Æskan

Årgang

Æskan - 01.05.1991, Side 23

Æskan - 01.05.1991, Side 23
úti. Nú hafði ég alveg lyst. Svo var aftur lagt af stað. Nú töldum við pabbi alla rauðu bílana sem við mættum. Svo töldum við alla bíla með R-númerum. Litla systir sofnaði. „Þetta er fallegur staður," hrópaði mamma. „Hér skulum við tjalda". Það voru tré þarna og svo var lækur rétt hjá tjald- inu. Mamma sagði að hún væri snillingur í að velja tjaldstæði af því hún væri gamall skáti. Ég hafði einu sinni séð skáta í skrúðgöngu. Ég man eftir gömlum karli í stuttbuxum. Ætli mamma mín hafi verið svoleiðis? Þegar við fórum að sofa tók mamma að dúða sig og Guðbjörgu í föt. Svo ætlaði hún að klæða mig. Ég vildi ekki sofa í svona miklu. Pabbi bjargaði mér. Hann sagði að við karlmennirnir svæfum bara létt- klæddir. Hann ætlaði að sjá um mig. Hann hló og stríddi mömmu af því hún var með húfu og trefil og spurði: „Hvar er nú gamli skátinn?" Það er gott að sofa í tjaldi. Ég vaknaði ekki fyrr en sólin skein í gegnum tjaldið. Þá hoppaði ég upp úr svefnpokanum. Aumingja mamma og litla systir voru eldrauðar í framan og sveittar. Þeim var svo heitt í öllum fötunum. Mamma sagðist aldrei hafa ætlað að sofna. Henni var svo kalt á nefinu. Það var líka eiginlega það eina sem sást af henni. Við drifum okkur öll út í sólskinið, þvoðum okk- ur í læknum, burstuðum tennurnar og sulluðum. Mamma bjó til kakó á gastækinu. Hún sagði að það gerðu allir sannir skátar. Svo leit hún á pabba, svo- lítið skrýtin á svipinn, en hann horfði bara stríðnis- lega á móti. Kakóið var gott og allt brauðið líka. Svo fórum við af stað. Það er ekki skemmtilegt fyrir krakka að vera lengi í bíl. En pabbi stansar stundum og við leikum okkur úti eða skoðum eitthvað. Það er miklu betra. Mamma má aldrei sjá nein merki þá vill hún skoða þau. Hún kallar það minnisvarða og segir að þetta sé um merkilega karla úr íslandssögunni. Það er gott að hún skoðar þetta. Þá fæ ég að fara út. Allt í einu komum við til ísafjarðar. Það er mikið af fjöllum þar. Meira að segja húsin þar eru alveg uppi á fjalli. Svo er sjórinn allt í kring um göturnar. Mamma sagði: „Þetta er annað landslag en á Suðurlandi. Þetta er fjörður sem heitir Skutulsfjörður og hér innst í firðinum stendur kaupstaðurinn sem heitir ísafjörð- ur. Það eru öll húsin sem standa í fjallshlíðinni hér meðfram ströndinni og niður á eyrinni sem heitir Skutulsfjarðareyri." Þarna áttu þau heima, amma og afi. Þegar við komum að húsinu þeirra kom amma hlaupandi út. Hún er svolítið feit. Það hristust á henni kinnarnar og brjóstin þegar hún hljóp svona. Hún faðmaði mig og nefið á mér sökk inn í kinnina á henni. Svo skoð- aði hún mig og skoðaði og sagði að ég væri ægilega fallegur, alveg eins og pabbi minn. Svo kom afi. Hann lyfti mér hátt í loft og kyssti mig svo með skegginu. Hann er með fullt af skeggi undir nefinu og niður á munn. Það heitir yfirvaraskegg, segir mamma. Þetta var hann afi sem heitir Jón eins og ég. Ég mundi alveg eftir þeim. Þau komu til okkar í fyrra áður en Guðbjörg fæddist. Við fórum líka til þeirra þegar ég var lítill. Ég man ekki mikið eftir því. En þó man ég eftir stólnum hans afa þar sem hann sat með mig og hossaði mér á hnénu á sér. Eins og hann væri hesturinn og ég maðurinn. Svo söng hann hestavísu. Ég mundi líka eftir búrinu hennar ömmu. Þar fann hún alltaf eitthvað gott og gaf mér. En nú var ég orðinn þreyttur. Eftir matinn hátt- aði ég í gamla rúmið hans pabba í herberginu sem hann átti. Það var uppi á lofti. Og loftið í herberginu hallaðist. „Það heitir undir súð," sagði amma. Það voru myndir á loftinu af strákum í fótbolta. Og þegar ég var að sofna fannst mér ég vera kominn upp í loftið og farinn að verja í marki. Æskan 23

x

Æskan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Æskan
https://timarit.is/publication/383

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.