Menntamál - 01.03.1947, Page 28
22
MENNTAMÁL
Enn skrifar Bjarni 1868, þá stiftamtmanni. En þrátt
fyrir þessa ötulu, óþreytandi baráttu, lognast málið út af.
Virðist svo sem yfirvöldunum hafi gengið það eitt til með
tregðu sinni og vífilengjum að ganga af málinu dauðu til
þess að firra ríkissjóð ca. 200 dala útgjöldum á ári.
Reistur skóli í Vestmannaeyjum.
Haustið 1880, þegar Alþingi hafði sett lög um fræðslu
barna, ákvað sýslunefnd að setja á stofn skóla og byggja
skólahús. Af framkvæmdum varð þó ekki þá þegar, en
húsið var byggt 1883—84, og tók skólinn til starfa 1. okt.
1884 — eða um 125 árum eftir að hinn fyrsta skóla leið.
Fyrsti kennari við skólann var Lárus Árnason stúdent frá
Vilborgarstöðum, síðar lyfsali í Bandaríkjunum, og er
hann fyrsti skipaður barnakennari í Vestmannaeyjum.
Skólahúsið var hlaðið úr tilhöggnum móbergssteini, í
því var ein kennslustofa og eldhús niðri, en ibúðarher-
bergi uppi. Varð húsnæði þetta brátt of lítið, og varð að
ráði, að gamla þinghúsið, er Kohl sýslumaður lét byggja
1858—59, var rifið og byggt upp af því hús, sem bæði
var notað sem skóli og þinghús. Fluttist skólinn úr sínu
fyrra húsnæði (Dvergasteini við Heimagötu) og í hið
nýja 1904. í þinghúsinu var sýslubókasafn Vestmanna-
eyja, 3 kennslustofur og leikfimisalur, sem jafnframt var
notaður sem réttarsalur. Voru þá reistar þar grindur, til
þess að afkróa frá lýðnum réttarins þjóna og dómarann.
Austan við skólann, áfast við, var hegningarhús Eyjanna.
Voru þar tveir fangaklefar í norðurhlið, en suðurhliðin
opið port eða garður til þess að viðra fangana í. Sáu
börnin niður í fangahússgarðinn úr gluggum skólastof-
unnar í austurgafli uppi.
Ekki liðu mörg ár, áður en þetta húsnæði varð of lítið
fyrir skólann, en þó var notazt við það til 1916. Hús þetta
er nú notað sem póststofa og íbúðarhús (Borg), en var
nm langt skeið kvikmyndahús.