Morgunblaðið - 25.10.2006, Síða 21
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. OKTÓBER 2006 21
LANDIÐ
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
Hvanneyri | „Ég hef alltaf sótt í sveitina og vissi
að ég yrði aldrei alvöru Reykvíkingur,“ segir Þor-
björg Valdís Kristjánsdóttir sem ráðin hefur verið
alþjóðafulltrúi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á
Hvanneyri. Hún kynntist alþjóðlegu starfi þegar
hún vann að þjálfun og aðlögun Keikós í Vest-
mannaeyjum og Noregi og hefur síðan unnið á
þeim vettvangi.
Þorbjörg er alin upp í Laxholti í Borgarhreppi í
Borgarfirði. Hún fór í menntaskóla að Laugar-
vatni. „Ég hef alltaf verið sveitó og fannst ómögu-
legt að fara í menntaskóla í Reykjavík,“ segir Þor-
björg. Hún steig það skref þó að loknu mennta-
skólanámi og nam líffræði í Háskóla Íslands,
útskrifaðist með BS-gráðu 1996. Hún komst aftur
í snertingu við sveitina með því að ráða sig í
fræðsludeild Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
Tók þátt í Keikó-ævintýrinu
Háhyrningurinn Keikó kom síðan inn í líf henn-
ar í byrjun árs 2002. „Þá voru uppi hugmyndir um
að flytja Keikó til Stykkishólms og koma honum
meira yfir á hendur Íslendinga. Ráða þurfti Ís-
lendinga til að taka við af Bandaríkjamönnunum.
Forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands í
Stykkishólmi sagði frá mér, að ég hefði óþrjótandi
áhuga á dýrum og væri til í að flytja hvert á land
sem væri,“ segir Þorbjörg.
Hún flutti til Vestmannaeyja og tók þar þátt í
þjálfun háhyrningsins og tilraunum til að laga
hann að náttúrunni. „Þetta var afar spennandi
verkefni og frábært tækifæri fyrir líffræðing sem
hefur áhuga á atferlisfræði,“ segir hún. En svo
stakk Keikó af og kom fram í Skálavíkurfirði í
Noregi um haustið. Þorbjörg var send á eftir hon-
um til að koma honum aftur út á meðal villtra há-
hyrninga. Þetta átti að vera viku verkefni en svo
teygðist úr því að hún var í Noregi á annað ár, eða
þar til Keikó drapst. Í þessu verkefni vann hún
með Bandaríkjamönnum, Kanadamanni og Norð-
mönnum og kynntist alþjóðlegu samstarfi af eigin
raun. Hún kynntist líka samskiptum við fjölmiðla í
þeim fjölmiðlasirkus sem var í kringum Keikó.
Segist ekki hafa áttað sig á því fyrr en þá hversu
stórt nafn hann var.
„Auðvitað tengdist maður honum. Þetta var
ótrúlega skepna. Það var svipað og að missa hund-
inn sinn þegar hann drapst,“ segir Þorbjörg.
Fljótlega eftir að hún kom heim aftur fékk hún
vinnu sem alþjóðafulltrúi hjá Rannís. Heldur þar
utan um þátttöku Íslendinga í alþjóðlegum verk-
efnum, ekki síst innan rammaáætlunar ESB.
Hún og maður hennar, Hlöðver Hlöðversson,
fluttu upp í Borgarnes og hún tók því síðan fagn-
andi þegar henni var boðið að ráða sig í nýtt starf
alþjóðafulltrúa hjá Landbúnaðarháskólanum á
Hvanneyri. Hún tekur til starfa þar um næstu
mánaðamót. Hún segir gott að búa í Borgarnesi.
Þar sé hún stutt frá sveitinni sinni og geti verið
með hesta, hund og kött.
Á Hvanneyri verður hún hægri hönd og næst-
ráðandi kennslustjóra Landbúnaðarháskólans og
alþjóðafulltrúi. Hún segir hlutverk sitt að byggja
upp alþjóðleg sambönd í tiltölulega ungum en vax-
andi háskóla. Það gerist meðal annars með því að
senda nemendur til erlendra háskóla og fá erlenda
nemendur til landsins. Einnig með kennaraskipt-
um. „Þetta er gríðarlega mikilvægt í nútímasam-
félagi þar sem heimurinn er alltaf að minnka,“
segir Þorbjörg.
