Fréttablaðið - 17.11.2007, Blaðsíða 22
22 17. nóvember 2007 LAUGARDAGUR
FÖSTUDAGUR, 9. NÓVEMBER.
Syrpan búin
Skáldsagan mín kom út í dag. Það
var notaleg tilfinning að fá bókina
í hendur og finna pappírs- og
prentsvertulyktina. Núna er lokið
þriggja sagna röð sem ég ætlaði
mér að skrifa um íslenskan sam-
tíma í byrjun nýs árþúsunds.
Fyrsta bókin í þessu „mil-
lenníum-tríói“, „Dauðans óvissi
tími“ fjallar um upphaf víkinga-
aldar hinnar nýju, útrás harð-
snúinna kappa sem láta greipar
sópa erlendis og koma svo heim og
láta að sér kveða.
Sú næsta, „Valkyrjur“, fjallar
um valdið í þjóðfélaginu okkar;
vald sem menn öðlast ýmist á
lýðræðislegan hátt eða með
peningum.
Nýja bókin fjallar svo um
stærstu meinsemd samtímans,
óhamingju þrátt fyrir efnislega
velsæld, fíkn og ásókn í eiturlyf
og hvers konar vímuástand.
Þar með er sú syrpan búin.
Sakamálasagan er bæði erfitt
og spennandi bókmenntaform. Á
þessari stundu er óvíst hvort ég
skrifa fleiri slíkar. Nóg er samt af
glæpunum og önnur
yrkisefni eru endalaus
en ævin ekki.
Hjá Lindu og Frey í
síðdegisútvarpi Rásar
tvö hitti ég frænda
minn og fornvin, Hrafn
Jökulsson en svo
skemmtilega vill til að
bók eftir hann kom líka út í dag.
Hrafn er svo mikill höfðingi að
hann gaf mér fyrsta eintakið sem
hann hafði fengið í hendur.
LAUGARDAGUR, 10. NÓVEMBER.
Bók um veginn
„Þar sem vegurinn endar“ heitir
bókin eftir Hrafn Jökulsson
skáld.
Þetta eru tærar og fallegar
minningar ofnar saman við hug-
leiðingar manns sem á miðjum
aldri hefur vitjað æskustöðva
sinna, lands, sögu og tungu, stað-
arins þar sem vegurinn endaði hjá
litlum dreng í íslenskri sveit og
uppgötvar að höfundurinn er nú –
af tilviljun þeirri sem sumir kalla
miskunn Guðs – staddur þar sem
vegurinn byrjar. Það var sjaldgæf
nautn að lesa þessa bók um sam-
ferðamann á veginum sem allir
feta en er jafn vandrataður fyrir
því.
MÁNUDAGUR, 12. NÓVEMBER.
Sögur úr Síðunni og frétt-
ir úr skotgröfum
Jólabókaflóðið er yndislegt. Á
hverju kvöldi laugar maður sig í
íslenskum litteratúr. Bækurnar
sem ég keypti í Frakklandi fá að
bíða þar til flóðinu slotar.
Í nótt las ég „Sögur úr Síðunni“
eftir Böðvar Guðmundsson.
Skemmtilegri sögumann er ekki
hægt að hugsa sér.
Sögurnar hans Böðvars vöktu
með mér angurværð eða saknað-
artilfinningu. Góðar bækur snerta
mann. Kannski var sá söknuður
sem lesturinn vakti eftir gömlu
og grónu samfélagi sem nú er
liðið undir lok eins og
æskan í einfald-
leika sínum?
Kannski
sakna ég einskis? Kannski var
frábær rithöfundur einfaldlega
að strjúka fimum fingrum um
hörpustrengi sálarinnar?
Ég les mikið þessa daga, til þess
var okkur Íslendingum ætlað raf-
ljósið. Til dæmis var ég að ljúka
við að lesa hörkuvelskrifaða
grein eftir verslunarstjórann í
Bónusi, Guðmund Marteinsson.
Guðmundur vísar því á
bug að fákeppni
valdi því að
vöruverð
hér á landi er svívirðilega hátt
og segir „að menn ættu að hafa í
huga þá staðreynd að ef Bónus
gæfi alla sína framlegð, hvert
einasta prósentustig, og seldi
matvöru án allrar álagningar,
óháð kostnaði verslunarinnar, þá
væri matar karfan samt ca. 45-
50% dýrari hér á landi en í öðrum
löndum Evrópu“.
Ef það er rétt hjá Guðmundi að
matarkarfan án verslunarálagn-
ingar sé helmingi dýrari hér en í
nágrannalöndum okkar þá er ekki
við verslunarmenn að sakast
heldur stjórnmálamenn sem
hljóta þá að hafa gleymt fólkinu
sem hefur trúað þeim fyrir
umboði sínu.
Þeir sem búa á Íslandi verða að
sætta sig við rokið, rigninguna
og kuldann en hvers vegna
þurfum við að sætta okkur við
stjórnmálamenn sem sýna engan
áhuga á kjörum venjulegs fólks
nema í tíu daga fyrir kosningar
fjórða hvert ár?
Það eru tveir og hálfur sólar-
hringur á ári!
Í hálfa öld lá mannskapurinn
frosinn í fjórum skotgröfum sem
voru merktar sjálfstæðismönn-
um, framsóknarmönnum, sósíal-
demókrötum og sósíalistum sem
voru uppnefndir kommúnistar.
Og enn er legið við í sömu gröf-
unum. Hvað hefur breyst?
Framsóknarmönnum hefur
fækkað eftir langa og dygga þjón-
ustu sem fallbyssufóður. Örfáir
tóra enn í gamalli mógröf sem
flestir hafa yfirgefið annaðhvort
til að komast fyrir fullt og allt í
ylinn hjá íhaldinu eða horfið á vit
rómantískra hugsjóna og heims-
hlýnunar hjá vinstri-grænum í
gömlu kommagröfinni.
