Morgunblaðið - 20.03.2007, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. MARS 2007 19
LANDIÐ
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
Landsveit | Nýir eigendur Leiru-
bakka í Landsveit eru að byggja upp
fjölþætta ferðaþjónustu sem byggir
á gömlum grunni og áhugamálum
þeirra sjálfra, menntun og reynslu.
Anders Hansen blaðamaður og Val-
gerður Kr. Brynjólfsdóttir íslensku-
fræðingur hafa stofnað fræða- og
menningarsetur sem vinnur að ýms-
um menningar- og sögutengdum
verkefnum auk uppsetningar Heklu-
sýningar sem opnuð verður í vor.
Anders og Valgerður höfðu verið
með hrossarækt og ferðaþjónustu í
tengslum við hestamennsku á Ár-
bakka, neðar í sveitinni, í nítján ár.
„Við fengum kauptilboð í jörðina án
þess að hún væri til sölu og ákváðum
að taka því og selja með meginhluta
hrossanna,“ segir Anders þegar þau
hjónin eru spurð um tildrög þess að
þau fluttu að Leirubakka. „Í upphafi
var hugmyndin að flytja aftur til
Reykjavíkur en eftir að við og börnin
höfðum skoðað þann möguleika bet-
ur minnkaði áhuginn verulega á því
að flytja úr sveitarfélaginu. Þá fórum
við að svipast um og sáum að Leiru-
bakki var til sölu.“ Þau keyptu jörð-
ina af Íslenskum aðalverktökum vor-
ið 2005 og fluttu sig um set.
Miklir möguleikar
Leirubakki er fornt höfuðból í
Landsveit, stór og landmikil jörð og
þar hefur verið rekin ferðaþjónusta í
röskan aldarfjórðung, fyrst af hjón-
unum Guðrúnu Jónsdóttur og
Bjarna Valdimarssyni. Síðar byggði
Sveinn R. Eyjólfsson og fjölskylda
hans upp aðstöðuna og ráku um ára-
bil. Íslenskir aðalverktakar höfðu átt
jörðina í eitt ár þegar Anders og Val-
gerður keyptu.
„Við sáum strax að hér voru miklir
möguleikar og ákváðum að halda
áfram að byggja upp fjölþætta starf-
semi í ferðaþjónustu,“ segir Anders.
Þau ákváðu að stækka hótelið og
veitingastaðinn, halda áfram með
hrossarækt og hestaferðamennsku
og taka hluta landsins undir sumar-
húsabyggð. Síðast en ekki síst
ákváðu þau að halda áfram við upp-
byggingu Hekluseturs og útvíkka þá
hugmynd.
Þau hafa tekið í notkun fyrsta
áfanga nýs gistihúss, fjórtán her-
bergi sem öll eru með baðherbergi,
og eru að ljúka tengibyggingu við
veitingastaðinn. Í nýbyggingunni og
eldra húsinu geta þau tekið liðlega
fimmtíu manns í gistingu. Fyrirhug-
að er að byggja aðra álmu við gisti-
húsið á næstu árum. Þá er gistiað-
staða fyrir um fimmtíu manns á
hesthúsloftinu sem er mikið sótt af
ferðahópum hestafólks og á staðnum
er vinsælt tjaldsvæði. „Á góðviðris-
dögum gista hundruð á Leirubakka,“
segir Anders.
Þau hafa látið skipuleggja lóðir
fyrir 300 sumarhús á bökkum Rang-
ár ytri og nefna Fjallaland. Anders
segir að búið sé að selja þrjátíu lóðir
og tvö fyrstu húsin risin. „Þetta eyk-
ur möguleikana á að reka þjónustu-
miðstöð á Leirubakka. Með því að
hafa fjölþætta ferðaþjónustu skjót-
um við fleiri stoðum undir rekstur-
inn,“ segir Valgerður.
Mannlíf í skugga eldfjalls
Fyrir um það bil tíu árum tóku
nokkur ungmenni í Landsveit sig
saman og settu upp sýningu um
Heklu í félagsheimilinu Brúarlundi.
Hún var opin á sumrin í nokkur ár.
Þáverandi eigandi Leirubakka,
Sveinn R. Eyjólfsson og fjölskylda
hans, keyptu sýninguna á árinu 2000
og hófu byggingu myndarlegs húss
fyrir Heklusýningu. Þeirri fram-
kvæmd var ekki lokið þegar Anders
og Valgerður keyptu jörðina. Á
þeirra vegum er nú unnið við að ljúka
byggingu hússins og innréttingu auk
þess sem verið er að gera alveg nýja
Heklusýningu sem þar verður opnuð
í vor. Í húsinu verður einnig upplýs-
ingamiðstöð fyrir ferðafólk, veitinga-
staður og ráðstefnuaðstaða.
