Fréttablaðið - 10.04.2008, Síða 60
44 10. apríl 2008 FIMMTUDAGUR
maturogvin@frettabladid.is
Mjólkursamsalan opnaði nýjan vef
síðastliðinn mánudag, en á honum
er meðal annars að finna stærsta
uppskriftasafn landsins, að sögn
vefstjórans Aðalheiðar E. Ásmunds-
dóttur. „Þetta eru hátt í tvö þúsund
uppskriftir sem við höfum verið að
safna í gegnum árin. Þegar Osta- og
smjörsalan var keypt bættist veru-
lega í safnið, og við ætlum að bæta
reglulega við nýjum uppskriftum,“
útskýrir Aðalheiður. Uppskriftirn-
ar á vef Mjólkursamsölunnar hafa
allar verið prófaðar af fagmönnum,
en á vefnum er enn fremur að finna
myndbönd og matreiðsluþætti, sem
Aðalheiður segir ætlað að þróa
áfram.
Hún efast ekki um að internetið
hafi að mörgu leyti komið í staðinn
fyrir matreiðslubækur þegar fólk
er í uppskriftaleit. „Það hefur sýnt
sig að ein aðalástæðan fyrir því að
fólk kemur inn á vefinn okkar er
leit að uppskriftum. Uppskrifta-
safnið okkar er bara fyrsti hluti af
því sem koma skal. Fólk getur núna
skráð sig í klúbb, þar sem það fær
sendar uppskriftir reglulega og
getur búið til sína eigin matreiðslu-
bók, en við ætlum að auka þjónust-
una enn meira þegar fram í sækir,“
segir Aðalheiður.
Vef Mjólkursamsölunnar má
finna á slóðinni www.ms.is. - sun
Uppskriftasafn MS á netið
> Mundu...
...að brýna hnífana þína
reglulega. Þeir verða
bitlausir með tímanum, og
því um að gera að
fjárfesta í brýni til
að renna yfir eggina
reglulega. Þannig
haldast þeir beittir
og mun þægilegri í
notkun.
Þau leiðu mistök urðu hér á matar-
síðunni fyrir viku að í uppskrift að
gulrótarköku vantaði sykurinn.
Uppskriftin birtist því hér í sínu
rétta formi, fyrir þá sem enn vilja
gæða sér á gulrótarköku.
Gulrótarkaka
4 egg
1 ¼ bolli grænmetisolía
2 bollar sykur
2 tsk. vanilludropar
2 bollar hveiti
2 tsk. matarsódi
2 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
2 tsk. kanill
3 bollar rifnar gulrætur
1 bolli saxaðar pekanhnetur
Krem:
½ bolli mjúkt smjör
225 g mjúkur rjómaostur
4 bollar flórsykur
1 tsk. vanilludropar
1 bolli saxaðar pekanhnetur
Hitið ofninn í 175 °C og smyrjið
kökuform. Hrærið saman eggjum,
olíu, hvítum sykri, og 2 tsk. af van-
illudropum í stórri skál. Blandið
hveiti, matarsóda, lyftidufti, salti
og kanil saman við. Hrærið gulrót-
um út í, og blandið pekanhnetum
saman við, ef vill. Hellið í formið
og bakið í um 40-50 mínútur, þar
til tannstöngull sem stungið er í
miðjuna kemur hreinn út. Kælið í
forminu í um 10 mínútur, og þar
eftir á grind. Blandið saman
smjöri, rjómaosti, flórsykri og
vanilludropum í skál og hrærið
þar til blandan er slétt. Bætið
hnetum í, ef vill. Berið á kalda
kökuna.
Rétt uppskrift
Anna Sigríður Helgadóttir,
söngkona og tónlistarstjóri
við Fríkirkjuna í Reykja-
vík, býður upp á girnilegt
sumarsalat að þessu sinni.
Hún er hrifin af því þegar
hlutirnir í eldhúsinu ganga
hratt og vel fyrir sig.
„Þetta salat er hollt og gott að grípa
í. Það er fljótlegt og einfalt þegar
maður er búinn að kaupa inn,“
segir Anna Sigga, eins og hún er
kölluð. „Svo er það líka matarmikið
af því að maður er bæði með kjöt
og rækjur og endist manni alveg
ágætlega. Ef maður setur til dæmis
ekki olíu og edik nema yfir það sem
maður ætlar að borða getur þetta
alveg enst í svona tvo daga,“ bend-
ir Anna Sigga á. Hún mælir þá með
því að skammtur dagsins sé settur
í skál, salatdressingunni hellt yfir
og diskurinn látinn standa í um
korter. „En þetta verður að vera
góð ólívuolía. Hún á alltaf að vera
extra virgin. Hún er kannski eitt-
hvað dýrari, en það er alveg þess
virði,“ ítrekar hún.
Salatið býður enn fremur upp á
ýmiss konar útfærslur, eins og sjá
má. „Þetta er svolítil naglasúpa, og
ef eitthvað er ekki til skiptir það
ekki máli. Það mætti setja kapers
eða ólívur út í þetta og ég nota
stundum maís eða ananas,“ segir
Anna Sigga. „Það er líka svo fallegt
að hafa grænt salat, rauða tómata
og gult á móti,“ bætir hún við, en
hún leggur mikið upp úr því að
maturinn líti vel út. „Mér finnst
það ekki síst mikilvægt að matur-
inn sé fallegur og girnilegur,“ segir
Anna Sigga, sem hefur haft í nógu
að snúast síðustu daga við ferm-
ingar í Fríkirkjunni og söng í jarð-
arförum. „Svo vinn ég í því á hverj-
um degi að vera hamingjusöm, því
ég er alveg búin að átta mig á því
að það er ákvörðun að vera ham-
ingjusöm,“ segir Anna Sigga.
