Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Blaðsíða 23

Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Blaðsíða 23
Jí. Kv. KENNIMAÐUR 117 hlýddi samt orðalaust og hvarf inn í . svefnherbergið. Fyrr mátti vera að ætlast til þess, að hann færi að stökkva út í samantekningu, þó að skúr væri í aðsigi. Honum þótti leiðinlegt að konan hans skyldi hafa sagt þetta. Var ekki nóg að hún flanaði sjálf út í slíka ófyrirsynju, fyrst henni datt það í hug. En nú var það ræðan. Hvert var hann annars kominn? Hann þröngvaði sjálfum sér til þess að hugsa um hana eina. Nú skyldi hann ekki láta trufla sig fyrri en hann væri búinn. Elska skaltu náunga þinn eins og sjálf- an þig. Það var rauði þráðurinn, sem gekk í gegnum hana alla. Hann mátti hvergi slitna. Og hann laut áfram og fór að skrifa. 22. Sunnudagurinn rann upp. Veðrið var gott. Lítils háttar skýjafar í lofti, en að öðru leyti sólskin. Séra Bjarni vaknaði um níuleytið eins og hann var vanur, en hann var svo sem ekki að flýta sér á fæt- ur. Hann drakk morgunkaffið og lá svo góða stund og lét fara vel um sig. Hann var viss um, að þessi dagur mundi færa honum mikinn sigur og auka hróður hans verulega. í skrifborðsskúffunni beið ræð- an eftir því, að hann læsi hana upp með viðeigandi áherzlum og yrði meðtekin af söfnuðinum sem brauð af himni. Klukkan tíu klæddi hann sig og rólaði út, gekk aftur og fram um hlaðið og litað- ist um. Mannaferðir var engar að sjá enn- þá, sem ekki var við að búast. Hann gekk inn og hitti konu sína í eldhúsinu. — Við megum búast við mörgum gest- um í dag, sagði hann við konu sína. En finnst þér ekki sjálfsagt, að við bjóðum þeim inn? Eitthvað hlýtur að vera til handa þeim. — Já, já, góði. Það er alveg sjálfsagt að gera þeim gott, sem koma. Jú, það er nóg til af kaffi og brauði. Svo gekk hann um gólf, þangað til hon- um var tilkynnt koma Jóhannesar með- hjálpara, sem hann bauð strax til stofu. Stuttu seinna kom Páll „sitt á hvað“, sem líka var boðið inn og borið kaffi. — Það er bærilegt messuveðrið prestur minn, sagði meðhjálparinn. Það verður áreiðanlega margt í dag. — Það vona ég, sagði prestur. Fólk hef- ir bókstaflega ekkert sér til afsökunar. — Það eiga nú æði margir töluvert af heyi úti, skaut Páll inn í af einfeldni sinni. — Það er sjálfskaparvíti, sagði með- hjálparinn. Þeir gátu verið búnir að hirða upp eins og ég. — Það fylgir því engin blessun að vinna á sunnudögum, sagði séra Bjarni. Það verður fólk að láta sér skiljast. Skrifað stendur að: sex daga skaltu verk þitt vinna, en hvílast þann sjöunda. Það er skammvinnur ávinningur að brjóta gegn boðum guðs. — Sannarlega, sannarlega hafið þér rétt að mæla, sagði Jóhannes. En ég bið yður að hafa mig afsakaðan, því að ég ætla að ganga út í kirkju og líta eftir því að allt sé í lagi. Páll dró sig líka í hlé. Hann þurfti að koma við á hinu búinu áður en messa hæfist. Séra Bjarni varð því einn eftir inni. Hann gekk um gólf nokkra stund, en svo eirði hann því ekki til lengdar og gekk út, til þess að taka á móti kirkju- gestum, þegar þeir færu að streyma að. — Klukkan var farin að ganga tólf. Hann skimaði um, en engar manna- ferðir var að sjá. Honum fór að verða órótt innanbrjósts; þó að stundvísin væri harla bágborin, var þó venjulega einhver slæðingur farinn að láta sjá sig um þetta leyti. Hann gekk aftur og fram um hlað- ið og tíminn leið, en fólkið sást ekki koma.

x

Nýjar kvöldvökur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýjar kvöldvökur
https://timarit.is/publication/511

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.