Morgunblaðið - 29.08.2006, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 29.08.2006, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 29. ÁGÚST 2006 31 ✝ Klara Jóns-dóttir fæddist á Arnarstöðum í Eyjafjarðarsveit 30. september 1924. Hún lést á Fjórðungssjúkra- húsinu á Akureyri 17. ágúst síðastlið- inn. Foreldar hennar voru Jón Vigfússon og Helga Sigfúsdóttir, bændur á Arn- arstöðum. Bróðir hennar er Sigfús, f. 28. febrúar 1923, búsettur á Akureyri. Klara giftist 30. ágúst 1946 Eiríki Björnssyni, f. 18. nóv- ember 1923, d. 22. desember 2001. Þau bjuggu í Arnarfelli 1944– 1984, síðan í Hólsgerði 5 á Ak- ureyri. Síðustu tvö árin dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Skjaldarvík. Börn þeirra Eiríks og Klöru eru: 1) Heiðbjört, f. 18. október 1945, gift Geir Guð- mundssyni, þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. 2) Björn, f. 2. apríl 1948, hann á tvær dætur og þrjú barnabörn. Var kvæntur Steinunni Guðjónsdóttur, þau slitu samvistum. 3) Jón, f. 1. júlí 1949, kvæntur Unni Harðardóttur, hann á tvö börn og þrjú barnabörn. 4) Örnólfur, f. 7. ágúst 1953, kvæntur Rögnu Úlfsdóttur, hann á þrjú börn. 5) Ófeigur, f. 2 desember 1958, sambýliskona Guðný Jónsdóttir, hann á þrjár dætur og eitt barnabarn. 6) Leifur, f. 9. apríl 1964, kvæntur Heiðu G. Vigfús- dóttur, þau eiga þrjú börn. Útför Klöru verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Elsku Klara mín. Ég ætla að byrja á því að þakka þér fyrir hvað þú ert búin að vera mér yndisleg tengda- móðir og góð amma barnanna minna. Ég veit ekki hvort þú veist hvað þú hefur snert mörg hjörtu með umhyggju þinni og góðmennsku en þau eru mörg í gegnum árin. Ég ætla nú ekki að hafa þetta langt því að ég er ekki viss um að þú hefðir kært þig um það. En þessi texti er um kærleik sem mér finnst lýsa þér svo vel, elsku Klara mín. Kærleikur er, hvert góðverk sem þú vinnur. Kærleikur, er hvert bros sem þú gefur. Kærleikur, er að faðma þann sem grætur. Kærleikur, er að hugga þann sem syrgir. Kærleikur, er að gefa þeim sem þarfnast. Kærleikur, er umhyggja fyrir öllu sem lifir. Kærleikur, er að biðja fyrir öllum, góðum sem slæmum. Kærleikur, er að lifa sáttur við sjálfan sig og aðra. Kærleikur, er að dæma ekki. Kærleikur, er ljósið sem býr í hjarta þínu. Guð blessi þig og ég veit að núna ertu komin í faðm eiginmanns þíns. Að endingu vil ég votta öllum mina dýpstu samúð. Þín tengdadóttir Heiða V. Elsku amma, eða spora amma eins og ég kallaði þig oft. Það eru margar góðar minningar sem renna í gegn- um hugann á þessari stundu. Öll frá- bæru sumarfríin sem við fjölskyldan eyddum hjá ykkur afa áður en við fluttum til Akureyrar eru mér ofar- lega í huga. Þá var mikið tilhlökkunarefni að fá að fara út í garð og tína upp kart- öflur, rabarbara og jarðarber, leika sér á sólpallinum sem síðar varð sól- hús, fara í göngutúra út á klappir og tína ber og blóm handa þér. Það var alveg sama hvað ég kom með marga vendi heim, alltaf fannstu ílát til að nota sem blómavasa. Þegar ég var tólf ára kom tímabil