Tíminn - 12.12.1982, Blaðsíða 8

Tíminn - 12.12.1982, Blaðsíða 8
8 SUNNUDAGUR 12. DESEMBER 1982 Útgefandi: Framsóknarflokkurinn. Framkvæmdastjóri: Gísli Sigurðsson. Auglýsingastjóri: Steingrímur Gíslason. Skrifstofustjóri: Jóhanna B. Jóhannsdóttir. Afgreiðslustjóri: Sigurður Brynjólfsson Ritstjórar: Þórarinn Þórarinsson, Elías Snæland Jónsson. Ritstjórnarfulltrúi: Oddur V. Ólafsson. Fréttastjóri: Kristinn Hallgrímsson. Umsjónarmaður Helgar-Tímans: Atli Magnusson. Blaðamenn: Agnes Bragadóttir, Bjarghildur Stefánsdóttir, Eiríkur St. Eiríksson, Friðrik Indriðason, Heiður Helgadóttir, Sigurður Helgason (íþróttir), Jónas Guðmundsson, Jón Guðni Kristjánsson, Kristín Leifsdóttir, Skafti Jónsson. Utlitsteiknun: Gunnar Trausti Guðbjörnsson. Ljósmyndir: Guðjón Einarsson, Guðjón Róbert Ágústsson, Elin Ellertsdóttir. Myndasafn: Eygló Stefánsdóttir. Prófarkir: Flosi Kristjánsson, Kristín Þorbjarnardóttir, Maria Anna Þorsteinsdóttir. Ritstjórn, skrifstofur og auglýsingar: Síðumúla 15, Reykjavik. Sími: 86300. Auglýsingasími: 18300. Kvöldsímar: 86387 pg 86392. Verð i lausasölu 11.00, en 15.00 um helgar. Áskrift á mánuði: kr. 150.00. Setning: Tæknideild Timans. Prentun: Blaöaprent hf. Otrúlegar rangfærslur ■ Það er með algjörum ólíkindum til hversu mikilla rangfærslna talsmenn Alþýðubandalagsins telja sig knúða til að grípa um tillögugerð Guðmundar G. Þórarinssonar í álviðræðunefndinni sálugu. Fátt er skýrara dæmi um slæma samvisku en slíkar rangfærslur. Ef málstaður iðnaðarráðherra er jafn góður og hann og nánustu fylgismenn hans telja, hvers vegna þá ekki að halda sig við sannleikann? Guðmundur G. Þórarinsson vék nokkuð að þessum rangfærsl- um iðnaðarráðherra í sköruglegri ræðu á Alþingi á fimmtudaginn. Par skýrði hann frá tillögugerð sinni í álviðræðunefnd, þar sem skýr meirihluti var fyrir því að gera trllögu í þeim dúr, sem Guðmundur hefði lagt fram, til þess að freista þess að opna viðræðurnar, sem fram að þessu hafa engan árangur borið. Það var þá fyrst þegar ljóst var að iðnaðarráðherra hundsaði algjörlega þennan vilja meirihlutans, þar á meðal samstarfsmanna sinna í ■ríkisstjórninni, að Guðmundur sagði sig úr nefndinni. Sumir Alþýðubandalagsmenn hafa jafnvel lotið svo lágt að fullyrða að Guðmundur hafi aðeins ætlað að semja við álverið um tveggja aura hækkun á raforkuverði og veita þeim þar að auki margskonar fríðindi. Málflutningur iðnaðarráðherra á þingi var mjög í þessum anda Guðmundur svaraði þessum rangfærslum ítarlega og sagði m.a.: „Ég ákvað að leggja fram ákveðnar tillögur í álviðræðunefnd- inni, sem í nokkrum punktum miðuðu að því að opna samningaviðræður. Ég kynnti þessar tillögur í álviðræðunefnd- inni. Fyrsta atriði var að Alusuisse féllist á 20% hækkun á orkuverði 1. febrúar áður en nokkrar viðræður færu af stað, eingöngu til að sýna samningsvilja. En þá yrðu hafnar viðræður um raforkuverðið á grundvelli þess orkuverðs, sem greitt er í Evrópu og Ameríku og samkeppnisaðstöðu Islands. Þetta atriði hefur iðnaðarráðherra leyft sér að rangtúlka á allan