Skírnir - 01.01.1931, Blaðsíða 205
Skírnir] Eiríkur í Bót og Eirikur á Rangá. 199
ið (Mjög er drukkinn o. s. frv.) fyrirsögnina: »Eiríkur Halls-
son um sjálfan sig«, en hið síðara (eftirmælin), sem kemur
strax á eftir: „Séra Þorvaldur Stefánsson uni Eirik Halls-
son á Rangá“. Eftirmælin eru því ort af séra Þorvaldi syni
Stefáns prófasts Ólafssonar í Vallanesi. Hann var prestur
til Eiða 1700—1712 og bjó í Gilsárteigi, en var síðan prest-
ur á Hofi í Vopnafirði 1712—1730, sagði af sér prestsskap
1730, en dó ekki fyrr en 1749. Þá var hann kominn að
Ljósavatni til Guðrúnar dóttur sinnar.
Meðan séra Þorvaldur var í Gilsárteigi, hefir hann
kynnzt Eiríki á Rangá. Þar er ekki langt á milli. Báðir
voru skáld og hafa þeir liklega oft fundizt og orðið góðir
vinir. Það er auðsætt, að prestur hefir virt hann mikils og
vitað að hann var vinsæll mjög, þar sem hann telur sueit-
ina syrgja hann (»Tunga tregar drenginn«); hefir hann ef-
laust verið gestrisinn og greiðamaður, glaðvær og góður
heim að sækja. Hann leggur áherzlu á gáfur hans og skáld-
skaparhæfileika, vonaröruggt traust á guði og dugnað og
djörfung í lífsbaráttunni, sem hann virðist álíta að hafi verið
allströng (»Háði herkinn stríðið«). Hann minnist ekkert á
konu hans, — hefir hún því eflaust verið dáin; en hann
minnist barna hans með viðkvæmni og veit að þau sakna
hans mjög.
Sama álit á Eiríki kemur og fram i vísu, sem einhver
hefir varpað fram, er komið hefir í nánd við Rangá, þegar
hann var nýdáinn. Það hefir verið snemma sumars. Vísan
er þannig:
Rangá er nú raun að sjá,
rétt i blóma stendur tún.
Eiríkur er fallinn frá;
flestum trú’ ég bregði’ í brún.
Hvað verður þá sagt meira um þennan Eirik á Rangá,
sem mönnum þótti svo sorglegt að missa? Visan, sem nú
var rituð, og erfiljóðin sýna, að hann hefir verið góðkunn-
ur maður og vinsæll í sveit sinni. En það fór eins um hann
og Eirik í Bót, að föðurnafn hans gleymdist, þegar tímar