þar sem ég hélt mikið upp á Bítlana og hlustaði varla á annað. Þá dróstu fram úr fataskápnum fermingarfötin hans pabba og nokkrar skyrtur og gafst mér. Ég var svo montin með þessi nýju föt og gekk í þeim út um allan bæ, þó að þau væru nú ekki í tísku á þessum tíma. Hjá ykkur afa var ávallt fullt hús matar og komst maður ekki hjá því að fara saddur heim frá ykkur því þú barst iðulega fram góðgæti sem eng- an veginn var hægt að neita sér um. Þú fylgdist líka vel með heilsu fjöl- skyldunnar og hringdir daglega í þann sem var veikur hverju sinni til að spyrja frétta. Takk fyrir allar stundirnar sem þú passaðir okkur systurnar. Við vildum helst hvergi annars staðar vera í pössun en hjá þér. Kysstu og knúsaðu afa og Spora frá okkur systrum. Legg ég nú bæði líf og önd, ljúfi Jesús, í þína hönd, síðast þegar ég sofna fer sitji Guðs englar yfir mér. (Hallgrímur Pétursson.) Heiðbjört Ósk Ófeigsdóttir. Minningarnar um Ömmu Klöru eru margar og flestar líka tengdar Eiríki afa, blessuð sé minning hans, því samrýndari hjón er erfitt að hugsa sér. Ef einhverjum dettur í hug að halda að það sé eitthvað annars flokks að vera húsmóðir hefði sá hinn sami átt að kynnast ömmu. Í minn- ingunni var hún, húsmóðirin, sem hafði yfirsýn yfir allt, hvort sem það var búskapartengt eða fólkinu henn- ar. Það var hún sem vissi alltaf hvað við vorum að gera og ótrúlegt hvað hún var t.d. alltaf vel upplýst um það hvar ég var staddur í lífinu. Og um tíma var það nú kannski ekkert sér- staklega létt verk í mínu tilfelli vegna tíðra vinnuskipta og ört fjölg- andi barna. Oft velti ég því fyrir mér hvernig hún færi að því að hafa svona góða yfirsýn yfir öll barna- börnin, barnabarnabörnin, fóstur- barnabörn, vinnumenn úr Arnarfelli og börnin þeirra, sveitunga úr Saur- bæjarhreppi hinum forna, barna þeirra og barnabarna o.s.frv. Í ein- hverjum vangaveltum þá fann ég svarið; Manneskjur og velferð þeirra skipti ömmu máli. Enda hefur það verið þannig að á hverju sem gengið hefur í mínu lífi þá hefur alltaf verið tryggt öruggt skjól og athvarf hjá ömmu. Fyrst í Arnarfelli og síðar í Hólsgerði. Þar gat maður alltaf stól- að á bakkelsi með kærleik. Og um leið fengið greinargott yfirlit yfir stöðu mála í fjölskyldunni og þar fann ég alltaf fyrir því að ég skipti hana máli. Velferð mín og minnar fjölskyldu kom ömmu við og móttök- urnar sem maður fékk voru alltaf höfðinglegar. Heimsóknirnar til ömmu voru sem sagt mannbætandi og gáfu manni alltaf einhvern yl í sál- inu. Klara amma var því fulltrúi þeirr- ar kynslóðar sem komst vel áfram í lífinu með lítillæti, hógværð, um- burðarlyndi, ósérhlífni og dugnaði. Gilda sem okkur sem lifum í sam- tímaþjóðfélagi skortir svo oft en þurfum svo sannarlega verulega á að halda. Guð blessi minningu Klöru ömmu, afa Eiríks og allra sporanna þeirra. Heiðar Ingi Svansson. Björn föðurbróðir minn Eiríksson keypti jörðina Arnarfell í Eyjafjarð- arsveit árið 1942 og hóf þar búskap ásamt fjölskyldu sinni. Björn var Húnvetningur að ætt og uppruna, og ungum tókst honum að afla