Samvinnan


Samvinnan - 01.08.1958, Side 18

Samvinnan - 01.08.1958, Side 18
Krotað á spássíu Frelsi — taumleysi Eftir Gunnar Gunnarsson Grundvöllur siðmenntaðs þjóðfélags er enginn til annar en sá, að tekizt hafi að finna og festa með ákvæðum hóflegan meðalveg í sambúð þegnanna, svo og ríkisins við önnur ríki, án þess að þrengja um of einstigið á mörkum frelsis og taumleysis. Menning, er kalla megi frjálsa, ger- ir ráð fyrir að menn uni þeim eið- staf löggjafans fyrir hönd almennings, að leggja hemil á hegðun sína, en taki afleiðingunum ef út af ber. Leiði misbrestur á frumlögum eða framkvæmd þeirra til ringulreiðar, er valdstjórn vís, hvert gerfi sem hún kýs sér eða af hendingu hlýtur. Fáu hafa menn nú meiri áhyggjur af út um heim en mannfjölgunar- skriðunni er sumir svo kalla og er skýrsla Sameinuðu þjóðanna í því efni síður en svo til þess fallin að draga úr ugg þeirra, sem vakandi eru fyrir vandamálum utan fjölskyldunn- ar í þrengstu merkingu orðsins. Haldist viðkoman óbreytt, mun að 600 árum liðnum ekki vera nema 1 fer- metri jarðaryfirborðs handa hverjum hnattbúa að fóta sig á, heimskauta- svæðin meðtalin. Löngu áður en svo er komið má búast við, að okkur hér heima á Fróni þætti þröngt setið, við sem hver um sig höfum 3/4 fkm að valsa á. Það tók mannkynið að talið er 200.- 000 ár að ná tölunni 2.500 milljónir, en búist er við að það á næstu 30 árum aukist um þriðjung eða því sem næst. Er sú áætlun miklum mun hærri en önnur, sem gerð var fyrir sjö árum síðan, og eru það heimildir frá Kína, sem hækkað hafa áætlaða hnattbúa- tölu árið 1980 úr 2.876 í 3.850 millj- ónir. Þær takmarkanir barngetnaðar, sem tiltækar eru, munu vart gera betur en vega á móti auknu langlífi, telja þeir sem vit hafa á, en hvemig næra megi þær 6.000 eða 7.000 milljónir jarð- byggja, sem með líku áframhaldi ættu að vera uppi árið 2000, um það tala menn sem fæst. Er sá vandi þó þegar mannkyninu á höndum, óleystur, þar sem tveir menn af hverjum þremur þegar búa við skort, en framleiðslu- aukning matvæla hins vegar 1/5 á eftir fjölgun neytenda. Samtímis þessu er tilverumöguleik- um svonefndra vitvera á hringsólandi hnetti vorum traðkað af lítilli forsjá, skógum eytt í villimannlegum átök- um ólæknandi Sturlungaaldar og af skammsýnni græðgi herjað á auð- lindir djúpanna og yfirborðsgróður, jafnvel frjómoldinni feykt út í veður og vind auk þess óhemjumagns, sem ár og fljót daglega og stundlega færa til sjávar. Fáránlegt dæmi um sjálfskaparvíti á sviði landskemmda er, að inni í miðri Evrópu eru að myndast flæmi, þar sem varla lengur fæst drekkandi vatn vegna rafstöðvauppistaðna, er trufla eðlilegt vatnsrennsli, úrgangs- efna af völdum stóriðnaðar, óhreink- ana frá salernum og annarra hand- vamma og vankunnáttu ýmiss konar. Þannig búa jafnvel hámenntaðir þjóðflokkar að sjálfum sér og erja erfðalöndin í hendur afkomenda sinna á tímum tækni og oflátungsskapar, sem í margskonar kjánahætti fer langt fram úr því, sem til skamms tima var skráð á bækur. En dramb er falli næst. Nú er sögð á næstu grösum sölva- tekja og -vinnsla sem um munar og tæpt á að áður varir muni aðalnær- ing hnattbyggja verða sjávargróður og kartöflur, en annar matur aðeins til bragðbætis. Er þar dýrðleg framtíð í vændum fyrir meinlætamenn, og varla seinna vænna að fara að iðka þá íþrótt, þeim, sem vilja vera við öllu búnir. Vandamál komandi tíma, fleiri en hér verði rakin, eiga það sammerkt, að sérlausnir tjóa ekki nema að baki standi allsherjarlausn. Hvað okkur Frónbúa snertir má okk- ur aldrei gleymast, að sem sjálfráð þjóð og sérstætt menningarkerfi eig- um við framtíð okkar gervalla og framavon undir þvi, að hvergi sé vik- ið af braut laga og sanngirni. Eigi einstaklingurinn sér ekki Iög- réttindi að bakhjarli, á þjóðfélagið það ekki heldur og mun það koma harð- ast niður á dvergþjóðunum innan þeirrar hnattríkisheildar, sem verður ekki umflúin, og sem baráttan þegar stendur um hverrar tegundar þau eigi að verða. Nauðsyn friðunar á fiskimiðum þarf ekki að ræða, það mál er augljóst hverjum sem vita vill og ekki er hald- inn flokksfári eða hagsmunasýki ein- hvers konar, og eru tólf sjómílur þar ekkert lokatakmark eða ætti ekki að vera. Hitt er svo annað mál, hvern veg hentast sé að ná því marki. Sjálfstæðismálið var leyst að öðr- um leiðum en þeirri, sem núverandi ríkisstjórn virðist ætla áhrifamesta. Er því ástæða til að spyrja, hvar menn haldi að ísland hefði staðið í dag og hvernig högum okkar væri komið, ef Jón Sigurðsson eða einhver annar hefði gerzt svo misvitur að setja sam- bandsþjóðinni í ótíma stólinn fyrir dyrnar og gerast Jörundur II. eða eitt- hvað því um líkt? í sjálfstæðisbaráttunni var sú leið farin, þangað til hún var ekki lengur fær, en önnur stóð opin, að semja um það sem fékkst með góðu móti án þess að afsala sér réttindum eða gefa réttmætar framtíðarákvarðanir upp á bátinn. Hetjur og herveldi hafa löngum haft annan hátt á, en gleyma þá stundum þeim grundvallarlögum í samskiptum manna og þjóða, að skamma stund verður hönd höggi fegin. Það leiðir af sjálfu sér, að frjómagn ræður vexti. íslenzk menning mun uppi vera á meðan hún hefur ein- hverju af að miðla, sem alþjóð manna sé fengur að, en ekki stundinni leng- ur. Gagnsemi þjóðarinnar í gerræðis- átt mun reynast skammgóður verm- ir, en komist hún klakklaust af gelgju- skeiði því, sem óhugnanleg dagleg fyrirbæri ýmiss konar bera vitni um að hún er á stödd, og takist henni að átta sig á þeirri köllun sinni að styðja af alefli og til eftirbreytni lögrétt þann, sem frelsi og lífsheill gervalls mannkyns byggist á, þá á hún vel- farnað vísan, en mun að öðrum kosti sökkva í djúp þeirrar múgmennsku, er lætur vaða á súðum sóðalegs inn- rætis og taumlausra athafna. 18 SAMVINNAN

x

Samvinnan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.