Menntamál - 01.04.1957, Síða 46
32
MENNTAMAL
að hlaupið var yfir einn dag, þriðjudaginn 31. júlí, þegar
flogið var vestur yfir 180. lengdarbauginn. Á leiðinni
milli Honolulu og Manilu var komið við á tveim smáeyjum,
Wake og Guam, sem oft var getið í stríðsfréttum í heims-
styrjöldinni síðari. Reistu Japanar, sem kunnugt er, bæki-
stöðvar á eyjum þessum, er þeir höfðu hernumið Hawai-
eyjar og Filippseyjar.
Flugvélin var lent í Manilu. Við vorum komnir inn í af-
greiðslusal flugvallarins. í mannfjöldanum komum við
brátt auga á þrjú ungmenni, tvær meyjar og einn svein,
sem héldu hópinn og öll báru merki Heimssambands kenn-
ara í barminum. Þau voru greinilega að litast um eftir ein-
hverjum. Við þóttumst vita, að þau hefðu verið send til
að taka á móti okkur, og gáfum okkur fram við þau. Þetta
reyndist rétt vera. Hlýlegt handtak þeirra og alúðlegt —
en ofurlítið feimnislegt — bros þeirra sannfærði okkur um,
að við vorum staddir meðal vina, þótt við værum í ókunn-
um og fjarlægum heimshluta.
Klukkan var 15 sama dag. Við höfðum þegar komið okk-
ur vel fyrir í stóru, vistlegu og loftkældu herbergi uppi á
3. hæð í Hotel Manilu. Eftir hálfa klukkustund skyldi
hátíðleg setning þingsins fara fram í löggjafarþinghúsi
Filippseyinga, fundarsal neðri deildar. Við höfðum fengið
okkur bað og matazt og vorum nú hinir hressustu, þótt
mjög væri heitt í veðri og allt væri þvalt og stamt viðkomu
af raka. Úti fyrir aðaldyrum gistihússins biðu stórar bif-
reiðar, er flytja skyldu fulltrúana á þingstaðinn. Mér var
sagt, að stuttur spölur, varla stundarfjórðungs ganga,
væri til þinghússins. Fýsti mig því að fara þangað gang-
andi. Mér var ráðið frá því, var tjáð, að bráðum færi að
rigna. Þetta reyndist rétt. Við vorum varla sloppnir inn
í salinn, er glóðvolgt regnið tók að fossa úr loftinu. Ég
sagði: fossa, — ekkert regn hér á norðurslóðum líkist
hitabeltisregni.