veg. Hann nánast leggur það út bæði í útvarpi og hér að ég sé að leggja til að samið sé við Alusuisse um 20% hækkun á orkuverði. Hvers konar málstað hafa þeir menn, sem þannig þurfa að hagræða sannleikanum í fjölmiðlum og vita þó gjörla betur? Þessi hækkun sem ég stakk upp á er eingöngu á orkuverði strax til þess að Alusuisse sýndi það, að þeir vildu ganga til samninga um hækkun raforkuverðs með góðum vilja. Þetta veit iðnaðarráðherra vel“. Og Guðmundur rakti viðhorf annarra nefndarmanna í álviðræðunum til þessara hugmynda, og sagði m.a.: „Þegar ég kynnti tillögur mínar í álviðræðunefnd var vel tekið í þær og voru lagðar fram breytingartillögur af nefndarmönnum. M.a. gerði Ingi R. Helgason, fulltrúi Alþýðubandalagsins, nokkrar breytingartil- lögur. Meðal þeirra var að í stað 20%, sem iðnaðarráðherra telur óalandi, og rangtúlkar á allan hátt, komi 25%. Það var meirihluti fyrir því í álviðræðunefnd að leggja fram slíkar hugmyndir, sem ráðherra legði síðan fram í viðræðunum við Alusuisse án þess að binda hendur hans á nokkurn hátt. Ég ætla ekki að sitja í einhverri álviðræðunefnd fyrir aftan iðnaðarráðherra á meðan hann heldur hvern viðræðufundinn með Alusuisse af öðrum um það hvort að viðræður eigi að hefjast, og skammtar okkur síðan upplýsingar af fundunum eftir því sem honum sýnist og kallar það þjóðarsamstöðu, sem honum dettur í hug að túlka af fundunum með Alusuisse. Ég ætla ekki að sitja í einhverri nefnd sem iðnaðarráðherra ætlar að reka eins og eitthvert rússneskt hænsnabú. Það er ábyrgðarhluti að bera lengur ábyrgð á því hvernig iðnaðarráðherra heldur á þessu máli“, sagði Guðmundur. í lok ræðu sinnar sagði Guðmundur: „Meginmálið er að árangur náist í þessu máli en ekki áróður. Það þarf þjóðarsamstöðu um hagsmuni íslendinga en ekki þjóðarsamstöðu um Hjörleif Guttormsson“. Og hagsmunir íslendinga í þessu máli eru fyrst og fremst að fá fram endurskoðun á orkuverðinu sem allra fyrst. Deilumálum um framkvæmdina á álsamningnum er eðlilegt að vísa til dóms, en hækkunina á orkuverðinu verður að ná með samningum, og það skiptir íslensku þjóðina mestu máli að slík hækkun náist sem fyrst. -ESJ. horft í strauminn Blómgunin í þjóðfrelsinu ■ Um þessar mundir stendur listalíf íslendinga í háblóma ársins. Dagblöðin eru að springa af frásögnum af öllum þessum blómum. Það er ekki nóg að bækurnar springi út eins og fíflar í túni, heldur óteljandi listablóm önnur svo að maður þekkir ekki einu sinni allar tegundir þessarar margbreytilegu flóru, varla einu sinni allar ættir hennar - hljómlist, myndlist, ritlist, bókalist o.fl., - hverja um sig með óteljandi blómategundum. Og jafnvel gamlir símastaurar syngja í sólskininu og verða grænir aftur. í gær eða fyrradag sögðu blöðin, útvarp og sjónvarp frá því, að Danakonungasögur, ritaðar af íslending- um um 1200 væru nýkomnar út í smölun og umsjá Bjama Guðnasonar prófessors. Það var haft eftir Bjarna í Tímanum, að þær væru „til vitnis um glæsilegasta skeið íslenskrar menningar". Og enn herti Bjarni á og sagði, að með Skjöldungasögu