Heima er bezt - 01.12.1968, Qupperneq 24
Allt í einu datt mér í hug að fara út og hjálpa til að
hýsa hestana. Örskammt frá bæjardyrunum var fjósið,
og við það var sambyggt lítið hesthús. í þessu hesthúsi
voru hýst fjögur eða fimm trippi. — Ekki man ég nú,
hvernig þau voru öll lit, en í hópnum var þriggja eða
fjögra vetra hryssa dökkbrún á litinn. Hún var ekki
mjög stygg, en talin mesta frenja.
Þegar ég kom út úr dyrunum, lenti ég strax í all-
djúpum skafli, sem ég reyndi að klofast yfir, þótt ég
væri ekki hár í loftinu. Nú voru trippin að koma að hest-
húsdyrunum. En hesthúsið var .lokað. Sá sem var að
láta trippin inn, reyndi að komast framhjá þeim, til að
opna hurðina, en við það komst los á trippin. Þau
höfðu verið með kuldabrölt heim túnið, og ennþá voru
þau æst og leikfull. Þau þutu nú öll frá dyrunum og
Brúnka skvetti upp rassinum, þaut frá dyrunum og
stefndi beint á mig. í því skall yfir ofsalegt él. Ég ætl-
aði að vinda mér frá, en valt um sjálfan mig í skaflin-
um, en Brúnka brá á leik og hentist yfir mig, en snerti
mig hvergi.
Ég reis á fætur háorgandi og skreiddist einhvern veg-
inn heim að bæjardyrunum. Svo þaut ég inn göngin
og linnti ekki á hljóðum, þar til að ég komst inn að
hlóðunum til mömmu. Hún dustaði af mér snjóinn og
athugaði, hvort ég væri nokkurs staðar meiddur, gaf
mér svo heita kleinu, þurrkaði framan úr mér og þar
með hætti ég að orga, því að ég fann hvergi til. Er
karlmennirnir komu inn frá gegningum um kvöldið,
var ekki laust við að ég fyndi dálítið til mín, þegar
allir vildu spyrja mig um þennan merkilega atburð.
En það er frá Brúnku að segja, að hún varð með aldr-
inum bezti gripur, en ætíð þótti hún fljótfær og frenju-
leg og dálítið rösul. — Veturinn, sem ég varð átján ára
fór ég í Hvítárbakkaskólann. Ég fór ríðandi eins og
leið lá og bróðir minn fylgdi mér. Þá var Brúnka höfð
undir trússum. Var öðrum megin á klakknum lítið blá-
málað koffort, en hinum megin sængurföt í poka og
fleira dót. — En Brúnka fór ekki til baka aftur. — Skóla-
stjórinn keypti hana til afsláttar fyrir skólann.
Er mér enn í minni, er Brúnka synti á eftir bátnum
yfir Hvítá. Ferjumaðurinn reri á tvær árar, en aftur í
sat maður og hélt í tauminn á Brúnku og teymdi hana
á eftir bátnum. Brúnka hafði aldrei áður í vatn komið
til að synda, og brá henni því mjög, er hún náði ekki
lengur niðri. Hún lagðist nærri flöt upp í strauminn,
og spyrnti sér áfram með afturfótunum og voru þeir
þá nærri uppi í vatnsskorpunni. Hún hristi sig hraust-
lega og veíti sér er hún kom upp á grasbakkann. Síð-
an var hún teymd heim að skólanum og á bak við hús-
in. Þá komu tveir menn með byssu og önnur tæki til
slátrunar, en ég gekk heim að skólanum. — Ég hrökk
þó í kuðung er ég heyrði skothvellinn. Fyrir því skoti
féll Brúnka, sem þá var kölluð Gamla-Brúnka. — Hún
hafði með léttleika sínum og fimi bjargað lífi mínu, er
við vorum bæði ung og mjög á sama aldri. — Hún var
eins og oft var sagt mesti happagripur.
Ég saknaði hennar, og enn er minningin um Brúnku
mér mjög kær.
2. HÚSLESTUR Á JÓLADAGSMORGUN.
Einhver bjartasta minning mín frá nn'num bernsku-
jólum, er minningin um húslestur á jóladagsmorgun.
Aðfangadagurinn var með miklum helgiblæ, og sjálf
hátíðin hófst í raun og veru um kl. 6, eins og nú er sið-
ur. Þá reyndu allir að vera fyrir nokkru komnir inn
frá gegningum, og höfðu losað sig við hlífðarfötin og
reynt að snyrta sig áður en sjálf hátíðin gengi í garð.
Á þeim árum þekktust varla baðherbergi í húsum, allra
sízt á sveitabæjum, svo að um vetrartímann varð fólkið
að baða sig, eða þvo sér, upp úr íláti, sem venjulega var
kallað stampur. Var stampurinn oft helmingur af sund-
ur-sagaðri tunnu eða olíufati. Var erfitt að fá góðan
stað fyrir þessa baðathöfn. Man ég það, að sumir leit-
uðu í fjósið, til að baða sig þar eða þvo sér um líkarn-
ann. Börn og unglingar voru þvegin inni í baðstofu-
hlýjunni. En allir vildu vera hreinir, er hátíðin hófst.
Þegar allir höfðu lokið þessari hreinlætis-athöfn, var
farið að klæðast í sparifötin. — Og þótt ljósmeti væri
af skornum skammti, og ætíð sparað mjög, þá var út
af því brugðið á aðfangadagskvöldið, og þá var Ijós-
um dreift um öll bæjarhúsin, svo að hvergi bar skugga
á, og einnig voru Ijós látin loga í baðstofunni alla jola-
nóttina.
Þegar allir voru komnir í sparifötin, var hátíðamatur-
inn inn borinn. Var hann ætíð mikill og góður, og það
jafnvel á fátækum heimilum. Allir reyndu að hafa góð-
an mat um hátíðirnar, þótt oft yrði þröngt í búi, er
líða tók á veturinn. — Þegar maturinn var kominn inn,
voru jólin komin í bæinn. — Gleðiblær og hátíðleiki
hvíldi yfir heimilinu, og allt var sópað og prýtt eftir
beztu getu, þótt húsakynnin væru þröng og fátækleg.
Ennþá var þó eftir sú stund jólahátíðarinnar, sem ég
man bezt og hér verður frá sagt:
Þegar ég man fyrst eftir mér á Snorrastöðum, var
þar bálk-baðstofa, þrjú stafgólf, og inngangur í þriðja
stafgólfið. í baðstofunni voru því fimm rúm, en stund-
um var þó settur upp vefstóll í stað rúmsins á móti
uppgöngunni. Rúmin voru breið og tveir til þrír í
hverju rúmi og jafnvel fleiri. Á jólanóttina lifði Ijós í
baðstofunni og það þótti mér svo hátíðlegt, að ég ætl-
aði varla að geta sofnað. — Var það þá föst venja á
jólunum, að kl. 7 á jóladagsmorguninn var allt heim-
ilisfólkið vakið. Mamma fór strax á fætur, kveikti upp
eld og fór að hita súkkulaði, en pabbi tók húspostillu
Jóns biskups Vídalíns ofan af hillu uppi í sperrukverk,
og fletti upp í húslestrarbókinni og hóf lesturinn. — í
Vídalíns-postillu eru tveir húslestrar á jóladaginn, og
var þá venja á mörgum sveitabæjum, að Iesa fyrri lest-
urinn snemma á jóladagsmorguninn. — Pabbi var ágæt-
ur lesari, sem svo var kallað, og hafði lesið í Vídalíns-
424 Heima er bezt