Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 25. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók| bækur
FLESTUM ber saman um
það að líklega eigi íslensk
bókmenntasaga varla til
ólíkari höfunda en þá Gunn-
ar Gunnarsson og Þórberg
Þórðarson. Gunnar skrifaði
heimspekilegar skáldsögur
þrungnar siðferðilegum
spurningum; Þórbergur
skrifaði bullandi háðsádeil-
ur á svo til allt sem fyrir
honum varð, ekki síst sjálf-
an sig. Gunnar skrifaði á forsendum raunsæis
með sveitarómantísku ívafi; Þórbergur er bylt-
ingarmaður formsins og almennt talinn með
fyndnustu höfundum íslenskum. Gunnar var al-
þjóðlegur höfundur en þó einn sá þjóðern-
issinnaðasti sem ritað hefur á íslensku. Þór-
bergur var að mörgu leyti afar þjóðlegur
höfundur en þó alþjóðasinni fram í fingurgóma.
Reyndar var fátt sem fór meira í taugarnar á
Þórbergi Þórðarsyni en „þjóðernisspangól“ og
hann lagði sitt af mörkum í andófinu gegn Hit-
lers-Þýskalandi og er eini Íslendingurinn sem
var dæmdur fyrir að móðga hinn þýska einræð-
isherra. Gunnar mun hins vegar vera eini Ís-
lendingurinn sem hitti Hitler í eigin persónu og
studdi hans stefnu lengur en góðu hófi gegndi.
Á meðan Þórbergur boðaði alheimstungumálið
esperantó og alþjóðlega einingu fór Gunnar um
Skandinavíu og boðaði sameiningu Norð-
urlanda sem hann taldi að yrðu að standa sam-
an gegn stórveldum. Þórbergur vildi að menn
horfðu á manninn en Gunnar ítrekaði muninn á
norrænum mönnum og öðrum.
En Þórbergur og Gunnar eiga einnig margt
sameiginlegt, eins og Halldór Guðmundsson
sýnir fram á í Skáldalífi. Þeir voru svo til jafn-
aldrar (Þórbergur var fæddur 1888 og Gunnar
1889), dóu með árs millibili (Þórbergur 1974 og
Gunnar 1975), voru báðir bóndasynir að austan,
elstu synir sem hleyptu heimdraganum ungir
vegna djúpstæðrar þrár til annars konar til-
veru en afskekkt íslensk sveit gat veitt þeim í
upphafi tuttugustu aldar. Þeir glímdu báðir við
mikla fátækt, sult og einstæðingsskap á fyrsta
stigi höfundarferilsins en unnu mikla sigra þeg-
ar fram liðu stundir – og sama dag var þeim
veitt heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Ís-
lands. Báðir áttu þeir í „óleyfilegum“ ástarsam-
böndum og eignuðust börn utan hjónabands.
„Og um skeið komust þeir undir óhugnanlegt
áhrifavald hvor síns einræðisherrans, Hitlers
og Stalíns,“ eins og Halldór Guðmundsson
kemst að orði (10).
Að stefna þessum tveimur rithöfundum sam-
an í eina bók er hugmynd sem gengur, satt að
segja, furðanlega vel upp. Halldór Guðmunds-
son lýsir sjálfur aðferð sinni á þennan hátt:
[…] verður hér reynt að varpa ljósi á Gunnar
og Þórberg – og þeir látir spegla hvor annan
um leið og kannaðir eru drættir úr ævi þeirra,
verkum og skapgerð. Báðir eru börn frásagn-
arlistarinnar, hinnar óræðu skrifsýki eða sköp-
unarþrár, hvort sem við viljum kalla það, haldn-
ir óslökkvandi þörf fyrir að segja sögur.
Lífsleið beggja er vörðuð sögum (11).
Og Halldór hefur valið leið sem virðist mjög
rökrétt: Hann rekur ævi þeirra að mestu leyti
línulega (krónólógískt), fjallar um þá til skiptis
innan hvers meginkafla bókarinnar en fléttar
einnig umfjöllun um þá saman þegar það á við.
