Samvinnan


Samvinnan - 01.12.1948, Blaðsíða 18

Samvinnan - 01.12.1948, Blaðsíða 18
 María mey og nunnan Helgisaga eftir Gottfried Keller Ó, að eg hefði vcengi eins og dúfan, þá skyldi eg fljúga burt og finna hvildarstað. Sálm. 55, 7. KLAUSTRIÐ stóð á fjalli og gnæfði hátt yfir sveitina með mjallahvítum múrum. Þar bjó stór hópur af nunnum. Voru sumar fagrar og aðrar ófríðar eins og gerist og gengur, en allar þjónuðu þær Drottni og guðsmóður, hinni heilögu mey, eins og fyrir- skipað var i ströngum reglum klaustursins. Fegurst af nunnunum var Beatrice og var húri skrúðavörður klaustursins. Hún var tígulega vaxin, há og grönn, og gekk með yndisþokka að starfi, er hún skrýddi kór og altari, tók til í skrúðhúsinu og hringdi til tíða fyrir sólarroð og þegar kvöldstjarnan tók að tindra. En þess á milli horfði hún margsinnis með társtokknum augum út í bláan fjarskann. Sá hún þá blika á vopn í sólskininu, heyrði veiðimenn þeyta horn sín í skóginum með ópum og háreysti, og brjóst hennar fylltist jarðneskri þrá. Og er hún fékk ekki lengur bælt niður löngun sína, steig hún úr rekkju eina mána- bjarta júninótt, batt þunga gönguskó á fæt- ur sér, og gekk fram fyrir altarið búin til brottfarar. „Ár eftir ár hefi eg þjónað þér með trú °g dygð,“ sagði hún við Maríu mey, „en taktu nú við lyklunum, því að eg orka ekki lengur að kæfa þá glóð, sem brennur í brjósti mér!“ Að svo mæltu lagði hún lyklakippuna á altarið og hvarf út úr klaustrinu. Hún iagði leið sína um einmanalega stigu niður fjallið, unz hún kom í eikarskóg og stóð á krossgötum. Þá vissi hún ekki til hverrar áttar hún skyldi halda og settist nið- ur við lind eina, sem höggvin var í klett, svo að vegfarendur gætu svalað þar þorsta sín- um. Var þar bekkur til að hvílast á. Þarna sat hún þangað til dagur rann og hún var orðin vot af döggfallinu. En í það mund, er sólin reis yfir krónur trjánna og hinir fyrstu geislar hennar ljóm- uðu i skógargötunni, bar þar að glæsileg- an riddara í fullum hertygjum og var hann einn á ferð. Varð nunnunni starsýnt á hann og fannst mikið til um liversu gjörvulegur hann var. En hún lét svo lítið á sér bera, að riddarinn mundi ekki hafa orðið hennar var, ef niður Iindarinnar hefði ekki vakið athygli hans og beint augum hans þangað, er hún sat. Brá hann sér þá óðar út af veginum, steig af baki og teymdi hestinn að lindinni til að brynna honum. Heilsaði hann nunn- unni hæversklega. Þetta var krossfari, sem nú var einn á heimleið eftir langa fjarvist. Allir hermenn hans voru fallnir. Enda þótt riddarinn væri kurteis, fékk hann eigi haft augun af Beatrice, svo hug- fanginn varð hann af fegurð hennar. Sama máli var að gegna um hana. Með undrun og aðdáun horfði liún á þennan föngulega her- mann. Var hér ekki lítið að sjá af þeim heimi, er hún hafði þráð að líta árum saman! Allt í einu fann hún þó til blygðunar og leit und- an. Þá spurði riddarinn hana um síðir á hvaða leið hún væri, og hvort hann gæti ekki á einhvern hátt orðið henni að liði? Var sem hún skelfdist af hinni hljómsterku rödd hans. Hún leit aftur á hann og varð sem bergnumin af augnaráði hans. Sagði hún þá sem var, að hún hefði flúið úr klaustr- inu til að sjá sig um í veröldinni, en nú væri hún þegar orðin hrædd og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Þá hló riddarinn innilega, því að hann var enginn skynskiptingur, og bauð meynni að sjá til með henni fyrst um sinn, ef hún þyrði að fela sig umsjá hans. Sagði hann, að höll sín væri eigi nema dagleið þaðan, og þar gæti hún, ef henni sýndist svo, undir- búið í ró og næði för sína út í hina fögru, víðu veröld. Og áður en hún kom upp nokkru orði, hafði hann kippt henni á bak fáki sínum og varð þess ekki vart, að hún veitti neina mótspyrnu, þótt heldur væri hún óstyrk. Siðan vatt riddarinn sér í söð- ulinn, og með kafrjóða nunnuna í fanginu þeysti hann af stað gegn um skóginn og yfir holt og hæðir. Fyrsta sprettinn sat nunnan teinrétt á hnakknefinu og starði út í bláinn. En brátt hneig höfuð hennar að brjósti riddarans, og lét hún sér vel líka kossa þá, er hann lét rigna um vanga hennar og varir, og áður en langt var farið, endurgalt hún þessa kossa með slíkri ákefð, sem hefði hún aldrei hringt klausturklukku. Meðan þessu fór fram, sáu þau naumast sól né dag, og lítt af landi því, er þau fóru um. Og nunnan, sem alla stund hafði þráð að sjá hina víðu veröld, lokaði nú augunum fyrir veröldinni, og lét sér nægja þá eina tilveru, sem fákurinn gat borið á baki sínu. IDDARINN — Sveinn glaði hét hann — hugsaði heldur eigi mikið til ættaróðals síns, fyrr en hann sá blika á hallarturnana í tunglskininu. En hljótt var kring um hö'.l- ina, og enn hljóðara, er inn í hana kom, og hvergi var Ijós að sjá. Foreldrar riddarans voru löngu dánir, og allt þjónustufólk burtu flutt, nema gamli hallarvörðurinn. Lengi varð riddarinn að berja að dyrum, þangað til öldungurinn fór á kreik með ljósker í hendinni. En svo mikið varð honum um, er hann sá húsbónda sinn við hallarhliðið, að honum iá við ómegnj af fögnuði, og mcð erfiðismunum fékk hann opnað hliðið. Enda þótt hallarvörðurinn væri orðinn ævagamail, og hefði nú um hríð þurft einn að sjá um kastalann, var samt allt í röð og reglu inni í höllinni. Einkum hafði hann séð um, að herbergi riddarans væri ávallt til reiðu, ef hann kæmi óvænt, svo að hann gæti notið þar hvíldar, hvenær sem hann sneri heim úr hernaði. Þeirrar hvíldar hlaut nú Beatrice 18

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.