Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Blaðsíða 22

Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Blaðsíða 22
116 KENNIMAÐUR N. Kv. kannast við, að hún hafði fjarlægzt hann meira en hann kunni vel við. Það var eins og hún hefði lokað sig inni í sjálfri sér og væri hálfhrædd við að sýna hon- um framar inn í þann helgidóm. Þetta er kannske heimska. Hann var viss um, að með vaxandi lífsreynslu og þroska mundi hún verða fyrirmyndar eig- inkona og hlutverki sínu, sem prestsfrú, fyllilega vaxin. Hún var bara ennþá svo ung, að þess var ekki að vænta, að hún væri til fulls búin að gera sér ljósa al- vöru lífsins. Hann sneri sér irá glugganum og reyndi að einbeita huganum meir að andlegum viðfangsefnúm, sem sé ræðunni, sem hann þurfti að ljúka við. Hann þreif pennann og fór að skrifa. Eftir litla stund hafði hann gleymt öllu öðru. Frumlegar og bráðsnjallar hugmyndir fæddust í huga hans og fengu byr undir báða vængi. Hann hlakkaði til þess að flytja þessa ræðu. En allt í einu skall snörp vindhviða á gluggann, og henni fylgdu stórir regn- dropar. Sólin var hætt að skína, og allt varð svo skyndilega grátt og ömurlegt. Hugsanir hans fóru ennþá á ringulreið. Það var undarlegt, hvað það þurfti lítið núna til þess að slá hann út af laginu. Honum sinnaðist við sjálfan sig og tilver- una, sem hann kenndi um þetta ástand. Hvers vegna gat ekki alltaf verið sólskin? Droparnir á glugganum urðu alltaf fleiri og fleiri. Helliskúr var í aðsigi. Dauðans vandræði fyrir þá, sem ennþá voru ekki búnir að ná upp öllum heyjun- um. — Hvað kom honum þetta annars við? Ekki átti hann hey úti. Hann sneri sér ennþá einu sinni að ræðunni, en gekk illa að festa hugann við efnið. Hann heyrði rigninguna dynja á glugganum, skella á járnþakinu og renna síðan niður á hlaðið. Það var ekk- ert smáræði, sem helltist úr loftinu. Og konan hans úti í þessu veðri. Hvílíkur hálfvitaskapur! Hún hlaut að verða gegn- drepa, og ekkert líklegra en hún fengi lungnabólgu upp úr öllu saman. Hann eirði ekki lengur í sæti sínu, stóð á fætur og gekk út að glugganum, sem rigningin dundi á. Utan túnið komu stúlkurnar hlaupandi frá samantekning- unni og piltarnir á eftir. Á hlaðinu höfðu hænsnin leitað sér skjóls undir kerru. — Hann settist aftur í skrifborðsstólinn. Rétt á eftir var hurðinni hrundið upp, og konan hans kom inn. Hár hennar var rennvott og kjóllinn sömuleiðis. Það meira að segja draup úr honum á gólfið, en hún var rjóð og brosandi. — Þetta var meira heimskuflanið í þér, Vigdís, sagði hann ávítandi og áhyggju- fullur. Ertu ekki alveg að deyja úr kulda? Þetta var ekkert vit af þér að stökkva svona út. — Kalt, nei. Finndu bara, hvað mér er hlýtt. Hún tók með votum lófunum utan um höfuð hans og stakk andlitinu undir vanga hans. Úr hári hennar drupu fáeinir dropar niður á hálsinn á honum, svo að það fór um hann hrollur. — Er mér kannske ekki nógu hlýtt? Ég gæti bezt trúað því, að mér væri hlýrra en þér. Við hömuðumst líka öll eins og við ættum lífið að leysa. Það hrökk að vísu ekki til, en við hefðum lokið við, ef þú hefðir komið líka. — Ég. — Hann ætlaði að segja meira, en hætti við það í bráðina. Svo ýtti hann henni frá sér. — Góða, flýttu þér að hafa fataskipti. Það setur að þér svona, og þú getur veikzt. Það var eins og hún yrði fyrir von- brigðum. Hafði hún kannske búizt við, að hann færi að vefja hana örmum, svona blauta? Það er ekki gott að segja, hvað henni kann að hafa dottið í hug. Hún

x

Nýjar kvöldvökur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýjar kvöldvökur
https://timarit.is/publication/511

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.