Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Síða 18

Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Síða 18
112 KENNIMAÐUR N. Kv. — Má ég biðja yður að koma hér að glugganum og líta út? Séra Bjarni stóð á fætur, gekk að glugganum og leit út. Elzti sonur ekkj- unnar, þrettán ára gamall snáði, var bú- inn að bera út orf og ljá og farinn að slá sunnan undir bæjarveggnum. Hann stóð gleitt og sveiflaði orfinu með tilburðum fullorðins manns, þó að líkaminn væri grannur og virtist ekki hafa af miklu að má. Systir hans, tíu ára gömul, var kom- in þar að með hrífu sína og farin að velta til ljánni. Tvö yngri horfðu á með lotn- ingu og virðingu fyrir yfirburðum eldri systkina sinna. Þokunni var nú að létta svo mikið, að sást til sólar. — Hann vildi óvægur fá að byrja í dag, sagði ekkjan. Hann sagðist ekki vilja vera á eftir öðrum með heyskapinn. Þó að hann sé ekki hár í loftinu, trúi ég því, að hann eigi eftir að verða mér meiri og betri hjálp en guð með allan sinn kær- leika. Það er slík hjálp sem þessi, sem ég þarfnast. — Góð og mannvænleg börn eru ein af beztu gjöfum guðs, sagði sálusorgarinn. Annað hafði hann ekki til að segja. Hann sá líka, að frekari fortölur og huggun mundi árangurslaus. Hann bjó sig því til ferðar, eftir að hafa talað við ekkjuna um jarðarförina og ýmislegt þar að lútandi, sem ekki verður komizt hjá að tala um við slík tækifæri. Þegar séra Bjarni var að stíga á bak á hlaðinu, tók hann eftir olíutreyjunni, sem var bundin aftan við hnakkinn. Hann hafði verið svo stálheppinn að muna eftir henni, þegar hann var að leggja af stað að heiman frá sér. — Maðurinn yðar lánaði mér eitt sinn í vor þessa treyju, sagði hann um leið og hann leysti hana frá hnakknum og rétti ekkjunni hana. Ég þakka kærlega fyrir lánið. Verið þér sælar og guð styðji yður og styrki. Svo reið hann úr hlaði, og drengurinn, sem hafði verið að slá, hljóp út að tún- hliðinu og opnaði fyrir hann. Presti fannst hann mega til með að segja eitthvað við hann að skilnaði. — Þú ert duglegur drengur, hnokkinn minn! — Ég hjálpa bara mömmu minni eins og ég get, svaraði drengurinn. Heima á hlaðinu stóð ekkjan og horfði með grátblöndnum tilfinningum á olíu- treyjuna. Maðurinn hennar hafði ómögu- lega getað munað, hverjum hann hafðx lánað hana. Hann hafði aldrei verið minn- ugur á þá greiða, sem hann gat gert öðr- um. Og vegna þess að hann hafði ekki treyjuna, hafði hann orðið að liggja úti holdvotur í heilan sólarhring, og það var meira en hann þoldi. Ef hann hefði aldrei lánað treyjuna, eða ef henni hefði verið skilað fljótt og skilvíslega aftur, hversu allt hefði getað verið öðruvísi og betra en það var nú. — En presturinn sagði, að þetta væri vilji guðs. Hún henti frá sér treyjunni og gekk reikulum skrefum inn. Viku seinna fór jarðarförin fram. Séra Bjarni flutti langa og huggunarríka ræðu við húskveðjuna. Frú Vigdís fór þangað með manni sínum og bauð strax ekkjunni hjálp sína. Hún tók að sér að gæta yngsta barnsins, svo að ekkjan ætti hægra með að annast það, sem gera þurfti. Barnið, sem ennþá var sér ekki meðvitandi um alvöru lífsins, hló framan í hana og sagði pabbi og mamma á sínu ófullkomna barna- máli. Það var ekki fjölmennt, því að þurrkur var og sláttur almennt hafinn. Þó hafði Ólafur heitinn verið vinsæll af öllum, sem þekktu hann, og mörgum hafði hann gert greiða, þó að fátækur væri. í kirkjunni flutti séra Bjarni aðra ræðu. Honum fannst alveg sérstök ástæða til

x

Nýjar kvöldvökur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Nýjar kvöldvökur
https://timarit.is/publication/511

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.