Fréttablaðið - 06.10.2007, Qupperneq 30
N
ú í vikunni ítrekaði
Nouri Al-Maliki,
forsætisráðherra
Íraks, kröfu sína
um að starfsmönn-
um bandaríska
öryggisfyrirtækisins Blackwater
verði vísað úr landi. Þetta sagði
hann fyrst stuttu eftir 16. sept-
ember síðastliðinn þegar á annan
tug manna lágu í valnum á götum
Bagdad eftir að bandarísku
öryggisverðirnir gripu til vopna.
Maliki sakar starfsmenn Black-
water um að hafa nokkuð oft beitt
skotvopnum sínum af alltof miklu
gáleysi.
Eigandi fyrirtækisins og stofn-
andi, Erik Prince, varði sína menn
eftir bestu getu þegar hann var
kallaður fyrir bandaríska þing-
nefnd nú í vikunni. Hann sagði það
„sorglegt“ að saklausir borgarar
hafi látið lífið, en sagðist ekki sjá
neitt sem bendi til þess að öryggis-
verðir fyrirtækisins hafi brugðist
við með óeðlilegum hætti.
Starfsmenn Blackwater í Írak
hafa hins vegar ítrekað verið ásak-
aðir um að vera alltof byssuglaðir.
Þeir eru sagðir skjóta að fyrra
bragði á saklausa borgara án þess
að hafa nokkra minnstu ástæðu til
að gruna að hætta sé á ferðum.
Starfsfólk eftirlitsnefndar Banda-
ríkjaþings staðfesti margar þess-
ar ásakanir í skýrslu, sem lögð var
fyrir nefndina nú í vikunni þegar
málefni Blackwater komu þar til
umfjöllunar.
Í skýrslunni kemur fram, og er
þar vitnað í upplýsingar sem
fengnar eru beint frá Blackwater,
að frá og með árinu 2005 hafi
starfsmenn fyrirtækisins beitt
skotvopnum í 195 skipti, eða einu
sinni til tvisvar í viku að meðaltali.
Í meira en 80 prósentum þess-
ara tilvika skutu liðsmenn Black-
water að fyrra bragði. Oftast
skutu þeir úr bifreið á ferð og
námu ekki staðar til að kanna
hvort dauðsfall hafi hlotist af.
Engu að síður staðfestir fyrirtækið
sjálft að skot úr byssum starfs-
manna þess hafi kostað sextán
manns lífið.
Býsna hátt hlutfall starfsmanna
Blackwater hefur auk þess á síð-
ustu árum verið rekið úr starfi
vegna drykkjuskapar, ósæmilegrar
hegðunar, ofbeldishneigðar og ann-
arra agabrota, eða um 120 manns
sem er rúmlega sjöundi hver
starfsmaður.
Gagnrýni Íraka hefur þó ekki ein-
ungis beinst að vafasömum starfs-
háttum Blackwater, heldur ekki
síður að þeirri staðreynd að
erlendir öryggisverktakar í Írak
hafa til þessa notið friðhelgi í land-
inu. Það má ekki sækja þá þar til
saka fyrir glæpi sem þeir fremja í
starfi.
Viðbrögðin við þessari gagnrýni
eru meðal annars þau að nú í vik-
unni samþykkti fulltrúadeild
Bandaríkjaþings frumvarp þar
sem þessi friðhelgi er afnumin.
Öldungadeild þingsins á þó eftir
að samþykkja sambærilegt frum-
varp áður en hægt verður að senda
það til George W. Bush forseta til
staðfestingar eða synjunar.
Í gær setti Condoleezza Rice,
utanríkisráðherra Bandaríkjanna,
ennfremur strangari reglur um
eftirlit með erlendum öryggisverk-
tökum í Írak. Framvegis verða til
dæmis öryggisverðir á vegum
ríkisins látnir fylgjast með ferðum
einkaverktakanna, auk þess sem
myndavélum verður komið fyrir í
bifreiðum þeirra.
Erik Prince, eigandi Blackwater,
er tæplega fertugur fyrrverandi
hermaður sem stofnaði fyrirtækið
árið 1997. Fyrstu árin bauð Black-
water opinberum starfsmönnum
upp á þjálfun í meðferð skotvopna
en eftir 11. september 2001 var
starfsemin víkkuð mjög út. Auk
þess að sinna almennri öryggis-
vörslu segist fyrirtækið á vefsíðu
sinni meðal annars veita faglausn-
ir á sviði hernaðar, löggæslu,
öryggisvörslu og friðargæslu.
Blackwater er eitt þriggja fyrir-
tækja í Írak sem sinna öryggis-
gæslu fyrir starfsmenn banda-
ríska utanríkisráðuneytisins þar í
landi. Á vegum Blackwater starfa
um 850 manns fyrir ráðuneytið,
flestir þeirra Bandaríkjamenn.
Blackwater komst líklega fyrst í
fréttirnar fyrir alvöru vorið 2004
þegar fjórir starfsmenn þess voru
sendir til bæjarins Falluljah
skammt vestur af Bagdad. Setið var
fyrir þeim og þeir drepnir, en atvik-
ið varð til þess að bandaríski herinn
gerði nokkru síðar árás á Fallujah
og lagði bæinn nánast í rúst.
Sagðir vera alltof byssuglaðir
Bandaríska öryggisfyrirtækið Blackwater hefur sætt harðri gagnrýni fyrir framgöngu starfsmanna sinna í Írak. Guðsteinn
Bjarnason komst að því að sitthvað virðist vera hæft í þeirri gagnrýni, þótt eigandi fyrirtækisins verji sína menn af kappi.