Morgunblaðið - 11.11.2008, Qupperneq 22
22 Umræðan
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 11. NÓVEMBER 2008
Árið 1958 birtist
grein í tímariti Máls
og menningar eftir
Halldór Kiljan Lax-
ness „Sjö furður
Sléttumannalands“.
Þessa grein skrifaði
skáldið eftir að hafa
ferðast um Pólland
sem honum fannst
svo skrítið að ástæða
væri til að upplýsa ís-
lenska þjóð um furður landsins. Í
þann tíð voru Íslendingar og Pól-
verjar hvorir sín megin við járn-
tjaldið. Þrem árum áður höfðu
þjóðir austurblokkarinnar stofnað
hernaðarbandalag í höfuðborg
Póllands sem þeir kenndu við
borgina, Varsjá. Íslendingar fundu
hins vegar skjól í NATO vorið
1949.
Síld og Prins Póló
Um svipað leyti og skáldið fór
um Sléttumannaland voru banda-
menn okkar Bretar að berja á Ís-
lendingum fyrir að færa landhelg-
ina út í 4 og síðan 12 sjómílur.
Þeir lokuðu fiskmörkuðum og
sendu herskip á Íslandsmið. Ein-
hverjum kann að virðast það þver-
sögn að einmitt þá átu Pólverjar
íslenska síld af meiri áfergju og í
meira magni en nokkurn tíma
fyrr. Það má svo spyrja sig hvort
þessa miklu síldarneyslu megi
rekja til pólitískra ástæðna frekar
en svengdar og ástar bragðlauk-
anna á góðri síld. Hvað sem því
líður gerðu Íslend-
ingar Prins Póló að
þjóðarrétti sínum um
líkt leyti og ekki hef-
ur áfergja okkar í
kexið verið minni en
ást þeirra á síld frá
Íslandsmiðum.
Dansvíkurmjöl
En leiðir Íslendinga
og Pólverja hafa fyrr
legið saman. Í göml-
um íslenskum ann-
álum frá tímum ein-
okunar á 17. öld er þess getið að
Íslendingum hafi þótt gott ef svo
mikið hallæri varð í dönskum
landbúnaði að kaupmenn gætu
ekki selt landsmönnum danskan
kornmat. Þegar svo áraði gat
þjóðin átt von á því að fá það mjöl
sem þótti best, Dansvíkurmjöl,
mjöl frá Dansig sem nú heitir
Gdansk. Frá þeirri borg í Póllandi
sem síðar fóstraði frjóanga nýrrar
Evrópu, verkalýðssamtökin Sol-
idarnoch – Samstöðu.
Af rómskristni
Í nefndri grein minnist Halldór
Kiljan Laxness á sögulega sam-
stöðu þjóðanna: „báðir taka við
trú frá Rómi á svipuðum tíma,
semsé nær aldamótum 1000, alveg
nákvæmlega á því tímabili þegar
rómskristni var svo aum að eing-
inn félagsskapur á jörðu hefur
komist á lægra stig andlega og
siðferðilega svo menn viti. Þetta
var sú tíð þegar páfar og aðrir
sómamenn þessa félags voru allir
með hugann við það hvernig þeir
gætu komið eitri hver ofaní annan
á sem áhrifaríkastan hátt, – ein-
mitt þá urðu bæði íslendíngar og
pólínamenn svo hrifnir af stefn-
unni að þeir gerðust kristnir.“
Fullveldi þjóða
Þann 11. nóvember 1918 lauk
einhverju skelfilegasta stríði sem
sagan kann frá að greina. Að lokn-
um hildarleik sammæltust menn
um að réttur þjóða til sjálfs-
ákvörðunar skyldi verða grunnur
þeirrar Evrópu sem risi úr ösku-
stó. Um það voru flestir sammála.
Reyndin varð sú að þjóðir reynd-
ust vera misréttháar þegar að því
kom að kjósa sér örlög, – en allt
um það uxu ný ríki upp af sviðinni
jörð. Pólland, þetta fiðrildi Evr-
ópu, sem eitt sinn var stærst ríkja
álfunnar, hafði horfið í gin þriggja
nágrannaríkja árið 1795. Þann 11.
nóvember 1918 voru stórveldin
þrjú fortíð og af rústum þeirra
risu nokkur frjáls og fullvalda ríki.
Eitt þeirra var Pólland. Pólland
varð sjálfstætt á sjálfan friðardag-
inn 11. nóvember 1918, fyrir rétt-
um 90 árum. Uppá það halda Pól-
verjar þennan dag og við getum
samfagnað. Að þrem vikum liðnum
getum við fagnað 90 ára afmælis
íslensks fullveldis. Endurheimt
fullveldi beggja ríkja óx með öðr-
um orðum af sviðinni jörð evr-
ópskra vígvalla 1918 og draumn-
um um nýja Evrópu.
Þótt leiðir þjóðanna hafi legið
sundur og saman á liðnum öldum
og þær um sinn tilheyrt hvor sinni
valdablokk kaldastríðsins standa
nú báðar á tímamótum. Við Ís-
lendingar stöndum á rústum
glæstrar framtíðar og horfum á
Pólverja gera sig ferðbúna heim
til Sléttumannalands. Þeir kveðja
íslenska drauminn og halda til
móts við Evrópu morgundagsins.
Þjóðhátíðardagur
Pólverja í dag
Þorleifur
Friðriksson » Við Íslendingar
stöndum á rústum
glæstrar framtíðar og
horfum á Pólverja gera
sig ferðbúna
Þorleifur Friðriksson
Höfundur er sagnfræðingur.
HELGIN hófst á
leiksýningu: Utan
gátta eftir Sigurð Páls-
son. Fjórir toppleik-
arar fóru á kostum í
meitluðu leikriti í
frumlegri umgjörð
undir stefnufastri leik-
stjórn. Ég hugsaði með
mér: ef þetta er ekki
útrásarverkefni, þá veit ég ekki
hvað er það.
Daginn eftir voru hádegistón-
leikar hjá Hljómeyki. Verk fjögurra
íslenskra tónskálda sungin yfir svo-
lítið undrandi, en jafnframt fagn-
andi hausamótum í Hafnarfirði. Allt
unnið af fagmennsku, ég leyfi mér
að nota orðið atvinnumennsku, þó
að ég gefi mér það að vinnulaun
hafi verið takmörkuð og í lang-
flestum tilfellum engin.
Á þriðjudagskvöldið slæddist ég
svo inn á bar á Klapparstígnum þar
sem leikin var tónlist frá síðustu
öld. Allir textar sungnir á íslensku,
nema einn. Hæst bar klassík Jóns
Múla og Jónasar Árnasona, Undir
stórasteini.
Í blöðunum birtust ádrepur rit-
höfunda, fyrst frá Einari Má, svo
frá Kristínu Marju, og fólkið las og
sagði: Eins og talað út úr mínu
hjarta! Mikið er gott að einhver
skuli geta orðað svo nákvæmlega
það sem mér finnst!
Svipaða tilfinningu fær fólk fyrir
framan verk Gylfa Gíslasonar, sem
nú eru sýnd í Ásmundarsal: gam-
ansöm verk með þjóðfélagslegri
skírskotun. Ekki ólíkum tilgangi
þjónaði allt öðruvísi sýning Libiu
Castro og Ólafs Ólafssonar í Hafn-
arhúsi um daginn. Áhrifin: hug-
vekja, í þess orðs eiginlegu merk-
ingu.
Þannig halda listamenn áfram að
tala til þjóðarinnar og vekja hana
til umhugsunar um sjálfa sig, um
mannlegt eðli og innstu rök tilver-
unnar, raunar um ystu rök hennar
líka. Almennt verður niðurstaðan
sú að fagna þeirri áráttu lista-
manna að skrá og kortleggja til-
finningalíf okkar allra, sem þeir
gera hver með sínum hætti, í riti,
tónum, myndum, dansi, kvikmynd-
um.
Þessi árátta mun
halda listafólki áfram
að verki þó að nú
harðni í ári. Jafnframt
verður ekki hjá því
komist að benda á
þann skell sem lista-
lífið verður fyrir
þessa dagana, kannski
fyrr og harðar en
flestar aðrar starfs-
greinar. Þetta kom
m.a. fram á aðalfundi
Listahátíðar nú um
daginn. Gert er ráð
fyrir að framlög úr einkageiranum
dragist stórlega saman.
Það hefur vitaskuld verið lista-
heiminum fagnaðarefni undanfarin
ár að geta notið stuðnings frá stór-
fyrirtækjum í mun ríkara mæli en
tíðkaðist áður fyrr. Nú eru þau
stórfyrirtæki flest á hausnum, og
þá standa eftir dýrmæt framlög frá
ríki og bæjarfélögum. Þar er ekki
alltaf um háar upphæðir að ræða,
en þær skipta sköpum. Þær varða
beinlínis tilveru okkar sem þjóðar.
Nú megna stjórnmálaleiðtogarnir
ekki lengur að blása í okkur þjóð-
arstolti, og því síður sem þeir eru
hærra settir. Þá kemur berlega í
ljós hve mikilvæg sjálfstæð listræn
tjáning er þjóðlífinu. Á öðrum um-
brotatímum, nánar tiltekið á 4. ára-
tug síðustu aldar, orðaði Jón Leifs
þetta svo: „Menntamennirnir og
listamennirnir eru landvarnarher
vor Íslendinga.“
Útrás, uppáhaldsorð fjár-
málajöfranna, er orðið skamm-
aryrði – alls staðar nema í lista-
heiminum. Þegar kemur að
kynningu á landi og þjóð á erlend-
um vettvangi, eru fáir betur til þess
fallnir en einmitt listamenn að
berja í brestina sem aðrir hafa
valdið.
Engir eru betri en
listamenn að berja í
brestina segir Ágúst
Guðmundsson
»Nú megna stjórn-
málaleiðtogarnir
ekki lengur að blása í
okkur þjóðarstolti, og
því síður sem þeir eru
hærra settir.
Ágúst Guðmundsson
Höfundur er forseti Bandalags ís-
lenskra listamanna.
Listin og kreppan
HVERNIG bregst
sá við sem Agnes
Bragadóttir segir að
eigi að hafa vit á því að
þegja?
Ég fékk þessa þraut
með Sunnudagsmogg-
anum mínum. Þar
skrifar Agnes reglu-
lega prósa sem eru eins og messu-
ferð; slúður í bland við siðaumvand-
anir og ólíkindasögur af næstu
bæjum. Að þessu sinni segir Agnes
mér og Hannesi Smárasyni að þegja
og skammast okkar fyrir að hafa tap-
að miklu af peningum. Þetta samspil
peningataps og réttlátrar þagnar er
samkvæmt Agnesi bundið við tap á
peningum nýjasta aðaleiganda Mogg-
ans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en
Agnes grét sem kunnugt er af fjórum
síðum Moggans með Íslands-, Norð-
urlanda- og Evrópumeistaranum í
tapi, fyrrverandi aðaleiganda Mogg-
ans, Björgólfi Guðmundssyni. Sá tap-
aði ekki aðeins fé hluthafa sinna, lán-
ardrottna og sparifjáreigenda heldur
líka ótilorðnum verðmætum komandi
kynslóða og æru bæði núlifandi og
ófæddra Íslendinga.
En synd okkar Hannesar er
stærri. Agnes dregur
upp þá mynd af nýjum
aðaleiganda sínum að
þar fari drengur góður,
snjall og traustur, hvers
eini veikleiki er tryggð
við smára; þá Gunnar
Smára og Hannes
Smára. Jón þessi Fáfn-
isbani verður ekki særð-
ur nema á þeim eina
bletti líkamans þar sem
þessir smárar hafa rofið
vörnina. Og einmitt þar
hitti kreppan Jón svo
hann haltrar. Að öðrum kosti væri
hann líklega valhoppandi enn.
Það vona ég að Agnesi hafi dreymt
þetta og að hér sé ekki komin sjálfs-
mynd Jóns og skýring á erfiðleikum
sínum. Jón veit vel, eins og allir nema
Agnes, að hann er fullfær um að tapa
peningum og þarf til þess enga hjálp
frá mér, Hannesi eða nokkrum öðr-
um. Það kæmi mér á óvart ef Jón
væri nú farinn að þakka sér allt sem
vel hefur tekist en kenna öðrum um
það sem miður fór. Hann og Agnes
þurfa þá að hafa hraðar hendur til að
renna sakamönnum undir 450 millj-
arða skuldir Landic, 400 milljarða
skuldir Baugs, 350 milljarða skuldir
FL, auk tuga og hundraða milljarða
skulda annarra smærri fyrritækja í
veldi Jóns – plús eins til tveggja þús-
unda milljarða taps á hruni Glitnis.
Þeir eru annars ekki margir eftir
hjá gjaldþrota þjóð sem bera ekki
synd taprekstrar og einhverra ráða-
gerða sem misfórust. Sumt af því sem
ég tók þátt í dó í litlu kreppu 2006 og
annað veslaðist upp í lausafjárþurrð-
inni 2007/2008. Fréttablaðið lifir þó
enn og hefur nú verið sent upp á Há-
degismóa að bjarga grey Mogga.
Hvað hefur Mogginn tapað miklu
undanfarin ár? Mér segir svo hugur
að NFS, sem Agnes nefnir, hafi vart
tapað meiru í heildina en Mogginn
hefur tapað skilvíslega á þriggja til
sex mánaða fresti undanfarin misseri.