Hraðsoðið sumarsalat
1 poki af klettasalatblöndu
1 askja af kirsuberjatómötum
½-1 agúrka
1 bakki af kjúklingastrimlum
1 bakki af skinkustrimlum
250-500 g af rækjum
Ólívuolía
Balsamik-edik
Gróft salt
Svartur pipar
Hrásykur
Öllu blandað saman í stórri skál.
Hellið yfir góðri gusu af góðri
ólívuolíu, balsamik-ediki, dálitlu
af grófu salti, smá svörtum pipar
eða sítrónupipar og örlitlum hrá-
sykri, ef vill.
Til að gera salatið enn matar-
meira má bæta út í það lítilli dós
af maís, rauðlauk eða salatlauk og
ristuðum furuhnetum. Einnig má
bæta ananas út í, en þar sem hann
gefur örlítið sætt bragð mælir
Anna Sigga með því að sykrinum
sé sleppt.
Þeir sem hafa smekk fyrir því
geta borið fram gott brauð með
salatinu.
sunna@frettabladid.is
Naglasúpusalat Önnu Siggu
SALAT Á HLAUPUM Anna Sigríður Helgadóttir söngkona kann vel að meta það þegar hlutirnir ganga hratt og vel fyrir sig í eldhús-
inu. Þetta „hraðsoðna“ salat er bæði matarmikið og hollt og í uppáhaldi hjá Önnu Siggu. FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
Hvaða matar gætirðu síst verið án?
Það er hafragrauturinn. Ég breytist í aumingja ef ég fæ
ekki hafragraut í morgunmat.
Besta máltíð sem þú hefur fengið?
Einu sinni var ég svo blankur að ég þurfti að borða spag-
ettí með vatni í þrjár vikur. Fyrsta máltíðin eftir það er það
besta sem ég hef fengið.
Er einhver matur sem þér finnst vondur?
Ferskir tómatar eru mesti viðbjóður í heimi og ég er viss
um að þeir eru ræktaðir í bakgarði vítis.
Leyndarmál úr eldhússkápnum:
Ég á engin leyndarmál, það breytist allt í kjúkling hjá mér.
Reyndar er síróp alveg ómissandi í alla matargerð, virkar
vel á grænmeti og pasta.
Hvað borðar þú til að láta þér líða betur?
Kjúkling. Ég er snillingur í að elda kjúkling. Ég get búið til
dýrindis kjúkling úr nánast hverju sem er.
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
Gulrætur og engifer sem ég set í safapress-
una. Það er fátt betra og hollara, nema
kannski kjúklingur.
Ef þú yrðir fastur á eyðieyju, hvað
tækirðu með þér?
Safapressuna, gulræturnar, engiferið,
hafragrautinn og heila hjörð af
kjúklingum.
Hvað er það skrýtnasta sem þú
hefur borðað?
Flugvélamatur er það exótískasta
sem ég læt inn fyrir mínar varir.
Stundum veit maður ekki hvort
maður er að borða kjúkling, svín
eða fisk og það finnst mér virkilega
spennandi.
MATGÆÐINGURINN GUÐJÓN ÞORSTEINN PÁLMARSSON LEIKARI
Breytist í aumingja án hafragrauts
STÓRT UPPSKRIFTASAFN Aðalheiður E.
Ásmundsdóttir segir að áfram verði bætt
í uppskriftasafn ms.is. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Ristaðar paprikur eru veisla fyrir
marga bragðlauka. Þær má nota í
forrétti, mauka í sósu eða nota í
stað ferskrar papriku til að gefa
gömlum uppskriftum nýjan og
skemmtilegan blæ. Það er allsend-
is ekki ógerlegt að rista þær heima
við.
Olíuberið paprikurnar sem á að
rista, helst með pensli, með um 2
teskeiðum af grænmetisolíu á
hverja papriku. Hitið grillið í ofn-
inum.
Raðið paprikunum á ofnplötu og
komið henni fyrir efst í ofninum.
Fylgist vel með því að paprik-
urnar brenni ekki um of. Takið
plötuna úr ofninum og snúið hverri
papriku varlega með töngum
þegar dökkar skellur fara að sjást
á þeim. Setjið aftur í ofninn.
Þegar þær fara aftur að dekkjast
eru paprikurnar teknar út og sett-
ar í skál. Hyljið skálina með plast-
filmu og gætið þess að hún sé loft-
þétt. Þannig losar gufan frá
paprikunum um hýði þeirra.
Eftir um 15-20 mínútur, þegar
paprikurnar hafa kólnað nægi-
lega, er stilkurinn dreginn úr.
Afhýðið paprikuna því næst var-
lega.
Haldið paprikunni með annarri
hendi, notið hina til að kreista
niður með paprikunni. Þá ætti
stærsti hluti fræjanna og kjötsins
að detta út um endann.
Skerið hverja papriku á lengd-
ina og opnið þær á borði. Skrapið
það sem eftir varð í paprikunni úr,
svo einungis kjötið sé eftir. .
Ristaðar paprikur
RISTAÐ GÓÐGÆTI Ristaðar paprikur má
nota í margt. Þær eru góðar í salöt, sam-
lokur, forrétti og ýmislegt annað.
NORDICPHOTOS/GETTY