Vissulega eru þeir Þórbergur og Gunnar meiri
andstæður en hliðstæður en kannski eru það
einmitt hinar skörpu andstæður í persónu-
leikum þeirra og skoðunum sem ljá frásögninni
líf og spennu. Eins og Halldór Guðmundsson
getur um í inngangskafla bókarinnar er þessi
aðferð í æviskrifum þekkt og hún er rakin allt
aftur til gríska sagnfræðingsins Plútarkosar
(sem var uppi á árunum 46–127) sem skrifaði
fjölmargar bækur af þessu tagi. Plútarkos
stefndi alltaf saman einum Grikkja og einum
Rómverja í sínum hliðstæðu ævisögum og sem
dæmi má nefna bók hans um Alexander mikla
og Júlíus Sesar. Í lok inngangskafla Skáldalífs
minnist höfundur á Halldór Laxness: „Hann
var alltaf þriðji maðurinn, og stundum bæði
drifkraftur og mælikvarði hinna“ (11). Eins og
alkunna er hlaut Halldór Guðmundsson Ís-
lensku bókmenntaverðlaunin fyrir ævisögu
Halldórs Laxness fyrir tveimur árum og því
þarf það ekki að koma á óvart að Laxness birt-
ist oft á sviðinu sem „þriðji maðurinn“ –
kannski ekki endilega sem mælikvarði á þá
Gunnar og Þórberg heldur sem samferðamað-
ur í rithöfundastétt, enda fóru þessir þrír höf-
undar óumdeilanlega fremstir í þeim flokki
langt fram á síðari hluta tuttugustu aldar.
Skáldalíf er samsett af sex meginköflum: Í
fyrsta kafla, „Þau ár eru liðin“, er fjallað um
æsku beggja höfunda og uppruna. Kafli tvö
heitir „Í reiðuleysi heima og heiman“ og þar
segir af sveltiárum þeirra Gunnars og Þór-
bergs þegar þeir voru að reyna að standa á eig-
in fótum, auralausir með stóra drauma, sá fyrr-
nefndi í Danmörku og sá síðarnefndi í
Reykjavík. Í þriðja kafla, „Skáldin og ástin“, er
fjallað nokkuð ítarlega um ástarsamband
Gunnars við Ruth Lange, sem hann eignaðist
son með árið 1929 utan hjónabands, og sam-
band Þórbergs við Sólrúnu Jónsdóttur, sem
fæddi honum dóttur þótt hún væri gift öðrum
manni árið 1924. Einnig er hér í fyrsta sinn
fjallað um ástarsamband Þórbergs við Finn-
laugu Einarsdóttur sem eignaðist dóttur árið
1918 sem kann að hafa verið dóttir Þórbergs.
Að sjálfsögðu er einnig fjallað um eiginkonur
skáldanna, en það verður að segjast eins og er
að höfundi virðist ekki eins mikið púður í að
beina kastljósinu að samböndum skáldanna við
þær. Í fjórða kafla, „Líf í skáldskap“, er áhersl-
an á blómatíma beggja höfunda á bókmennta-
sviðinu. Kafli fimm kallast „Freistingar ein-
ræðisins“ og hér er farið nokkuð ítarlega í
fylgispekt þeirra Gunnars og Þórbergs við sinn
hvorn einræðisherrann og kann að vera að
ýmsum lesendum finnist þessi kafli einna for-
vitnilegastur í bókinni. Ég deili þó ekki þeirri
skoðun því ég tel ekki rétt að meta bókmenntir
út frá skoðunum (eða persónuleika) höfunda
þeirra. Það er hins vegar ljóst að hér er um at-
hyglisverðan kafla að ræða og dregnar eru
fram í dagsljósið staðreyndir sem íslenskir
bókmenntamenn hafa kannski ekki viljað horf-
ast í augu við fyrr. Á það ekki síst við samband
Gunnars Gunnarssonar við Þýskaland Hitlers.
