Fréttablaðið - 16.12.2009, Qupperneq 30
30 16. desember 2009 MIÐVIKUDAGUR
greinar@frettabladid.is
FRÁ DEGI TIL DAGS
FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is
MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is og Sólveig Gísladóttir solveig@frettabladid.is
ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 miðlar ehf. STJÓRNARFORMAÐUR: Ingibjörg S. Pálmadóttir FORSTJÓRI OG ÚTGÁFUSTJÓRI: Ari Edwald
RITSTJÓRI: Jón Kaldal jk@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is
Fréttablaðið kemur út í 90.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt
að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu
formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871
IceSave málið og stjórnun þess er saga mistaka frá fyrstu dögum
hrunsins. Með hruni íslensku
bankanna og setningu neyðarlag-
anna verður IceSave að milliríkja-
máli. Með yfirlýsingum íslenskra
stjórnvalda um að „vinir hafi
brugðist“, að „leita verði nýrra
vina“, að Ísland „ætli ekki að
greiða skuldir óreiðumanna“, að
Ísland muni leita úrskurðar dóm-
stóla um réttmæti IceSave skuld-
bindinganna, verður IceSave málið
að milliríkjadeilu. Meðan þau
viðhorf sem hér birtast einkenna
umræðuna um IceSave á Íslandi
er ekki að furða þótt íslenskum
stjórnvöldum sé mætt af mikilli
tortryggni erlendis.
Á fyrstu dögum hrunsins tóku
stjórnvöld á Íslandi sér stöðu með
íslenska bankakerfinu og íslensk-
um innistæðueigendum. Séð frá
stjórnvöldum erlendra ríkja tóku
stjórnvöld á Íslandi sér stöðu með
íslenskum bankamönnum, en gegn
stjórnvöldum erlendra ríkja og við-
skiptavinum íslensku bankanna
erlendis. Í skammsýni og fáti tóku
þau þá áhættu að brenna sig inni
með IceSave og þjóðinni.
Á fyrstu dögum hrunsins var
sá tónn sleginn sem gaf til kynna
hvernig íslensk stjórnvöld myndu
reynast í milliríkjasamskiptum.
Sá tónn sagði til um það, að hve
miklu leyti íslensk stjórnvöld taka
ábyrgð á samningum sem opnuðu
fyrir alþjóðavæðingu íslenska við-
skiptalífsins, að hve miklu leyti
Íslendingar eru tilbúnir til að við-
urkenna lýðræðislega ábyrgð sína
á starfsemi íslenskra einkafyr-
irtækja sem með leyfi íslenskra
stjórnvalda starfrækja viðskipti
sín á erlendri grund, að hve miklu
leyti íslensk stjórnvöld eru tilbúin
til samstarfs um lausnir á áhrifum
hrikalegasta bankahruns sögunn-
ar sem vissulega er ekki einka-
mál Íslendinga. Þau viðhorf sem
enduróma frá Íslandi eru að skaða
orðspor og samningsstöðu þjóðar-
innar í alþjóðasamfélaginu meira
en IceSave málið sjálft gefur til-
efni til.
Orðspor Íslands og traust á
stjórnvöldum landsins er laskað.
Íslenska efnahagshrunið er nú
notað sem kennslubókardæmi um
hörmulegustu óstjórn í efnahags-
og fjármálum einnar þjóðar. Neðar
er ekki hægt að komast. Sögusagn-
ir ganga um íslenska bankamenn
og skilanefndir bankanna. Öllu
slæmu virðist trúað um stjórn-
völd landsins. Ómurinn af þeirri
umræðu sem á sér stað í sölum
Alþingis og framganga og gönu-
hlaup einstakra þingmanna gerir
lítið annað en að staðfesta þann
grun umheimsins að Íslending-
ar sjái ekki þátt Íslands í eigin
hruni, heldur álíti að hrun íslenska
fjármálakerfisins sé allt öðrum
að kenna. Því lengur sem Alþingi
hefur IceSave málið til meðferðar
því verra fyrir þjóðina sem nú þarf
að treysta á alþjóðlegt samstarf.
IceSave er ekki einkamál Íslend-
inga. IceSave snýst um siðferði
og pólitík í samskiptum þjóða.
IceSave er dæmi um það hvernig
menn leyfa sér að ganga eins langt
og hægt er og komast upp með það.
Með IceSave gengu menn lengra
en regluverkið hafði gert ráð fyrir
að væri hugsanlegt. Íslending-
ar nutu frelsisins sem fylgdi EES
samningnum á meðan allt lék í
lyndi án þess að axla þá ábyrgð
sem frelsinu fylgir. Nú þegar allt
er hrunið, virðast þeir heldur ekki
ætla að taka ábyrgð á aðild sinni
að samningnum. Þess vegna er
IceSave nú pólitísk milliríkjadeila.
Sem pólitískt mál snýst IceSave
um lýðræðislega ábyrgð. Stjórn-
völd sem ekki gangast við ábyrgð
sinni með hæfilegri auðmýkt og
virðingu bregðast þjóð sinni. Nú er
runninn upp tími sjálfskoðunar og
heiðarleika. Stjórnvöld mega ekki
láta þjóðina halda áfram að engjast
í IceSave snörunni, heldur láta af
afneitun og hefja nýja byrjun með
nýjum tón. Hér þarf ríkisstjórnin
að eiga frumkvæði.
