Samvinnan - 01.04.1983, Blaðsíða 29

Samvinnan - 01.04.1983, Blaðsíða 29
Örstutt saga eftir Oddnýju Guðmundsdóttur Allt fólkið er gott, nema Símon. En það lætur Símon samt ráða yfir sér. Hann er hús- bóndinn. Svefnhús Elsku mamma mín. Það getur vel verið, að ég verði dáinn, þegar þú færð þetta bréf. Þess vegna ætla ég að segja þér allt. Ég er bara tíu ára, einsog þú manst. En ég veit betur en húsbænd- urnir. Ég veit betur en allt fólkið hér á bænum. Ég veit betur en voldugir menn úti í löndum. Fólk heldur að ég viti ekki neitt, af því ég er svo ungur. En ég veit það samt. Mér líður illa. Ég er svo hræddur. Enginn er eins hræddur og ég, því ég er sá eini, sem veit, hvaða hætta er á ferðum. í>ó heldur fullorðna fólkið, að ég eigi að trúa því, sem það segir. Full- orðna fólkið hefur tvær tungur og svartan blett á báðum. Önnur segir: Guð er góður og lætur allt fara vel. Hin tungan segir: Alltaf er verið að drepa fólk, og það er ómögulegt að ráða við þessi ósköp. Ég trúi ekki fullorðnu fólki. Það er ekki heil brú í neinu, sem okkur er sagt. Fullorðna fólkið segir, að tóbakið og vínið hálfdrepi okkur. En þetta er alls staðar haft, til þess að börnin geti drepið sig sem allra fyrst. Það segir, að við eigum ekki að lesa Ijótar sögur. En það býr þær til handa okkur. Ég hlæ að fullorðnu fólki. Fullorðna fólkið er ekki fávís börn. Það veit margt. En það leikur sér að því að hrekkja hvað annað, og seinast trúir það hvert öðru. Ég vorkenni fullorðnu fólki. Úti í löndum lætur fólkið miklu verr en hér. Þar er alltaf verið að finna eitthvað upp, til þess að menn geti ver- ið hraustir og lifað lengi. Sama daginn er spúð eitri út um allar jarðir, svo fólk verði baneitrað og börn fæðist blind og vansköpuð. Menn smíða skip, sem eru eins og konungshallir og þola storma og stórsjóa. Sama daginn eru smíðuð vopn til að eyðileggja þessi fallegu, dýru skip. Ég hræðist fullorðið fólk. Þegar krakki fæðist, talar fólkiö um, hvað þetta sé lifandi ósköp gaman fyrir foreldrana. Og ef hjón eignast engin börn, segja allir að það sé nú sorglegt. En þá er einmitt verið að búa til eitur, sem gerir börn vansköpuð. Hvaða hjón ætli hafi gaman af þeim börnum! Ég hata fullorðið fólk. Ég held, að flest fullorðna fólkið þori ekki að ráða sér sjálft. Þess vegna er það ráðalaust. Svona er fólkið hérna í Svefnhúsum. Hver ræður hér? Og hver ætti að ráða? Símon frændi ræður öllu. Og fólkið lofár honum að ráða. Hann reiðist stundum og slær Jóhönnu í andlitið. Hann lét kýrnar liggja úti í kulda og rigningu einu sinni í haust. Hann kveikti viljandi í sænginni sinni og fleygði henni út um glugga. Jóhanna er geðgóð, en hún ræður engu. Árni frændi er duglegur og gerir við allt, sem aflaga fer á bænum, en hann ræður engu. Anna frænka er skynsöm og alltaf róleg og gamansöm, en hún ræður engu. Allt fólkið er gott, nema Símon. En það lætur Símon samt ráða yfir sér. Hann er húsbóndinn. Og það heldur víst, að hann geti ekki verið alveg vit- laus, af því hann er húsbóndi. En það er hann. Oftast er hann reyndar mein- laus og er þá stundum að hlæja að ein- hverju, sem hann segir sjálfur. Og þá heldur fólkið . . . Ja, ég veit eiginlega ekki, hvað það heldur. En vitlaus er hann. Ég er hræddur um, að hann geri skepnum illt. Ég er hræddur um, að hann brenni bæinn. En ég er sá eini, sem veit, að við eigum að taka af hon- um ráðin strax í dag. Á morgun getur það verið of seint. Ég mundi strjúka strax í nótt ef ég væri ekki fótbrotinn, eins og þú veist. Ég skil ekki fullorðið fólk. Hafið þið heyrt þessi ósköp, sem gerð- ust í nótt? Nei, hefur virkilega eitthvað gerst? Bærinnn í Svefnhúsuni brann og allt fólkið inni. Og hvernig? Allir vita, að hann Símon var geðbil- aður, sótti á að kveikja í. Fólkið var víst alveg blint fyrir þessu. Allir, nema hann Mundi litli heitinn. Hann hafði skrifað mömmu sinni. Hún fékk bréfið í morgun. + 29

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.