Um þau mál hafa fjölmiðlar fjallað nokkuð ít-
arlega síðan Skáldalíf kom út og er engin
ástæða til að dvelja við það „skúbb“ í þessum
ritdómi. Sjötti og síðasti kaflinn ber titilinn
„Hin hvítu segl“ og er þar fjallað um byggingu
Skriðuklausturs, hins mikla óðalsseturs Gunn-
ars Gunnarssonar í Fljótsdalnum, og draum
hans um stórbýli sem kannski var að mörgu
leyti andvana fæddur. Í þessum kafla kemur
fram hversu dýrkeyptur stuðningurinn við
Þýskaland var Gunnari og ýmsir erfiðleikar
hans við að fóta sig á hinum íslenska bók-
menntavettvangi. Halldór fjallar hér líka um
Nóbelsverðlaunin en það umfjöllunarefni
þekkja lesendur einnig vel úr nýlegri fjölmiðla-
umræðu. Hér er líka fjallað um ævikvöld Þór-
bergs, hvernig Suðursveitin kallaði æ meira á
hann eftir því sem hann eltist og hvernig hann
lýsti því yfir að hann hefði verið „á skökkum
stað“ stærstan hluta lífs síns. Í bókarlok dregur
Halldór Guðmundsson síðan saman meg-
indrættina í lífi þessara tveggja stórskálda og
hann vísar til orða Plútarkosar, að „í sam-
anburðinum [séu ekki] stór sannindi fólgin“, en
aðalerindi hans sé, líkt og hjá Plútarkosi, að
gefa lesendum færi á að lesa hlið við hlið um
ævi og verk þessara tilteknu manna – og hann
hnykkir aftur á helstu hliðstæðum og and-
stæðum í lífi þeirra beggja.
Skáldalíf er afar eiguleg bók, mjög er vandað
til umbrots og bókbands, kápan og kjölurinn
eru einkar falleg og bókina prýðir fjöldi ljós-
mynda sem auðga mjög verkið (ég sakna þó
hinnar frábæru og þekktu myndaseríu Egils
Gunnlaugssonar af Þórbergi þar sem hann sýn-
ir hinar ýmsu andlitsgrettur). Þess má geta að
á bls. 401 er birt mynd sem tekin var í boði sem
haldið var til heiðurs breska skáldinu W.H.
Auden og er þar fullyrt að um sé að ræða einu
myndina þar sem þeir Gunnar og Þórbergur
sjást saman. En ekki er að sjá að Gunnar sé
nokkurs staðar á myndinni! Sat hann kannski í
auða stólum sem sjá má fremst á myndinni?
Einnig má það teljast galli á verkinu að hvergi
er að finna upplýsingar um uppruna myndanna
eða hverjir tóku þær (ef það er vitað). Skáldalíf
er mjög vel skrifað verk og því einkar læsilegt
og fræðimennska þess vönduð. Málfar og stíll
er alls staðar til fyrirmyndar og villur fáar, þó
er neyðarleg stafsetningarvilla í efnisyfirliti (í
undirkaflayfirskrift) og nokkrar innslátt-
arvillur er að finna í heimildaskrá. Þetta er þó
mjög lítið miðað við umfang bókarinnar. Mjög
víða bregður Halldór Guðmundsson upp snilld-
arlegum samanburði á þessum tveimur höf-
undum af miklu innsæi og á hnitmiðaðan hátt:
„En á þeim Þórbergi og Gunnari er þessi
grundvallarmunur: Þar sem Gunnar leitar
sannleikans í skáldskap leitar Þórbergur skáld-
skaparins í sannleikanum“ (226). En það mik-
ilvægasta er að sjálfsögðu að í ritun þessarar
bókar felast bókmenntasöguleg tíðindi því ekki
hafa áður komið út fræðilegar ævisögur þess-
ara tveggja jöfra íslenskra bókmennta. Að slík-
um verkum hafa þó verið gerð mörg mikilvæg
tilhlaup og má í því sambandi nefna rit Sig-
urjóns Björnssonar og Stellans Arvidsons um
Gunnar Gunnarsson; bók Stefáns Einarssonar
sem skrifuð var í tilefni fimmtugsafmælis Þór-
bergs Þórðarsonar; viðtalsbók Matthíasar Jo-
hannessen við Þórberg; langa grein Sigfúsar
Daðasonar um Þórberg; svo og nokkrar grein-
ar Péturs Gunnarssonar um Þórberg. Halldór
Guðmundsson nýtur allra þessara skrifa og
notfærir sér, að sjálfsögðu, í Skáldalífi. Auk
þess hefur hann aðgang að heimildasafni
Sveins Skorra Höskuldssonar um Gunnar
Gunnarsson, en Sveinn Skorri hugðist rita ævi-
sögu Gunnars en náði ekki að ljúka verkinu.
