Heima er bezt - 01.02.1989, Qupperneq 6
Okkur leist svo á að hann héngi þurr fram á kvöldið og
síðan fór Hólmi á grenið en ég beið átekta svona 500
metrum frá. Svo líður og bíður og það kemur að því að ég
taki við vaktinni. Ég fer gætilega að greninu, en þá er hann
ekki þar. Grunaði mig þá strax hvað væri á seyði enda vissi
ég hann veilan fyrir, þótt hann hefði aldrei viljað hlífa sér á
nokkurn hátt, enda fór það svo að ég fann hann látinn eftir
tæplega tveggja klukkustunda leit. Eftir á tel ég þetta hafa
verið þau örlög sem hann hefði helst viljað, enda held ég að
hann hafi vitað að hverju stefndi, því hann var ekki vanur
að vilja taka á sig krók þegar stefnt var á greni, en Skoruvík
var hans fæðingarstaður og æskuheimili og hann hefur
þama verið að kveðja staðinn áður en öllu lauk.
— Þetta hefur verið þér býsna erfið lífsreynsla?
— Já, ekki get ég mælt gegn þvi, þótt ég hafi kannski
verið að einhverju leyti undir það búinn að svona gæti
farið.
— Áður en þú fræðir mig og lesendur um tófuna, langar
mig að vita hvað þú hefur unnið mörg dýr?
— Við höfum unnið 53 greni og þarna hafa legið 49
læður og 34 refir en yrðlingafjöldann hef ég nú ekki skrifað
nákvæmlega hjá mér, en það er mjög algengt að 4-5 yrðl-
ingar séu í greni. Samtals eru þetta hátt í 300 tófur og ekki
hægt að sjá í minnisbókum hvor skaut hvað. Þessi dýr eru
unnin í samvinnu. Ég held að það séu fremur fáar skyttur
sem þurfa að vinna svona mörg greni, enda margir með
aðeins 2-3 greni á sínum snærum.
— Er þá tiltölulega mikið af ref á Langanesi?
— Já, það er óhætt að segja, því þarna er aldeilis kjör-
lendi fyrir refinn. bæði er ekki lengur búið á nesinu og
þarna er mikil matarkista, fugl, egg og fjaran með öllu sínu
hnossi og svo þar að auki er þetta mjög stórt svæði svo það
er rúmt um skolla.
— Hvert er þitt viðhorf til refsins? Þarf að veiða hann
svona mikið?
— Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ef hann yrði
látinn afskiptalaus, eins og sumir virðast vilja, að vísu held
ég að Tófuvinafélagsmenn tali nú ekki í römmustu alvöru,
þá færi það ekki vel. En auðvitað myndi náttúran sjálf setja
stofninum einhver stærðarmörk, en þau stærðarmörk hlytu
að verða á kostnað fuglalífs í landinu, og að maður tali nú
ekki um hvað það yrði erfitt að fást við dýrbíti þegar slíkt
kæmi upp, ef að fyrirfyndust engir vanir menn og ekkert
væri vitað hvar grenin væru. Þannig að mér finnst það
verulega nauðsynlegt að halda þessum vargi í skefjum og
það ættum við að gera við fleiri slíka, t.d. hrafninn, sem er
óargadýr í fuglalífinu svo maður tali nú ekki um minkinn.
— Kænska refsins, — er hún eins mikil og sögur fara
af?
— Já, — ég er ekki í minnstu vandræðum með að stað-
festa það að refur sem hefur lent í hættu, hann æðir ekki
tvisvar í sömu gildruna. Sumar tófur sýna alveg undraverða
aðgát og eru geysilega varasamar.
— Hvaða skilningarvit nota þær helst?
— Það er þefskynið í fyrsta sæti og heyrnin í öðru. Tófan
notar sjónina ekki mjög mikið. Þegar þær koma heim í
grenið þá læðast þær alla skorninga og eru stöðugt í felum.
Eitt sinn þegar ég lá á greni og sá vel yfir þegar refur
nálgaðist, var það áhrifarík sjón er refurinn hljóp þvert á
nokkurra klukkustunda gamla slóð mína í þurrviðri, því
það var nánast sem hann hefði hlaupið á ósýnilegan vegg
þegar hann fann lyktina af slóðinni. Hann kastaðist allur til
og hljóp í hringi og snuðraði og snuðraði. Nú heyrnin er
aldeilis lygileg, t.d. smáskrjáf jafnvel á móti vindi virkar
eins og að öskrað sé upp í eyrað á þeim.
— Ertu þá að tala um skrjáf í fötum?
— Já, — ég brenndi mig á því fyrst að vera í fötum úr
nælonefnum, en það gat þýtt, að bara við það að lyfta byssu
þá kannski straukst ermin við stein og þá heyrði refurinn
það og var þar með horfinn í urðina á sekúndubroti.
— Atvinnuveiðimenn hljóta að vera vandlátir á skot-
vopn, — hvernig byssur notar þú?
— Jú, — um það má nú margt segja, en á svona urðar-
svæði eins og ég er á þá gildir haglabyssan, að vísu hef ég
alltaf riffilinn með mér, því það kemur auðvitað öðru
hverju fyrir að eitthvert dýr gefi á sér gott riffilfæri. Ég hef
notað Simson Suhl tvíhleypu en er að fá mér Remington
1187 gassjálfhlæðu fyrir þriggja þumlunga skot. Riffillinn
minn er algjör listasmíði, — meira að segja íslensk lista-
smíði.
— Hvernig ber það við?
— Því er þannig varið að Birgir Sæmundsson í Þorláks-
höfn, sem er heimsmethafi í markskotfimi er einnig frábær
byssusmiður, og hann smíðaði fyrir mig mjög vandaðan
veiðiriffil með þungu markriffilhlaupi cal. 243 en skot-
hylkið er cal. 284 til að fá meiri hraða á kúluna sem kemur
sér vel á vindsömu svæði. Sjónaukinn er 8x56 frá Zeiss og í
honum má sjá fiskiflugu á allt að 200 m færi. Festingarnar
við hlaupið eru þannig að ég get losað hann af með einni
smellu, ef með þarf, og sett í réttar skorður jafn auðveld-
lega.
— Menn eru oft að gera upp á milli bíla, og segjum svo
að riffillinn breyttist í bíl, hvaða bifreiðategund myndirðu
þá nefna?
— Rolls Royce.
— Angantýr, — hvernig lýsirðu lífríkinu á Langanesi
eins og það er í dag?
Brœðurnir Angantýr og Óttar Einarssynir á hestbaki. Angantýr
er á Ijósa hestinum.
42 Heima er bezt