Vikan


Vikan - 30.04.1969, Blaðsíða 49

Vikan - 30.04.1969, Blaðsíða 49
— Ef ég fer núna upp í stofu Fleur, viltu þá sýna Saxenden lá- varði hvar hún er? Ég ætla að blaða svolítið í dagbókinni. Ef hann verður ekki kominn klukkan tólf, fer ég í háttinn. Hún settist í armstól, með dagbókina á hnjánum, og horfði i kringum sig. Þetta var skemmtilega búin stofa og lýsti vel hve góð- an smekk Fleur hafði. Hún var þreytt eftir langan dag og áður en varði var hún sofnuð. . . . Hún hrökk upp við að einhver kom inn í stofuna. Á miðju gólfi stóð sá, sem einu sinni var kallaður „Snubby Bantham", og horfði á hana, stálbláum augum. — Fyrirgefið, sagði hann, — fyrirgefið. Þér takið yður vel út í svefni. — Ó, mig var að dreyma, sagði Dinny, - það var fallegt af yður að koma. En hvað er klukkan? — Ellefu. Ég vona að þetta taki ekki langan tíma. Er yður sama þótt ég reyki? Hann settist í sófa andspænis henni og fór að troða í pípu sína. Það var greinilegt að hann ætlaði ekki að segja neitt fyrr en hún hafði lokið lestrinum. Henni var líka ljóst að þetta var Jean að þakka, og það var ekki laust við að hún finndi til afbrýðisemi út í hana. Hún var með hjartslátt, en herti sig upp og hóf lesturinn. Hún las þrjá kafla áður en henni varð litið til hans. Hann hefði eins getað verið skorinn í tré, aðeins augun voru vökul. Dinny fann að hann óskaði þess heitast að komast í rúmið, en hún lét það ekki á sig fá. Fjórði kaflinn var að hennar dómi áhrifamest- ur, að lokakaflanum undanskildum. Rödd hennar titraði svolítið, þegar hún lauk honum. — Þetta er nú nokkuð þykkt smurt, sagði lávarðurinn, — vitið þér ekki að múldýr eru allt að því tilfinningalaus? Dinny fann reiðina blossa upp í sér; hún ætlaði ekki að líta á hann fyrr en hún hefði lokið við lesturinn. Hún varð að hafa sig alla við til að hafa vald á röddinni, og þegar hún hafði lesið loka-, orðin, leit hún á hann. Saxenden lávarður hvíldi hökuna í hendi sér. Hann var í fasta svefni. Hún horfði á hann, eins og hann hafði fyrir skömmu horft á hana. En kímnigáfa hennar bjargaði henni. Hún gekk að skrifborði Fleur, tók pappírsörk og skrifaði: — Mér þykir leitt að hafa þreytt yður. Góða nótt. Svo lagði hún blaðið á hné hans. Þegar hún læddist að dyrunum leit hún um öxl. Dauf svefnhljóð, sem bráðum yrðu að hrotum heyrðust frá honum. - Þegar höfðað er tii tilfinninga hans, sofnar hann, hugsaði hún. — Þannig hefur hann unnið stríðið. Þeg- ar hún sneri sér við, stóð hún andspænis Hallorsen prófessor. Þegar Dinny sá Hallorsen horfa yfir höfuðið á sér á hinn sofandi lávarð, tók hún andköf. Hvað gat hann hugsað um hana, vera að læðast út úr litlu einkaherbergi um miðnæturskeið, frá manni, sem ekki var eldri og svo hátt settur? Augun, sem mættu hennar, voru grafalvarleg. Og skelfingu lostin, ef hann skyldi fara að biðjast af- sökunar, og þar með vekja lávarðinn, bar hún fingur að vörunum og hvíslaði: — Vekið ekki barnið! og smeygði sér svo framhjá honum. iiíSÉ?! Hún hló sig máttlausa, þegar hún kom inn í herbergið sitt, en fór svo að athuga stöðu málsins. Eftir því orði sem fór af aðlinum í lýðræðislöndum, gæti Hallorsen hugsað það versta. En hún vildi láta hann njóta sannmælis. Hún vissi að hvað svo sem hann hugs- aði um hana, léti hann það aldrei í ljós. Hún gat ímyndað sér hann, í fyrramálið við morgunverðarborðið, segja grafalvarlega: — Það gleður mig að sjá hve vel þér lítið út, ungfrú Cherrell. ... Hún var leið út af því hve málefni Huberts virtust óleysanleg. Hún svaf illa, vaknaði föl og þreytt, og fékk morgunverð í rúmið. Dinny skrifaði bróður sínum, minntist ekkert á Saxenden, Hall- orsen eða Tasburgh-systkinin, en sagði honum glaðlega frá Em frænku þeirra og garðyrkjumönnunum, Boswell og Johnson. Jean og Alan skruppu yfir til að leika tennis eftir hádegið, og það var ekki fyrr en veiðimennirnir voru