Heima er bezt - 01.12.1977, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.12.1977, Blaðsíða 35
Islenzkt ljóðasafn IV.A og V. bindi. Rvik 1977. Almenna bókafélagið. Nú tekur að líða að lokum útkomu þessa mikla og merkilega ljóðasafns. Þau tvö bindi, sem hér ræðir um, eru annars vegar ljóð frá fyrri hluta 20. aldar, en hinsvegar er V. bindið úrval þýðinga frá síra Jóni Þorlákssyni til nútímamanna. Eins og fyrri fylgir Kristján Karlsson bindunum úr hlaði með formálum. Það væri harðla ófrjótt að fara að eltast við að telja upp, hvort manni líkar valið á einhverju ljóði betur eða verr, eða hvort maður sakni þessa eða hins. Það er hvort sem er enginn algildur mælikvarði á, hvað velja skuli, þar hlýtur alltaf smekkur veljandans að ráða úrslitum, og aðalatriðið er, að safnið sem heild flytur góð ljóð, og ég hygg enginn opni þessi bindi svo, að hann finni þar ekki kvæði, sem hann les sér til yndisauka og sálubótar. En sem betur fer hafa íslendingar ort margfalt fleiri kvæði en rúmast geta í slíku úrvali þótt stórt sé. IV. bindi safnsins er ætlað að komi í tveimur bindum A og B. Sá hlutinn, sem hér birtist hefst á Sigurði Nordal en endar á Páli H. Jónssyni. Fyrirferðarmestir verða þeir, Davíð Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum og Tómas Guðmundsson eins og vænta má, en hvarflað gæti það að lesandanum, að hlutur þeirra sé gerður helsti mikill á kostnað annarra. Fimmta bindið, þýðingarnar, sýnir oss best hvílíkar gersimar þýddra ljóða vér eigum, allt frá því, að síra Jón Þorláksson sat við þröngan kost og þýddi hin stórfelldu ljóð heimsbókmenntanna heima á Bægisá. Stærstan hlut í þýðingasafninu eiga þeir Matthías Jochumsson og Magnús Ásgeirsson, og verður naumast um það deilt, að þeim beri forystan, en margir hafa lagt hönd á plóginn og unnist vel. En fullmargar þykja mér grískuþýðingar Gríms Thomsens. Ég hefi aldrei orðið þess var, að þær hafi snortið almenna ljóðalesendur, þótt vafalaust séu þær merkar og vel gerðar. Gils Guðmundsson:Skútuöldin. Rvfk 1977. öra & örlygur. Skútuöldin er merkilegt tímaskeið í atvinnusögu vorri. Svo má kalla, að útgerð þilskipa til fiskiveiða hafi verið fyrsta tilraunin til að rétta þjóðina úr efnahagskútnum. Það var atvinnubylting á sínum tíma og tvímæla- laust nauðsynlegur inngangur að þróun sjávarútvegsins í þá átt, sem hann nú er kominn á skuttogaraöld. En eins og löngum vill verða gleymast atburðir og afrek á þeim sviðum furðufljótt við tilkomu nýrra tækja og nýrra vinnubragða. Með nýjum kynslóðum fellur hið gamla í djúp gleymskunnar. Það var því hið mesta þarfaverk, og mátti raunar varla dragast öllu lengur, er Gils Guðmundsson tók sér fyrir hendur fyrir rúmum 30 árum að safna til og taka saman sögu skútualdarinnar eftir öllum tiltækum gögnum, bæði skráðum og munnlegum heimildum, svo sem frásögnum þeirra, sem unnið höfðu á skútunum og enn voru á lífi. Voru þar bæði hásetar og skipstjórnarmenn. Árangur þessa starfs hans varð mikið rit, tvö bindi svo gildvaxin, að lítt voru meðfærileg til lestrar. Hlutu þau þegar miklar vinsældir, og hefir bókin nú verið ófáanleg í nær 30 ár. Það var því ekki vonum fyrr, að efnt var til nýrrar útgáfu, sem nú er komin á markaðinn með miklum myndarbrag í fimm meðfærilegum bindum, og er allur frágangur þeirra hinn prýðilegasti. Höfundur hefir endurskoðað hina nýju útgáfu og aukið verulega, lætur nærri að eitt bindanna sé hreinn bókarauki frá fyrri útgáfunni. Munar þar mest um sögu skútuútgerðarinnar við Faxaflóa, sem af sérstökum ástæðum var ekki í frumútgáfunni. Þá hefir verið bætt við aragrúa af myndum, bæði af einstaklingum, hópum, aðallega skipshöfnum, og skipum. í Skútuöldinni er rakin saga þilskipaútvegsins frá hinum fyrstu tilraun- um og þar til síðustu skútunum er lagt upp eða þær seldar, þá orðnar úreltar gagnvart hinni nýju tækni. Rakin er í megindráttum saga margra einstakra skipa og afdrif þeirra, sagt frá félagsskap sjómanna og síðast en ekki síst raktir æfiþættir helstu útvegsmanna og fjölmargra skipstjóra og annarra skútumanna. Eru margir þessara þátta hinir læsilegustu, og segja bæði harmsögur og hetjudáðir. Sums staðar verður frásögnin þó helsti