Fréttablaðið - 16.12.2009, Qupperneq 50
42 16. desember 2009 MIÐVIKUDAGUR
UMRÆÐAN
Þorvaldur Víðisson skrifar um
KSÍ
Um þriggja milljóna króna úttekt fjármálastjóra KSÍ af
korti sambandsins á nektarstað í
Zürich hefur verið til umræðu í
fjölmiðlum síðustu vikur. Málið
er án efa erfitt fyrir þá sem því
tengjast og hefur sjálfsagt legið
þungt á fjármálastjóranum og öðrum. Þessi orð eru
ekki skrifuð til að auka á þjáningarnar sem málið
hefur haft í för með sér, en nokkrum atriðum finnst
mér þó mikilvægt að velta upp í umræðunni.
Athyglisvert er að málið fékk enga umfjöllun
á Íslandi fyrr en erlendir dómstólar höfðu það til
meðhöndlunar og erlendir fjölmiðlar vöktu máls á
því. Spurningin vaknar hversu mörg sambærileg
mál á vegum KSÍ hafa fengið meðferð þöggunar?
Er mál fjármálastjórans einsdæmi? Er hugsanlegt
að fjármagn KSÍ og aðildarfélaga þess sé og hafi
verið notað í svipuðum tilgangi? Auk framkominnar
afsökunarbeiðni stjórnar KSÍ vegna málsins hlýt-
ur stjórnin að vilja taka af öll tvímæli um að fleiri
sambærileg mál sé um að ræða.
Knattspyrnan og forvarnir
Knattspyrna var að mestu karlasport þar til fyrir
nokkrum áratugum síðan. Miklar breytingar hafa
orðið á iðkendahópnum síðustu áratugi og hefur
þátttaka í kvennaboltanum aukist mikið. Árangur
kvennalandsliðsins hefur náð hæðum sem þjóðin
hefur ekki þekkt áður á þessum vettvangi og er það
vel.
Knattspyrna er skemmtileg íþrótt sem fyrst og
fremst er stunduð og iðkuð á Íslandi undir merkj-
um forvarna- og uppeldisstarfs. Krafa er gerð til
leikmanna meistaraflokks að þeir séu öðrum til
fyrirmyndar innan vallar sem utan og eru margir í
þeim hópi sem taka hlutverk sitt alvarlega. Íþrótta-
hreyfingin sinnir starfinu af alúð og elju hvarvetna
um landið og hafa aðildarfélög KSÍ unnið gríðar-
lega öflugt starf víða. Mótshald er í miklum blóma
og leggja sjálfboðaliðar starfinu mikið til á hverju
ári. Sparkvellirnir um landið hafa einnig stuðlað að
almennri hreyfingu og lýðheilsu.
Ríkir sátt um afgreiðslu málsins?
Hvernig sem á umrætt mál er litið þá er það og
afgreiðsla þess á skjön við hið góða starf sem unnið
er í aðildarfélögum KSÍ um land allt.
Ég sakna þess að heyra ekki í stjórnum aðildar-
félaga sambandsins sem og foreldrum barna sem
stunda knattspyrnu innan sambandsins varðandi
mál fjármálastjórans og afgreiðslu stjórnarinnar.
Samræmist afgreiðsla málsins þeirra væntingum
til stjórnar KSÍ? Ef svo er þá þarf væntanlega ekki
að ræða þetta mál frekar. Ég efast hins vegar um að
sátt ríki um málið og niðurstöðu þess. En ef engar
raddir heyrast frá foreldrum, iðkendum, stjórnum
aðildarfélaga og öðrum má sjálfsagt túlka þögnina
sem samþykki.
Að kaupa sér aðgang að nekt og líkama annarrar
manneskju á ekki að viðurkennast í vinnu- eða frí-
tíma starfsfólks knattspyrnusambands sem kennir
sig við uppeldi, forvarnir og æskulýð.
Það er forkastanlegt af fjármálastjóranum, sem
var fulltrúi KSÍ og á vissan hátt fulltrúi þjóðarinnar
á erlendri grundu, að blanda vinnuferð sinni saman
við veru á strípistað og nektarbúllu. Svo ekki sé
talað um að veifa korti sambandsins í því samhengi.
Ályktun Prestastefnu 2006
Afsökunarbeiðni stjórnarinnar og fyrirhuguð gerð
siðareglna er í besta falli skref í rétta átt, en í sam-
hengi þessa máls útúrsnúningur og leið til að tak-
ast ekki á við málið. Prestastefna kirkjunnar 2006
ályktaði um hugsanleg tengsl vændis og HM í knatt-
spyrnu sem haldið var í Þýskalandi það ár. Þar-
lendir aðilar staðfestu grun um innflutning vænd-
iskvenna frá fyrrum A-Evrópu til að svara þeim
,,markaði“ sem fylgdi knattspyrnuveislunni. Presta-
stefna skoraði þá á stjórn KSÍ að tala skýrt gegn
slíkum tengslum opinskátt og á sínum vettvangi og
hvatti um leið sambandið til dáða í sínu mikilvæga
starfi. Svör fyrrum formanns KSÍ, Eggerts Magn-
ússonar, við áskoruninni og hvatningunni einkennd-
ust af litlu öðru en skætingi. Mál fjármálastjórans
sýnir fram á nauðsyn þess að taka af festu á málum
sem þessum.
