Morgunblaðið - 27.11.2007, Blaðsíða 16
16 ÞRIÐJUDAGUR 27. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Erró fæddist á Ólafsvíkklukkan sjö að morgni 19.júlí árið 1932, fyrir rúmum
75 árum.
16. september 1989 tilkynnti þá-
verandi borgarstjóri Reykjavíkur,
Davíð Oddsson, um mikilsháttar
gjöf Errós til borgarinnar (þar á
meðal 232 málverk og 1200 teikn-
ingar).
29. maí árið 1965 kom Erró í
fyrsta skipti til Reykjavíkur í fimm
ár.
27. apríl árið 1957 opnaði Ferró,
eins og hann kallaði sig þá, sýningu
í Listamannaskálanum á um það bil
150 verkum.
Á stórsýningunni „París, höf-
uðborg listanna,“ sem var opnuð í
London 26. janúar árið 2002 er mál-
verk Errós, The Background of
Pollock.
Þessar upplýsingar um líf og fer-il myndlistarmannsins Errós,
eða Guðmundar Guðmundssonar,
eru gripnar handahófskennt úr ný-
útgefnum doðranti, sem er hátt í
500 síður og kallast Erró í tímaröð
– líf hans og list. Höfundurinn,
Danielle Kvaran, segir þetta vera
verulega endurskoðaða og aukna
krónólógíu, sem upphaflega var
gerð fyrir yfirlitssýninguna á verk-
um Errós í Galerie de Jeu de
Paume í París árið 1999. Og krónó-
lógía er þetta svo sannarlega, hefst
á fæðingarstundu listamannsins og
þroska hans og þróun er fylgt til
ársloka 2006. Hér er ekki um hug-
lægar spekúlasjónir Danielle Kvar-
an um list Errós að ræða (eig-
inmaður hennar, Gunnar B. Kvaran
listfræðingur, skrifaði einnig um
listamanninn, bók sem heitir Tími/
rými í verkum Errós). Þess í stað er
gengið á hvert árið af öðru og
helstu viðburðir tíndir til; sýning-
aropnanir, ferðalög, fundir, fjöl-
skyldumál. Textinn er vinstra meg-
in á hverri opnu en myndverk og
ljósmyndir til hægri. Gríðarlega
mikið af verkum og ljósmyndum.
Þetta er mikið bókverk og á köfl-um yfirþyrmandi í stað-
reyndaflóðinu – en það kallast afar
vel á við verk listamannsins. Þau
byggja á ofhlæði, myndefni er
hrúgað saman, mismunandi og mis-
vísandi upplýsingum: pólitík, aug-
lýsingar, teiknimyndasögur, erótík,
popp. Aldrei fyrr finnst mér ég
hafa áttað mig á þessari gríðarlegu
framleiðslu, þessum flókna mynd-
heimi mannsins sem sagður hefur
verið „aðalfulltrúi popplistarinnar í
Frakklandi“. Við sjáum myndir frá
sýningum hans, lesum úr umsögn-
um, sjáum hvernig hann hefur
reynt að endurspegla tíðarandann í
verkum sem iðulega eru köld, vél-
ræn, litrík og full af ádeilu. Á bak
við þau er síðan skælbrosandi lista-
maðurinn sem fellur inn í hvaða
hóp sem er; með þjóðarleiðtogum
eða kollegum, á veitingastöðum eða
á Rauða torginu, sagður eftirsóttur
í samkvæmislífinu, en samt fyrst og
fremst á vinnustofunni, sívinnandi,
án þess hefði þessi myndheimur
aldrei orðið til. Og heldur ekki
þessi stóra bók, mikla krónólógía,
sem á án efa eftir að opna fleiri
augu og hjálpa fólki að skilja heild-
arverk mannsins sem ólst upp á
Kirkjubæjarklaustri og var strax
sem unglingur farinn að hlaða upp í
myndum sínum fólki og stríðs-
tólum, landslagi og maskínum; ávís-
un á það sem koma skyldi.
Sumarið 1947: Að venju fór Guð-mundur heim á Kirkjubæj-
arklaustur að hjálpa til við heyskap
og silungsveiðar. En hann hélt
áfram að mála og teikna „til að
halda sér í þjálfun.“
12. júlí 1983: Erró er sæmdur
riddarakrossi af Orðu lista og bók-
mennta af menningarmálaráðherr-
anum, Jack Lang.