beinagrindarleg, þar sem efni skorti til að fylla upp í kringum nöfn og ártöl. Er það ekki sök höfundar, því að hann hefir hvarvetna gætt frásögnina lífi, þar sem efni var fyrir hendi. Sem heild er bókin skemmtileg hverjum þeim, sem hefir hug á sögu og menningu þjóðar vorrar, og hafa höfundur og útgefandi unnið ágætt verk með hinni nýju útgáfu. Tveggja heima tengsl. Rvik 1977. öra 7 örlygur. Bók þessi segir frá undraverðum hæfileikum ensks pilts, Matthew Manning, og er meiri hluti hennar frásögn hans sjálfs, en einnig um- sagnir vísindamanna, sem fylgdust með honum og rannsökuðu fyrirbæri þau, sem gerðust kringum hann. Bókina skrifaði hann 1974, þá 18 ára að aldri, en þá höfðu fyrirbrigðin gerst um sjö ára skeið. I fyrstu var um að ræða stórkostleg hreyfifyrirbrigði, ærslanda, eins og þýðandinn kallar þau. Hlutir voru færðir úr stað með ósýnilegu afli, jafnvel gegnum veggi, og svo voru lætin mikil. að nærri lét, að þau gerðu honum og fjölskyldu hans lífið óbærilegt, a.m.k., ef ekki hefði komið til skilningur fjölskyld- unnar og kennara hans. Síðar tók við ósjálfráð skrift og teikningar, og hurfu þá ærslandafyrirbærin. 1 ósjálfráðu skriftinni komu fram hin furðulegustu skilaboð á mörgum tungumálum, sem Manning hafði ekki minnstu kynni af, jafnvel á arabisku. Sagt var að teikningunum stýrðu heimsfrægir málarar, svo sem Leonardo da Vinci og Picasso, auk margra smærri spámanna, en greinilega þóttust menn sjá svipmót með teikn- ingum Mannings og hinum látnu meisturum. Hinir varfærnu rann- sóknarmenn, sem fylgst hafa með Manning og rannsakað fyrirbærin, fullyrða, að þau séu raunveruleg, og honum með öllu ósjálfráð, þar séu hvorki svik né blekkingar. Hinsvegar eru þeir tregir til að fullyrða nokkuð um af hverju þau stafi, og slíkir menn eru löngum tregastir til að viður- kenna að samskonar fyrirbrigði stafi frá framliðnum mönnum, þótt það sýnist raunverulega eina skynsamlega skýringin. Þegar vér lesum um það, sem gerst hefir umhverfis Manning, er naumast hægt að trúa öðru en þar sé um að ræða boð frá öðrum heimi. En hvað sem því líður er það óhagganlegt, að hér er skýrt frá slíkum undrum, að lesandinn fellur I stafi, og hika ég ekki við að telja þetta eina merkustu bók ársins, því að hún sýnir oss inn í dulda heima, eða kynnir oss dularkröftum, sem búa í manninum, en hlíta engum þeim nátturulögmálum, sem efnisvísindin kenna oss. Manning hefir þegar skrifað fleiri bækur, og fáum vér vonandi að kynnast þeim síðar. Ævar Kvaran hefir þýtt bókina með ágætum og hlotið að búa til nokkur nýyrði, sem virðast falla vel inn í íslenskt mál. Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi: Islenskar dulsagnir. Akureyri 1977. Bókaforlag Odds Björnssonar. Guðmundur frá Lundi er þegar alkunnur af ritum sínum og útvarpser- indum, og hefir einkum vakið athygli á sér fyrir nákvæma eftirtekt og trúverðuga frásögn, um hvað sem hann hefir fjallað. Hann lýsir hlutun- um af nákvæmri athugun og varfærni, og kemur það skýrt fram í því dulsagnasafni, sem hér birtist, en í því segir frá dularfyrirbærum, sem komið hafa fyrir hann sjálfan eða aðra honum nákomna og kunnuga. Enginn fer í grafgötur um, að Guðmundur trúir á áhrif frá öðrum heimi og framhaldslíf, en það tálmar því ekki, að hann beiti fyllstu varfærni og leitist við að fá vottfestar sagnirnar eftir því sem framast er unnt. Engin sagnanna hefir gengið manna á milli, en mega kallast komnar frá fyrstu hendi þeirra, sem fyrirbrigðin hafa reynt. Sögurnar eru allfjölbreyttar, en mest rúm taka draumar og huglækningar. Sú tíð er nú liðin, að menn kalli allt hindurvitni eða lygi, sem þeir fá ekki skilið eða skynjað með augum og eyrum. Fjöldi vísindamanna víðsvegar um lönd vinna nú að rannsóknum þessara fyrirbæra, og mundu frásagnir Guðmundar vera gott tillag til þeirra, því að mjög verða þeir að leita eftir vitnisburðum úr daglegri reynslu manna. Islendingar hafa lengi kunnað að meta frá- sagnir af dularfyrirbærum, um það eru þjóðsögur vorar órækast vitni. Trúi ég vart öðru en dulsagnir Guðmundar frá Lundi öðlist vinsældir, þvi að þær eiga það skilið. Heima er bezt 419

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.