Heima er bezt - 01.08.1951, Blaðsíða 11
Nr. 6
Heima er bezt
171
Guðmundur Geirdal:
Skáld í sumarferð til bernskustöðvanna
ÁGÚST var að telja út daga
sína og stundir, og enn hafði ég
ekki getað komið því við að
leggja upp í sumarfríið. Kveið
ég því um leið og ég hlakkaði til
að losna af skrifstofubásnum,
að öll sumarblíða og birta yrði
eydd upp til agna, og hlutskipti
mitt í svonefndu sumarleyfi yrði
það eitt að berjast við rok og
regn, drungafulla og þumbara-
lega þokudaga, húmnætur
haustsins og ef til vill frost og
fannir.
Það er naumast að maðurinn
hefur átt að fá langt sumarfrí,
munu einhverjir lesendur þess-
arar ferðasögu segja, einkan-
lega þeir, sem aldrei fá eða hafa
fengið neitt sumarleyfi um dag-
ana, og tel ég þeim vera mikla
vorkunn. En sem betur fer eru
sumarleyfi eins og margt ann-
að gott og þarft með þjóð vorri
að færast í aukana. Jafnvel
þrælarnir fá orðið orlof. Jú, les-
endur góðir, undirritaður fékk
nú í fyrsta sinni á æfinni, þegar
þetta er ritað nýorðinn 61 árs,
25 daga frí frá störfum, er hann
hefur gegnt yfir 20 ár hjá Hafn-
arsjóði ísafjarðar. Var því í
nokkrum vafa, þar sem liðið var
fram undir ágústlok, og undan-
farnar vikur höfðu verið í stöku
sólskinsskapi, hvað í vændum
kynni að vera. Bústu við því illa,
það góða skaðar ekki, segir gam-
alt máltæki.
Nótt, órólegur svefn, ómerki-
legir og slitróttir draumar. Svo
rann þá loksins upp hinn lang-
þráði 28. ágúst, sem var mið-
vikudagur á því herrans ári
1946. Miðvikudagur til moldar,
skaut upp í huga mér. Mundi
þá þetta langa ferðalag eða rétt-
ara sagt langa sumarfrí ríða mér
að fullu? Ó, sussu nei, hvað ætli
það. Allt í lagi, lagsi sæll. Tek
hvorki mark á merkingu
daga eða draumavitleysu.
Ég vaknaði fyrir allar aldir
um morguninn. Og njitt fyrsta
verk var að brenna allar skrif-
stofubrýr að baki mér. Ásetti
mér síðan að taka hverju sem
að höndum bæri með stóiskri ró.
Djúpbáturinn, sem þennan
daginn var m.b. „Pólstjarnan“,
átti að leggja af stað kl. 8.
Nú var ég frjáls eins og fuglar
loftsins. Einn míns liðs, enginn
kvenförunautur, sem ég þurfti
að hringsnúast í kringum eins
og reikistjarna um sól. Ekkert
yfirvakandi augnaráð afbrýðis-
samrar eiginkonu. Mér var sem
sé alveg frjálst að tala við hvern
sem ég vildi, hvort heldur var
karl eða konu, án þess að valda
þriðju persónu hinum minnstu
óþægindum.
Ég andaði léttar en vanalega,
og tilhlökkunin ein settist að
völdum í sál minni.
Ómögulegt er þó að segja, að
veðrið væri neitt yfirmáta heill-
andi. Himininn hafði hneppt
grárri skýjakápu, og henni all-
þykkri, upp í háls og niður úr,
og minnti helzt á grámunka
miðaldanna. En, sem betur fór
fyrir mig sjóveikan landkrabb-
ann, hélt hann alveg að heita
mátti niðri í sér andanum, og
ekki sjáanlegt, að dætur Ægis
væru í neinum danshug. Veðrið
sem sagt þurrt, og þar sem ég
hafði engan hitamæli við hend-
ina, get ég ekki nánar til tekið
en það hafi verið hvorki heitt
né kalt.
„Stjarnan“ lá hóstandi við
bæjarbryggjuna. Liðaðist blá
reykjarsvælan upp úr reykháfn-
um, og andvarinn, þótt lítill
væri, lék sér að því að greiða
hana sundur og eyða jafnóðum.
Er ég steig um borð voru fáir
staddir frammi á bryggjunni. En
á þiljum niðri kannaðist ég við
nokkur andlit. Kom ég ferða-
tösku minni og svartri glans-
kápu fyrir innan um annað dót
þar ofan þilja. Ég var ekki hlýtt
klæddur né fyllilega samkvæmt
nýjustu tízku, tjaldaði því sem
til var, sem sé svörtum skíða-
buxum, grárri skíðablússu,
grængráum rykfrakka þar utan
yfir og með hatt á höfði. Trefli,
sem ég ætlaði að hafa um háls-
inn, gleymdi ég heima.
Þá var landfestum kastað og
leiðarstjarnan lagði frá bryggju
og hóstaði hressilega.
Stefndi gnoðin inn Pollinn,
beygði mjúklega eins og mær í
dansi fyrir Suðurtangann og tók
skriðinn út Sundin. Höfðum við
bæinn á vinstri hönd, en
Kirkjubólshlíð með Naustum
eða Kjarvalsstöðum (bæ Þor-