Nýjar kvöldvökur - 01.04.1961, Blaðsíða 43
N. Kv.
SJÁLFSÆVISAGA
89
Áður er þess getið, að Jónas Gunnlaugs-
son, föðurafi minn, dvaldi á Hofsstöðum
síðustu ár ævi sinnar. Það var venja pabba
að heimsækja pabba sinn einu sinni á ári,
venjulega að haustinu, þegar mestu önnum
var lokið. Var liann oftast tvo daga í því
ferðalagi. Þetta haust reiddi hann heim bók
eina, sem afi gaf honum, það var Guð-
brandsbiblía. Slíka bók hafði ég aldrei aug-
um litið. Hún var stærri í sniðum en allar
þær bækur, sem ég hafði séð. Jafnvel Jóns-
bók sýndist smá við hliðina á henni. Annars
var bókin í bezta ásigkomulagi, bundin í al-
skinn, og það í engan útnára. Spjöldin voru
úr eik eða brenni og lokað var henni með
þremur látúnsspöngum. Það var nú meiri
bókin. Ekki var óglæsilgera að líta innan í
hana. Upphafsstafir allir svo stórir og skraut-
legir að annað eins hafði ég aldrei augum
litið, svo voru bókahnútar og rósastafir við
lok hverrar bókar. Þegar Óli litli leit allar
þessar dásemdir sagði hann: „Gaman væri
að eiga alla þessa fellegu stafi og rósirnar
líka.“ Við eldri bræðurnir höfum víst liugs-
að eitthvað svipað, þó ekki létum við það í
Ijós.
Nú var nóg að lesa fyrsta sprettinn, enda
ekki sparað. Gamalt gotneskt letur var á
bókinni. Eitthvað hafði ég gluggað í það áð-
ur, enda leið ekki á löngu þar til ég las það
eins hratt og latínustílinn. Raunar var bók-
xn svo þung, að ég hafði ekki orku til að
halda á henni til lengdar, en fljótlega fann
eg ráð við því. Tímunum saman kraup ég
yið rúmstokkinn, lét bókina liggja í rúminu
°g þuldi. Þetta var löng biblía. Þarna voru
allar apo-kronisku bækurnar, auk hins
venjulega gamla- og nýjatestamentis. Ég
kannaðist við aðalefni sumra apo-kronisku
hókanna frá rauli maddömu Þóru úr Vísna-
bókinni. Þær sögur þóttu mér skemmtileg-
astar en þar næst dómaranna og kóngabæk-
urnar. Allt gamlatestamentið mun ég hafa
lesið, en með misjafnri ánægju og skilningi
þó. Fyrir mestum vonbrgiðum varð ég þegar
eg hóf lestur sálmanna, sem kenndir eru við
Davíð konung. Ég hafði heyrt Davíð kon-
ung vera talinn hið ágætasta skáld, en þessar
órímuðu langlokur voru ekki þesslegar, í
mínum augum, að skáld hefði sett þær sam-
an. Þá voru passíusálmarnir heldur betur
kveðnir, eða þá rímurnar, slíkt var ekki
hægt að bera saman. Nei, Davíð konungur
kunni áreiðanlega ekki að yrkja, þótt hann
vtferi stríðskempa mikil og dræpi risann
Goiíat með slöngustein einan að vopni.
Einu sinni er við mamma vorum tvö ein
sagði ég: „Ekki finnst mér Davíð konungur
vera mikið skáld, eftir sálmunum hans að
dæma.“ „Finnst þér það ekki, góði minn.
Davíð er þó talinn eitt mesta skáld þjóðar
sinnar,“ sagði mamma. „Já, það má vel
vera,“ svaraði ég, „en það er ekkert rím á
sálmunum og ekki heldur höfuðstafir,. það
er hvorki hægt að syngja þá né kveða, ég hef
reynt það.“ Mamma svaraði með hægð:
„Sinn er siður í landi hverju og ætli að það
sé ekki eins með skáldskapinn. Þessir sálm-
ar voru víst sungnir við guðsþjónustur Isra-
elsmanna og þeim jafn-hjartfólgnir og t. d.
passíusálmarnir eru okkur.“ Við þessu átti
ég ekkert svar. Vitaskuld las ég biblíuna eins
og hverja aðra bók, mér til fróðleiks og
skemmtunar, en þó hafði ég fleiri not lest-
ursins. Ég æfðist svo í að lesa gamla stílinn
gotneska, að ég var jafnvígur á liann og
latínuletrið. Veturinn eftir byrjaði ég að
ganga til spurninga. Þá kom það fljótlega í
ljós að enginn spurningakrakkanna var jafn
vel að sér í sögum biblíunnar og ég. Ég
minnist enn hve hreykinn ég varð þegar mér
tókst að svara spurningum prestsins, sem
stóðu í eldri krökkum — kannske komnum
á fermingaraldur. Það átti ég Guðbrands-
biblíu að þakka — og líklega margt fleira.
STRÁKAPÖR OG BÓKABRENNUR.
En bezt er að segja hverja sögu eins og
hún gerist og því ætla ég nú að lýsa því
strákaparinu, sem valdið hefur mér mestum
sársauka og samvizkubiti allra þeirra afglapa
er ég tók þátt í á þessum ærslaárum.