Fréttablaðið - 09.06.2007, Qupperneq 4
Þriggja daga
leiðtogafundi G8-ríkjanna í
Heiligendamm í Þýskalandi lauk í
gær. Leiðtogarnir átta lofuðu að
veita sextíu milljörðum dala í bar-
áttu gegn alnæmi og öðrum sjúk-
dómum í Afríku, auk þess sem
þeir ákváðu að þrýsta enn frekar á
Írana um að hætta við kjarnorku-
áform sín. Ekkert samkomulag
tókst hins vegar um framtíð
Kosovo-héraðs.
„Auðvitað tókst okkur ekki á
tveimur fundum að leysa öll vanda-
mál heimsins,“ sagði Angela Merkel
Þýskalandskanslari á blaðamanna-
fundi í gær. „En okkur hefur miðað
í áttina,“ bætti hún við.
George W. Bush Bandaríkjafor-
seti fékk heiftarlega magakveisu og
þurfti að halda sig inni á hótelher-
bergi í gærmorgun meðan vinnu-
fundur var haldinn, en honum tókst
þó að eiga fund í einrúmi með
Nicolas Sarkozy, nýkjörnum forseta
Frakklands.
Talsmenn mótmælenda hrósuðu
sigri eftir að hafa haldið vegum til
og frá bænum Heiligendamm meira
og minna lokuðum þá þrjá daga sem
leiðtogafundurinn hefur staðið yfir.
Þýska lögreglan sagðist á hinn
bóginn einnig hafa náð sínum
markmiðum, sem voru þau að
halda ofbeldi í skefjum. Lögreglan
tók þann pól í hæðina að leyfa mót-
mælendum að vera óáreittir, jafn-
vel þótt þeir væru á svæðum þar
sem mótmæli áttu að vera bönnuð,
svo framarlega sem þeir kæmu
friðsamlega fram. Um leið og vart
varð við ofbeldi greip lögreglan
hins vegar inn í og tók harkalega á
fólki.
Meðal helstu tíðinda af fundin-
um í Heiligendamm var tillaga
Vladimírs Pútín Rússlandsforseta
að lausn á deilunni um fyrirhugað
eldflaugavarnakerfi Bandaríkj-
anna. Pútín vill alls ekki að Banda-
ríkjamenn setji eldflaugavarna-
kerfið upp í Evrópuríkjum, en á
fimmtudaginn sagðist hann geta
fallist á áformin ef kerfið yrði
staðsett í Aserbaídsjan.
Í gær bætti hann svo um betur
og sagðist ekkert hafa á móti því
að það yrði sett upp í löndunum
suðvestantil í Asíu.
„Það væri hægt að staðsetja
þetta í suðrinu, í ríkjum vinveitt-
um Bandaríkjunum eins og til
dæmis Tyrklandi, eða jafnvel í Írak
eða á sjávarpöllum,“ sagði Pútín á
blaðamannafundi í Heiligendamm
í gær.
Gátu ekki leyst öll
vandamál heimsins
Mótmælendur voru ánægðir með afrek sín í Heiligendamm. Bush sat inni á
hóteli með magakveisu meðan hinir leiðtogarnir héldu fund. Pútín segir eld-
flaugavarnakerfi Bandaríkjamanna mega vera í Tyrklandi eða Írak.
Ferðaskrifstofa
Leyfishafi
Ferðamálastofu
Engin sátt varð til milli
séra Hjartar Magna Jóhannsson-
ar og átta þjóðkirkjupresta sem
kært hafa Hjört til Siðanefndar
Prestafélags Íslands á fundi
nefndarinnar með aðilum málsins
á fimmtudag.
Hjörtur segir að hann hafi tjáð
siðanefndinni að hann hafi ekkert
rangt gert í málinu, og þjóð-
kirkjuprestarnir hafi lýst því yfir
að þeir standi við kæru sína.
Málið verði því væntanlega
áfram í meðförum nefndarinnar.
Prestarnir kærðu Hjört til
siðanefndar í byrjun mars vegna
ummæla hans í fréttaskýringar-
þættinum Kompási.
Siðanefnd mun
fjalla um málið
Fjárfestingarfélagið
Gnúpur, sem Kristinn Björnsson,
Magnús Kristinsson og Þórður
Már Jóhannesson fara fyrir,
greindi frá því í gær að það ætti
orðið fimmtungshlut í FL Group.
Þar með er félagið komið upp fyrir
Oddaflug B.V., eignarhaldsfélag
Hannesar Smárasonar forstjóra
FL, sem stærsti hluthafinn í FL.