Kratarnir hírast enn í sinni
djúpu gröf þótt þeir hafi eins og
vinstri-grænir skipt um nafn og
kennitölu og heiti núna í höfuðið á
pólskum skipasmiðum.
Einnig er rétt að geta þess að
þeir frjálslyndu einstaklingar
sem þótti naumt skammtað í
nóann sinn í íhaldsgröfinni hafa
grafið sér sína eigin gröf.
Áratugum saman hefur
ríkt pólitísk grafarþögn.
Ennþá er liðsmanna-
fjöldi í hverju þessara liða
svipaður og þegar ég var
að alast upp fyrir hálfri
öld.
Flokkurinn með 40%
fylgi og hinir með
60%. En alltaf helst
valdahlutfallið í
landinu í áttatíu á
móti tuttugu
Flokknum í vil.
Þá er ég að tala
um hið pólitíska
vald. Þegar kemur
að peningavaldinu
eru hlutföllin níutíu og níu á
móti einum.
Jú, ég veit að utanríkisráðherr-
ann er í Samfylkingunni og óska
Samfylkingunni til hamingju með
að hafa eignast utanríkisráð-
herra.
Það er kannski metnaðarmál
fyrir stjórnmálaflokk að eignast
utanríkisráðherra. Ég hélt samt
að tilgangurinn með því að vera í
pólitík væri að breyta einhverju.
Og þá er vissara að byrja á því að
breyta heima hjá sér – ef heimur-
inn skyldi reynast tregur til að
læra nýja siði.
Það er merkilegt að íslenskir
vinstri menn skuli hafa klórað sér
í hausnum yfir því áratugum
saman af hverju þeir sitja ævin-
lega uppi með svarta-pétur.
Lausnin liggur nefnilega í augum
uppi. Þeir sem ekki sjá hana ættu
að reyna að læra af þeim góða og
gegna íhaldsmanni Anders Fogh
Rasmussen sem gengur nú til
sinna þriðju kosninga í Danmörku
og mun að öllum líkindum hafa
sigur.
Galdurinn er einfaldlega sá að
stofna til samstarfs með þeim
sem hafa svipaðar grundvallar-
skoðanir og forðast að gera
ágreining um minniháttar mál að
aðalatriði. Þetta er nú allur
galdurinn.
Þetta hafa íslenskir vinstri
menn ekki getað lært. Hingað til
hafa þeir ævinlega kennt Fram-
sóknarflokknum um ógæfu sína.
Nú er það ekki hægt lengur.
Skyldi einhver rumska?
Fyrir mína parta skil ég til að
mynda ekki hvað Össur er að
dandalast í Absúrdistan að útmála
kostina við jarðhita. Hann er
„maður fólksins“ og á að halda sig
í námunda við þjóðina sem þarf
svo sannarlega á honum að halda.
Aurgoðarnir komast mætavel af
án hans.
Ég er sannfærður um að
Svan dís, Björn Ingi og Björgvin
eiga mun meira sameiginlegt í
pólitík en Ingibjörg Sólrún og
Geir Haarde munu nokkurn
tímann eiga.
Spurningin er hvort mín kyn-
slóð þarf að deyja út
áður en unga fólkið
nær saman?
Það er líka spurn-
ing hvort unga kyn-
slóðin í
landinu
kemst á
legg eða
lætur kæfa
sig með
vaxtaokri og
veruleika-
firrtum
snobbmetnaði
í stjórnmál-
um?
Af hverju er
ég að pæla í
þessu núna?
Vegna þess að
grein verslun-
arstjórans í
Bónusi vakti mig til
umhugsunar um hvort allt þurfi
endilega alltaf að vera eins og það
er.
Ég er orðinn nýjungagjarn með
aldrinum – og þá er ég ekki að
tala um ný leikföng heldur alvöru
tilbreytingu. Tíminn líður. Maður
getur ekki beðið endalaust.
FIMMTUDAGUR, 15. NÓVEM-
BER.
Vændishús og tíðar-
andi
Það voru fimm nauð-
ganir í Reykjavík um
síðustu helgi. Stund-
um finnst manni
eins og það sé ekki
alveg allt í lagi
hérna á þessu besta
landi af öllum mögu-
legum.
Ágætur maður
sagði við mig að
besta leiðin til að
fækka nauðgunum sé sú
að leyfa vændi. Hér er nefnilega
allt krökkt af ungum og kynsolt-
num austantjalds verka- og iðnað-
armönnum sem íslenska kvenfólk-
ið vill ekki líta við.
Ég hef mikla samúð með þess-
um mönnum og átti við sama
vandamál að stríða langtímum
saman þegar ég var á þeirra aldri.
Vændishús á hverju horni hefðu
varla leyst þann vanda því að ég
var yfirleitt jafnblankur og ég var
tæpur siðferðilega. Reyndar datt
þá engum í hug að opna vændis-
hús þar sem konur væru til sölu
handa þurfandi karlmönnum því
að tíðarandinn var sá að karlmenn
þyrftu að læra að sætta sig við að
það fá ekki allir allt sem þeir vilja
um leið og þeim dettur það í hug.
Kannski það sé að breytast?
Grafarþögn
Í Dagbók Þráins Bertelssonar er lesendum boðið að stinga sér til sunds í jólabókaflóðið. Sagt er frá velskrifandi verslunarstjóra,
rætt um vændishús, tíðaranda, stjórnmálasögu lýðveldisins og bent á augljósa staðreynd.
KÆRA DAGBÓK
Þráinn Bertelsson skrifar