Kynntist alþjóðlegu starfi
í vinnu við þjálfun Keikós
Morgunblaðið/Eyþór
Ánægð með lífið Þorbjörg Valdís Kristjáns-
dóttir er búin að fá vinnu í sveitinni.
Í HNOTSKURN
»Þetta var afar spennandi verkefni og frá-bært tækifæri fyrir líffræðing sem hefur
áhuga á atferlisfræði.
»Það var svipað og að missa hundinn sinnþegar Keikó drapst.
»Mikilvægt fyrir skólann að koma upp al-þjóðlegum samböndum.
Samstaða til sigurs! - Björn Bjarnason í 2. sæti
Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík, 27. og 28. október
www.bjorn.is
Kosningamiðstöð Björns Bjarnasonar / Skúlagötu 51 / 551-6300 / www.bjorn.is
Opið alla virka daga frá kl. 14:00 til 20:00 og frá kl. 13:00 til 17:00 um helgar.
Akstur á kjörstað
Stuðningsmenn Björns
Bjarnasonar bjóða kjósendum
akstur á kjörstað báða kjör-
dagana, 27. og 28. október.
Vinsamlega hringið í síma
551-6300. Tekið er við
beiðnum á opnunartíma
kosningamiðstöðvar Björns.
Stuðningsmenn.
Húsavík | Hvítt er yfir að líta á
Húsavík um þessar mundir. Öku-
menn voru margir hverjir ekki bún-
ir að skipta yfir á vetrardekk og
var því örtröð á dekkjaverkstæðum
bæjarins í fyrradag.
Þannig var nóg að gera hjá Ingv-
ari Sveinbjörnssyni, eiganda Bíla-
þjónustunnar hf., og starfsmönnun
þann daginn.
Útlit er fyrir áframhaldandi
norðanátt næstu daga með snjó-
komu eða slyddu um norðanvert
landið. Það er því eins gott fyrir
ökumenn að skipta strax um dekk.
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Örtröð á
dekkja-
verkstæði
Snæfellsnes | Sveitarfélögin á Snæ-
fellsnesi hafa stofnað Umhverfissjóð
Snæfellsness. Guðrún Bergmann og
fjölskylda hennar höfðu frumkvæði
að stofnun sjóðsins. Stofnframlag
hans er sjóður sem stofnaður var til
minningar um eiginmann Guðrúnar,
Guðlaug Bergmann framkvæmda-
stjóra og frumkvöðul, sem lést í lok
ársins 2004.
Fram kemur á vef Snæfellsbæjar
að markmið sjóðsins er að styrkja
ýmis verkefni í umhverfis- og sam-
félagsmálum sem byggð eru á
grunni sjálfbærrar þróunar í sveit-
arfélögunum fimm á Snæfellsnesi.
Stefán Gíslason umhverfisstjórn-
unarfræðingur, Sigríður Finsen, for-
seti bæjarstjórnar Grundarfjarðar,
og Guðrún Bergmann framkvæmda-
stjóri eru í stjórn sjóðsins.
Umhverfis-
sjóður
stofnaður
Árborg | Björgunarfélag Árborgar
og Slysavarnadeildin Björg á Eyr-
arbakka bjóða eldri íbúum Árborgar
að koma í heimsókn til þeirra og gera
úttekt á slysavörnum á heimilinu.
Eiga allir íbúar 75 ára og eldri kost á
þessari þjónustu.
Í heimsókninni verður farið yfir
ýms öryggisatriði, svo sem lýsingu,
handföng, eldvarnir og hálkuvarnir
og ráðlagt um úrbætur. Heimsókn-
irnar eru íbúunum að kostnaðar-
lausu. Kemur þetta fram á frétta-
vefnum sudurland.is.
Heimsóknirnar munu fara fram
næstkomandi laugardag, 28. októ-
ber, og munu félagar þessara sveita
þá ganga í hús og bjóða þjónustuna.
Þeim sem ekki verða heima þá býðst
að fá aðra heimsókn eftir samkomu-
lagi.
Ráðleggja
öldruðum
♦♦♦