Brátt fá íslensk stjórnvöld ein-
stakt tækifæri til að vinna aftur
traust þjóðarinnar og umheims-
ins. Þetta tækifæri felst í útgáfu
skýrslu rannsóknarnefndar þings-
ins á aðdraganda og orsökum
bankahrunsins. Hér þarf Alþingi
Íslendinga að ganga fram fyrir
skjöldu og lýsa því yfir gagnvart
umheiminum að niðurstöður rann-
sóknarnefndarinnar verði nú not-
aðar til að gera upp fortíðina, hér
verði engu undan skotið heldur allt
gert til að byggja hér upp heið-
arlegt siðmenntað samfélag sem
umheimurinn geti treyst.
Í tengslum við útgáfu skýrsl-
unnar þarf að boða erlendar og
innlendar fréttastöðvar til frétta-
mannafundar og nota þá augna-
bliksathygli umheimsins sem þar
gefst til að slá nýjan tón. Þannig
hefst hin siðferðilega og pólitíska
endurreisn Íslands.
Erlendis eiga Íslendingar marga
góða vini. Óvinir Íslands standa
okkur nær.
Höfundur er
stjórnsýslufræðingur.
Eru óvinir Íslands hér?
SIGURBJÖRG SIGURGEIRSDÓTTIR
Í DAG | Icesave-málið
UMRÆÐAN
Oddný Sturludóttir skrifar um
borgarmál
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi skrifaði athygl-
isverða grein um stjórnkerfi
borgarinnar á mánudag. Hún
fjallar um hversu erfitt fámenn
borgarstjórn á með að sinna hlut-
veri sínu. Virðist helsti vandinn
vera að borgarfulltrúar bítast
um sæti í nefndum og stjórnum með fégræðgi að
leiðarljósi.
Þetta kannast ég reyndar ekki við en hef núna
öðlast dýrmæta innsýn í þankagang borgarfulltrúa
Sjálfstæðisflokksins. Þau skilja ekki stjórnkerf-
isbreytingar síðasta kjörtímabils því þau nálgast
breytingar nær eingöngu út frá launa- og starfsum-
hverfi borgarfulltrúa. Hið rétta er að stjórnkerfis-
breytingarnar snerust um aukið lýðræði, nærþjón-
ustu við íbúa úti í hverfum og minni miðstýringu.
Þorbjörg Helga víkur einnig að fyrirkomulagi í
stjórnum fyrirtækja borgarinnar. Hér vil ég skoða
málið í víðara samhengi og spyrja hvort eðlilegt sé
að borgarfulltrúar sitji yfirleitt í stjórnum fyrir-
tækja? Það er andstætt nútímalegum stjórnarhátt-
um í fyrirtækjum að sama fólk sinni bæði hlutverki
stjórnarmanna og eigenda, borgarfulltrúar ættu að
einbeita sér að því síðarnefnda. Í ofanálag er um
starfandi stjórnmálamenn að ræða. Það er ekkert
launungarmál að t.d. OR hefur liðið fyrir það allt
of lengi að stjórnmálamenn noti hana sem pólitísk-
an vígvöll. Það er varla til hagsbóta fyrir fyrirtæk-
ið. Borgarfulltrúar eru kjörnir fulltrúar íbúanna
sem eiga jarðvarmann og vatnsbólin. Borgarfull-
trúar eru því eins og hluthafar í fyrirtæki og koma
að grundvallarstefnumótun fyrirtækisins; móta
t.d. græna stefnu og fjárfestingarstefnu. Það gætu
þeir hæglega gert í sérstöku orku- og auðlindaráði,
sem hefði sama sess og önnur fagráð borgarinn-
ar. Í stjórn fyrirtækisins ættu að sitja einstakling-
ar með víðtæka þekkingu til að veita stjórnendum
fyrirtækisins aðhald, skipaðir af stjórnmálaflokk-
um til að ábyrgð þeirra sé skýr. Slíkt fyrirkomulag
var viðhaft í 100 daga meirihlutanum með góðum
árangri. Samfylkingin hefur ávallt staðið fyrir lýð-
ræðislegum og gagnsæjum stjórnarháttum og að
stjórnun fyrirtækja sé fagleg og hagsmunaárekstr-
ar sem fæstir.
Það er því tímabært að Samfylkingin í Reykjavík
fylgi í orði eftir lýðræðislegum stjórnkerfisbreyt-
ingum síðasta kjörtímabils. Þar eru fyrirtæki borg-
arinnar ekki undanskilin.
Höfundur er borgarfulltrúi.
Stjórnir fyrirtækja borgarinnar
ODDNÝ
STURLUDÓTTIR
Innihaldslausu yfirboðin
Borgarstjórnarflokkur Samfylk-
ingarinnar lagði fram tillögu í gær
þess efnis að bann verði lagt við
„innihaldslausum yfirboðum“ í
aðdraganda kosninganna í vor. Í
tilkynningu frá flokknum segir að
tillagan sé flutt „í ljósi erfiðrar
fjárhagsstöðu borgarinnar“.
