrýnin á sjálfa sig en þó
innan heilbrigðra marka. „Þetta
heldur mér frekar á tánum en
aftur af mér; ég passa mig á því að
vera alltaf vel undirbúin og þótt ég
sé stundum óánægð með einhverja
tónleika er ég líka ánægð þegar ég
veit að ég hef staðið mig vel.“
Lovísa kveðst vissulega vera
þakklát fyrir viðtökurnar sem hún
hefur hlotið en segir líka að í kjöl-
far hinnar óvæntu velgengni finn-
ist henni hún standa frammi fyrir
ákvörðunum sem hún var ekki við-
búinn að þurfa að taka. „Þetta
hefur gerst svo hratt að ég er enn
að reyna að átta mig á hvað ég er
búin að koma mér í og hvert ég vil
fara. Ég veit ekki ennþá hvað ég
vil verða þegar ég verð stór en
líður dálítið eins og ég þurfi að
ákveða það núna. Ég á ábyggilega
alltaf eftir að hlusta á tónlist en ég
veit ekkert hvort ég eigi eftir að
spila það sem eftir er.“
Lovísa Elísabet fæddist í London.
Hún er íslensk í móðurættina en
faðir hennar er Breti af srílönksku
bergi brotinn. Tveggja ára gömul
flutti hún heim til Íslands með
móður sinni, bjó í Kópavogi til átta
ára aldurs en þaðan í frá í Laugar-
dalnum. Þótt hún hafi byrjað að
læra á píanó ung að aldri segist
hún ekki hafa verið sérstaklega
listhneigð sem barn og unglingur.
„Ég var bara ósköp venjuleg þegar
ég var yngri, dálítill strákur í mér
og alltaf að gaurast í körfubolta,
en hlustaði á Take That og Blur og
var með plakat af Whitney Houston
uppi á vegg. Mamma sendi mig
hins vegar í píanónám og þegar ég
var tólf eða þrettán ára byrjaði á
að spila á bassa og gítar og var í
nokkrum hljómsveitum.“
Lovísa gekk í Menntaskólann
við Hamrahlíð og tónlistaráhug-
inn óx með árunum. Fyrir þremur
árum byrjaði hún í hljómsveitinni
Benny Crespo’s Band, en það var
ekki fyrr en tiltölulega nýlega sem
hún fann hjá sér þörf til að semja
og spila eigið efni. „Ég hef lengi
hlustað á blústónlist, gospel-tónlist
og gamal kántrí, menn á borð við
Hank Williams, og þetta hefur
sjálfsagt bara þróast með mér í
gegnum árin.“
Veikindi hafa sett strik í reikning-
inn hjá Lovísu. Upp úr tvítugu
fékk hún heilaæxli sem hrjáði
hana í tvö ár og segir hún að það
hafi haft áhrif á sig til frambúðar.
„Þetta var frekar ömurlegur tími.
Ég var orðin hálfgerður öryrki;
gat ekki unnið eða verið í skóla
eða keyrt bíl. En þegar mér batn-
aði áttaði ég mig á hvað það er
mikils virði að vera heilbrigður.
Það hljómar kannski eins og klisja
en maður lærir að meta lífið upp á
nýtt, taka því ekki sem sjálfsögðu,
og ég reyni að gleyma því ekki. Og
þetta á kannski líka sinn þátt í því
að ég fór að gera eigin tónlist.“
Veikindin urðu meðal annars til
þess að hún fór að læra geisla-
fræði í Háskóla Íslands. „Ég vissi
ekki einu sinni að stétt geislafræð-
inga væri til fyrr en ég veiktist. Þá
kynntist ég faginu og fannst það
áhugavert og skráði mig í háskól-
ann. Ég hætti hins vegar eftir
rúmt ár því ég fann að verklegi
þátturinn átti ekki við mig. En
þetta var gagnlegt og áhugavert
nám, ég veit til dæmis miklu meira
um líkamann en ég gerði.“
Það er orðið algengara en ekki að
íslenskir tónlistarmenn reyni fyrir
sér utan landsteinanna eftir að
hafa getið sér góðan orðstír heima
fyrir. Lovísa er engin undantekn-
ing og heldur utan strax eftir ára-
mót í lítið tónleikaferðalag. „Ég
hef aldrei spilað úti áður svo það
verður mjög spennandi. Ég hef
líka mikinn áhuga á ferðalögum
en hef ekki ferðast jafn mikið og
ég vildi.“
Faðir Lovísu og föðurfjölskylda
búa í London og hún hefur haft
annan fótinn þar í gegnum tíðina.
Hún segist þó ekki getað hugsað
sér að flytja frá Íslandi. „Ekki
ennþá að minnsta kosti. Margir
vinir mínir eru að flytja út um
þessar mundir en mér líður vel
hérna heima og er ekki tilbúin að
flytja út strax.“
Fyrir utan tónleika erlendis í
janúar og febrúar er næsta ár
óskrifað blað í huga Lovísu. „Það
er ekkert ákveðið. Ætli ég verði
ekki bara að spila og vinna í Skíf-
unni. Fyrir þann sem hefur ástríðu
fyrir tónlist er eiginlega ekki hægt
að hugsa sér betri stöðu en þá sem
ég er í einmitt núna. Og ég er virki-
lega þakklát fyrir það.“
Veit ekki hvað ég er
búin að koma mér í
Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur þekkja kannski ekki margir en flestir kann-
ast við listamannsnafnið Lay Low, söngkonunnar sem hefur verið á vörum svo
margra undanfarnar vikur. Í samtali við Bergstein Sigurðsson ræðir Lovísa um
frægð á ofurhraða og hvernig það er að vera leitandi sál á krossgötum.
Þetta hef-
ur gerst svo hratt að ég
er enn að reyna að átta
mig á hvað ég er búin
að koma mér í og hvert
ég vil fara.