Endurskoðun á starfsvettvangi
Ef stjórn KSÍ og einstaklingar í æðstu embættum
sambandsins eru ekki færir um að axla þá ábyrgð
sem starfinu fylgir í sínum vinnutíma og einkalífi,
til dæmis með því að vera þær fyrirmyndir sem
sambandið getur stólað á, hljóta þeir aðilar að þurfa
að endurskoða sinn starfsvettvang.
Höfundur er prestur og fótboltaáhugamaður.
Fyrirmyndarsamband?
ÞORVALDUR
VÍÐISSON
UMRÆÐAN
Bergur Sigurðsson
skrifar um atvinnumál
Eins og kunnugt er var hlutur karla afger-
andi mikið stærri en
hlutur kvenna í aðdrag-
anda hrunsins. Stjórnir
fjármálastofnana voru
þétt setnar karlmönnum
og tiltölulega fáar konur
var að finna í forystusveit fjár-
mála- og atvinnulífs. Kynin eiga
margt sameiginlegt en að sama
skapi eru þau að mörgu leyti ólík.
Eitt það sem aðgreinir þau er að
karlmenn eru almennt áhættu-
sæknari en konur. Ekki verður
framhjá því horft að einsleitni
og áhættusækni forystusveitar-
innar hafi orðið þess valdandi að
hér fór allt á annan endann.
En þrátt fyrir ríkan hlut karla
í aðdraganda hrunsins hafa
komið fram vísbendingar um að
konum í stjórnum fyrirtækja hér
á landi hafi enn fækkað nú eftir
hrunið. Hvað ber þá til bragðs
að taka?
Norska leiðin
Með það að markmiði að stuðla
að jafnari hlutföllum kvenna og
karla í áhrifastöðum í atvinnu-
lífinu liggur fyrir tillaga um
breytingar á lögum um hlutafé-
lög og lögum um einkahlutafélög.
Viðskiptanefnd Alþingis hefur í
umfjöllun sinni um málið horft til
Noregs sem stendur öðrum þjóð-
um framar er kemur að jafnræði
kynjanna í stjórnum fyrirtækja.
Nefndin leggur því til að lögfesta
að bæði kyn skuli eiga fulltrúa í
stjórnum fyrirtækja sem hafa
50 starfsmenn eða fleiri.
Séu fleiri en þrír í stjórn
fyrirtækis skal tryggt
að hlutfall hvors kyns
sé ekki minna en 40%.
Atvinnulífið hefur fjögur
ár til þess að laga sig að
þessari nýju löggjöf þar
sem lagt er til að ákvæð-
in taki gildi í september
2013.
Nái frumvarpið fram að
ganga blasir við að hlutur
kvenna og áhrif þeirra í atvinnu-
lífinu munu fara mjög vaxandi á
næstu árum. Sú breyting er líkleg
til þess að bæta hag og draga úr
áhættu í rekstri fyrirtækja.
Bættur hagur
Samkvæmt niðurstöðum rann-
sókna í Finnlandi og Danmörku
skila fyrirtæki sem hafa kven-
kyns forstjóra eða blandaðar
stjórnir meiri arðsemi en þau
félög sem hafa einsleitar stjórn-
ir. Í nýlegri rannsókn sem gerð
var hér á landi þar sem 101 fyrir-
tæki var skoðað koma sams konar
vísbendingar fram. Rannsókn-
in leiddi í ljós að arðsemi eigin
fjár er betri í fyrirtækjum með
blandaðar stjórnir en þar sem
karlmenn eru einir við völd.
Auk betri áhættustýringar og
aukinnar arðsemi eigin fjár er
líklegt að aukið vægi kvenna í
stjórnum fyrirtækja muni leiða
til þess að kynbundnum launa-
mun verði loks útrýmt. Þar með
næðist sigur í einu helsta baráttu-
máli jafnréttissinna til margra
ára.
Höfundur er framkvæmdastjóri
þingflokks Vinstri hreyfingarinn-
ar – græns framboðs.
Jafnrétti í
atvinnulífinu
BERGUR SIGURÐS-
SON
Yfirburðir Fréttablaðsins staðfestir!
Skörun blaðalesturs að meðaltali á dag, mán. til lau., höfuðborgarsvæðið 18-49 ára.
Heimild: Blaðakannanir Capacent maí-okt. 2009.
Lesa bæði
Fréttablaðið og
Morgunblaðið
Lesa bara
Morgunblaðið
Lesa bara
Fréttablaðið
59% 8,8%
32,2%
Fréttablaðið er sem fyrr mest lesna dagblað landsins með
glæsilegt forskot á samkeppnisaðila sinn eins og síðasta
könnun Capacent Gallup sýnir ótvírætt.
Allt sem þú þarft...
Auglýsing í
Fréttablaðinu
nær til yfir
91%
lesenda
blaðanna