Heima er bezt - 01.02.1989, Síða 23
heimilinu á Lóni, þó eg ekki skildi þá hvað menn eins og
hann eru mikils virði fyrir þjóðina, eru fyrirmynd og leggja
grundvöllinn að almennings menningunni. Þegar eg var
unglingur, var það elzta fólkið, sem mundi sögur af Daní-
elsen og hans dugnaðar tilþrifum á hans beztu árum,
hjálpsemi hans með smíðaverk, sem þurftu að komast af á
vissum tíma. Jafnvel nákvæma góðsemi við fátæka. Eitt
sinn er sagt frá því að Þorsteinn var á ferð fram í Hörgár-
dal; kemur hann þá að smábýli einu; enginn var úti, svo
hann gengur inn, það var hans vani. Hann litast um. Bað-
stofan var svo lítil, að hann hafði aldrei séð jafn litla vist-
arveru. Kona lá þar í rúmi; hann heilsar henni og segir:
„Hvað er að, kona góð, ertu veik?“ „Eg er ekki vel frísk,“
svaraði konan, „drengurinn minn er viku gamall.“ Lítið
barn í reifum lá þar við hlið móðurinnar. „Einmitt það,“
sagði Þorsteinn, „en þú ættir að hafa rúm sem hægt er að
draga sundur og saman, það gæfi þér meira pláss á daginn;
baðstofan er svo lítil. En hvar er maðurinn?“ „Hann er á
engjum,“ svaraði konan, „hann er einvirki og verður að
gera alt úti við.“ Þorsteinn tekur nú upp spesíu og gefur
barninu. Konan þakkar og segir: „Hann skal heita Þor-
steinn.“ ,,Það líkar mér vel,“ sagði Daníelsen, ,,hann
nennir þá að taka ærlegt handarvik." Þorsteinn þessi varð á
sínum tíma dugnaðar bóndi þar í dalnum. Þorsteinn fer nú
heim. Líður svo næsti dagur að kvöldi. Þá er þar kominn
maður og kona með klyfjaðan hest af varningi — sending
frá hjónunum á Lóni — svo sem kornvöru, kramvöru og
vaðmáli, ásamt rúmstæðinu, sem áður er nefnt. Stúlkan
varð eftir hjá konunni, henni til hjálpar nokkra daga, en
maðurinn fór til baka um nóttina.
Þá var það líka eitt sinn, að fátækur dugnaðar bóndi þar
inni i hlíðinni var að reisa sér baðstofu og búinn að koma
upp grindinni, en þá kom það óhapp fyrir, að ofsa vind-
bylur skall yfir, feykti grindinni um koll og braut í spón, og
fleira af bæjarhúsum skemmdist. Bóndi stóð uppi ráðalaus.
Þorsteinn á Lóni frétti um óhappið og segir: „Ekki dugar
þetta, eg verð að hjálpa manninum.“ Næsta dag sendir
hann mann með hesta inn á Akureyri, gefur þeim skrifaða
fyrirskipan um það timbur, sem kaupa þarf í baðstofu-
grindina og borðvið til að klæða hana að innan. Hann segir
við mennina: „Þið komið við hjá Helga, segið honum að
vera hughraustum. Eg finn hann bráðum.“ Næsta dag var
Þorsteinn kominn og lét nú hendur standa fram úr ermum,
sem kallað var, við að koma baðstofunni upp sem fyrst, og
neyddi nokkra af nágranna bændum til að gefa dagsverk til
að gera við bæjarhúsin, sem skemmst höfðu af vindbyln-
um. Hann sagði: „Ef þið gerið þetta, þá skal eg hjálpa
ykkur þegar þið byggið.“
Þannig voru hans góðu mannspartar, að veita stuðning
þeim, sem vildu bjarga sér, en vantaði efni og skilyrði til
framkvæmda, og borgun fyrir slíka hjálp kom honum
aldrei til hugar. Vísa þessi var um hann kveðin:
Enginn smíðar á við hann
ísalands á fróni,
dygðum prýddur dánumann,
Daníelsen á Lóni.
Þorsteinn Daníelsson.
Þá er sagt frá því eftir að Þorsteini fór að förlast minni og
aðgætni, að piltar hans höfðu gaman af að leika á gamla
manninn einhver meinlaus brögð. En þeir höfðu ekki
ábatann af því; bæði var Þorsteinn fljótur til svars og orð-
heppinn.
Einn dag um haust voru piltar að dytta að fjárhúsum.
Þegar leið á daginn, leiddist þeim þófið sem kallað var, en
fóru að glíma sér til skemtunar. Þetta gekk góða stund, þar
til þeir voru orðnir sveittir af áreynslunni. Nú kemur þeim
saman um að fara heim til húsbóndans og sýna honum
hvað hart þeir vinni. „Svitinn bogar af okkur,“ sögðu þeir.
„Það er ágætt, drengir,“ sagði Þorsteinn. „Þarna fer letin út
úr ykkur í svitanum, en farið nú inn til ráðskonunnar og
segið henni að gefa ykkur aukabita fyrir að losast við let-
ina.“
Minning slíkra manna sem Þorsteins ætti að vera skráð
með gullnum þakklætisstöfum í minnisbók aldanna. Þeir
voru ímynd frelsis og sjálfstæðis. Þeir brutu af sér
ófrelsis-hlekkina, sem reyrðu þjóðina og fundu sig frjálsa
og blómguðust landinu til viðreisnar og farsældar.
Annar maður var þar í næstu sveit, er eg dáðist að; það
var séra Arnljótur Ólafsson á Bægisá í Hörgárdal, mikil-
menni að hæfileikum. Hann ritaði merkar greinar í blaðið
„Norðanfara", sem gefið var út á Akureyri, sem gengu út á
að sýna með ljósum rökum að skattarnir í landinu væru alt
of háir fyrir efnahag fólksins, einkum að þeir fátæku
borguðu meira að tiltölu en hinir ríku. Eg las greinar hans
með athygli. Já, hann er að vinna fyrir réttlætið, hugsaði eg;
Drottinn launar honum það, að halda uppi vörn fyrir lítil-
Heimaerbezt 59