Heima er bezt - 01.02.1989, Síða 35
Bókahillan
VÖRÐUR
ÍSLENSKRAR
MENNINGAR
Andvari, tímarit Bókaútgáfu Menningarsjóðs
og Þjóðvinafélagsins, hefur komið út í eitt
hundrað og þrettán ár. Nýlega barst H.e.b. hefti
síðasta árs, 1988. Er það mikið að vöxtum, 175
bls., og ber svip árbókar. Það eru engin þreytu-
merki á Andvara. enda hefur ritstjórinn,
Gunnar Stefánsson, gætt þess að afla fanga víða
og höfundar fæstir aldurhnignir. Þannig ritar
ungur maður, Jakob F. Ásgeirsson, aðalgrein
ritsins, sem er æviþáttur um Pétur Benediktsson
bankastjóra og alþingismann. Tekst honum að
nýta sér heimildir um þennan svipmikla og vel
mennta stjórnsýslumann og lögfræðing og
dregur upp glögga mynd af honum og æviferli
hans. Margþætt störf m.a. við mótun utanrikis-
þjónustu á fyrstu árum íslenska lýðveldisins,
seta á Alþingi og forstaða í Landsbanka íslands
fórust honum vel úr hendi, en þó sótti hinn
húmaniski arfur löngum á huga hans, enda
mikill í ætt og uppeldi. Því er skemmtileg sagan
af því, er Ragnhildur amma Péturs spurði hvað
hann hygðist læra i Háskólanum: „Ég ætla að
lesa lögfræði," sagði Pétur. „Af hverju viltu
ekki heldur læra norrænu og verða menntaður
maður?“ spurði gamla konan. Pétri vafðist
tunga um tönn, en bar þvi við. að hann myndi
fá betri stöðu löglærður, auk þess sem hann
vildi undir engum kringumstæðum verða
skólakennari.
En það er óhætt að halda því fram, að þessi
forsíðugrein Andvara myndi sóma sér vel I
nýjum (þá þriðja) .flokki Merkra fslendinga.
Ýmsir aðrir leggja Andvara lið. Tvær skáld-
konur. Ingibjörg Haraldsdóttir og Elísabet
Þorgeirsdóttir. birta athyglisverð Ijóð. Jón Við-
ar Jónsson ritar greinina „Harmleikjaskáld og
prédikari“, á aldarafmæli Guðmundar Kamb-
ans. Hannes Sigfússon yrkir um Austurstræti —
aldarfjórðungi síðar.
Þá birtist viðtal Gylfa Gröndals skálds við
Ólaf Jóhann Sigurðsson, er hann nefnir „Ég
minnist þvínær dag hvern bernsku minnar".
Fer vel á að birta þetta viðtal, sem Gylfi átti við
Ólaf fvrir Ríkisútvarpið á liðnu ári, en Ólafur
Jóhann lést þann 30. júlí 1988. Gylfi Gröndal
hefur sýnt og sannað, að honum lætur flestum
betur að ræða við menn og færa samtöl í letur.
Hann gerir það á svo eðlilegan og að því er
virðist áreynslulausan hátt. Hitt er rétt, að
miklu meiri vinna og margbrotnari liggur að
baki hverju ritverki, sem frá honum kemur af
þessu tagi. en menn almennt gera sér grein fyrir.
Hefur viðmælandi hans að þessu sinni að lík-
indum gert honum ritun auðveldari að því leyti,
að þar fór maður, sem aldrei flutti bláþráðótt
mál, jafnvel þó um hversdagslegustu hluti væri
rætt. Hann fylgdi öllu eftir, sem hann vildi
koma til skila. á mvndauðugu máli skáldsins.
Um það ber þessi dýrmæta viðtalsritgerð vitni.
Og þá er fengur að „Bréfi til vinar míns —
með viðauka“ eftir Stefán Bjarman. Sigfús
Daðason skáld gerir glögga grein fyrir þessu
merkilega og glöggvandi framlagi þýðandans,
því eins og hann kemst að orði, þá er saga þýð-
ingar Stefáns á For Whom the Bell Tolls eftir
Hemningway, sem birtist hér í fyrsta skipti.
lyginni líkust. Og Sigfús bætir við: „Athuga-
semdir Stefáns um þann vanda að þýða þessa
skáldsögu Hemningways á islensku eru harla
fróðlegar. Hygg ég að þetta hvorttveggja rétt-
læti það að bréf Stefáns komi nú „fyrir annarra
augu“, þó að hann hafi ekki ætlazt til þess fyrir
sextán árum. Enn er það að frásögn Stefáns
bætir nokkrum dráttum í Unuhús — og ofvita-
fræði menningarsögunnar íslenzku. En á bak
við þetta allt er falleg saga vináttu."
Hreinskilin og skemmtileg er grein Hannesar
skálds Péturssonar um Glófjaðraðan hana, sem
hann ætlar að hafi runnið um leynistigu frá
Morgunljóði eftir Juan Ramón Jimenez, yfir í
vorljóð ort á Álftanesinu. En allt um það þýðir
skáldið Ijóð hins spánska skáldbróður af anda-
gift. — Dagný Kristjánsdóttir ritar greinina
„Stabet Mater dolorosa" um Gunnlaðarsögu
eftir Svövu Jakobsdóttur, ítarlega ritgerð, rituð
af fræðilegri nákvæmni. Þórir Óskarsson skrifar
nokkur orð í tilefni nýrrar bókar um Hjálmar í
Bólu og rómantíkina og Matthías Viðar Sæ-
mundsson um upphaf íslenskra nútímabók-
mennta að gefnu tilefni, Menningog bylting. Er
hér mikið til lagt og fagmannlega að verki
staðið. Þá ritar Loftur Guttormsson sagnfræð-
ingur um áhrif siðbreytingarinnar á alþýðu-
fræðslu og er það stórfróðleg grein.
Hjörtur Pálsson skáld ritar að lokum um Is-
land í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum. „Land
míns föður“ nefnist þessi fyrirlestur. sem fluttur
var í Ríkisútvarpinu 1974. Lá vel fyrir Hirti að
gera þessu efni góð skil, enda bregst honum
ekki bogalistin. Hann skilur ást Jóhannesar á
landinu; „til þess orti hann lofsöngva og bænir
af svo djúpri innlifun til hinstu stundar, að þrá
hans til samruna við sál þess og fegurð er í ætt
við drauminn um að deyja inn í fjöllin og
krefjast einskis framar." Og síðar: „Hitt er víst,
að hann bar svo djúpa lotningu fyrir landi sínu
og fegurð þess. að minnir á virðingu trúaðs
manns fyrir ytri táknum trúar sinnar, og lifði í
og með þjóð sinni líkt og einlægur trúmaður
tilbiður guð sinn.“
Svo sem ráða má af þessari upptalningu er
Andvari ekki á fallanda fæti, þrátt fyrir háan
aldur, heldur þróttmikill og traustur vörður ís-
lenskrar menningar.
B.G.
ANDVARI'
NYR FLOKKUR XXX
Hundraðasta og þrettánda ár
Stufnaður 1874
Tímarit Bókaútgáfu Menningarsjóðs og Pjóðvmafélagsins
Ritstjóri: Gunnar Stefánsson
Aösetur: Bókaútgáfa Menningarsjóös og Þjóðvinafélagsins, Skálholtsstíg 7,
Reykjavík. Sími 62 18 22. Pósthólf 1398.
PRENTHÚS’lÐ
Heima er bezt 71