Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 1972, Page 54

Náttúrufræðingurinn - 1972, Page 54
42 NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN farin að bera nokkuð undir sig austur á móts við bæinn. Þó var enn steinsnar upp að neðsta húsinu, og lítill vafi á að talsvert lengra hef- ur verið að þeim húsum, sem enn sjást leyfar af, en þau stóðu ofan við íbúðarhúsið. Af orðum Hendersons, um hreyfinguna á jöklinum, má ráða að Skeiðará hafi hlaupið árið 1812, og er líklegt að hún hafi þá farið að renna eins og hún gerði árið 1814. Þegar athugað er, það sem hér hefur verið nefnt, virðast gild rök hníga að því, að Skeiðará hafi flutt útfall sitt að Jökulfelli í hlaup- inu árið 1787, en þar hefur hún haldist nærri óslitið síðan. Þetta, að Skeiðará hafi ekki farið að renna austur með brekkun- um fyrr en um eða eftir aldamótin 1800, skýrir líka þá feikna eyð- ingu sem hún olli austur í sveitinni á öldinni sem leið, og fram eftir þessari. Árið 1845 kom ungur maður að Svínafelli. Hann hét Jón Páls- son og var fæddur árið 1828, en hann dó árið 1912. Jón átti heima í Svínafelli óslitið frá árinu 1854 til dauðadags. Eftir því sem hann sagði barnabörnum sínum (m. a. Birni Pálssyni), hefur Skeiðará tekið, frá því að hann kom að Svínafelli til aldamóta, a. m. k. hátt á annan km utan af graslendi Svínafells. Þetta kemur líka vel heim við kort Björns Gunnlaugssonar. Jafnframt þessu hefur Skeiðará borið afarmikið undir sig við Skaftalellsbrekkur, og er raunar ómögulegt að segja, hversu miklu sú hækkun nemur, nema ef hægt væri að mæla niður á akkerin, en þó er alveg öruggt að hækkunin nemur að minnsta kosti 4 m við Lambhagagil frá síðustu aldamótum. Um aldamótin var foss neðst í gilinu, og bar þeim, sem mundu hann saman um, að hann hefði ekki verið minna en tveggja metra hár um aldamótin, en faðir minn, Björn Pálsson, sem fæddur var í Svínafelli 1879, taldi, að fossinn hefði verið allmiklu liærri, þegar hann mundi fyrst eftir. Fram að fossbrúninni féll lækurinn eftir lítið hallandi klöpp. Fyrir Skeiðarárhlaupið 1954 var fossinn löngu horfinn og um tveggja metra djúpur hylur kominn nokkuð inni í gilinu. í hlaupinu fylltist þessi hylur að mestu upp, en yfirborð lækj- arins hækkaði talsvert. Ilversu miklu sú hækkun nam, mun ekki hafa verið mælt, og verður því ekki sagt um það með vissu. Á síðari helming 19. aldar og framan af þessari, rann Skeiðará aust- ur með sveitinni, og meira eða minna ofan við Ingólfshöfða, en eftir árið 1938 hefur þess lítið gætt, og á seinni árum ekkert.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.