Vikan


Vikan - 15.12.1949, Blaðsíða 9

Vikan - 15.12.1949, Blaðsíða 9
Jólablað Vikunnar 1949 9 Hu ní í íu. Eftir Guðlaugu Benediktsdóttur. Þetta var þriðji dagurinn, sem ég lá í xúminu með hita. Mamma gat ekki sinnt mér, eins rækilega og hún vildi, svo hún taldi ráðlegast að fá hana Ljótunni gömlu vökukonu til að stunda mig á meðan þessi lasleiki væri að ganga yfir. Mig langaði ekki beinlínis að fá hana Ljótunni gömlu til að vera hjá mér, en þetta var nú samt fastráðið. Reyndar varð ég að játa það, að hún Ljótunn var alltaf svolítið leyndardómsfull og æfintýraleg, fyrir mínum sjónum, og einhvernveginn fannst mér það hálfgerður virðingarauki, að þessi gamla, reynda kona, sem hafði stundað svo marga sjúka um dagana, skyldi nú eiga að vera hjá mér. Ljótunn kom í rökkrinu um kvöldið. Ég heyrði að mamma var að tala við hana frammi á ganginum, á meðan hún fór úr kápunni og skipti um skó. „Ónei, ekki mikið veik,“ sagði mamma. „En ég gat bara ekki sinnt henni eins og hún þráir, af því ég er að byrja í haust- önnum, og þar sem þú varst hvergi ráðin þessa stundina, Ljótunn mín, þá datt okk- ur þetta í hug.“ „Já, já, mikil undur,“ sagði Ljótunn, og mamma opnaði hurðina. Það var kveikt á litla rafmagnsborð- la.mpanum, og allir hestarnir, sem eltu hver annan hringinn í kring á skermin- um, komu greinilega í ljós. Ljótunn rétti mér litlu, æðaberu hönd- ina, og heilsaði með lágum, hlýjum róm. „Ég held þetta líði fljótt úr henni,“ sagði hún við mömmu. „Augun hennar eru svo skýrleg og heilbrigðisleg.“ Mamma brosti við, og sagðist vona það. Nú væri ég líka í góðum höndum. Síðan fór hún fram. Ljótunn settist niður, og tók fram prjónana sína. „Þykir þér annars verra að ég prjóni?“ Nei, nei, mér var sama. Einhvernveginn fannst mér Ljótunni vera ofaukið þarna inni hjá mér. Herberg- ið varð allt í einu svo undarlega þröngt og lítið, eins og margir fleiri en þessi litla, góðlega kona, hefðu komið þarna inn, í fylgd með henni. Það fylltist líka allt af þessari sérkennilegu lykt, sem allt- af lagði áf fötunum hennar Ljótunnar. Ég mundi að ég hafði heyrt einhvern segja, að kerlingin hefði heila lyfjabúð í fötunum sínum, og nú þurfti mér endi- lega að detta þetta í hug. Ég óskaði þess með sjálfri mér, að hún væri betur komin heim til sín með sína lyfjabúð. Ljótunn tók gleraugun af sér, og fægði þau með litlum, mjúkum klút, sem hún tók úr töskunni sinni. Síðan setti hún þau aftur á sig, með hægð og vandvirkni, og leit á mig. Það var í senn bæði festa og ró í svipnum, og blá, blíðleg augun, vöktu hlýju í brjósti mér til hennar, sem ávallt hefur haldizt síðan. „Þú skalt láta mig vita, Dóra mín, ef ég get gert þér eitthvað til þægðar,“ sagði Ljótunn, um leið og hún fór að prjóna. Við komu þessarar konu, hætti ég að hugsa um, hvenær mamma myndi geta komið til mín næst, og hvað lengi hún myndi geta setið hjá mér. í stað þess fór ég að virða Ljótunni fyrir mér. Engin smá hrukka í þreyttu andliti hennar fór fram hjá eftirtekt minni, og þunna, hæru- skotna hárið, — en hvað mér fannst það gefa þessu litla konuandlitir mikinn svip. Það vaknaði allt í einu upp fyrir mér, að Ljótunn myndi eiga sína sögu, og sín leyndarmál. Og nú greip mig svo sterk löngun, að vita allt um Ljótunni, að ég gat varla stillt mig, að segja henni strax fyrirvaralaust, um hvað ég var að hugsa. En ég vildi þó ekki tapa virðingu hennar, og reyndi að hugsa málið betur. „Ósköp ertu þögul, Dóra mín,“ sagði Ljótunn eftir alllanga þögn. „Þér er alveg óhætt að tala við mig svolitla ögn, ef þig langar til. Ég er viss um að þú verður orð- in jafngóð eftir tvo þrjá daga.