Tíminn - 04.05.1989, Blaðsíða 12
12 Tíminn Fimmtudagur 4. maí 1989
„Ef við sjáum sólskinsblett í heiði...“
Þótt skammdegið hafi oft verið
okkur íslen'dingum langt, dimmt og
erfitt, þegar kuldi og myrkur grúfði
alls staðar yfir, klæðnaður og húsa-
kostur svo fátæklegur, að kynslóð
allsnægtanna getur vart trúað eða
gert sér í hugarlund það þrek og
þrautseigju sem gengnar kynslóðir
bjuggu yfir, getum við jafnframt
glaðst yfir þeim innri eldi, bjartsýni
og þjóðrækni, sem það sýndi í verki,
jafnvel á dimmustu vetrarkvöldum
við skin frá grútarkolu, er sögu- og
fræðimenn þess tíma skráðu og
björguðu frá glötun, þjóðlegum og
sögulegum arfi liðinna alda.
Sé litið yfir sögusvið genginna
kynslóða hefur leiklistin oft verið
ofarlega í menningarlífi þjóðarinn-
ar. Við undruðumst þann árangur
sem þetta fólk gat náð, við þær
frumstæðu og erfiðu aðstæður ásamt
skilningsleysi, úrtölum og jafnvel
fjandskap sumra. En viljastyrkur,
einbeitnin og trúin voru öflin sem
voru ósigrandi.
Um hinar dreifðu byggðir var
aðstaðan víða þannig, að ef fólk
kom saman til gleðifunda, þá var
húsakostur þröngur, fábrotinn og
fátæklegur. Þá var oft þar sem
baðstofur voru með rýmra móti að
rúm og aðrir innanstokksmunir voru
teknir upp og fjarlægðir á meðan.
Baðstofan þar með orðin þjóð-
leikhús. Vitaskuld gerði fólkið minni
kröfur, en gladdist samt. Sú gleði
náði sannarlega til hjartans, því þá
voru möguleikar til skemmtanahalds
fáir, tilbreytingin lítil og því þurfti
lítið til að létta lund og gleðjast í
góðra yina hóp.
í lok síðasta árs hóf Leikfélag
Rangæinga æfingar á leikritinu
„Síldin kemur og síldin fer“, eftir
þær Iðunni og Kristínu Steinsdætur.
Leikstjórn Ingunn Jensdóttir. Þetta
stykki vekur upp ýmsar spurningar
og tilfinningar í sambandi við síld-
arævintýrin allt í kringum landið á
ýmsum tímum. Því síldin er duttl-
ungafullt fyrirbæri, á til að stinga sér
og stinga af, koma síðan upp á
ólíklegustu stöðum, öllum að óvör-
um. Bak við þetta verk liggur mikil
vinna. Sjálfsagt að mestu unnin á
kostnað svefns og hvíldar hjá hinu
almenna verkafólki. En þetta skilur
líka eftir mikið menningarlegt og
sögulegt gildi. Fyrst fyrir þá sem að
þessu standa. Okkur sem komum til
að sjá þetta, síðan þá sem heyra og
sjá túlkun fréttamannsins, eða lesa
um þetta seinna af spjöldum sögunn-
ar.
Þarna er brugðið upp mynd af lífi
og starfi úr einum þætti okkar at-
vinnulífs. Að vísu blandað græsku-
lausu gamni, en þá kemur þáttur
alvörunnar inn á milli, því þarna
koma inn í myndina ýmis sjónarmið
því margir aðilar hafa þarna hags-
muna að gæta. Hvort sem það er
útgerðarmaðurinn, skipstjórinn og
hásetarnir sem færa hráefnið að
landi, verkstjórinn og vinnufólkið,
sem sjá um að allt sé unnið í
söluhæfa úrvalsvöru. Síðan lögreglu-
yfirvöld sem eftir ýmsu þurfá að líta
í fjölmennum vinnuhóp, því vitan-
lega gerist þarna ýmislegt, sem ekki
passar inn í lög og reglugerðir lands
og lýðs.
Leikurinn frá upphafi til enda er
léttur og lifandi, hraður og tilþrifa-
mikill á köflum. Leikmyndin öll vel
uppfærð, túlkun í tali og tónum yljar
manni eins og sólin á björtum vor-
morgni, þegar hún sendir manni
geisla sína beint í rúmið. Enda eru
þarna gamalkunnir textar sem bæði
táningar og fólk á öllum aldri söng
öllum stundum fyrir aldarfjórðungi
eða meir.
