Náttúrufræðingurinn - 1974, Qupperneq 51
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
45
Ingólfur Davíðsson:
Tveir alkunnir runnar
I. „Einir hvassa barrið ber“
Einir (Juniperus communis) er eina íslenzka tegundin, sem
telst til barrtrjáa. Hann er sýprisættar, eins og sýpris og lífviður
(Thuja), sem flutt eru inn sem jólagreinar og í kransa. Einir vex
hér allvíða í kjarri, mólendi, lautarbörmum og víðar. Hann er jarð-
lægur eða kræklóttur, sjaldan meir en 50 cm Itár, sígrænn runni
með oddhvössu, stingandi barri. Sitja barrnálarnar þrjár og þrjár
í krönsum og lifa 3—7 ár. Þær eru rennulaga og blágrænar á efra
borði, en gljáandi dökkgrænar neðan og eru með harpixgöngum.
Börkur á eini er dökkbrúnn með allmiklu basti og flagnar af í
ræmum. Einir er ven]ulega sérbýlistegund, þ. e. karl- og kvenblóm
eru ekki á sömu hríslu. Blómin myndast síðsumars og springa út
næsta vor. Þegar karlrunnarnir blómgast gefa þeir frá sér mikið
gulleitt frjóduft, sem berst fyrir vindi. Kvenblómakönglarnir líkj-
ast fyrst laufbrumum að útliti, en verða kjötkenndir með aldrinum
og líkjast þá beri. Einiber eru tvö ár að þroskast. Þau eru græn
fyrra árið, en á seinna sumrinu verða þau að lokum blásvört með
vaxlagi yzt. Á kvenrunnum sjást því olt á haustin bæði ung, græn
ber og þroskuð, dökkbláleit. Fuglar, t. d. rjúpa og þrestir, sækja í
berin og verður gott af „aldinkjötinu“, en fræin ganga ómelt niður
af þeim og dreifast þannig.
Einiviður er þéttur og harður. Á gömlum hríslum er viðurinn
oft mjög snúinn. Barrið ilmar af harpix. Rætur einis eru útbreidd-
ar en vaxa fremur grunnt. Einir vex hægt en getur orðið nrjög
gamall, jafnvel mörg hundruð ára. Erlendis er einirinn oft stór
runni, sbr. hina alkunnu vísu: „Göngum við í kringum einiberja-
runn“, en sá siður mun vera ævaforn. Sum afbrigði einis verða
jafnvel allstór, 10—17 m há tré á Norðurlöndum og bolurinn 2 m
að ummáli eða meir. Hin hávöxnu einitré eru oft með súlulaga