hæfist „í rauninni það skeið þar sem íslendingar eru allsráðandi um sagnaritun á öllum Norður- löndum, og ég tel að það tímabil sem þetta stendur sé hið glæsilegasta í allri menningarsögu íslendinga". Og enn kvað Bjarni: „Ég vil segja fullum fetum að þetta skeið í íslenskri menningarsögu er hið glæsilegasta sem þessi þjóð hefur upplifað fyrr og síðar“. Stór orð og mikill dómur Það er þó ekki ætlun mín með þessum greinarstúf að reyna að slíta upp nein þau fjölalda blóm sem Bjarni hefur í slíkum hávegum. Vel sé honum fyrir það og störf hans öll í þeim blómagarði. Hinu gat ég ekki varist við lestur dómsins að hugleiða hvort svona væri þetta í raun og veru, að engu menningarafreki íslendinga - fyrr og síðar, - mætti jafna til sagnaritunar þeirra á tólftu og þrettándu öld, og það beri svo hátt að fullyrða megi að það sé glæsilegasta menningarskeið sem þjóðin hefur lífað allt fram á okkar daga. Og við það mat hlýtur maður að líta sér nær - til að mynda til síðustu hálfrar aldarinnar. Að sjálfsögðu má slíkur samanburður við samtímann í engu draga úr virðingu okkar og aðdáun á sagnaritun íslendinga á fyrri tíð, en þó hljótum við að minnast að þetta var hámenning fárra, ekki almenningseign, ekki alþjóðamenning, og sagnaritunarafrekin náðu ekki til þorra þjóðarinnar nema að litlu leyti og lyfti henni því ekki allri til auðugra menningarlífs. Þetta urðu fyrst og fremst gjafir til síðari alda og þá gróðurmold nýrrar blómgunar í þjóðlífinu. En íslenska þjóðin lifði langar aldir í áþján, harðræði og umkomuleysi fátæktar í sex langar aldir án þess að menningarblóm hennar spryngju út á þjóðarakri í nokkrum umtalsverðum mæli, þó að alltaf ynnu einstakir menn afrek. Og þannig var statt þegar tuttugasta öldin gekk í garð. Þjóðin átti þá svo að segja enga nýmenningu, engan sáinn akur hljómlistar, myndlistar, byggingalistar, vísinda, vélmenningar eða iðnmenningar. Ritlistin ein lifði á gömlum merg, sagnalist og bókmenntir voru þó enn við líði eins og líftaug sem aldrei hafði slitnað. Á öðrum og þriðja tug aldarinnar fékk þjóðin sjálfstæði og umráð allra sinna mála, andlegra og veraldlegra. Þá hófst blómgun nýrrar, íslenskrar þjóðmenningar með svo miklu gróskuafli og fjölbreytni sem hlýtur að vekja undrun og óskipta aðdáun allra þeirra sem hafa víðan sjóndeildarhring í tíma og heimi, og hefur orðið að fullkominni menningarbylt- ingu á síðustu áratugum. Fyrstu tvo áratugi sjálfstæðisins voru fræin að spíra í moldinni, en upp úr 1930 hófst hin mikla blómgun sem síðan hefur staðið og aukist með hverju ári uns sú mynd blasir við, sem við höfum fyrir augum þessa dagana. Þjóðin hefur eignast sinn hljómlistarheim, myndlistarheim og vísindaheim fullkom- lega á borð við aðrar menningarþjóðir. Við eigum fjölda ágætra hljómlistarmanna og tónskálda, og með hverju ári fjölgar blómum í þeim garði - tónlist er iðkuð og stunduð í æ ríkari mæli. Við eigum leikhús, leikskáld og fjölda snjallra leikara, og út um allar byggðir iðkar almenningur þessa list og nýtur hennar. Ritlistarmenn hafa margfaldast