sér nokkurrar menntunar í heimahéraði og að því búnu bauðst honum að kenna börnum austur í Landeyjum. Þar kynntist hann ungri stúlku, Auð- björgu Guðmundsdóttur frá Hvíta- nesi. Þau gengu í hjónaband og hófu búskap í Krosshjáleigu, sem var nánast rétt við túngarðinn á kirkju- staðnum Krossi í Austur-Landeyj- um og þótti ekki mikið til jarðarinnar koma, enda rýrðar- og forarkot sem nú er löngu aflagt. Jarðnæði lá ekki á lausu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar og ungu hjónin máttu við það una að búa þarna í áratug. Tókst þeim þá að fá á leigu jörðina Horn í Skorradal þar sem aðstæður voru gjörólíkar en samt erfiðar. Þar búnaðist þeim vel og sáu brátt fram á að geta eignast sína eigin bú- jörð; fluttu þau þá með búslóð sína og syni þrjá: Eirík, Kristin og Gunn- laug, norður að Dvergsstöðum í Eyjafjarðarsveit, en tveimur árum síðar keyptu þau jörðina Arnarfell sem er lengra frammi í Eyjafjarð- ardal, en í sömu sveit, og er um margt þægilegt og búsældarlegt býli. Bæirnir Arnarfell og Arnar- staðir eru nánast á sömu torfunni og á Arnarstöðum var ung og blómleg heimasæta og dóttir bóndans þar, Klara Jónsdóttir, og var búin að slíta barnsskónum. Er ekki að orðlengja það að þau Eiríkur og Klara, börn bændanna þar á torfunni, felldu strax hugi sam- an og áttu svo samleið ævina út sem einkenndist af gagnkvæmri tillits- semi, ást og eindrægni í búsæld og barningi lífið út í gegn. Þeim bar aldrei neitt á milli svo vitað væri. Bæði vildu búa í sveit, bæði höfðu yndi af viðfangsefnum sveitalífsins og voru sammála um nánast hvað- eina. Þegar Björn, tengdafaðir Klöru, sannfærðist um einlægan ásetning þeirra og vilja til að stunda búskap í sveit, bauð hann þeim að standa upp af jörðinni og fá hana þeim í hendur og lét ekki sitja við orðin tóm, flutti burt, keypti jörð handa sér, konu sinni og sonum og hélt áfram sínum búskap í öðru ey- firsku sveitarfélagi. Klara Jónsdóttir var viðfelldin kona í framgöngu með góðu yfir- bragði, skyldurækin, traust og ábyrgðarfull, hún lét lítið yfir sér, var nægjusöm, orðvör og gætin. Í ætt hennar var þekkt fólk sem hafði til að bera dulræna hæfileika og má vel vera að hún hafi fundið til slíkra hæfileika í eigin barmi þótt ekki vissi ég til að hún hefði orð á eða þess yrði vart. Lengi voru mikil umsvif á heimili þeirra Klöru og Eiríks á Arnarfelli; þau eignuðust sex börn, eina dóttur og fimm syni sem öll eru hið ágæt- asta fólk og dugmikið. Oft var á heimilinu gestagangur því að Eirík- ur tók mikinn og drjúga þátt í fé- lagsmálum og ýmsir leituðu til hans og ræddu sín mál, enda maðurinn skarpgreindur og ráðsnjall og með eindæmum viljugur og fús að láta gott af sér leiða, og því hlóðust á hann trúnaðarstörf fyrir sveitina og samfélagið í svo ríkum mæli að við lá að hann ofgerði sér. Sannaðist þá sem oftar „að maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.