Og ef framlag Baugs til Nyhedsav-
isen er reiknað á því gengi sem gilti
þegar það var reitt fram, en ekki
blásið upp með gasagengi síðustu
daga; þá lætur nærri að það sé viðlíka
og tap Moggans síðustu ár. Samt
hafði Nyhedsavisen sex sinnum fleiri
lesendur en Mogginn. Og flest stefndi
upp hjá Nyhedsavisen á meðan allt er
á niðurleið á Mogga. Hvers vegna
skyldu þá þeir sem tengdust Nyheds-
avisen vera glórulausir rugludallar í
huga Agnesar en Moggamenn hins
vegar heiðvirðir ráðdeildarmenn?
Ég ætla ekki að biðjast undan
ábyrgð á Nyhedsavisen. Ég ætla
mér heldur ekki að þiggja einn heið-
urinn af þessari ágætu tilraun. Það
var ekki svo að ég væri einhver Ras-
pútín sem væri að draga hreinlynda
og bláeygða keisarafjölskyldu á
asnaeyrunum. Nyhedsavisen var
engin hugdetta; það var Fréttablað-
ið sem Dagsbrún og forverar hennar
höfðu áður gefið út með góðum
hagnaði í fjögur ár. Allir sem komu
að ákvörðunum um Nyhedsavisen
þekktu dæmið því mætavel. Og öll-
um var líka ljós sú staðreynd að
danski markaðurinn var tuttugu
sinnum stærri en sá íslenski og því
bæði kostnaður og mögulegur ávinn-
ingur margfaldur á við Fréttablaðið.
Nyhedsavisen var raunar svo einföld
hugmynd, og mér svo ótengd, að
blaðið hélt áfram að koma út í átta
mánuði eftir að ég hætti störfum.
Fjárfestar gáfust ekki upp fyrr en
fyrirséð var nú í haust að danski
auglýsingamarkaðurinn myndi
dragast stórlega saman og engin leið
var að spá til um hvenær hann
myndi ná sér aftur – eða það er alla
vega sú skýring sem útgefendur
gáfu.
Í Silfri Egils, sem varð Agnesi til-
efni til að segja mér að þegja, sagðist
ég aðspurður hafa brennt mig illa á
skuldsettum eignakaupum. Þau sköp-
uðu skjótan hagnað þegar allt lék í
lyndi en margfölduðu tap þegar á
móti blés. Það varð raunin þegar við í
Dagsbrún keyptum tvö fyrirtæki í
sömu viku og gengið og hlutabréf
féllu um páskana 2006. Ég get ekki
séð að ég hafi með þessu verið að fría
mig einhverri ábyrgð eða aðgreina
mig frá þeim sem einmitt nú hafa tap-
að miklu á skömmum tíma vegna
skuldsettra kaupa. Ég skal hins veg-
ar viðurkenna að ég er enn hissa á að
eftir aðvörunina sem fékkst í litlu
kreppu hafi stærstu íslensku fyr-
irtækin flest ráðist í enn stærri og
enn skuldsettari kaup (Sampo, AMR,
Commerzbank, Marks & Spencer,
NIBC o.fl.). Ég átta mig heldur ekki
á þeirri fífldirfsku stjórnvalda að
byggja aftur upp alltof hátt gengi
krónunnar þó ég kannist svo sem við
rót slíkrar stefnu í mörgum löndum
Afríku þar sem hátt gengi skapar
tímabundið almenna tilfinningu fyrir
velsæld vegna ódýrs innflutnings (og
í íslenska tilfellinu einnig vegna
ódýrra lána).
En þetta er annað mál. Spurningin
var: Hvernig bregst sá við sem Agnes
Bragadóttir segir að eigi að hafa vit á
því að þegja? Hvernig bregst sá við
sem róninn hvetur til bindindis? Ég
satt að segja veit það ekki. Ætli mað-
ur skrifi ekki bara grein í Moggann?
Þöggun Agnesar á Mogganum
Gunnar Smári Eg-
ilsson svarar ósk
Agnesar Braga-
dóttur um að hann
þegi
Gunnar Smári Egilsson
» Jón veit vel, eins og
allir nema Agnes, að
hann er fullfær um að
tapa peningum og þarf
til þess enga hjálp frá
mér, Hannesi eða
nokkrum öðrum.
Höfundur er blaðamaður.
Vesturröst - Laugavegi 178 - S. 551 6770 - www.vesturrost.is
Verð aðeins
kr. 38.900
Amerísk pumpa í hæsta
gæðaflokki á hreint
hlægilegu verði