“ „Leiðist þér ekki að vera alltaf að hjúkra einhverjum, sem eru veikir,“ áræddi ég að segja. „Ónei,“ tautaði Ljótunn. „Þetta er mitt starf, barnið gott, og ég kann því vel. Það eru nokkurskonar sárabætur fyrir mig, þannig er nú það. — Ljótunn rýndi niður í prjónana eins og hún hefði gert einhverja vitleysu allt í einu. „Myndi þér líða illa, ef þú gætir ekki séð um sjúka?“ Ljótunn leit upp og hvessti á mig augun. „Þú ert nú full ung til þess að hægt sé að tala við þig um það,“ sagði hún. — „En það eru alltaf nokkuð misjöfn áhrif, bæði frá börnum og fullorðnum.“ „Ég segi aldrei frá því sem er leyndar- mál,“ skaut ég inn í. Aftur leit Ljótunn upp. — „Það er fal- legt að vera orðvar,“ sagði hún blíðlega. Nú varð löng þögn. Ég óskaði þess inni- lega, að mér hugkvæmdist eitthvað til að segja, og áður en ég vissi af kom spum- ingin: — „Ert þú raunamanneskja, Ljót- unn?“ Ljótunn virti mig fyrir sér annars hug- ar. „Það telst nú ekki,“ sagði hún loks. „Það eru svo býsna margir, sem eiga um sárt að binda. Já, Guð veit það, að marg- ur á bágt, einnig þeir, sem aldrei kvarta, og bera harm sinn í hljóði.“ „Þekkirðu margt slíkt fólk, Ljótunn?“ „Ekki kanske marga, en nógu marga. Menn sjá margt og kynnast mörgu á langri æfi. Þó held ég að hann Sigurður á Bakk- anum, hafi liðið meira en aðrir, sem ég hef þekkt.“ „Hann Sttgurður. — V'iltu segja mér af því Ljótunn, ég skal aldrei segja það nokkrum manni.“ Ljótunn þagði um stund. — „Það er lífsreynsla óhamingjusams manns,“ sagði hún loksins. „Annars er það engin barna- saga, Dóra mín, en þú ert reyndar farin að vaxa, og sjá lífið eins og það er.“ Ég horfði hugfangin á Ljótunni. Það var von að þeir sjúku þráðu að hafa hana hjá sér. „Það þótti engin sæmd fyrir Ásu, þessa fallegu og myndarlegu stúlku, þegar hún giftist Þorvarði á Bakkanum. En þau voru foreldrar Sigurðar. Tvisvar hafði Þorvarð- ur komist undir manna hendur fyrir þjófnað, og sumir sögðu að hann gengi með stelsýki. Hvort svo var, dæmi ég ekki um, en þetta var maðurinn, sem Ása gekk viljug að eiga, og við það sat. Hann hnupl- ar öllu, sem hann sér sér fært, sagði fólk- ið. — Inn í þetta andrúmsloft fæddist Sigurður sonur þeirra, og bæði mér og öðrum var það huggun að sjá, hvað hann líktist móður sinni. Andlitsfallið var gjör- samlega eins, og öllum fannst að hún gæti verið róleg hans vegna. Eins og þú veizt, Dóra mín, þá er hann Sigurður dáinn. Ég var yfir honum sein- ustu sex vikurnar, og þá komst ég að mörgu um hann, og hans hag, sem ég vissi ekki áður. Hann fór saddur lífdag- anna hann Sigurður, þó hann yrði ekki gamall. Þú veizt að hann giftist henni Guðrúnu, dóttur Gunnars í Miklubraut, og fyrir vikið var hún rekin arflaus að heim- an. Gunnar gamli í Miklubraut lét sér það um munn fara, að hann vildi ógjarnan láta þjófsorminn á Bakkanum fá hana dóttur sína, alveg þegjandi og hljóðalaust. Ýmsir stóðu með eða mót, en þó hafa líklega flestir verið með Gunnari gamla. Einhvern veginn var þetta nú svona með Sigurð, að hann var óheppinn í mörgu, og virtist oft verða æði erfitt fyrir, þó menn vildu honum vel. — En nú er Sigurður dáinn. — Guð blessi sál hans.“ Ég horfði á Ljótunni, hvað skyldi hún segja mér næst? „Ég held,“ hélt Ljótunn áfram, „að hann Gunnar gamli, sé allt of strangur við hana dóttur sína. Jafnvel síðan hún varð ekkja, vill hann ekkert af henni vita. Karlinn tönnlast á því, að allt hefði verið fyrirgefanlegt, ef hún hefði ekki átt dreng- inn. Hann getur ekki hugsað sér, að dóttir hans hafi átt barn með þessum manni. Gunnar gamli er fram úr hófi ærukær, það er hann karlinn. Og ekki veit ég hvern- ig hann snérist við, þó hann fengi að vita sannleikann í þessu máli, eins og ég veit hann. Ég segi það satt, að ég er oft áhyggjufull út af þessu, því ég veit nefni- lega of mikið, en má þó ekkert segja.“

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.