hættir að hún sá þá Saxenden og Ameríkanann. Saxenden sat út í horni með tebolla, og augna- ráðið sem hann sendi henni bar það með sér að hann hafði ekki fyrirgefið henni. Hún varaðist að láta á því bera hve þungt henni var fyrir hjarta. Fram að þessu hafði hún sannarlega ekki bætt um fyrir bróður sínum. — Ég sendi Jean til að vinna björninn, hugsaði hún með sér. Á leið sinni út, mætti hún Hallorsen, og ákvað að kanna afstöðu hans: — Ef þér hefðuð komið aðeins fyrr í gærkvöldi, þá hefðuð þér heyrt mig lesa úr dagbók Huberts fyrir lávarðinn. Það hefði kannski haft betri áhrif á yður en hann. Það birti yfir svip Hallorsens. — Jæja, sagði hann, — ég var að furða mig á því hvaða aðferð! þér hefðuð notað til að svæfa hann. — Ég var að undirbúa hann undir lestur bókar yðar. Ætlið þér ekki að senda honum eintak? — É'g held ekki, ungfrú Cherrell, ég hef engan áhuga á heilsu- fari hans. Eg hef ekki mikla samúð með manni, sem getur sofnað' við hljóminn í rödd yðar. Hvað gerir hann annars þessi lávarður? — Hvað hann gerir? Ég held að hann sé allt í öllu, faðir minn segir að hann sé mikill áhrifamaður. Ég vona bara að þér hafið slegið hann út í skotfimi í dag líka, því að ég held að því meira sem þér farið í taugarnar á honum, því betri verði aðstaða bróður míns. —■ Jæja, er það þannig? Ráða persónulegar tilfinningar fram- gangi mála hér? — Er það ekki líka þannig hjá ykkur? —• Jú, vafalaust, en ég hélt að erfðavenjurnar hér væru of fast- mótaðar til þess. — Ó, við myndum auðvitað aldrei viðurkenna persónulegar til- finningar. Hallorsen brosti. — Er þetta ekki einmitt dásamlegt? Þegar á allt er litið er allur heimurinn eins. Þér mynduð kunna að meta Ameríku, ungfrú Cherrell; ég vildi gjarnan fá tækifæri til að sýna yður hana. Hann talaði eins og Ameríka væri hluti af farangri hans. — Þakka yður fyrir, en þér eruð ennþá óvinur minn. — Ungfrú Cherrell, ég skal gera allt sem í mínu valdi stendur til að breyta áliti yðar á mér. Ég er yðar auðmjúkur þjónn, og ég vona að með tímanum geti ég ef til vill orðið eitthvað meira. Hann var afskaplega hávaxinn, glæsilegur og hraustlegur, og henni fannst það óþægilegt. —- Við skulum nú ekki fara að taka hlutina of alvarlega, prófess- or, það leiðir bara til vandræða. Fyrirgefið. ég þarf að finna ung-t frú Tasburgh. Og þar með skundaði hún burt. Þetta var farið að verða nokkuð hlægilegt. Jean var að enda við leik. — Komdu í te, sagði Dinny, ■— Saxenden lávarður bíður eftir þér í ofvæni. Á leið til hússins mætti hún Sir Lawrence, sem sagðist varla hafa séð hana og bauð henni til vinnustofu sinnar til að skoða dvergmál- verkasafnið hans. — Ég á dvergmálverk sem eru dæmigerð fyrir margar þjóðir, séreinkenni manngerða, allt konur, eins og þú sérð, Dinny; það eru konur frá Spáni, Þýzkalandi, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Ameríku og Rússlandi; og ég vildi óska að ég ætti málverk af þér, Dinny. Viltu sitja fyrir hjá ungum málara fyrir mig? — Eg? — Já, þú. — En hvers vegna? — Vegna þess, sagði Sir Lawrence, og virti hana fyrir sér gegn- um einglyrnið, — að þú ert svar við gátunni um dæmigerða hefðar- konu. — Auðvitað vil ég sitja fyrir, ef þú vilt. — Þakka þér fyrir, ég hef mikinn áhuga á þessu. Ég get fengið málarann til að koma til Condaford og mála þig þar. En nú verð ég að fara og kveðja „Snubby“. Hefur þú komizt eitthvað áleiðis með hann? — Ég las hann í svefn í gærkvöldi. Ég held hann hafi mestu óbeit á mér. Ég þori ekki að biðja hann neins. Er hann svo áhrifamikiill eins og þú segir, frændi? — Hann er eins og indverskt gúmmí, ég held að við getum ekki verið án slíkra manna. Jæja, Hallorsen er líka að fara, mér líkar vel við þann náunga. Hann er auðvitað dæmigerður Ameríkani, en gæðaviður.... Framhald í næsta blaði. i8. tw. VIKAN 49

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.