Samvinnan - 01.09.1956, Qupperneq 20
Forvígismaður í samvinnu
málum Skaftfellinga
Sveinn Sveinsson frá Fossi, áttræður
Sveinn Sveinsson, jrá Fossi.
Þegar að litið er yfir 50 ára starf-
semi félagsskapar sem náð hefur yfir
heila sýslu, og meira þó, og sem hefur
náð til svo að segja hvers einasta
manns á öllu þessu svæði, beint eða
óbeint, kemur óhjákvæmilega margt í
huga þess manns, sem alla tíð hefur
verið riðinn við slík samtök, og margra
góðra manna er þar að minnast, sem
öðrum fremur hafa komið þar við
sögu. Það er ekki einasta það, að þar
hafi menn átt misjafnan hlut að,
heldur má þar finna heila ættstofna,
sem segja má að hver einstaklingur
hafi tekið samvinnuhugsjónina í arf
og tileinkað sér hana í orði og verki.
Aftur eru aðrar ættir sem hvergi hafa
viljað þar nærri koma nema þá til að
hirða afraksturinn af erfiði og ábyrgð
hinna, þegar búið er að leggja það upp
í hendur þeirra.
Ein af styrkustu stoðum í samvinnu-
samtökum Kaupfélags Skaftfellinga
hefur verið og er enn þann dag, hin
svokallaða Hlíðarætt, þó finna megi
þar undantekningar. Er hún komin
út af Eiríki bónda í Hlíð og Sigríði
Sveinsdóttur konu hans. Synir þeirra
voru Jón í Hlíð, Björn í Svínadal og
sr. Sveinn í Ásum. Tveir af afkomend-
um þessara bræðra eru nú í stjórn
Kaupfélagsins, af 5 mönnum, sem þar
eiga sæti.
Sá maðurinn, sem mér er einna
minnisstæðastur í hópi þessara sam-
herja minna, lífs og liðinna, er Sveinn
Sveinsson frá Possi, eins og hann er
oftast nefndur. Það ber líka að um
sama leiti, að Kaupfélagið er að verða
50 ára og Sveinn er búinn að skila 80
árum aldurs síns. Langar mig því til af
þessu tilefni að minnast hans með
nokkrum orðum.
Sveinn er fæddur 5 des. 1875. For-
eldrar hans voru séra Sveinn Eiríks-
son frá Hlíð í Skaftártungu og Guðríð-
ur Pálsdóttir frá Hörgsdal á Síðu.
Sveinn ólst upp með foreldrum sínum
fyrst á Kálfafelli, því næst á Sandfelli
og síðast í Ásum í Skaftártungu.
Sveinn mun hafa verið elztur barna
séra Sveins, vandist hann því snemma
mikilli vinnu og árvekni í störfum, þar
sem forstaða heimilisstarfa mun fljótt
hafa farið að hvíla á herðum hans.
Þeir bræður hans, Páll og Gísli, hurfu
að skólanámi, og voru því aðeins heima
á sumrum. Sveinn vann að búi for-
eldra sinna þar til hann giftist 1906
Jóhönnu M. Sigurðardóttur frá Breiða-
bólstað á Síðu.
Þau hjónin munu hafa átt nokkuð
erfitt uppdráttar fyrstu árin, efni lítil,
og skortur á jarðnæði tilfinnanlegur,
en börnin fæddust svo að segja árlega.
En með einstökum dugnaði og ráð-
deild tókst þeim að sigra alla erfið-
leika, og komast í sæmileg efni, og
koma börnum sínum, 12, sem upp kom-
ust, til góðrar menningar og þroska.
Þegar Norður-Foss í Mýrdal losnaði,
festi Sveinn kaup á jörðinni, og flutti
þangað með fjölskyldu sinni. En hélt
þó jafnframt áfram búskap í Ásum um
nokkurra ára skeið. Hafði hann þar
sauðfé og útigönguhross, meðan hann
var að koma ræktun það áleiðis á
Fossi, að hann gæti haft þar það stórt
bú, sem hann þurfti til framfæris sínu
stóra heimili.
Sveinn er sérlega félagslyndur og
vildi styðja allan góðan félagsskap.
Hann er vel greindur og prýðilega rit-
fær, eins og menn hafa kynnzt af
mörgum athyglisverðum blaðagrein-
um hans. Á mannfundum hélt hann
ekki langar ræður, en hann kom vel
fyrir sig orði, hvort sem var í sókn eða
vörn, og var orðum hans og tillögum
jafnan veitt góð eftirtekt.
Þegar litið er yfir aðstöðu Sveins í
búskapnum, mætti ætla, að hann hefði
ekki haft mikinn tíma til að sinna fé-
lagsmálum. En hann lét ekki hin
margvíslegu störf heima fyrir aftra
sér frá að sinna einnig hugðarmálum
sínum út á við. Var samvinnuhreyfing-
in þar í fremstu röð. Hann gekk í
Kaupfélag Skaftfellinga á fyrstu árum
þess, og stuttu síðar er hann orðinn
deildarstjóri í Skaftártungudeild, og
gegndi hann því starfi, meðan hann
átti þar heima. Skömmu síðar var
hann kosinn í félagsstjórnina, og sat
hann óslitið í henni þar til hann flutti
úr héraðinu fyrir fáum árum og sett-
ist að hjá börnum sínum í Reykjavík.
Sveinn var jafnan í fararbroddi
samvinnumanna í héraðinu, eins og
sést á þeim trúnaði, sem honum var
sýndur. Og síðast á áttræðisafmælinu
var hann kosinn heiðursfélagi kaup-
félagsins.
Það einkenndi sérstaklega fram-
komu Sveins í samvinnumálum og
öðrum félagsmálum, að hann talaði
jafnan málstað smælingjanna. Það
var hans innræti.
Þegar farið var að taka ull við
Skaftárós, og síðar á Kirkjubæjar-
klaustri, var Sveinn skipaður ullar-
matsmaður þar, og gegndi hann því
starfi, þar til hann flutti burtu. Það
starf leysti hann af hendi með mikilli
prýði. Kom sér þar vel lipurð hans og
vinsældir, því ekki voru bændur alltaf
mildir í kröfum, meðan þeir voru að
venjast þeim opinberu afskiptum. En
Sveini tókst að leysa þann vanda með
lipurð sinni, án þess að slaka að neinu
á þeim skyldum, sem honum voru
lagðar á herðar.
Nú, þegar Kaupfélag Skaftfellinga
minnist 50 ára starfsemi sinnar, þökk-
um við hinum áttræða brautryðj anda
alla samveruna og samstarfið, og sam-
fögnum honum með að hafa séð það
fyrirtæki, sem hann ann svo mjög,
vaxa og þroskast, og standa nú föstum
fótum, eftir að hafa sigrað marga og
mikla erfiðleika. Við gleðjumst líka
yfir því, að sjá jörðina hans vera setna
með þeim myndarskap, að til fyrir-
myndar er, af syni þeirra Sveins og
Jóhönnu.
Magnús V. Finnbogason.
20