„Við teljum félagið vera álit-
legan fjárfestingarkost eins og
staðan er í dag. Að mínu mati búa
meiri tækifæri í lykileignum
félagsins en markaðurinn sér í
dag,“ sagði Þórður Már Jóhannes-
son, forstjóri Gnúps, en félagið
hefur bætt við sig einu prósenti í
júní. Þrátt fyrir að vera stærsti
hluthafinn hefur Gnúpur ekki
óskað eftir því að fá mann í stjórn
FL.
Hannes á um 19,8 prósenta hlut
og Baugur Group um 18,2 prósent.
Jón Ásgeir Jóhannesson tók í gær
við stjórnarformennsku í FL
Group af Skarphéðni Berg
Steinarssyni í kjölfar skipulags-
breytinga hjá Baugi.
„Það er flott ef einhver hefur
áhuga á þessu félagi. Við erum
ánægðir þegar fjárfestar hafa
trú á því sem við erum að gera,“
voru viðbrögð Hannesar Smára-
sonar.
FL Group, sem metið er á 224
milljarða króna, er stærsti hlut-
hafinn í Glitni og heldur auk þess
utan um stóra hluti í AMR Corpor-
ation og Commerzbank.
Gnúpverjar stærri en Hannes
Bókmenntahátíðin í
Reykjavík verður haldin í áttunda
skipti dagana 9.-15. september en í
gær var kynntur listi yfir þá
tuttugu erlendu höfunda sem
staðfest hafa þátttöku sína.
Sjaldan hafa jafnmargar
stórskyttur ritvallarins skipað
þennan lista en á honum er að finna
ekki minni spámenn en Nóbels-
verðlaunahafann J.M. Coetzee,
írska metsöluhöfundinn Roddy
Doyle og mannréttindafrömuðinn
og fyrrverandi þingmanninn Ayaan
Hirsi Ali, sem hefur harðlega gagn-
rýnt viðhorf til kvenna í íslömskum
ríkjum.
Roddy Doyle
meðal gesta
Þrír af hverjum
fjórum landsmönnum telja það
mikilvægt að olíufélögin birti
upplýsingar um verð á eldsneyti á
heimasíðu sinni. Þetta eru
niðurstöður könnunar sem Félag
íslenskra bifreiðaeigenda fékk
Capacent Gallup til að vinna.
Alls töldu tæplega 77 prósent
aðspurðra það mikilvægt en tæp
tólf prósent lítilvægt að þessar
upplýsingar væru birtar.
Könnunin var gerð í kjölfar
þess að N1 ákvað að birta ekki
upplýsingar um verð á vef sínum,
en FÍB gagnrýndi þá ákvörðun
harðlega. Haft var eftir forsvars-
mönnum N1 í Fréttablaðinu að
þetta væru ekki upplýsingar sem
neytendur vildu sjá.
Mikill meirihluti
vill sjá verðið
Tillögur ESB um
útstreymi frá flugi eru óhóflega
dýrar og brengla samkeppni. Þetta
segir Evrópusamband flugfélaga,
sem telur að kostnaður flugfélaga
vegna tillagna um að fella flug
undir útstreymistilskipun ESB sé
stórlega vanmetinn. Tillögurnar
muni hafa áhrif á getu félaganna til
fjárfestinga. Sambandið telur
einnig að um leið dragi stórlega úr
þeim ávinningi sem fjárfesting-
arnar geti haft fyrir umhverfið.
Á vef Samtaka atvinnulífsins
kemur fram að tillögurnar geti haft
veruleg áhrif á íslensk flugfélög og
samkeppnisstöðu þeirra auk þess
sem fargjöld og gjöld fyrir
vöruflutninga muni hækka.
Tillögur ESB
óhóflega dýrar
Fimm voru fluttir til skoðun-
ar á slysadeild Landspítalans eftir
harða aftanákeyrslu í Skipholti í
gærmorgun. Í fyrstu var talið að
áreksturinn væri alvarlegs eðlis
og var slökkvilið kvatt á vettvang
þar sem reykur virtist stíga upp
úr öðrum bílnum. Það reyndist
gufa.
Báðir bílar skemmdust töluvert
við áreksturinn. Bílarnir voru
dregnir á brott með kranabíl.
Að sögn lögreglu slapp fólkið
við meiriháttar meiðsl og fengu
allir að fara heim að lokinni
læknisskoðun á slysadeild.
Fimm fluttir á
slysadeild