12. febrúar 1960: Í hinu nýopn-
aða Galerie Chirvan í París sýndi
Ferró 28 málverk. Suzanne Tenand
skrifar í La Tribune Des Nations:
„Þetta eru sláandi og ströng verk
sem munu brátt öðlast sinn sess í
hinum síbreytilega nútíma.“
Krónólógía lífs og margbrotins myndheims
AF LISTUM
Einar Falur Ingólfsson
» Aldrei fyrr finnstmér ég hafa áttað
mig á þessari gríðarlegu
framleiðslu, þessum
flókna myndheimi
mannsins sem sagður
hefur verið „aðalfulltrúi
popplistarinnar í Frakk-
landi“.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Í Listamannaskálanum Ferró, eins og Erró eða Guðmundur Guðmundsson kallaði sig þá, við eitt verkið á sýning-
unni sem var opnuð í Reykjavík 27. apríl árið 1957.
efi@mbl.is
ÞAÐ eru ekki mörg skáld fundvísari á
sérkennileg yrkisefni en Þórarinn Eld-
járn. Fá nútímaskáld hnjóta sérstaklega
um hrópandi eyður í Íslend-
ingasögum, reimleika í Eddu-
hótelum eða ef því er að skipta
vegakerfi landsins. Ekki þar
fyrir að þessi yrkisefni séu í
sjálfu sér eitthvað óljóðrænni
en önnur. En einhvern veginn
er Þórarni gefið að sjá skop-
legu hliðarnar á hinum marg-
víslegu endum og skotum til-
verunnar.
Það er hins vegar erfitt að
draga upp heildstæða mynd af
bók hans, Fjöllin verða að
duga. Nema hann er ávallt
ferskur og gagnrýninn í sínum
kveðskap. Á bak við kímnina
er yfirleitt nokkur alvara.
Þannig má grilla í alvarlega
bókmenntalega gagnrýni á bak við skelm-
isskapinn í kvæðinu „Yrking“, en þar er
að finna ýmis kjörorð í anda bókmennta-
páfa: „Að yrkja er að virkja“, „Berast
ekki á / en bera á“, „Allt er / annaðhvort /
öpun / eða ný sköpun.“ Hér er vitaskuld
verið öðrum þræðinum að vara við fordild
ýmiss konar í skáldskap og minna á mik-
ilvægi þess að virkja ímyndunaraflið í
stað þess að festast í klisjum.
Þórarinn þefar sem áður uppi ýmiss
konar útúrsnúninga og orðaleiki, m.a.
mállegar tímavillur. Nokkuð hefur verið
fjallað í fræðiritum um svokallaðar útiset-
ur, þegar kuklarar og aðrir andans menn
koma sér fyrir á krossgötum og bíða eftir
andlegum straumum að handan. Í kvæð-
inu „Útiseta“ hefur krossgatan verið
poppuð upp og nú situr minn maður á
„mislægum gatnamótum“ sem augljóslega
gera ekki sama gagn því undir sprengju-
hríð „himneskra hjálparsveita“ afhelgast
krossgatan í venjulega umferðaræð:
Allt var árekstralaust
og fór fram hjá mér
gekk eins og í sögu
sem ég heyrði ekki
enda komst ég ekki að neinu.
Ljóð það sem tengist titli
bókarinnar segir þó kannski
einna mest um innihald henn-
ar og þann boðskap sem
skáldið hefur fram að færa.
Þar leitar Þórarinn manninum
stað í „staðlausum heimi“ og
að máli í „málóðum heimi“ og
telur einna mikilvægast að
eiga sér fjall sem markmið og
kennileiti – en fjall er oft tákn
staðfestu og öryggis í ljóðum
skálda. Með vísun í þá
kersknilegu fullyrðingu Steins
Steinarr að orðið menning
væri fyrst og fremst rímorð á
móti heilagri þrenningu kemst
Þórarinn að eftirfarandi nið-
urstöðu:
Fjall
kona
karl
er allt
sem
þarf
í arf.
Það er sú þrenning
sem rímar á móti menning.
Fjöllin verða að duga er ekki aðeins
skemmtileg ljóðabók og fimlega ort heldur
rís hún einnig upp eins og fjall úr flötum
heimi hvað varðar ýmsar vangaveltur um
samtímann.
Að yrkja er að virkja
BÆKUR
Ljóð
Eftir Þórarin Eldjárn.
Vaka-Helgafell. 2007 – 95 bls.
Fjöllin verða að duga
Skafti Þ. Halldórsson
Þórarinn Eldjárn
ÞAÐ er nokkuð löng hefð í ævisagnaritun
að segja sögu annarra í samvinnu við þá.