Hugmyndin hefur þróast frekar í
þeirra huga. „Þótt Hekla sé áhuga-
verð finnst okkur saga mannlífsins í
skugga eldfjallsins ekki síður áhuga-
verð,“ segir Anders. Valgerður nefn-
ir í þessu sambandi uppblásturinn
sem ógnaði þessum hluta sveitarinn-
ar og telur að litlu hafi munað að
þarna færi allt í eyði á nítjándu öld.
Hún segir að gaman sé að fá tæki-
færi til að miðla sögunni. Hefur þessi
hugsun þróast út í fræða- og menn-
ingarsetur á Leirubakka sem Heklu-
sýningin verður hluti af.
Þau hafa gert samstarfssamning
við Rangárþing ytra um að vinna að
ýmsum verkefnum sem tengjast
náttúru, sögu, menningu, þjóðfræði
og listum í héraðinu og fyrirhugað er
að taka upp samstarf við ýmsar
stofnanir.
Meðal verkefna sem fræða- og
menningarsetrið vinnur að er und-
irbúningur samkomu til minningar
um Eyjólf Guðmundsson í Hvammi
sem nefndur var landshöfðingi. Unn-
ið er að söfnun heimilda um Land-
réttir og um smalamennskur á Land-
mannaafrétti. Hjónin hafa mikinn
áhuga á að Landréttir í Réttanesi við
Rangá verði lagfærðar og varðveitt-
ar minjar um eldri Landréttir sem
enn má sjá marka fyrir í hrauninu
suðvestur af Leirubakka. „Við horf-
um mest á okkar nánasta umhverfi
og þar er af nógu að taka,“ segir Val-
gerður.
Þarf að miðla sögunni
Anders og Valgerður segja að
ferðafólk, bæði innlent og erlent,
þyrsti í sögu staðanna og svæðanna
sem það heimsækir og vinna þurfi
skipulega að því að miðla henni. Því
sé fræða- og menningarsetur eðlileg-
ur þáttur í ferðaþjónustunni sem þau
eru að byggja upp.
Fjölfarnir vegir upp á hálendið og
til vinsælla ferðamannastaða liggja
um hlaðið á Leirubakka. Ferðafólki
sem til landsins kemur fjölgar stöð-
ugt. „Ég tel að við þurfum að gera
meira af því að búa til ferðamanna-
staði, eins og hér er verið að gera,
þannig að fólkið getið notið landsins
án þess að valda eyðileggingu á nátt-
úruperlum. Bláa lónið er gott dæmi
um það,“ segir Anders.
Búist er við mikilli fjölgun ferða-
fólks á Leirubakka eftir að Heklu-
setrið verður opnað og önnur starf-
semi komin á fullan snúning. Anders
segir að reikna megi með allt að þrjá-
tíu þúsund gestum á ári.
Fræða- og menningarsetur er hluti af ferðaþjónustunni á Leirubakka í Landsveit
Af nógu að taka í nánasta umhverfi
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Mannlíf í skjóli eldfjalls Anders Hansen og Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir
eru að byggja upp fjölþætta ferðaþjónustu á Leirubakka.
Í HNOTSKURN
»Saga Guðna Jónssonarmagisters hefur verið Val-
gerði og Anders mikill inn-
blástur og er ákveðinn grund-
völlur fræða- og menningar-
setursins.
»Guðni ólst upp á Leiru-bakka. Þar kynntist hann
þjóðfræði og fornri menningu
Íslendinga sem mótaði líf hans
og lagði grunninn að ævistarf-
inu.
»Fyrirhuguð er ráðstefnaFélags sagnfræðinga og
þjóðfræðinga og þá verður af-
hjúpaður minnisvarði um
Guðna Jónsson heima á staðn-
um.
SUÐURNES
Eftir Reyni Sveinsson
og Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
Sandgerði | Gert er ráð fyrir því
að gömul grjótnáma í Miðnesheiði
verði notuð sem útivistarsvæði
Sandgerðinga. Samkvæmt tillög-
um sem liggja fyrir gæti þar verið
leiksvæði fyrir börn, hátíðarsvið
og skíðabrekka, svo nokkrar hug-
myndir séu nefndar.
Fjölmenni var á íbúafundi um
skipulagsmál sem bæjarstjórn
Sandgerðis hélt í Vörðunni í Ráð-
húsi Sandgerðis síðastliðinn laug-
ardag. Fundurinn var vel sóttur.
Farið var yfir þau mál sem eru
efst á baugi í skipulagsmálum og
þau kynnt fyrir íbúum. Tillögurn-
ar eru áfram til sýnis í Vörðunni.
Þar eru einnig til sýnis tillögur
sem bárust í samkeppni um minn-
isvarða sem fyrirhugað er að
reisa í tilefni af 100 ára afmæli
vélbátaútgerðar í Sandgerði.
