Fréttablaðið - 30.05.2007, Síða 10

Fréttablaðið - 30.05.2007, Síða 10
 30. MAÍ 2007 MIÐVIKUDAGUR2 fréttablaðið iðnaður Nýr iðnaðarráðherra, Össur Skarphéð- insson, mun leggja mikla áherslu á að samræma náttúruvernd og náttúru- nýtingu í ráðuneyti sínu auk þess sem hann mun ýta undir farsælt umhverfi fyrir hátækni- og sprotafyrirtæki á kjörtímabilinu. „Ég lít svo á að það séu tvenn meginverkefni sem bíða mín sem nýs iðnaðarráðherra. Hið fyrra felst í að taka þátt í því að skapa sátt milli verndunar og nýtingar náttúrunnar. Við höfum lagt mikla áherslu á það í mínum flokki, og það kemur glögglega fram í stefnu- yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að við vilj- um fara hægt í þessum efnum,“ segir Össur og bætir því við að mikið kapp verði lagt á að ljúka gerð rammaáætlunar um náttúru- vernd og nýtingu. Þar verði farið skipulega í öll svæði og þau metin út frá náttúrufars- legu verðmæti þeirra. „Þannig verður hægt að taka frá, þess vegna um alla eilífð, svæði sem við teljum vera ómetanleg,“ bætir hann við. „Okkar nálgun er í reynd frábrugðin því sem áður var, að því leyti að við skoð- um málin og komumst að niðurstöðu út frá verndargildi náttúrusvæðanna. Önnur teg- und nýtingar verður þá að lúta því.“ Össur segir þetta vera annað meginverk- efnið í þessu nýja ráðuneyti. „Til dæmis liggur fyrir að þar til þessu lýkur þá verð- ur ekki heimilt að fara með nokkrum hætti rannsóknir eða nýtingu á tilteknum, mjög verðmætum svæðum eins og Öskju, Brenni- steinsfjöllum, Kverkfjöllum, Hveravöllum og Torfajökli. Þá verður alveg óheimilt að nota Langasjó í virkjunarskyni.“ Þetta segir Össur mjög vandmeðfarið og kalli á mjög náið samstarf milli iðnaðar- og umhverfis- ráðuneytis. „Eitt af mínum fyrstu verkum í gærmorgun, eftir að ríkisstjórnarfundi sleppti, var einmitt að leggja fyrstu drög að slíku samstarfi,“ segir Össur, en í stefnu- yfirlýsingunni hafa ráðuneytin gefið sér ákveðinn tíma til að ljúka þessu og stefna á árið 2009 sem er um miðbik kjörtímabilsins. Þangað til rammaáætlunin verður tilbúin segir Össur að beðið verði með allar fram- kvæmdir sem séu háðar ákvörðunum hans sem ráðherra. „Hitt verkefnið, sem ég hlakka ekkert síður til að takast á við, er að breyta með vissum hætti áherslum hér í ráðuneytinu. Ég vil leggja mjög mikla áherslu á uppbygg- ingu á hátækni- og þekkingarframleiðslu og skapa hér mjög farsælt umhverfi fyrir sprotafyrirtæki,“ segir ráðherra sem var fremstur meðal jafningja í þingflokknum þegar skrifuð var mjög ítarleg stefna sem tengist uppbyggingu á hátækni- og sprota- fyrirtækjum. „Þannig að ég tel mig vera með mjög vel útfærða stefnu sem mig lang- ar til að hrinda í framkvæmd, að sjálfsögðu í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti. Hin nýja megináhersla af minni hálfu verður á þennan málaflokk.“ ÁHERSLA Á HÁTÆKNI OG SPROTAFYRIRTÆKI Össur segir að í þessu felist margar breyting- ar og það taki langan tíma að hrinda þeim í framkvæmd. „Breytingarnar lúta að því að veita stórauknu fjármagni í ýmsa rannsókn- arsjóði og styðja við hugmyndir sem frum- kvöðlar hafa fengið til þess að þær komist á þann legg að þær geti notið fyrirgreiðslu og fjármögnunar frá þeim sjóðum sem fyrir eru og bankastofnunum.“ Þá segist Össur hafa skoðað sérstaklega hvernig hægt sé að skapa sérstaka skattaumgjörð sem örvar fólk til að leggja þolinmótt fjármagn í sprotafyrir- tæki. „Líkt og var þegar menn máttu kaupa ákveðinn skammt af hlutabréfum á hverju ári gegn skattfrelsi. Það var gert af þeirri ríkis- stjórn sem ég sat í áður og ég vil gjarnan út- færa þetta kerfi fyrir sprotafyrirtækin. Að auki vil ég horfa til þess hvernig þetta hefur verið gert í öðrum löndum, eins og til dæmis Englandi, sem ég hef skoðað sérstaklega,“ segir Össur og bætir því við að ákaflega sterk áhersla verði á þessi mál í ráðuneytinu. „Þessi áhersla á hátækni og sprotafyrir- tæki smellur eins og flís við rass við nýjar breytingar sem verið er að gera á stofnun- um ráðuneytisins,“ segir Össur og nefnir þar að 1. ágúst næstkomandi verði lokið við samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknar- stofnunar byggingariðnaðarins. „Úr því verð- ur eins konar nýsköpunarmiðstöð. Áhersla verður lögð á að hún starfi í sem mestu sam- starfi við háskólaumhverfið, nærist á þeim hugmyndum sem spretta hjá ungum vísinda- mönnum sem eru að ljúka sínum framhalds- verkefnum; doktorsnemum og meistaranem- um og auðvitað því frábæra starfsliði sem er að finna innan háskólanna.