Einnig nýtur Halldór óbirts sjálfsævisögu-
handrits Þórbergs Þórðarsonar og ýmiss ann-
ars efnis sem varðveitt er í handritadeild
Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns,
þar á meðal er fjöldi dagbóka og bréfasöfn
beggja höfunda. Þá má ekki gleyma skáldverk-
um höfundanna sjálfra, Fjallkirkju Gunnars og
skáldævisögum Þórbergs, þau verk eru þó
skrifuð út frá allt öðrum forsendum en fræði-
legar ævisögur en eru að sjálfsögðu mikilvægur
brunnur (og grunnur) fyrir ævisagnaritarann.
Halldór Guðmundsson sækir einnig heimildir á
erlend bóka- og skjalasöfn og síðast en ekki síst
sækir hann upplýsingar til núlifandi fólks sem
þekkti til höfundanna og nánasta umhverfis
þeirra. Þannig starfa fræðimenn sem vanda til
vinnu sinnar og kannski gera lesendur ævi-
sagna sér ekki alltaf grein fyrir þeirri þrotlausu
vinnu sem liggur á bak við bækurnar. Óhætt er
að fullyrða að með bókum sínum um þá Halldór
Laxness, Gunnar Gunnarsson og Þórberg
Þórðarson hefur Halldór Guðmundsson skipað
sér í fremstu röð íslenskra ævisagnaritara og
verður vonandi framhald á vinnu hans á þessu
sviði því ennþá eru fjölmargar ævisögur ís-
lenskra bókmenntamanna og -kvenna óskrif-
aðar. En ég vil einnig taka fram að með þessu
ágæta verki Halldórs Guðmundssonar er fjarri
því að „sagan öll“ sé sögð. Ennþá eigum við eft-
ir að fá ítarlegri ævisögur beggja höfunda og
mér skilst reyndar að slíkar bækur séu í
vinnslu nú þegar. Því þegar allt kemur til alls
felst aðferð Halldórs Guðmundssonar að miklu
leyti (þó alls ekki eingöngu) í því að staðnæm-
ast við þekktar stærðir úr ævi höfundanna,
máta saman við verk þeirra og umhverfi. Þetta
gerir Halldór reyndar með afbrigðum faglega,
eins og áður er á minnst, en kannski er verkið
fyrst og fremst ætlað þeim lesendum sem þeg-
ar þekkja vel til verka skáldanna, í því eru
nefnilega margar eyður sem lesendum er ætlað
að fylla upp í, til að mynda með lestri á Íslensk-
um aðli og Ofvitanum, í tilviki Þórbergs, svo
dæmi sé tekið. Að lestri loknum rennur nefni-
lega upp fyrir lesanda að ótal mörgum spurn-
ingum er enn ósvarað – og kannski er full-
komlega óraunsætt að hugsa sér að þeim verði
nokkurn tíma svarað – og það situr einnig eftir
að höfundur fer ekki mjög djúpt í persónulegt
líf þeirra Gunnars og Þórbergs (hér má sem
dæmi nefna að umfjöllun um hjónabönd þeirra
er afar takmörkuð, það er til dæmis ekkert sagt
frá aðdragandi hjónabands Þórbergs og Mar-
grétar; hvernig kynntust þau? Hver var Mar-
grét?). Þórbergur kallaði slíkar eyður í frásögn
„skalla“ – en hann var jú hinn mesti nákvæm-
ismaður frásagnarinnar … Líklegast er ég hér
að biðja um annað verk en Halldór Guðmunds-
son ætlaði sér að skrifa og ekki verður um það
deilt að hann hefur skilað verki sem honum er
fullur sómi af og telst til tíðinda í íslenskri bók-
menntasögu, eins og áður er ítrekað.
Sannleikurinn í skáldskap –
skáldskapurinn í sannleikanum
Halldór
Guðmundsson
Gunnar og Þórbergur „En það mikilvægasta er að sjálfsögðu að í ritun þessarar bókar felast bókmenntasöguleg tíðindi því ekki hafa áður kom-
ið út fræðilegar ævisögur þessara tveggja jöfra íslenskra bókmennta.“
BÆKUR
Ævisögur
Eftir Halldór Guðmundsson. JPV útgáfa 2006,
440 bls.
Skáldalíf. Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á
Skriðuklaustri
Soffía Auður Birgisdóttir
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon