Náttúrufræðingurinn - 1962, Qupperneq 16
10
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
ur allóvenjulega stefnu. Hún stefnir frá austri til vesturs. Gos-
sprungur með slíkri stefnu eru annars aðeins kunnar af Snæfells-
nesi, en norðanlands er stefnan að jafnaði frá norðri til suðurs
og sunnanlands frá útsuðri til landnorðurs. Nýja gossprungan við
Oskjuop mun vera bundin við brotalamirnar í norðanverðri Oskju
og Oskjuopi, en þær hafa austur-vestur-stefnu.
Alleinkennilegt var það og, að jarðhitasprungan og gossprungan
skyldu stefna nær hornrétt hvor á aðra.
Um leið og eða skömmu eftir að gosið hófst, mvndaðist ný livera-
sprunga samsíða hinni eldri, en aðeins vestar, og kulnaði hin eldri
út samtímis. Voru tveir stórir leirhverir á nýju sprungunni (13.
mynd).
Sennilegust skýring á hveraumbrotunum fyrir gosið er sú, að
hraunkvikan, sem var að brjóta sér leið upp um jarðskorpuna, hafi
stíflað fyrir jarðvatnsrennslið úr Öskju um Öskjuop. Síðan hafa
heitar gosgufur úr hraunkvikunni blandazt jarðvatninu og hitað
það upp. Heita vatnið og gufan leituðu síðan upp um sprunguna
sunnan Öskjuops, er hún opnaðist. Eftir að gosinu lauk, mun hraun-
kvikan storkna í gosrásinni. Af þessari ástæðu er líklegt, að vatns-
borð Öskjuvatns og Vítis muni hækka um nokkra metra á næstu
árum.
Ofsi gossins var mestur fyrstu klukkutímana. Gosmökkurinn
mun þá hafa náð 10 km hæð. Öskumökkinn lagði vegna norðan-
áttarinnar, sem á var, til suðurs yfir Víti og Öskjuvatn. Vikurgeir-
inn er fremur mjór, en um 1 m að þykkt á hraunsléttunni milli
Vítis og Öskjuops. Víti var alþakið vikri, og á Öskjuvatni hafði
vindurinn rekið vikurinn saman í hrannir, sem flutu á vatninu.
Alls mun vikurmagnið, sem upp kom í fyrstu goshrinunni, hafa
numið um 2 millj. m3, þ. e. um 2% af heildarmagni gosefnanna,
og má það teljast allmikil vikurframleiðsla í hraungosi á sprungu.
Annan daginn hafði dregið mjög mikið úr ofsa gossins. Þann dag
náði gosmökkurinn um 2 km hæð (5. mynd). Dró síðan mjög úr
vikur- og öskuframleiðslu gossins, er á leið.
í byrjun gossins mun öll sprungan hafa gosið hrauni. Síðar
var aðeins eystri helmingur gossprungunnar virkur, og viku eftir
að gosið hófst, voru aðeins austasti og vestasti gígur virku sprung-
unnar í gangi, og er enn lengra leið á gosið, aðeins austasti gígur-
inn.