Verk sem þetta byggist upp af um
40 manna liði - leikendum og að-
stoðarfólki - kallar á miklar æfingar,
ferðalög og fórnfúst starf. Þetta
virðist allt hafa tekist mjög vel, allir
skilið köllun sína og komið hlutverk-
unum frá sér með sæmd og prýði.
Mörg litlu hlutverkin settu oft stóran
svip á þetta, komu oft að óvörum
eins og þrumuskot, hittu vel í mark,
með orðum og látbragði.
Ég ætla ekki með þessum línum
að fara að dæma hvern einstakling
eða einstaka þætti. Til þess skortir >
mig hæfileika og dómgreind. Það er
varla hægt þótt maður sjái það eina
kvöldstund, renna fyrir augu eins og
mynd á tjaldi. Það er svipað með
þetta og fjallahringinn kringum
okkur, alls staðar standa upp úr
tindar, bjartir og breytilegir, sem
virka þannig á okkur að fellur flís af
þeim í sjóð minninganna.
Persónulega vil ég aðeins þakka
fyrir þessa skemmtilegu kvöldstund
og veit jafnframt að ég mæli þar fyrir
munn margra.
„Nú er allt í aleyðing komið og
helst það sem hnígur að því sem
þykir gamalkennt." - Þessi orð
komu mér ósjálfrátt í hug í byrjun
leiksins er Ófeigur bóndi stormaði
nokkuð gustmikill um hlöð og at-
hafnasvæði síldarvinnslunnar í
ónefndu þorpi, með beislið í hend-
inni, léttfættur eins og strákur á eftir
stóði. Með höfuðið yfirfullt af speki,
lífsreynslu og amstri hins daglega
lífs. Hann virðist ósáttur við þá
breytingu á búskaparháttum. Hér
hefur hann sennilega alist upp og
lifað við gamalgróna bænda- og
sveitamenningu. Hann fer hörðum
orðum, jafnvel ókristilegum, um þá
sem standa í stafni á þjóðarskútunni
og þessa fjármálaspekúlanta, sem
alls staðar eru eins og hrægammar
að hirða skjótfenginn gróða, hverfa
síðan á burt og skilja aðeins verð-
lausar eignir eftir. Hann mundi sjálf- i
sagt vera góður skömmtunarstjóri í
fjárveitinganefnd ríkisvaldsins.
Já, það var svo sannarlega lífs-
glaður hópur sem steig upp í rútuna
og ók syngjandi út í síldarævintýrið
- gat jafnvel verið á leið til Horna-
fjarðar, þó okkur áhorfendum þætti
farkosturinn ekki traustvekjandi,
yfirfylltur af fólki. Þar var hraustlega
á verkum tekið og fylgdi handtökun-
um sannarlega fjör og ferskur blær,
er hver tunnan af annarri var fyllt af
glitrandi síld með viðeigandi
hrópum, köllum, skammaryrðum og
líkamlegum hreyfingum, sem undir-
strikuðu viss atriði í mannlegum
samskiptum, sem og hressum hlátri
og glymjandi söng. Inn á milli lyft
fögrum fleyg með glitrandi glögg.
Ekki ríkti deyfð eða lognmolla í
svefnhúsi síldarstúlknanna, enda
eðli lífsins, þar sem lífsglatt æsku-
fólk, með lífið framundan með öll-
um sínum dásemdum og hugmynda-
flugi, umvafið ást og kærleika, ræður
ríkjum. Enda fór þar fram hver
fjölbragðaglíman á fætur annarri á
glímuvelli ástarinnar. Þar var fátt
framkvæmt af feimni eða vankunn-
áttu. Andstæður þar eins og víðar á
heiðavegum mannlegs lífs. Róin og
rómantíkin eins og á döggvaðri Jóns-
messunótt. í annan stað þeytt af sér
fargi með níutíu hnúta krafti eins og
bátskel í brimróti. Til frekari áherslu
var talað tæpitungulaust á rammís-
lensku máli með viðeigandi hreyf-
ingum, þegar aðalatriðin risu hæst.
Þetta var allt af höndum leyst með
mikilli prýði.
Útgerðarmaðurinn og stórgróss-
erinn Bergmundur var svo sannar-
lega réttur maður á réttum stað.
Kjarnyrtur, kjaftfor, knár og krafta-
legur karl, gjörvulegur og virðulegur
í fasi. Skjótráður og snar að greiða
úr ef snurða hljóp á einhvern þátt
hins margþætta fyrirtækis. Gat þurft
að brynja sig og berja frá sér, því
stundum var vegið að honum úr
launsátri með orðsins brandi. Jafn-
framt þurfti hann að vera eins og
geimskutla horna á milli og taka til
hendi í þeirri margþættu vinnslu-
keðju sem fyrirtæki hans byggðist á.