í meiri mæli en nokkurn gat órað fyrir. Þess sjáum við glögg merki í stórflóði bókaútgáfunnar þessa daga. Fyrir hálfri öld var það góð uppskera ef nýjar bækur kæmu út eftir svo sem hálfan tug ungra rithöfunda ár hvert. Nú eru þeir margir tugir ef ekki hundruð. Hvarvetna blasir þessi hálfrar aldar blómgunarsaga við - í atvinnuvegum og tækni, byggingalist og samgöngum, í hvers konar listum vísindum og fræðum, skólum og lærdómi, sem menn sækja einnig út fyrir landsteina í vaxandi mæli. í slíkri blómatíð kennir auðvitað margra grasa og misfagurra. Ekki hefur öll þessi menningarviðleitni í sér neista eilífðarinnar. Margt er þar aðeins dægurfluga, loftbólur eða skammlíf leiftur. En það er sama, þessi blómgun færir okkur margt sem varir og heldur gildi, en mikilvægast í allri menningarblómgun er að hún nái að einhverju eða sem mestu leyti til þjóðarinnar allrar, almenningur lifi í henni, njóti hennar og flytji frjó hennar og fræ frá kyni til kyns til nýrrar blómgunar. Við erum svo sem ekki ánægð með öll nýblómin, en við vitum að þegar þau hætta að birtast leggst dauðinn yfir akurinn og fólkið verður að steini. Það er margt hætt að varðveita úr menningarblómgun, en aldrei sjálft menningarlífið. Það er og verður ætíð að miklu leyti nýgræðingur, nýtt lauf og ný blóm, þótt það sæki safann í gamlar rætur og stofna. Þegar íslenska þjóðin fékk sjálfstæði og sjálfræði í landi sínu sprakk hún út. Sá menningarblómi sem upp óx var ekki afrek eða eign fárra, heldur þjóðarinnar allrar. Hann birtist ekki sem mikill og varanlegur arfur í einni grein, heldur sem dagleg lífsfylling í fjölskrúðugu þjóðlífi. Ýmsir hafa haldið því fram, að þessi þjóðarblómgun eftir að sjálfræðið fékkst eigi sér vart eða ekki líka með öðrum þjóðum. Um það er vant að dæma, en ég held þó að örðugt sé að nefna hliðstæð dæmi á sama tíma. Margar þjóðir, fámennar og fjölmennar, hafa fengið sjálfstæði eftir aldakúgun á þessari öld. Þar hafa víða orðið miklar framfarir, stórstíg menningarsókn, en þó held ég að varla sé að finna margar hliðstæður blómgunarinnar á íslandi. Mér er nær að halda að þessi skjóta og merkilega blómgun menningarlífs fámennrar þjóðar í örðugu landi „á mörkum hins byggilega heims“, eins og sumir hafa tekið sér í munn, muni síðar verða talin merkilegt rannsóknarefni. Og verið gæti, að þetta fyrsta blómgunarskeið á íslandi - síðan gullöld leið - muni ekki verða talið síðra þjóðmenningarafrek en sagnaritunin mikla og fræga á fyrri tíð - hvert sem framhaldið verður. Þessi snögga og mikla blómgun er órækur vitnisburður um gildi sjálfstæðis og þjóðfrelsis. Að sjálfsögðu getum við líka bætt því við okkur sjálfum til dýrðar, að þróttur og eðli kynstofnsins eigi þar einnig nokkurn hlut að. En við skulum samt ekki halda, að allt sé í sómanum og dýrðin fullkomin, þótt blómgunin á þessu fyrsta þjóðfrelsis- sumri sé með þessum stórmerkjum. Þar vex svo sem ekki allt í skipulegum röðum. Þá ræktun eigum við eftir. Andrés Kristjánsson skrifar íiTJ

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.