Markaðsátak
í atvinnumálum
Sigurður Valur Ásbjarnarson
bæjarstjóri segir að í framhaldi af
vel heppnuðu markaðsátaki,
Sandgerðisbær innan seilingar, sé
verið að hefja markaðsátak sem
beinist að fjölgun atvinnutæki-
færa í bænum. Á fundinum kom
fram að fjölgað hefur í bænum úr
um 1.400 manns, þegar markaðs-
átakið hófst, í að verða 1.700 íbúa
nú.
Á fundinum voru kynntar lag-
færingar á Strandgötunni og
rammaskipulag sem gerir ráð fyr-
ir blandaðri byggð með strönd-
inni. Sigurður Valur tekur fram
að verið sé að vinna að lagfær-
ingum á skolpútrásum og hreins-
un fjörunnar þannig að þarna geti
í framtíðinni orðið náttúruparadís.
Kynnt var deiliskipulag að mið-
bæjarsvæðinu sem lagt er komið
með að framkvæma og tillögur að
gönguleiðum og nýtingu tjarn-
anna sem teljast náttúruverndar-
svæði.
Sagt var frá stækkun íþrótta-
húss og sundlaugar sem nú stend-
ur yfir og sagt frá hugmyndum
um stækkun íþróttasvæðis Reynis
og golfvallarins. Sigurður Valur
segir að á næstunni verði gerðir
samningar við golfklúbbinn og
knattspyrnufélagið um næstu
skref í uppbyggingu íþróttasvæð-
anna og segir hann ljóst að sveit-
arfélagið muni koma myndarlega
að þeim málum. Golfvöllurinn
verður stækkaður í átján holu
völl. Þá er fyrirhugað að setja
gervigrasvöll við hliðina á knatt-
spyrnuvelli Reynis með það í
huga að síðar verði hægt að
byggja knattspyrnuhús yfir völl-
inn.
Tekið var grjót úr námu í Mið-
nesheiði þegar grjótvarnargarð-
arnir voru gerðir í Sandgerðis-
höfn. Nú hefur byggðin teygt sig
að námunni sem er risastór hola í
jörðinni með miklum klettaveggj-
um. Kynntar voru hugmyndir um
nýtingu hennar sem útivistar-
svæðis fyrir bæjarbúa, bæði til
daglegra nota og eins á hátíð-
arstundum. Svæðið er skjólgott
og fyrirhugað er að rækta það
upp, koma upp göngustígum og
aðstöðu fyrir börn og unglinga.
Jafnvel skíðabrekku og sviði fyrir
hátíðarhöld. Sigurður Valur segir
að búið sé að aka töluverði efni í
botn námunnar og móta landið í
samræmi við þær tillögur sem
fyrir liggja.
Grjótnáman verður notuð
sem útivistarsvæði bæjarbúa
Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
Kynning Íbúar voru áhugasamir um þær hugmyndir í skipulagsmálum
sem kynntar voru á fundi í Vörðunni síðastliðinn laugardag.
Í HNOTSKURN
»Margt er á prjónunum ískipulagsmálum Sandgerð-
inga. Voru helstu mál kynnt á
fjölmennum íbúafundi í Vörð-
unni.
»Blönduð byggð verður áhafnarsvæðinu og fjaran
hreinsuð.
»Verið er að stækkaíþróttamannvirki við
grunnskólann og fyrirhugað
er að leggja gervigrasvöll á
svæði Reynis og stækka golf-
völlinn.
»Göngustígar verða gerðirvið tjarnirnar og útivist-
arsvæði í grjótnámunni.
Reykjanesbær | Forskóladeild Tónlistar-
skóla Reykjanesbæjar og lúðrasveit næst-
elstu nemenda skólans halda alls fimm
tónleika fyrir nemendur í grunnskólum
Reykjanesbæjar þessa dagana. Tónleik-
arnir eru haldnir í öllum grunnskólum
bæjarins í gær og í dag.
Tónleikaröðinni lýkur síðan með kvöld-
tónleikum í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur á
morgun, miðvikudag, klukkan 19.30. Á
tónleikunum á morgun koma fram nem-
endur í 2. bekk forskóladeildar Tónlistar-
skólans, alls um 180 manns, auk lúðra-
sveitarinnar og rokkhljómsveitar sem
skipuð er nemendum skólans.
Allir nemendurnir
leika á tónleikum
Sandgerði | Kvennakór Suðurnesja fer á
alþjóðlegt kóramót sem haldið verður á
Ítalíu í haust. Kórinn heldur nú tónleika
þar sem fluttur er hluti af dagskránni sem
farið verður með til Ítalíu.
Fjölmenni var á fyrri tónleikum kórsins,
í Safnaðarheimilinu í Sandgerði í fyrra-
dag. Flutt voru tíu íslensk og tíu erlend
lög undir stjórn Dagnýjar Þ. Jónsdóttur.
Sigurbjörg Hjálmarsdóttir söng einsöng.
Síðari tónleikarnir verða í Keflavíkur-
kirkju í kvöld, klukkan 20.
Hita sig upp fyrir
söngferð til Ítalíu
Morgunblaðið/Reynir Sveinsson