Vikan - 18.01.1973, Blaðsíða 7
MIG DREYMDI
VOFAN Á LOFTINU
Kæri draumráðandi!
Ég hef aldrei skrifað þér fyrr, en langar nú að biðja þig
um að ráða einn draum. Hann er kannski frekar langur, en
þá nægir mér ráðningin.
Mér fannst ég segja við móður mína, að ég þyrfti að
skreppa upp á háaloft. Hún sagði, að ég skyldi láta það
vera, þar sem gólfið þar væri svo kerlingarlegt. Með þessu
fannst mér hún vera að segja mér, að uppi á loftinu væri
vofa.
Ég lét aðvaranir hennar sem vind um eyrun þjóta, tók
mér hníf í hönd og ætlaði að gera út af við vofuna.
Þegar ég kom að dyrunum og ætlaði að opna þær, voru
þær svo þungar og stífar, að ég varð að leggjast á þær. Þá
loksins opnuðust þær og maður skauzt frá dyrunum.
Þegar ég kom inn, sá ég, að þarna var stór, hvítur salur
með trégólfi og þremur gluggum.
Ég faldi mig bak við borð þarna og tók upp hnífinn. Ég
sá, að maðurinn var líka með hníf. Ég réðist að honum og
skar langt sár niður eftir kviði hans vinstra megin og niður
á læri.
Hann brosti bara og féll á gólfið. Ég sagðist ætla að ná í
lækni, en hann hélt aftur af mér og kvað það óþarfa. Við
ræddum saman, og svo dró hann mig að sér og kyssti mig.
Mér fannst eins og við hefðum bæði veriö með lausar tenn-
ur, og við kossinn losnuðu þær alveg og urðu eftir uppi í
mér. Ég sleit mig lausa og skyrpti þeim út úr mér. Maður-
inn skildi ekkert í þessu háttalagi mínu.
Svo dó hann, og ekkert varð eftir af honum nema Tópas-
pakki, sem mér fannst hann hafa háft sér til hlífðar, þegar
ég særði hann með hnífnum. f pakkanum var sárið.
Ég sat uppi með pakkann og gull-armbandsúr (kven-
manns) og fleira úr gulli. Þegar ég vaknaði, var ég að
hugsa um, hvort ég ætti að kasta þessu eða jarða það.
Ég gleymdi að lýsa manninum: Hann er dökkhærður og
með skegg. Hann var frekar hávaxinn miðað við mig.
Með fyrirfram þökk fyrir ráðninguna.
Austfjarðaþoka.
Þetta er einn af þeim draumum, þegar allt röklegt sam-
hengi losnar úr böndunum og úr verða fjarstæðukenndar
myndir. Slíka drauma er mjög erfitt að ráða. Við ætlum
þó að glíma örlítið við þennan, hvemig sem til tekst. Vofa
er talin tákna óvenjulegan atburð. Hnífamir tákna senni-
lega ósamkomulag og lausu tennumar veikindi. Hins vegar
eru góð tákn þarna inni á milli, svo sem kossinn og arm-
bandsúrið, sem boða langlífi og velgengni. Ósamkomulag út
af mjög óvenjulegu atviki verður því undanfari hamingju,
en síðan koma veikindi til. Þegar þau eru afstaðin, tekur
við tímabil gæfu og gengis í lífi þínu.
BLINDA
Kæri draumráðandi!
Mig dreymdi fyrir nokkru, að ég og tvær skólasystur
mínar voru að ganga á milli kofa. Þessir kofar eru hér
heima í þorpinu, en mér fannst við vera á Siglufirði.
Það var farið að skyggja. Þá sáum við mann ganga á
eftir okkur. Við urðum hræddar, en létum ekkert á því
bera. Maðurinn tók allt í einu að hlaupa á eftir okkur. Við
tókum líka til fótanna og hlupum í sína áttina hver.
Maðurinn elti mig.
Ég hljóp inn í hús eitt, sem stóð þar hjá og gat lokað
innri dyrunum. Svo leið nokkur stund, og ég hélt að maður-
inn væri farinn. É'g fór út, en þá stökk hann upp skelli-
hlæjandi. Hann var með eitthvað svart í kringum augun,
sem líktist einna helzt mari.
í sama bili vaknaði ég með ægilegan hjartslátt, og það
var eins og einhver kallaði, að ég yrði blind.
Reyndu að ráða þennan draum fyrir mig. B.G.
Draumar af þessu tagi, sem eru hálfgerð martröð, þurfa
ekki að tákna neitt sérstakt, heldur stafa aðeins af vanlíð-
an i svefninum. En ef þessi draumur táknar eitthvað, er
hann bending til þín um það, að einhver sem þú treystir,
muni reynast þér ótrúr.
SVAR TIL BIRNU
Þetta er í alla staði hagstæður draumur. Það er jafnan
talið gott að dreyma föður sinn og nafn umrædds manns
táknar hlýju og einlæga vináttu. Það kemst aftur á náið
samband milli þín og mannsins, sem þú kallaðir C, og það
verður um annað og meira en vináttu að ræða, eins og áður
var.
MELFLUGA UNDIR RÚMINU
Kæri draumráðandi!
Mig langar að biðja þig að gjöra svo vel og ráða fyrir
mig eftirfarandi draum.
Mig dreymdi, að ég væri komin heim, en vissi ekki hvað-
an. Ég hef átt þarna heimili í raunveruleikanum, en nú
býr þar sonur minn ásamt fjölskyldu sinni.
Ég geng heim að bænum, og sé ekkert hús standa uppi,
aðeins hálfhrunda moldarveggi og son minn þar á gangi.
Föt hans eru rifin, óhrein og moldug. Hann vill ekki heilsa
mér. Ég skipti mér þó ekkert af því, held áfram og sé
sonarsyni mína. Ég ætla að heilsa þeim, en það er eins og
þeir vilji ekki heilsa mér. Eldri drengurinn ber hendurnar
fyrir andlitið.
En ég held áfram upp'a loft. Þar er allt svo voðalega
óhreint og óhuggulegt. Ég sé gamalt rúm, sem ég veit að
muni vera rúm okkar hjónanna, en maðurinn minn er dá-
inn. Ég fæ mér svo vatn í fötu og ætla að þvo gólfið, hyggst
aðgæta hvað klukkan sé, en er þá búin að týna úrinu mínu.
Ég þykist vita, að ég hafi týnt því í rúminu, en finn ekkert
nema gamalt úr, sem maðurinn minn átti.
Ekki aðgætti ég hvað klukkan var, en fór að þvo gólfið.
Þá sé ég ógurlega stóra melflugu undir rúminu og veit, að
hún hafi gert allt svona ógeðslegt og óhreint á heimilinu.
Ég drep fluguna, og við það vaknaði ég.
Þakka Vikunni margt ágætt efni, bæði fróðlegt og
skemmtilegt. Vona, að þið ráðið drauminn, en hendið ekki
þessu í ruslakörfuna ólesnu.
Með fyrirfram þakklæti. M.S.
Þessi draumur er fyrir ósamkomulagi, ekki rifrildi og
illindum, heldur ólikum skoðunum. Líklega hvarflar þáð
að syni þínum að flytjast búferlum frá núverandi heimili
sínu. En þér tekst að komast að hinni raunverulegn orsök
þess og fá son þinn ofan af fyrirætlun sinni.