Undir skelinni sló hlýtt hjarta, sem
átti þekkingu, þrek og gleði að gefa
öðrum. Gert sér glaðan dag á góðri
stundu, slegið á létta strengi, lyft
glasi með vinnufólkinu að loknu
velunnu starfi. Þarna fylgdust ávallt
með vökul augu sýslumannsins,
formfastur, látlaus og háttprúður.
Virtist taka heldur mjúklega á þeim
yfirsjónum sem þarna áttu sér stað,
því ýmislegt kom upp á yfirborðið,
sem athugunar þurfti með. Til að
mynda hvort um væri að ræða grun-
samlega efnisflutninga í kirkju stað-
arins. Yfirsjónir í ástarmálum. Eða
þegar verðlaunahryssan hans Ófeigs
bónda komst á sakaskrá, vegna of-
neyslu á guðaveigum og söngvatni,
sem geymt var á glámbekk. Gott ef
hún hefur ekki misst meydóminn við
það uppátæki.
í framhaldi af þessu læddist að
manni að gott mundi að vera saka-
maður hjá þessu yfirvaldi. Enda
höfum við átt sýslumannsláni að
fagna.
Og síðan er það blessuð símakon-
an með gamla skiptiborðið fyrir
framan sig. Þá er eins og maður sé
kominn í sæluvímu minninganna,
frá því þegar öll bæjarröðin gat
hlustað; það var viss rómantík að
geta hlustað á hjartaslög heimilanna
yfir þvera sveit eða endilangan dal
og heyra kunnuglega rödd koma inn
í samtalið. Eins og: Láttu ekki sjóða
upp úr pottinum Jón minn. Ertu
búinn að panta nautið Gvendur, eða
Elskan mín taktu við barninu, það
er að gera á sig. Það er ekki ofsögum
sagt að hún fór á kostum með sitt
hlutverk. Var eins og ljósleiði gegn-
um allt verkið, fingurnir á línutökk-
unum, eins og á hljómborði. And-
litsdrættirnir síbreytilegir eftir efni
og áherslum. Hreimurinn í takt við
efnið. Hvort sem það var frétt um lát
nákomins ættingja, margfalt for-
gangshrað frá forstjóranum, fundar-
boð eða fiskifréttir ásamt palladóm-
um um granna og góðkunningja,
skrafsögur úr saumaklúbbum og
kvenfélagsfundum, lausaleiksbörn-
um, eða ef par lagði kinn við kinn á
þorrablóti, réttarballi eða öðrum
tækifærum.
Hlutur leikstjórans er stór að
koma svona verki á svið með mis-
jafnlega sviðsvönu fólki. Samvinna
hans við fólkið hlýtur að vera góð,
án þess hefði slíkur árangur ekki
náðst. Hér hlýtur að þurfa á ein-
beitni, tillitssemi og skipulagshæfi-
leikum að halda, því margir eru
þættirnir, sem saman þarf að tvinna,
allt skili sér á réttum augnablikum,
með réttum hreyfingum, réttum orð-
um í tali og tónum. Við Rangæingar
fögnum komu Ingunnar í héraðið.
Og nú bara bíðum við eftir nýju
verki, skemmtilegu og þjóðlegu.
Vorið er framundan með fífil í
haga og laufgandi grein, fuglasöng
og vængjaþyt, léttfætt og lífsglatt
ungviði, hlaupandi um grundir og
teygar lífskraftinn úr brjóstum fóst-
urjarðarinnar. Sumarið með miklum
möguleikum og ólíkum viðfangsefn-
um, gjafmilt og gróðurmikið. Á
komandi hausti og vetri vonumst við
eftir sólargeisla hjá Leikfélagi
Rangæinga. Þá hlýðum við kalli
listaskáldsins góða: „Ef við sjáum
sólskinsblett í heiði, að setjast allir
þar og gleðja oss.“
Á páskum 1989.
Guðbjörn Jónsson,
Framnesi.
°í nngiin/"1
Nú stendur yfir dreifing á sumarstarfs-
bæklingi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.
Að vanda er í bæklingnum að finna
upplýsingar um nánast alla þá starfsemi
sem félög, samtök og stofnanir í Reykjavík
gangast fyrir nú í sumar.
Bæklingnum er
dreift til allra nemenda grunnskólanna í
borginni og eru foreldrar hvattir til að kynna
sér vel ásamt börnum sínum þá möguleika
sem þar er að finna.
Innritun i starf á
vegum íþrótta- og tómstundaráðs hefst á
sérstakri innritunarhátíð í Laugardaishöll
laugardaginn 20. maí kl. 13.00-17.00.