“ DRÁTTARKLÁR FRAMTÍÐARINNAR Össur segist líta svo á að nýsköpun verði mjög mikilvæg þegar fram líða stundir til að skera úr um hvort Íslendingar haldi því samkeppn- isforskoti varðandi velferð íbúanna sem þeir hafa í dag. „Þau sprotafyrirtæki sem spretta úr jarðvegi hátækni og þekkingarframleiðslu og ná að vaxa og dafna upp í sterka stofna verða gríðarlegur dráttarklár í framtíðinni fyrir þetta samfélag,“ segir Össur og nefnir þar fyrirtæki á borð við Össur, Marel og með vissum hætti Íslenska erfðagreiningu. „Þessi fyrirtæki skapa gríðarlegan auð, framleiða mikla og verðmæta þekkingu og eru farin að skipta mjög miklu máli í atvinnulífi lands- manna. Ekki síst vegna þess að þau opna ungu fólki ný tækifæri til að finna viðfangsefni við sitt hæfi, finna störf sem hæfa mikilli mennt- un og ryðja brautina fyrir aðra.“ Þetta segir Össur vera þá byggðastefnu sem þjóðin þurfi á að halda; að skapa hér fjölbreytt og marg- brotið atvinnulíf sem býður upp á skemmti- leg störf fyrir þá sem hafa aflað sér nýrrar menntunar. „Ef við getum ekki fundið andlag hér á Íslandi fyrir krafta þessa fólks þá töpum við blóma kynslóðanna til útlanda. Þannig að þessu er ætlað að vera segulmagn fyrir unga fólkið til að halda því hér á Íslandi með því að skapa því betri lífsskilyrði og fjölbreytilegri starfstækifæri en annars staðar.“ Össur segist sjá fyrir sér að þessi nýsköp- unarmiðstöð gæti átt sér ból í Vatnsmýrinni í skjóli háskólanna beggja, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. „Það þarf þó ekki að einskorða sig við þá tvo heldur leita sam- starfs með öllum háskólunum.“ OLÍA VIÐ ÍSLANDSSTRENDUR Síðar á árinu eru fyrirhugaðar breytingar á iðnaðarráðuneytinu þegar ferðamálin fær- ast undir ráðuneytið. „Ég bind miklar vonir við þann málaflokk því hann er líka hluti af nýja atvinnulífinu eins og hátækni, þekk- ingar, framleiðslu og fjármálaþjónustu, og í því liggja mjög miklir möguleikar. Ekki síst vegna þess að í stöðugt vaxandi mæli eru velmegandi borgarar á Vesturlöndum að líta eftir tækifærum til að ferðast til landa sem eru ósnortin,“ segir Össur Össur segir margt fleira spennandi í ráðu- neytinu og nefnir þar sem dæmi nýtingu jarðefna á hafsbotni en nú liggja fyrir nið- urstöður sem verið er að meta í ráðuneytinu um að olíu gæti verið að finna á landgrunni sem tilheyrir Íslandi. „Þetta voru vangavelt- ur manna en nú virðist vera fræðilegur nið- urstöðugrunnur sem gefur til kynna að þær eigi við rök að styðjast. Innan nokkurra ára gæti því komið til þess að hér verði úthlutað leyfum til fyrirtækja til að leita að olíu.“ Ráðherra segist leggja sterkar umhverf- isáherslur innan ráðuneytisins og að hann muni leggja sig fram um það, eins og atgervi og fjármagn leyfa, að ýta undir framleiðslu og notkun á endurnýjanlegu eldsneyti, auk þess að ýta undir þróun umhverfisvænn- ar tækni. „Þá þarf að beita hagrænum hvöt- um til þess að ýta undir að menn geti keypt samgöngutæki sem ganga fyrir umhverf- isvænu eldsneyti og aðstoða með einhverj- um hætti við framleiðsluna. Þarna er hægt að lækka skatta og vörugjöld á slík tæki og búnaðinn sem þarf. Það liggja ákveðin drög að þessu nú þegar og full ástæða til þess að efna til samstarfs um þetta milli nokkurra ráðuneyta; umhverfis- iðnaðar og fjármála- ráðuneytisins til þess að ná fram heildstæðri stefnu um þessi mál.“ Að lokum nefnir Össur að draga þurfi úr losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda en þar glytti í nýja tækni sem gæti á næstu árum skipt sköpum varðandi losun, til að mynda frá stóriðju. „Þar er annars vegar sá mögu- leiki að nota kolefnisfrí rafskaut, sem er ný tækni sem ég ætla að kynna mér sérstaklega erlendis þegar líður á sumarið. Hins vegar er hér á Íslandi að hefjast tilraun innan háskóla- samfélagsins í tengslum við erlenda háskóla um niðurdælingu á koldíoxíði sem verður til við stóriðju. Þetta er mjög spennandi verk- efni sem forseti lýðveldisins hefur hrund- ið af stað hér innanlands með því að kalla til sérfræðinga frá Bandaríkjunum,“ segir iðn- aðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, sem hyggst leggja mikið kapp á að styðja og efla þessi verkefni með öllum tiltækum ráðum. sigridurh@frettabladid.is Nýsköpun er dráttarklár framtíðarinnar Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, leggur sérstaka áherslu á það í nýju ráðuneyti sínu að samræma náttúruvernd og náttúrunýtingu. Auk þess telur hann mikilvægt að búa hátækni- og sprotafyrirtækjum farsælt umhverfi hér á landi. FRÉTTABLAÐIÐ/VALGARÐUR

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.