Mörg dæmi eru um farsæla samvinnu af því
tagi og má þar m.a. nefna sögu Malcolms X
sem Alex Haley skráði, sem oft
er hrósað fyrir hve vel rödd
Malcolms fær að njóta sín í
verkinu. Vigdís Grímsdóttir
tekst á við þetta verkefni þegar
hún skráir lífshlaup Bíbí Ólafs-
dóttur og ferst það einstaklega
vel úr hendi. Rödd Bíbí hljóm-
ar skýrt og greinilega, í málfari
og tóni, í frásögn af vægast
sagt viðburðaríku lífi – „við-
burðaríkt“ er þó alltof veim-
iltítulegt lýsingarorð í þessu
samhengi, því hér er lýst mörg-
um skelfilegum atburðum.
Einn af meginkostum þessa
verks er einmitt hvernig þær
Vigdís og Bíbí fjalla um þessa
margvíslegu átakanlegu atburði
án þess að nokkurn tíma votti fyrir æsingn-
um sem einkennir svo mikið af umfjöll-
uninni um viðlíka mál. Þá er Bíbí greinilega
fráboðin hvers kyns sjálfsvorkunn, sem ger-
ir söguna enn áleitnari fyrir vikið.
Lýsingin á æsku Bíbí er ein besta
þroskasaga stelpu sem ég hef lesið. Sam-
bandi hennar við fjölskyldu og vini, skóla-
göngu og unglingsárum er lýst af natni við
smáatriði og af einstaklega skýrri sýn á það
hvað stelpa veltir fyrir sér í uppvextinum.
Þótt ungdómsár Bíbí einkennist af meira
harðræði en flestir þurfa að búa við, þá eru
áhyggjur hennar og vonir eflaust mörgum
kunnuglegar.
Þegar æskunni lýkur, allhastarlega, tekur
við kafli sem verður óhugnanlegur í að því
er virðist óumflýjanlegri endurtekningu
ógæfunnar en í lokin ríkir ró og sátt, sátt
sem hefur væntanlega gert frásögnina
mögulega.
Myndin sem dregin er upp í bókinni af
móðurinni er áhrifamikil. Meðferð hennar á
Bíbí er á köflum grimmileg, en skilning-
urinn sem Bíbí sýnir henni og hennar
skelfilega hörðu lífsbaráttu er allt að því of-
urmannlegur og litla stúlkan í leit að ástúð
andspænis kaldrana móðurinnar er ein
sterkasta mynd bókarinnar.
Rastagreinarnar sem koma
fyrir öðru hvoru eru nýttar á
snjallan hátt. Í mörgum þeirra
eru spurningar og svör þeirra
Vigdísar og Bíbí – þar greinast
raddir þeirra í sundur þegar
Vigdís spyr nánar út í atriði
sem minnst er á í frásögninni.
Þarna bregður Vigdís sér í
hlutverk lesandans sem fýsir
að vita meira og oft einmitt þar
sem lesandi staldrar við og vill
skýrari svör. Ljósmyndirnar
eru líka vel valdar og stað-
settar þannig á síðunum að
þær „tala“ við textann. Skortur
á myndum á ákveðnum kafla er
svo áþreifanlegt dæmi um
skortinn og missinn sem sagt er frá.
Bíbí hefur „hæfileika“ – hún sér í aðra
heima. Þetta þarf hún að takast á við strax
ung að aldri og það er langt frá því að vera
einfalt mál, því sýnirnar geta verið óhugn-
anlegar og skilningur umhverfisins lítill.
Þetta er ekki óalgengt minni í æviskrifum –
þ.e.a.s. manneskjan hefur einhverja gáfu
eða hæfileika sem hún á í baráttu við og
reynir jafnvel að fela eða flýja. Þroskinn
felst svo í því þegar hún nær sátt við gáf-
una, lærir að nýta sér hana og þekkja.
Ævisögur úr samtímanum eru ákaflega
misjafnar að gæðum, sumar lítið annað en
hroðvirknisleg blaðamennska. En úr sam-
einingu þessara tveggja radda verður til
heillandi texti.
Heillandi texti
Gunnþórunn Guðmundsdóttir
BÆKUR
Ævisaga
Eftir Vigdísi Grímsdóttur, JPV útgáfa 2007, 352 s.
Bíbí: Sagan um Bíbí Ólafsdóttur
Vigdís Grímsdóttir