“ Klara var hans góði förunautur, rólynd og sterk og vinur í blíðu sem stríðu. – Og nú er komið að kveðju- stund hennar, tæpum fimm árum eftir burtför Eiríks af þessum heimi. Allir sem hana þekktu og umgengust kveðja þessa velviljuðu og kærleiks- ríku konu í virðingu og þökk fyrir allt sem hún var og stóð fyrir; sjálfur árna ég henni velfarnaðar og bless- unar hvar sem leið hennar liggur um ókunna stigu framlífsins. Ég lifi og þér munuð lifa, sagði sjálfur frelsarinn, munum það. Ég þakka þær stundir sem ég átti með þeim Klöru og Eiríki, þær voru innihaldsríkar og skemmtilegar og því eftirminnilegar. Far nú vel, kæru vinir, – minn- ingin lifir. Snorri Jónsson. Klara Jónsdóttir Elsku amma Klara mín. Ég sakna þín rosalega mikið. Ég elska þig mikið. Mér fannst svo gaman að púsla hjá þér. Ég er oft að tala um þig og ég veit að þú munt fylgjast með mér. Þín Berglind Rós. HINSTA KVEÐJA Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, GUÐMUNDUR PÉTUR SIGMUNDSSON, andaðist á Landakotsspítala föstudaginn 25. ágúst síðastliðinn. Guðfinna Elísabet Benjamínsdóttir, Kristján Guðmundsson, Helga Þórðardóttir, Sigmundur Guðmundsson, Arna Rún Óskarsdóttir, Eiríkur Ómar Guðmundsson, Margrét Kristín Blöndal og barnabörn. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir og amma, ANNA GUÐMUNDSDÓTTIR, Sóleyjarima 3, Reykjavík, lést á Landspítalanum að morgni föstudagsins 25. ágúst. Útförin verður auglýst síðar. Björn Björnsson, Hrönn Björnsdóttir, Jón Pálsson, Katrín Björnsdóttir, Gunnlaugur Friðrik Kristjánsson, Björn Steinar Jónsson, Ásbjörg Jónsdóttir, Bjarki Snær Jónsson, Anna Bryndís Gunnlaugsdóttir, Kristján Friðrik Gunnlaugsson, Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir. Eiginmaður minn, JÓN ÓLAFUR HERMANNSSON frá Flatey, Hjarðarhóli 10, Húsavík, lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga laugardag- inn 26. ágúst. Fyrir mína hönd og annarra vandamanna, Stefanía Jóhannesdóttir. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda- móðir, dóttir, systir og tengdadóttir, DÓRÓTHEA ELÍSA JÓNASDÓTTIR, Hamrabyggð 2, Hafnarfirði, sem lést á heimili sínu að morgni föstudagsins 25. ágúst, verður jarðsungin frá Hafnarfjarðar- kirkju föstudaginn 1. september kl. 13.00. Sigurður Kristinsson, Sólveig Helga Sigurðardóttir, Hlynur Jóhannsson, Sigurbjörg Kristín Sigurðardóttir, Sólveig Einarsdóttir, Helgi Einarsson, Ragnheiður Helgadóttir, Runólfur Bjarnason, Matthildur Helgadóttir, Harpa Helgadóttir, Árni Örn Jónsson, Sigurbjörg Vigfúsdóttir, Kristinn Torfason. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, LEIFUR HREINN ÞÓRARINSSON bóndi, Keldudal, Skagafirði, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sunnu- daginn 27. ágúst. Útför hans verður frá Sauðárkrókskirkju laugar- daginn 2. september kl. 13.00. Jarðsett verður í Rípurkirkjugarði. Kristín Bára Ólafsdóttir, Ólöf Elfa Leifsdóttir, Alfreð Schiöt, Stefanía Hjördís Leifsdóttir, Jóhannes Helgi Ríkharðsson, Þórarinn Leifsson, Guðrún Lárusdóttir, Kristbjörg Leifsdóttir, Magni Þór Samsonarson, Guðleif Birna Leifsdóttir, Eysteinn Leifsson, Álfhildur Leifsdóttir, Sölvi Sigurðarson og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.