Heima er bezt - 01.05.1982, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.05.1982, Blaðsíða 29
kennara eftir áramót, sem mun segja þér og dætrum mín- um til undir framhaldsnám.“ Hjalti er bæði glaður og undrandi yfir þessu, en sér strax að þetta muni verða nokkuð dýrt fyrir sig og segir: „Ég þakka þér fyrir, en ég þarf að ráðgast við foreldra mína.“ „Þú þarft ekkert að ráðgast við þau um kostnað við veru þína hér. Það kemur bara okkur, þér og mér, við, þú verður mér kannski hjálplegur ef annar fjármaðurinn minn verður frá, hann er heilsuveill og stundum lasinn. Þú kannski hleypur þá í skarðið ef á þarf að halda. Mér er það sönn ánægja að mega sýna þér þennan þakklætisvott fyrir þinn frækilega dugnað og óeigingjarna fórnarlund til dóttur okkar og fylgdarmanns hennar. „Ég get nú borgað eitthvað fyrir mig, ég hef verið að draga svolítið saman til þess.“ Lengra komst Hjalti ekki. „Þú mátt ekki afþakka þetta boð mitt, Hjalti minn. Þú ert búinn að gera svo mikið fyrir okkur, þetta eru smámunir í samanburði við það. Þú segir foreldrum þínum frá þessu og svo kemur það ekki fleirum við, og þetta er svo útrætt mál. Svo vona ég að þú sofir vel í nótt eftir bardagann við hríðina, sem þú sigraðir svo frækilega. Góða nótt, Hjalti," og með það fór sýslumaður. Hjalti er andvaka og hugsar um það, sem við hefur borið þennan dag, hann er hálf kvíðinn um framtíðina þó að hún líti glæsilega út. Veit frú Guðný nokkuð um þetta boð? Henni hefur aldrei geðjast að mér, þó að ég hafi aldrei gert henni neitt til miska. Honum finnst að hvíslað sé að sér, farðu varlega, Hjalti. Hann hugsar sér líka að gera það og reynir að gera ætíð það sem sé rétt og hrein samviska býður honum og út frá þessum hugsunum sofnar hann. Hjalti er árla á fótum og lítur út, honum sýnist veðrið sæmilegt og vill því fara sem fyrst af stað heim. Þegar hann kemur niður mætir hann Helgu og Hildi. „Velkominn á fætur, Hjalti,“ segja þær brosandi. „Við vorum að búa um bögglana þína eins og mig minnti að þeir væru þegar þú reifst þá upp í hríðinni. Þú getur svo skrifað utan á þá eins og þér sýnist.“ í þessu koma þau sýslumaður og frú Guðný og sjá að Hjalti er að búa sig til ferðar. „Þú ferð nú ekki fyrr en þú hefur fengið að borða, og svo á ég eftir að ganga frá fötunum þínum,“ segir Guðný. „Við erum búnar að fá honum þau,“ segir Helga, „við settum þau í böggla eins og þau voru þegar hann reif þá upp hjá Svartakletti.“ „Hvað á nú svona framhleypni að þýða, hélduð þið að ég gæti ekki gengið frá fötunum. Þið eruð ekki vanar að skipta ykkur af gestum, sem hér koma.“ Auðséð er að frúin er stór móðguð, en nú er einhver að koma og ekki verður því meira af orðaskiptum. Það er Árni á Hamri, sem er að spyrja um Hjalta. Sýslumaður fer fram og býður honum inn, og segir honum að Hjalti sé alveg að koma. Hann sé að borða. Hann segir honum hvernig Hjalti varð þeim til bjargar í hríðinni. „Við gerðum okkur í hugarlund að Hjalti hefði orðið þínu fólki samferða og svo gist hjá þér. Þetta var grimmdar hríð,“ segir Árni. IV. Hjalti er búinn að segja foreldrum sínum frá tilboði Halldórs sýslumanns um að hann skuli sjá honum fyrir kennslu í vetur, en líklega þurfi hann að hirða eitthvað af skepnum fyrir hann ef annar fjármaðurinn forfallast, hann sé heilsuveill. „En hvað kostar það?“ spyr Þorgerður móðir hans. „Hann sagði að það kæmi engum við nema sér og mér. Þetta væri bara svolítill þakklætisvottur fyrir mína hjálp að bjarga þeim í hríðinni.“ „Heyrði frú Guðný á tal ykkar?“ spyr Þorgerður. „Nei, ég held að enginn á heimilinu viti um það. Hann sagði að einn ágætur kennari við skólann myndi segja dætrum sínum til undir frekara nám og nyti ég kennslu þar með.“ „Mér segir þunglega hugur um, að henni Guðnýju muni ekki líka þessi ákvörðun bónda síns ef hann hefur farið á bak við hana með það, sem ég trúi varla að hann hafi gert.“ Þorgerður þarf ekki að hafa mikinn útbúnað þó að Hjalti fari þetta í burtu, því heim mun hann koma um helgar þegar hann getur, og svo eru líka stundum ferðir á milli. Þegar Hjalti er búinn að kveðja og kemur til móður sinnar, segist hún ætla að ganga með honum svolítinn spöl. „Þú ert nú að fara að heiman í fyrsta sinn, Hjalti minn. Nú fer að reyna á þinn innri mann og sjálfstæði þitt. Ég bið guð að vera með þér og styðja þig í öllu starfi, mundu þau heilræði, sem ég hef kennt þér, vertu ætíð hreinskilinn og drenglyndur og hjálpaðu þeim sem minni máttar eru ef þú getur. Mér segir svo hugur um, að þú komist í nokkra erfiðleika og margar freistingar munu verða á vegi þínum, en ég vona að það góða í huga þínum sigri. Minnstu þess, vinur minn, að einn er sá, sem aldrei bregst, honum skaltu treysta. Þá mun þér vel farnast." Svo kveður Þorgerður son sinn. Hjalti sér að tár glitra í augum hennar, það hafði hann ekki séð áður á kveðju- stund. Því mun hann ekki gleyma. V. Hjalti er nú búinn að vera 2 mánuði við námið að Hvammi. Hann hefur lagt sig allan fram að notfæra sér kennsluna sem allra best, því honum veitist námið létt. Kennarinn spurði hann einu sinni að því hvort hann hefði verið búinn að læra þetta áður, en svo var nú ekki. Sérstaklega var það stærðfræði, eðlis- og efnafræði, sem Hjalti hafði mestan áhuga á, það var eins og þetta lægi allt opið fyrir honum. Oft hjálpaði hann þeim systrum Hildi og Helgu með þeirra námsefni. Ekki var móðir þeirra ánægð með það að þær hefðu Hjalta fyrir aukakennara. Þær ættu að fara til kenn- arans ef þær þyrftu á skýringum að halda, enda væri þessi piltur ekki ráðinn hér til að kenna þeim, heldur læra sjálfur. Heima er bezt 173

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.