Já, ef það væri nú ekki fyrir
fjandans kreppuna – þá væri
innihaldslausu yfirboðunum
ekkert til fyrirstöðu.
Fangelsi til sölu
Þá er búið að bjóða Hegning-
arhúsið við Skólavörðustíg
til sölu. Verst að það
var ekki boðið upp
fyrir tveimur árum,
á hinu alræmda ári 2007. Þá hefði
einhver útrásarvíkingurinn eflaust
séð sér leik á borði og keypt þessa
sögufrægu byggingu. Svo hefði hann
getað leigt ríkinu það til að hýsa sig
þegar þar að kæmi og haldið áfram
að maka krókinn bak við lás og slá.
Út með sprokið
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
tilkynnti á mánudag að
hann myndi ekki bjóða sig
fram í prófkjöri Sjálfstæðis-
flokksins í Reykjavík. Í tilkynn-
ingu leit hann yfir farinn
veg og klykkti út með að
kannski muni hann einhvern
daginn segja frá
ferli sínum í
borgarmálum.
Á sömu nótum voru lokaorð hans
í uppgjörsgrein um REI-málið, sem
birtist í Fréttablaðinu í ágúst. „Undir-
ritaður ætlar ekki að þessu sinni að
rifja upp framgöngu einstakra aðila
í þessu máli, en mun gera það ef
tilefni gefst.“ Vill Vilhjálmur ekki bara
setjast niður og koma þessu frá?
bergsteinn@frettabladid.is
N
ú líður að lokum loftslagsráðstefnunnar í Kaup-
mannahöfn. Mikil ábyrgð hvílir á þátttakendum
í ráðstefnunni enda er framtíðin í húfi. Enn er þó
hvergi nærri ljóst hvort og þá hvaða árangri ráð-
stefnan skilar.
Loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna hafa verið haldnar
árlega síðan árið 1995 og taka nálægt 200 lönd þátt í ráðstefn-
unni. Brotið var blað á ráðstefnunni sem haldin var í Kyoto í
Japan árið 1997 en þá tókst samkomulag um að 37 iðnríki drægju
úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2012.
Klukkan tifar og nú er brýnt að þjóðirnar komi sér saman um
framhaldið.
Nú liggur fyrir að hitinn á Grænlandi hefur hækkað meira
en tvisvar sinnum meira en hitinn að meðaltali í heiminum.
Afleiðingarnar eru að heimskautaísinn við Grænland bráðnar
mun hraðar en áður var talið að raunin yrði. Sýnt hefur verið
fram á að ef ekkert verður að gert muni bráðnun íshellunnar á
Grænlandi leiða til fimm til tíu sentimetra hækkunar á yfirborði
sjávar árið 2100.
Þessar staðreyndir tala sínu máli og sýna að það er ekki bara
mikilvægt heldur lífsspursmál fyrir komandi kynslóðir að ríki
heims taki höndum saman í því sameiginlega verkefni jarðarbúa
að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda.
Þetta verkefni krefst hins vegar nýrrar hugsunar og breytinga
á lífsháttum í iðnríkjunum og auðugri löndum heimsins. Þess
vegna er ekki aðeins mikilvægt að samkomulag náist á ráðstefn-
unni heldur einnig hitt að leiðtogarnir fari hver til síns heima
ákveðnir í að framfylgja samkomulaginu og afla því fylgis meðal
allra hagsmunahópa í heimalöndum sínum.
Í gær urðu þau tímamót að ákveðið var að Ísland yrði fullur
þátttakandi í aðgerðum Evrópusambandsins til að draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda. Þetta er til marks um að Ísland muni
ekki sitja hjá þegar kemur að sameiginlegri ábyrgð heimsbyggð-
arinnar á því að skila jörðinni til niðjanna þannig að hún verði
áfram byggileg. Af því eigum við að vera stolt.
Það er í hendi leiðtoga þeirra nærri 200 ríkja sem aðild eiga að
Loftslagsráðstefnunni að sýna þann pólitíska stórhug sem nauð-
synlegur er til þess að ná samkomulagi sem skiptir sköpum og
er í senn raunhæft og róttækt. Hér duga ekki vettlingatök og
máttlitlar yfirlýsingar um að stefnt skuli að.
Hluta byrðanna mun almenningur í hinum efnaðri hluta heims-
ins bera. Hann verður því að kenna til ábyrgðar. Það er afar
mikilvægt að rík sátt verði um þær niðurstöður sem ráðstefnan
birtir. Ekki er nóg að setja markmið til langs tíma heldur þarf
samkomulagið að vera varðað til að tryggja að jafnt og þétt verði
dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda.
Í hinu stóra samhengi er þetta áreiðanlega brýnasta verkefni
og ábyrgð þeirra kynslóða sem nú eru á dögum.
Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn:
Raunhæft og rót-
tækt samkomulag
STEINUNN STEFÁNSDÓTTIR SKRIFAR